08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (2606)

164. mál, þyrla í þjónustu landhelgisgæslunnar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Einum þrisvar sinnum hef ég flutt till. nokkurn veginn samhljóða þessari, en að þessu sinni er fim. hennar ásamt mér hv. 1. þm. Vestf. Till. er þess efnis, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að festa kaup á tveimur þyrilvængjum eða helikopterflugvélum til aðstoðar við íslenzku landhelgisgæzluna. Annarri þessara flugvéla skuli að jafnaði vera ætlaður staður á Vestfjörðum og annist hún þar farþegaflug, póstflutninga og sjúkraflug, að svo miklu leyti sem þessi störf gætu samrýmzt starfi hennar í þjónustu landhelgisgæzlunnar, en tekið er fram í till., að þjónustan við landhelgisgæzluna skuli vera aðalhlutverkið og sitja fyrir annarri þjónustu. Í till. er svo að lokum lagt til, að hin þyrilvængjan verði staðsett á Austfjörðum og skuli hún annast sams konar Þjónustu á Austurlandi auk höfuðhlutverks síns í þjónustu landhelgisgæzlunnar.

Það er lögð áherzla á það í þessari till., að þyrilvængjur verði keyptar til landsins fyrst og fremst til þess að veita þjónustu við gæzlu landhelginnar. Danir og margar aðrar þjóðir hafa fyrir mörgum árum tekið þessi samgöngutæki í þjónustu landhelgisgæzlu hjá sér, og munu meira að segja Danir nú hafa þyrilvængju til aðstoðar við landhelgisgæzluna við Færeyjar, og er mér kunnugt um, að Danir keyptu fyrir 2 árum tvær jet-helikopterflugvélar — eða við gætum kallað það þotuþyrlur — til aðstoðar við sína landhelgisgæzlu. Mér er ekki kunnugt um annað en reynsla af þessu hafi gefizt vel, bæði hjá Dönum og öðrum þjóðum, sem hafa gert tilraunir með þetta eða tekið þennan hátt upp.

Það er líka svo að sjá, að þeir, sem undirbjuggu byggingu varðskipsins Óðins, okkar fullkomnasta varðskips, hafi haft hliðsjón af þessu, því að varðskipið Óðinn var þegar frá upphafi búið út með lendingarpalli fyrir þyrilvængjur, þó að aldrei hafi af því orðið, að landhelgisgæzlan keypti þyrilvængju. Svo er að sjá, sem þessi hugsun sé þó vakandi hjá forráðamönnum landhelgisgæzlunnar íslenzku, því að á s.l. vetri var varðskipið Óðinn sent til Danmerkur, til þess að lendingarpallur þyrilvængna væri stækkaður og skipið þannig betur útbúið til þess, að þessi tæki gætu haft lendingarstað á þilfari skipsins. Ég tók að vísu eftir því, þegar frétt kom einn daginn í öllum blöðum Reykjavíkurborgar um það, að Óðinn væri kominn aftur með stækkaðan lendingarpall fyrir þyrilvængjur, þá var sagt, að þessi breyting á varðskipinu íslenzka hefði verið gerð til þess, að stórar og þungar þyrilvængjur á Keflavíkurflugvelli, sem þar væru staðsettar, í eign herliðsins, gætu lent á hinu íslenzka varðskipi. Þótti mér það dálítið óviðkunnanlegt, ég skal játa það, að verið væri að breyta íslenzku varðskipi, til þess að þyrilvængjur í eign hersins gætu notað þetta okkar varðgæzluskip. En ég held nú, að megintilgangurinn með stækkun lendingarpallsins á þilfari Óðins hljóti að vera sá, að menn hafi í huga, að íslenzkar þyrilvængjur noti þennan pall til lendingar í þjónustu íslenzku landhelgisgæzlunnar, og að þessi samhljóða fréttatilkynning í öllum reykvískum blöðum hafi þess vegna skekkzt eitthvað í meðförum. Ég trúi því ekki, að það sé verið að breyta okkar íslenzku varðskipum til þess bara, að þyrilvængjur hersins geti haft skipið sem lendingarstað.

