08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (2607)

164. mál, þyrla í þjónustu landhelgisgæslunnar

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég tel nú raunar, að það hefðu átt að vera tvær umr. um þessa till., vegna þess að hér erum að ræða ákvörðun um útgjöld úr ríkissjóði, bæði varðandi kaup á þeim farartækjum, sem hér erum að ræða, og svo rekstur. Það er ljóst, að kostnaður við þessar ráðstafanir hlýtur að verða allverulegur, vafalaust skipta tugum millj. þegar í upphafi, auk þess sem gera verður sér grein fyrir óhjákvæmilegum rekstrarkostnaði.

Ástæðan til þess, að ekki hefur verið ráðizt í kaup á þyrilvængju hingað til, er einfaldlega sú, að ekki hefur verið fjárveiting fyrir hendi í því skyni. Það má segja, að það hefði verið hægt að leita eftir henni af hálfu ríkisstj. En hvorki ríkisstj. né Alþingi hefur talið ástæðu til þess að verja sérstöku fé í þessu skyni enn, ekki vegna þess, að menn viðurkenni ekki, að oft getur komið sér vel að hafa slík farartæki, heldur vegna þess, hversu margar þarfir kalla stöðugt að. Menn verða að gera sér grein fyrir, þegar á annan bóginn er býsnazt yfir miklum ríkisútgjöldum, en hins vegar þess krafizt, að ráðizt sé í nýjar framkvæmdir eða aðgerðir, sem út af fyrir sig horfa til góðs, að það er vissulega að því komið og hefði fyrr mátt verða, að menn gerðu sér grein fyrir, að hér verður að meta og ekki er hægt að ná öllu samtímis. Þess vegna verða ýmsar framkvæmdir, sem hafnar eru, seinfærari og dragast lengur á langinn en skyldi, vegna þess að svo margar þarfir kalla að samtímis, sem reynt er að fullnægja með því að verja til þess út af fyrir sig ófullnægjandi fjárupphæðum. Þetta þekkjum við allir. En ástæðan fyrir því, að menn hafa ekki enn fengið þyrilvængju, keypt hana, er þetta, að talið hefur verið, að þörf væri enn brýnni til annarra ráðstafana.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að ummæli hv. þm. um það, að rangt hefði verið eða óviðeigandi að stækka eða styrkja þilfar á Óðni, ef það hefði ekki verið gert vegna þess, að kaupa ætti íslenzka þyrilvængju, finnst mér ekki fá staðizt. Á meðan íslenzkir aðilar afla sér ekki þessara tækja sjálfir, væri það með öllu óverjandi af landhelgisgæzlunni að gera þó ekki ráðstafanir til þess, að þær þyrilvængjur, sem eru í landinu, yrðu hagnýttar á þann veg, sem stundum kann að vera brýn nauðsyn á. Áður fyrr var þilfar á Óðni nægilega sterkt fyrir þær þyrilvængjur, sem hér voru staðsettar hjá varnarliðinu. Og ég tel, að forustumenn landhelgisgæzlunnar hefðu með réttu sætt miklu ámæli, ef það hefði komið í ljós, að ekki hefði verið hægt að lenda á þilfari Óðins, ef bjarga hefði þurft frá slysi og þyrilvængja hefði þar getað komið að gagni, staðsett í landinu, jafnvel þótt hjá varnarliðinu væri, — þá hefði ekki verið hægt að gera nauðsynlegar framkvæmdir til björgunar, vegna þess að íslenzka varðskipið, sem hafði þó þilfar ætlað til þess að taka við þyrilvængju, hafói ekki gætt þess, að nú eru komnar sterkari þyrilvængjur en áður. Á þetta verður að líta eins og málin raunverulega standa. Enn hefur Alþingi ekki veitt fé til kaupa eða rekstrar á þyrilvængjum. Það eru hins vegar til þyrilvængjur í landinu, sem, eins og hv. flm. sagði, hafa oft, að því er ég hygg, orðið til þess að bjarga frá neyð eða a.m.k. lagt sig fram eftir beiðni til þess að bjarga, þegar á hefur þurft að halda. Mér er nær að ætla, að enn hafi ekki reynt á samvinnu milli landhelgisgæzlunnar og forráðamanna þyrilvængju í þessu sambandi, en slíkt getur borið að höndum hvenær sem er, og þá hefði það vissulega að mínu viti verið vítavert umhirðuleysi af landhelgisgæzlunni að fylgjast ekki með, úr því að hinar gömlu, veikbyggðu þyrilvængjur áttu að flytjast frá Keflavíkurflugvelli, að gera þá ekki ráðstafanir til þess að geta tekið á móti þeim nýju og sterkari.

