22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (2618)

184. mál, sjómannatryggingar

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt 4 þm. öðrum, þeim Jóni Arnasyni, hv. 4. þm. Vesturl., Sverri Júlíussyni, hv. 7. landsk. þm., Sigurði Ágústssyni, hv. 2. þm. Vesturl., og Matthíasi Bjarnasyni, hv. 11. landsk. þm., till. til þál. um sjómannatryggingar. Er till. á þskj. 344 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd, sem athugi til hlítar, hvort ekki sé unnt að breyta núverandi sjómannatryggingum í eina heildartryggingu. N. verði skipuð tveimur tryggingafræðingum og einum manni eftir tilnefningu Landssambands ísl. útvegsmanna. Jafnhliða verði athugað, ef slík breyting telst framkvæmanleg, hvort ekki sé grundvöllur fyrir, að heildartryggingin verði boðin út á frjálsum markaði.”

Í grg., sem till. fylgir, er gerð nánari grein fyrir efni málsins og tilganginum með flutningi hennar. Eins og þar segir, eru tryggingar sjómanna á íslenzka fiskiskipaflotanum orðnar svo margþættar, að vart verður lengur við unað, ef nokkur kostur er til úrbóta. Athugun hefur leitt í ljós, að ástand þessara mála er þannig í dag, að fyrir hvern sjómann, sem lögskráður er á íslenzkt fiskiskip, þarf að greiða tryggingariðgjöld og sjóðstillög til ekki færri en 8 aðila. Sumar þessar tryggingar eru samningsbundnar við kjarasamninga sjómanna, en aðrar lögbundnar.

Þær tryggingar, sem hér um ræðir, eru þessar: Í fyrsta lagi hin almenna, lögboðna slysatrygging samkv. almannatryggingalögunum. Tekur þessi trygging til sjúkrahjálpar, dagpeninga, örorkubóta og dánarbóta. Í öðru lagi samningsbundin 200 þús. kr. trygging á hvern skipverja, og tekur þessi trygging til dánarbóta og hóta vegna varanlegrar örorku. Í þriðja lagi samningsbundin ábyrgðartrygging að upphæð 1250 þús. kr. á hvert skip, þannig, að ekki greiðist hærri bætur en 500 þús. kr. fyrir einstakling, hvort sem um örorku eða dánarbætur er að ræða. í fjórða lagi samningsbundnar tryggingar vegna fatatjóns áhafnar, ef skip ferst. Og í fimmta lagi samningsbundin trygging vegna aflaverðmætis áhafnar.

Auk iðgjalda vegna þessara trygginga verða útgerðarmenn einnig að greiða iðgjöld til þriggja sjóða vegna áhafna skipanna, þ.e. til sjúkrasamlags, atvinnuleysistryggingasjóðs og sjúkrasjóða stéttarfélaga viðkomandi skipverja.

Af þessu sést, að tryggingakerfi áhafna á íslenzkum fiskiskipum er orðið margbrotnara en svo, að eðlilegt geti talizt eða viðunandi sé. Tryggingarnar sumar hverjar grípa hver inn á annarra svið, og ef ágreiningur rís vegna tjónbóta, gæti svo farið, að mál þyrfti að höfða gegn tveimur eða fleirum aðilum, og gæti það, ef um örorkubætur væri að ræða, valdið töfum og óþægindum fyrir bótaþega og óþarfakostnaði fyrir útgerðarmenn.

Um þróun þessara mála skrifaði Gísli heitinn Sveinsson, fyrrv. alþm. og sendiherra, mjög fróðlega grein í afmælisrit Slysavarnafélags Íslands, er það varð 30 ára. Þar segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hin fyrsta tilraun hérlendis til þess að tryggja líf sjómanna að opinberri tilstuðlan var gerð með I. nr. 40 10. nóv. 1903, um lífsábyrgð fyrir sjómenn, er stunda fiskveiðar á þilskipum. Var með þeim gert að skyldu að vátryggja líf hérlendra sjómanna á tilgreindum skipum. Skyldi hver lögskráður sjómaður greiða í vátryggingarsjóð 15 aura fyrir hverja viku vetrarvertíðar og 10 aura vor- og sumarvertíð, en útgerðarmaður standa skil á gjaldinu svo og helmingi á móts við gjald skipverja allra.“