En ég vil ekki halla á herliðið í sambandi við það, að það hefur hér haft um mörg ár þyrilvængjur, og Reykvíkingar og sjálfsagt allir þm. hafa séð forkunnarfögur farartæki, þyrilvængjur frá hernum, fljúga hér yfir Reykjavíkurborg, og stundum hafa þessi tæki verið kölluð til hjálpar fyrir Íslendinga, þegar við höfum ekki haft nein önnur úrræði, til þess að hjálpa fársjúku fólki hingað og þangað á landinu, heldur en að fá þyrilvængjur hjá hernum til þess að sækja þetta fólk. Það er þakkarvert, ég segi það, játa það fyllilega, að það er þakkarvert, að herinn hefur þarna brugðizt vel við og veitt okkur þá aðstoð, sem einungis var hægt að veita með þessum tækjum. En það tek ég fram, að það er mín skoðun, að það sé alls ekki vansalaust af íslenzka ríkinu að vera búið að þreifa á því árum saman, að við margsinnis á hverju ári verðum að leita til hersins til þess að biðja hann um aðstoð í neyðartilfellum, af því að við eignumst ekki slík tæki, sem sýna sig þó vera svo nauðsynleg, að við getum ekki án þeirra verið í mörgum tilfellum. Það er ekki af því, að við höfum ekki efni á því að eignast slík tæki. Ég aflaði mér upplýsinga um það á liðnu ári, að 11 manna þyrilvængja, þ.e.a.s. nokkuð stór þyrilvængja, kostaði ekki nema mjög svipað og 100 tonna fiskibátur. Og það hefur verið talið meðfærilegt fyrir íslenzka einstaklinga að eignast fiskibát, að vísu með aðstoð frá ríkinu. E.t.v. kæmi hér til greina, að einstaklingar væru aðstoðaðir við að eignast 1-2 þyrilvængjur, til þess að íslenzkir aðilar ættu þetta nauðsynlega tæki.

Mér er sagt, að ef svo hefði borið við, að það hefði verið óhagstætt veður, Þegar pólski togarinn, sem strandaði hér fyrir Suðurlandi fyrir skömmu og miklar tilraunir hafa verið gerðar til þess að ná út og seinast endaði með því, að hann sökk, þegar honum hafði verið náð út, — að það hefði verið mjög undir hælinn lagt, að nokkur maður bjargaðist af því skipi, ef það hefði verið eitthvað að veðri. En jafnframt var það tekið fram, að ef þyrilvængja hefði verið hér til og getað komið fljótlega á strandstað, hefði, hvernig sem hefði viðrað, verið hægt að ná skipshöfninni og bjarga henni til lands, enda er það kunnugt, að þyrilvængjurnar eru erlendis oft og tíðum það einasta tæki, sem hefur aðstöðu til að bjarga, þegar slys ber að höndum og öðrum tækjum verður ekki við komið. Í þeim tilfellum eru þyrilvængjurnar sem í mörgum öðrum undratæki.

Það er auðskilið mál, að tæki sem þessi yrðu að hafa bækistöð í landi, og í till. er lagt til, að þeirra föstu bækistöðvar verði á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þetta er eingöngu með tilliti til þess, að þessir landshlutar eru verst settir í samgöngumálum og þurfa Þannig öðrum fremur á að halda tækjum, sem gætu bætt úr hinum erfiðu samgönguskilyrðum, sem þar ríkja. Helikopterflugvélar, sem væru staðsettar í námunda við Ísafjarðarflugvöll á Vestfjörðum og við Egilsstaðaflugvöll á Austfjörðum, gætu tvímælalaust að minni hyggju innt af hendi ákaflega þýðingarmikla þjónustu fyrir fólkið í þessum landshlutum, bæði að því er snertir póstflutninga og þá ekki sízt að því er snertir sjúkraflug. En til þeirra hluta eru þyrilvængjurnar tilvaldar. Það væri með þyrilvængju á Vestfjörðum alveg vandalaust að koma pósti til allra íbúa Vestfjarða daglega eða annan hvern dag, ef menn vildu leggja í minni kostnað þess vegna, svo að fólkið í þessum landshluta að því leyti nyti sömu aðstöðu og fólkið hér í Reykjavík og nágrenni hennar, og teldi ég, að slík þjónusta út af fyrir sig mundi verða mjög mikils metin í dreifbýlinu og fásinninu. Og sama gildir um Austfirði, ef þyrilvængjan tæki póstflutningana og færi yfir Austfjarðasvæðið frá Egilsstaðaflugvelli, þegar flugvél frá Reykjavík væri komin þangað með póst í landsfjórðunginn. En að öðrum kosti, meðan þessi tæki eru ekki fyrir hendi, er það oft svo, að þetta fólk bíður vikuna, hálfan mánuðinn, jafnvel allt upp í mánuðinn eftir því að fá póst. Ég nefni t.d. vitaverðina, sem búa á mjög einangruðum stöðum. Ekki væri það lítils vert fyrir þá, að þyrilvængjur væru í þjónustu landhelgisgæzlunnar eða einhvers íslenzks aðila, sem ryfu einangrun þessara staða og jafnvel hlypu í skarðið að flytja vörur og nauðsynjar til vitanna, þegar vitaskip verður t.d., eins og oft er, að bíða hálfan mánuð til þrjár vikur eftir hagstæðu veðri til þess að komast að vita með þann varning, sem þangað á að flytja, og undir slíkum kringumstæðum væri það a.m.k. miklu ódýrara fyrir ríkið að láta þyrilvængju annast þennan flutning milliliðalaust heldur en láta skip biða eftir því vikum saman. Þyrilvængja gæti alveg tvímælalaust komið að gagni, að því er snertir þjónustu fyrir vitana. Það var nú fyrir skömmu, sem það vitnaðist, að talstöð vitans á Hornbjargi hefði verið biluð í þrjár vikur, og þaðan var ekki hægt að fá nauðsynlega vitneskju í þjónustu vísinda, sem beðið var eftir þær þrjár vikur, af því að ekki var hægt að komast á staðinn á sjó, en þar hefði verið auðvelt samdægurs að senda þyrilvængju og fá þá vitneskju, sem þá var beðið eftir af vísindamönnum, og enn fremur að fá gert við þetta nauðsynlega tæki.

