08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (2608)

164. mál, þyrla í þjónustu landhelgisgæslunnar

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði nú, þegar hann lauk máli sínu, að ég ræddi miklu meira um þyrilvængjuna sem samgöngutæki heldur en tæki í þjónustu landhelgisgæzlu. Þó hóf ég mál mitt með því að vísa til þess, að aðrar þjóðir hefðu tekið þessi tæki í þjónustu landhelgisgæzlu hjá sér, og tilnefndi þar Dani, sem mér er kunnugt um að hafa þessi tæki sem þátt í sinni landhelgisgæzlu, bæði við strendur Danmerkur og Færeyja, og lét þar við sitja að vitna til þess, að þeir hefðu talið not af þessum tækjum í þessu skyni og þá í viðbót við það, að það væri ljóst, að íslenzkir forráðamenn landhelgisgæzlu hér hefðu haft augastað á því að taka þessi tæki í þá þjónustu einnig. Hins vegar taldi ég mig á engan hátt dómbæran um það, að hve miklu leyti þyrilvængjurnar gætu verið ómetanlegar í þeirri þjónustu, vitnaði þar til annarra reynslu og hugmynda þeirra manna, sem höfðu sýnilega haft vakandi auga á þessu, þegar varðskipið Óðinn var byggt.

En það er einnig rétt hjá hæstv. ráðh., að ég hef óbilandi trú á því, að þyrilvængjan geti haft ómetanlega þýðingu fyrir okkur í okkar almenna samgöngukerfi og brúar þar bil, sem ekki væri brúað ella nema á áratugum með vegalagningu og skipabyggingum og þó ekki náð þeim árangri, sem þyrilvængjan getur náð, sökum þess að henni er svo lítt markaður bás, þar sem hún getur flogið af hvaða stað sem er og á hvaða stað sem er án mannvirkjagerðar, lent á litlum, flötum bletti hvar sem er úti í náttúrunni, lent á húsþaki, ef vera vill o.s.frv.

Ég vil svo aðeins víkja örfáum orðum að þessu, sem ég hef vafalaust vikið að í dálitlum hneykslunartón, fréttatilkynningunni um, að varðskipinu Óðni hefði verið breytt með tilliti til þess, að þyrilvængjur setuliðsins á Keflavíkurflugveili gætu lent á hinu íslenzka löggæzluskipi, varðskipi. Hitt játa ég, að ef þessi breyting hefur verið gerð á varðskipinu til þess, að þyrilvængjur hjá hernum gætu haft þar lendingarstað, þegar varðskipið væri að aðstoða við björgunarstörf, þá álít ég það hafa verið gert út frá íslenzku sjónarmiði, íslenzkri þörf, og tel það réttmætt, og sannast að segja

er ég fyllilega þakklátur hernum fyrir að hafa látið þessi tæki okkur í té, þegar okkur hefur riðið á. En hins vegar finnst mér, þar sem það er augljóst mál, að þyrilvængjur frá hernum geta ekki orðið okkur til aðstoðar til löggæzlu við landhelgina, þá hljóti þetta, að pallur er byggður á Óðin til lendingar fyrir slíkar vélar og hann síðan stækkaður, að byggjast fyrst og fremst á því, að menn séu jafnvel enn frekar en áður sannfærðir um það, að þyrilvængjur þurfi að verða eign íslenzku landhelgisgæzlunnar eða íslenzka ríkisins, og þess vegna sé verið að undirbúa það með þessari breytingu á varðskipi okkar að stækka og treysta þilfarið á Óðni og þennan lendingarpall á honum, og það fannst mér í raun og veru vanta í fréttatilkynninguna, að með tilliti til þessa hefði okkar varðskipi verið breytt, að menn hefðu aukna trú á því, að við yrðum vegna margendurtekinnar reynslu að afla okkur slíkra tækja, m.a. í þjónustu landhelgisgæzlunnar.

Annars er ég hæstv. ráðh. þakklátur fyrir það, að hann sagðist vera mér sammála í flestum tilfellum um notagildi þessara samgöngutækja, og ég held, að þó að ég sé enginn sérfræðingur á þessu sviði og hafi mínar skoðanir, mótaðar lítillega af eigin reynslu og mest af frásögnum annarra, hafði þar enga sérfræði við að styðjast fremur öðrum þm., þá held ég, að verkefnin séu svo margvísleg, sem bíða þessara tækja hjá okkur, að við höfum ekki efni á því að láta það dragast mjög lengi að afla okkur a.m.k. einnar þyrilvængju og fá af því reynslu, hvaða gagnsemi hún getur veitt okkur á hinum ýmsu sviðum.