Þetta var hluti af frásögn Gísla heitins Sveinssonar af hinni fyrstu sjómannatryggingu hér á landi. Voru samkv. lögum þessum aðeins greiddar dánarbætur til aðstandenda, 100 kr. á ári í 4 ár, og landssjóður skyldaður til að leggja fram allt að 15 þús. kr. á ári, ef iðgjöld nægðu ekki fyrir bótagreiðslum. Lög þessi voru í gildi til ársins 1909, er sett voru ný lög um sjómannatryggingar, er náðu til allra sjómanna, jafnt á fiskiskinaflotanum sem á flutningaskipaflotanum. Iðgjöld voru hækkuð úr 10 og 15 aurum í 18 aura á viku, en framlag útgerðarmanna lækkað úr helmingi í 1/3 hluta móti iðgjaldi sjómanna. Framlag ríkissjóðs til trygginganna og dánarbætur hélzt óbreytt frá því, sem áður var.

Árið 1917 voru sett ný lög um sjómannatryggingar. Var iðgjald trygginganna með lögum þessum hækkað í 70 aura á viku, er greiddust að jöfnu af útgerðarmönnum og hinum tryggðu. Þau nýmæli voru í þessum lögum, að auk dánarbóta var einnig kveðið á um bætur fyrir slys, er hinir tryggðu kynnu að verða fyrir við störf sín á sjó og einnig í landi, ef þeir störfuðu í þágu útgerðarinnar við nauðsynleg störf. Auk nýmælisins um bætur fyrir slys, er sjómenn kynnu að verða fyrir, voru dánarbætur til aðstandenda þeirra verulega hækkaðar með þessum lögum.

Þessi skipan sjómannatrygginganna hélzt í grundvallaratriðum óbreytt, þar til l. um almannatryggingar voru sett árið 1946, nema hvað iðgjöld hækkuðu verulega og voru að fullu færð yfir á útgerðina og ríkissjóð og tjónbætur vegna slysa og dánarbætur hækkuðu úr nokkrum hundruðum kr., eins og þær voru í upphafi, í tugi þúsunda, ef um veruleg slys eða dánarbætur var að ræða. Nú hafa sjómannatryggingar þessar verið felldar inn í l. um almannatryggingar, og gera þau lög ráð fyrir sjúkrabótum og dagpeningum til handa sjómönnum auk örorku- og dánarbóta eftir þeim reglum, sem þar um gilda. Mun þetta vera eina tryggingin, sem eigendur íslenzkra fiskiskipa eru skyldaðir til með lögum að standa straum af vegna áhafna skipa sinna.

En svo fór og þar að kom, að tryggingar þessar voru ekki taldar veita nægilegar bætur. Hefur því nú hin síðustu ár orðið samkomulag milli samtaka sjómanna og útvegsmanna um margs konar aukatryggingar, eins og áður hefur verið minnzt á. Telja flm. þessarar till. tryggingakerfið orðið svo flókið og erfitt í framkvæmd, að sjálfsagt sé, að leitazt verði við að gera það eins einfalt og kostur er á með einni heildartryggingu, án þess þó að réttur hinna tryggðu verði í nokkru skertur. Telja flm. einnig, að iðgjöld vegna hinna mörgu sjómannatrygginga, lögbundinna og samningsbundinna, séu hærri en þau þyrftu að vera, ef um eina heildartryggingu væri að ræða.