Ég held, að það sé raunar óþarft af mér að halda langa ræðu til þess að kynna þyrilvængjur. Ég vil aðeins segja frá því til gamans, að ég hef ferðazt með þyrilvængju á meginlandi Evrópu milli tveggja stórborga álfunnar og ég hef aldrei notið ferðalags með sama hætti og þá, flogið lágt yfir landið. Maður kynntist öllum blæbrigðum lands og öllum megineinkennum byggðar, sá meira að segja fólkið við sín störf, það var eins og maður — með örskotshraða að vísu — væri að fara fótgangandi um landið. En það sagði sá mikli ferðamaður, Tómas Sæmundsson, sem ferðaðist um mikinn hluta Evrópu fótgangandi, að í raun og veru, þó að það væri indælt að ferðast með járnbrautum og öðrum farartækjum, þá kynntist maður þó aldrei landinu nema með því að þramma yfir það fótgangandi. En ég er alveg viss um það, að næst því að ferðast fótgangandi um landið kynnist maður því bezt með því að fljúga yfir það í þyrilvængju.

Við leggjum til, flm., að keyptar verði tvær þyrilvængjur og þær þá sérstaklega látnar þjóna landhelgisgæzlunni og fólkinu á Austfjörðum og Vestfjörðum. Ég játa, að það væri brýn nauðsyn, að þriðja þyrilvængjan væri staðsett hér suðvestanlands, því að hér mundu bíða slíks farartækis margvísleg nauðsynleg verkefni. En hitt væri þó góð byrjun, og jafnvel teldi ég, að þó að aðeins væri keypt ein, væri það góðra gjalda vert, því að þar kæmumst við þó af því bónbjargastigi í þessum efnum, sem við enn þá erum á.

Ég veit ekki, hvort aðrir hv. þm. eru sammála mér í því, en ég tel, að það mætti hafa mjög margvísleg og þýðingarmikil not af þessum farartækjum. Menn tala um, að það sé ekki langt undan, að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður og Keflavíkurflugvöllur látinn taka upp þá þjónustu, sem Reykjavíkurflugvöllur hefur veitt og veitir, og sé ég ekki nein stórkostleg vandkvæði á því, að því er snertir utanlandsflugið. En ég er hræddur um, að fólki, sem er að ferðast hér innanlands með flugvélum, þætti það nokkuð tímafrekt og fyrirhafnarsamt að þurfa að bregða sér suður á Keflavikurflugvöll, áður en flugferðin hæfist til þess staðar eða landshluta, sem það ætlaði að fljúga til, þegar það kostaði a.m.k. hálftíma til þriggja kortera bilferð, jafnvel eftir að hinn ágæti vegur milli Reykjavíkur og Keflavíkur er kominn. En þennan vanda væri auðvelt að leysa með þyrilvængju. Ef Keflavíkurflugvöllur væri orðinn aðalflugvöllur landsins, bæði fyrir innanlandsflug og utanlandsflug, og það er sjálfsagt hundraða millj. kr. spursmál að þurfa ekki að byggja annan flugvöll hér í nágrenni höfuðborgarinnar í stað Reykjavíkurflugvallar, þá held ég, að sá vandi væri þannig leystur á beztan hátt. Það tæki tiltölulega skamman tíma með þessum hætti að komast til Keflavikurflugvallar og væri ekki annað en lystireisa, þangað til aðalflugið byrjaði. Það hafa líka verið umræður um það, að við ættum að taka tillit til þeirrar sögulegu hefðar, að Alþingi var stofnað fyrir meira en 1000 árum á Þingvöllum, og ég fyrir mitt leyti teldi það æskilegt, að Alþingi væri staðsett þar fremur en hér í Reykjavík, að vísu 50 km í burtu frá höfuðborginni. Það væri vafalaust ekki talið ógerlegt erlendis, ef góður vegur væri kominn milli Reykjavíkur og Þingvalla, að menn ferðuðust milli þessara staða, jafnvel í bifreiðum. En það væri tvímælalaust ekki nein óyfirstíganleg hindrun, þessi vegalengd milli Reykjavíkur og Þingvalla, með tilliti til þess, að Alþingi væri háð þar, ef þyrilvængjur væru teknar til þess að leysa þetta samgönguvandamál, sem af því leiddi. Og það að hafa Alþingi á Þingvöllum hefði tvímælalaust þann kost, að embættismenn í Reykjavík litu ekki á það sem aukastarf sitt að sitja á Alþingi, heldur væru þar fyrst og fremst sem þm. og færu ekki til Reykjavíkur, nema þegar þeir ættu þangað erindi í sambandi við þingmennskuna og sín skyldustörf þar.