Ég taldi rétt, að þetta kæmi hér fram, úr því að þetta barst í tal, einmitt vegna þess að ég átti hlut að, þegar þetta mál var undirbúið eða kom fyrst til umr. á s.l. hausti, fyrst að hindra, að hinar veikbyggðu þyrilvængjur væru fluttar úr landi fyrr en okkur hefði gefizt tóm til að styrkja þilfar Óðins svo sem þörf var talin á, og síðan, að skipið var sent út til umbóta í þessu skyni. Með þessu var ekki ætlunin að hafa neina bónbjargastarfsemi í frammi gagnvart varnarliðinu. Þetta er ekki gert þess vegna, heldur vegna okkar sjálfra, nauðsynleg varúðarráðstöfun, sem vissulega að mínu viti hefði verið vítavert að láta undir höfuð leggjast, eins og á stóð.

Hitt er svo allt annað mál, hvenær við teljum okkur fært og tímabært að kaupa þessi tæki. Ég efast ekki um, að þau muni verða keypt af Íslendingum, áður en langir tímar liða. Ástæðan til þess, að það hefur ekki verið gert, er sú, sem ég sagði áðan, að þarfirnar eru svo margar, sem þarf að fullnægja, og hér eru fyrir í landinu þyrilvængjur, sem hafa reynzt reiðubúnar til að koma til hjálpar og bjargar í einstökum neyðartilfellum, og við það er ekki á neinn hátt neitt að athuga. Hitt er svo allt annað mál, að þær þyrilvængjur verða auðvitað aldrei notaðar eða hægt að ætlast til að verði notaðar í því skyni, sem hv. frsm. gerði grein fyrir, og ég skal ekki á neinn hátt þræta við hann um nauðsyn og ágæti þessa farartækis. Hann þekkir bersýnilega betur til þess en ég. Það má þó vera, að það sé vegna vanþekkingar minnar, en ég hef haft nokkurn efa um, að þyrilvængjum yrði við komið í verulega slæmu veðri við Íslandsstrendur. Það var a.m.k. svo áður fyrr, að það varð að vera allsæmilegt veður, til þess að þyrilvængjur gætu athafnað sig, og ég minnist þess, að einu sinni var hingað send fyrir allmörgum árum þyrilvængja, og þá var talað um, að landhelgisgæzlan keypti hana. Hún var mjög veikbyggð miðað við núverandi hugmyndir, og ég þykist muna það rétt, að sérfræðingar töldu þá, að hún mundi ekki standast það að vera til björgunar í stórviðrum á okkar landi. Nú eru þessi tæki orðin miklu öflugri en áður var og taka sjálfsagt óðfluga miklum framförum, eins og önnur slík tæki gera, og ég vil ekki vefengja það, sem hv. þm. sagði um, að þau væri hægt að nota einnig í mjög slæmu veðri. En ég vil þó taka þá fullyrðingu með nokkurri varúð, þangað til málið er betur kannað. En mér finnst sjálfsagt að kanna þetta mál til hlítar, og ég stend hér ekki upp til þess að mótmæla orðum hv. þm. Mér finnst þetta vera mál, sem þurfi að athuga og kanna.

En ég vil að lokum vekja athygli á því, að rök hv. þm. voru nær öll um ágæti þessa farartækis sem almenns samgöngutækis fyrir Íslendinga, en í sjálfu sér færði hann sáralítil rök að því eða gekk fram hjá því, hvert gagn landhelgisgæzlan gæti haft af þessu farartæki. Skoðun mín hefur einnig verið sú, að landhelgisgæzlan hefði tiltölulega lítil not af þyrilvængjum. Hún þarf á að halda hraðfleygum flugvélum, eins og hún nú þegar hefur eina, sem hefur orðið að ómetanlegu gagni, og skipum, sem geta starfað í sambandi við slíka hraðfleyga flugvél, og mér er nær að ætla, að landhelgisgæzlunni, ef litið er á hennar þarfir einnar, ríði meira á því að fá nýtt, hraðskreitt skip á borð við Óðin eða e.t.v. enn nýtízkulegra en Óðinn er heldur en að fá eina eða tvær þyrilvængjur, þ.e. ef við lítum á þarfir landhelgisgæzlunnar einnar. En hv. þm. flutti þetta mál fyrst og fremst sem almennt samgöngumál, og ég ætla, að það sé miklu nær að skoða málið í því ljósi, hvort menn telja þörf á því að fá þyrilvængjur staðsettar á Austurlandi og Vesturlandi sem nýtt samgöngutæki fyrir þessa landshluta. Svo getur Það komið til greina, að landhelgisgæzlan geti haft eitthvert smávegis gagn af þeim öðru hverju og það geti orðið að gagni til björgunar í einstökum tilfellum. En hv. þm. gerði réttilega, að því er ég hygg, þá grein fyrir málinu, að þetta er fyrst og fremst samgöngumál, en ekki landhelgismál.