Það er vitað, að iðgjöld allra trygginga grundvallast á skýrslum, sem ná yfir verulegt árabil í þeim flokki, sem tryggingin nær til, og einnig á mati tryggingafélags eða tryggingafélaga á þeirri áhættu, sem þau kunna að taka á sig, ef tryggingin er veitt. Manntjón af völdum sjóslysa hefur á undanförnum áratugum því miður verið mikið hér við land, en sem betur fer farið stórminnkandi hin síðari ár. Samkv. árbókum Slysavarnafélags Íslands fórust að meðaltali 46 íslenzkir sjómenn í sjóslysum á ári fyrstu þrjá áratugina, sem félagið starfaði. Fyrsta áratuginn, þ.e. 1928–1938, fórust að meðaltali 43 íslenzkir sjómenn í sjóslysum. En áratuginn 1948–1958 var sambærileg tala komin niður í 27. Áratuginn 1938–1948, þau árin, sem stríðið geisaði, varð hún því miður mun hærri. En síðasta áratuginn, 1954–1963, hefur sú gleðilega þróun átt sér stað, að sambærileg tala hefur enn stórlækkað. Samkv. skýrslum Slysavarnafélagsins hafa þó enn þennan síðasta áratug að meðaltali 20 íslenzkir sjómenn farizt við störf sín af þeim, er fiskveiðar stunda. En sú gleðilega þróun hefur átt sér stað, að tala þessi er orðin helmingi lægri hinn síðasta áratug, miðað við það, sem hún var fyrsta áratuginn, sem Slysavarnafélag Íslands starfaði, þ.e. árin 1928—1938, þrátt fyrir að nú muni verulega fleiri íslenzkir sjómenn stunda fiskveiðar mun lengri tíma ársins en þá var. Kemur þar margt og fleira en eitt til greina, bæði bættar og stórauknar slysavarnir, aukinn og stækkaður floti landhelgisgæzlunnar, sem eins og kunnugt er hefur jafnhliða annazt eftirlit með fiskiflotanum og björgunarstarf, bætt og fullkomnari björgunartæki um borð í skipunum. og er þar aðallega átt við gúmmíbjörgunarbátana, sem alveg óefað hafa mörgu mannslífi bjargað, frá því að þeir fyrst voru teknir í notkun. Þar koma einnig að sjálfsögðu til greina stærri fiskiskip og betur útbúin að tækjum en áður var. Hefur þetta leitt til þess, að slys hafa sem betur fer orðið mun færri hér hinn síðasta áratug en þann áratug, sem Slysavarnafétag Íslands fyrst starfaði, eins og skýrslur þess bera vitni.

Ef litið er á iðgjaldagreiðslur trygginga almennt og iðgjaldagreiðslur fyrir þær margflóknu sjómannatryggingar, sem nú eru í gildi, er því ekki að neita, að þar erum veruleg útgjöld fyrir útgerðina að ræða. Ef gengið er út frá tölu þeirra fiskiskipa, sem í byrjun þessa árs voru á skrá yfir íslenzk fiskiskip, að viðbættum þeim skipum, sem von er á til landsins nú á þessu ári, og úthaldstími þeirra áætlaður 6–9 mánuðir, mun ekki ofáætlað, að iðgjöld lögbundinna og samningsbundinna sjómannatrygginga vegna áhafna þessara skipa, muni þetta ár og enn frekar næsta ár, þegar hin nýju skip eru öll komin til landsins, nema a.m.k. 30 millj. kr. á ári. Því miður liggja ekki fyrir neinar opinberar skýrslur um þetta, en ég hygg, að hér sé heldur varlega í sakirnar farið við þennan útreikning. Fyrir útgerðina er þetta, eins og áður er sagt, orðinn verulegur útgjaldaliður. Það, sem því vakir fyrir okkur flm. þessarar till., er tvennt: í fyrsta lagi, að kannað verði til hlítar, hvort ekki sé unnt að gera tryggingar þessar einfaldari í framkvæmd með því að færa þær saman í eina heildartryggingu, án þess, eins og ég sagði áðan, að réttur hinna tryggðu verði í nokkru skertur. Og í öðru lagi, hvort ekki megi með einni heildartryggingu lækka iðgjöld þessara trygginga verulega frá því, sem nú er. Vænti ég, að hv. þm. þessarar d. séu okkur sammála um, að tímabært sé, að athugun sú, sem till. gerir ráð fyrir, verði látin fram fara, og leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.