Ég er þeirrar skoðunar, að við ættum, þegar fólk almennt fer að taka sín sumarfrí, eins og væntanlega er ekki langt undan og margir gera þegar, eins og sjálfsagt er og lög ætlast til, þá ættum við að eiga hótel, fyrst og fremst fyrir fólkið, sem væri að hvílast og þá jafnframt að njóta náttúru Íslands, — við ættum að hafa slík hótel uppi í hálendi Íslands og gefa þannig miklu fleira fólki kost á því að kynnast fegurðartöfrum íslenzka hálendisins og heiðríkjunni þar heldur en enn þá er orðið, því að þeir eru tiltölulega fáir, Íslendingar, sem eru gagnkunnugir hálendi Íslands og hafa notið þess, sem þar er að njóta. En ef slík hótel væru komin, væri tvímælalaust lausnin sú að flytja fólkið á milli í þyrilvængjum. Þar þyrfti enga flugvelli að byggja, ef til þessa tækis væri gripið, og það væri ekkert lítið menningaratriði að beina fólki, sem vill ferðast, fremur að náttúrufegurð Íslands og hvetja fólk til þess að kynnast henni og gera því það mögulegt, heldur en það spani um fjarlæg lönd og álfur á sínum frídögum og hvíldartíma. Og það efa ég ekki, að ef Ísland á framtíð sem ferðamannaland, hefði það gífurlega þýðingu, ef stærstu hótelin í Reykjavík hefðu þyrilvængju fyrir dyrum úti og tækju þar við a.m.k. þeim auðmönnum, sem hér horfa ekkert í að eyða miklu fé, en vilja komast á staðinn til að sjá Heklu og sjá Geysi og vilja jafnvel líka fá að kynnast almennt náttúrufegurð Íslands, ósnortinni náttúrufegurð Íslands. Þeim mundi þykja það aðgengilegra að geta setzt í helikopter við hóteldyrnar og setzt svo á gígbarminn á Heklufjalli heldur en að þurfa að hristast eftir rykugum, lélegum íslenzkum vegum hátt upp í dag til þess að komast fram og aftur. Ég held, að túrisminn og þeir menn, sem vilja efla hann á Íslandi, ættu ekki að tefja lengi með það, hvað sem líður íslenzka ríkinu í þessum efnum og landhelgisgæzlunni, að útvega sér þyrilvængjur til þess að geta einmitt greitt fyrir því, sem útlendingar sækjast mest eftir hér á landi, þ.e. að kynnast náttúruundrum Íslands, ekki aðeins Heklu, heldur einnig jöklum landsins, sem eru furðuheimur fyrir útlendinginn.

Ég skal nú láta staðar numið. Ég hef drepið á margt, sem ég tel að þyrilvængjan leysi, hef kannske oftrú á þessu farartæki, en ég tel undir ötlum kringumstæðum okkur til vansa að geta ekki átt þessi tæki til þess að vera sjálfum okkur nógir, þegar nauðsyn krefur, a.m.k. þegar slys ber að höndum, og til þess að veita almenna Þjónustu, bæði á landi og sjó, við landhelgisgæzluna, við póstflutninga, við sjúkraflug og til fyrirgreiðslu í okkar almenna samgöngukerfi, sem því miður er enn þá að ýmsu leyti götótt og þarf umbóta við, til þess að almenningur njóti nokkurn veginn sömu aðstöðu.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að umr. verði frestað, — það er ákveðin ein umr. um till., umr. verður auðvitað frestað, — og að till. verði þá vísað til hv. fjvn.