16.12.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

1. mál, fjárlög 1964

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Enda þótt fjárlagafrv. fyrir árið 1964 gefi vissulega ærin tilefni til þess, að rætt sé um efnahagsmálastefnu hæstv. núv. ríkisstj. almennt, mun ég ekki fara út í þá sálma að þessu sinni. Ég ætla aðeins í stuttu máli að gera grein fyrir fáeinum brtt., sem ég flyt á þskj. 144. Þessar till. mínar eru allar við 14. gr. fjárl., þá greinina, sem fjallar um menningarmál:

Fyrsta till. mín er um allverulega hækkun á framlagi til stuðnings íslenzkum námsmönnum. Ég legg til, að heildarupphæðin hækki úr 9.6 millj. kr. rúmum í 12 millj. Hér er að mestum hluta um að ræða fé, sem námsmönnum er lánað með hagstæðum kjörum til nokkuð langs tíma, en þeir endurgreiða síðan, eftir að þeir hafa lokið námi. Um 2/3 hlutar þessarar fjárveitingar fara til íslenzkra námsmanna erlendis, en þriðjungurinn eða þar um bil til stúdenta við Háskóla Íslands.

Það eru einkum tvær meginástæður til þess, að þessi fjárveiting þarf nú að hækka og það allverulega. Hin fyrri er sú, að dvalarkostnaður eða uppihald námsmanna og yfirleitt allur námskostnaður hefur hækkað verulega, ekki einungis hér innanlands, heldur einnig allvíða erlendis, t.d. held ég, að það láti nokkuð nærri, að í Danmörku, þar sem íslenzkir námsmenn eru hvað flestir utan síns heimalands, hafi dvalarkostnaðurinn hækkað um 25% s.l. 1½–2 ár. Hin meginástæðan er sú, að námsmönnum fer stöðugt fjölgandi. Ég hef ekki handbærar tölur um fjölgun stúdenta við Háskóla Íslands, en ég veit, að sú fjölgun hefur verið veruleg. Hins vegar get ég upplýst, að fjölgun þeirra íslenzkra námsmanna erlendis, sem sótt hafa um lán og styrki til menntamálaráðs, hefur síðustu árin verið sem hér segir: Skólaárið 1961–1962 varð 5% fjölgun, skólaárið 1962–1963 varð rúml. 7% fjölgun, og að þessu sinni, skólaárið 1963–1964, bendir allt til þess, að fjölgunin verði hvorki meiri né minni en 11–12%. Þessi síðustu ár hefur fjölgunin á íslenskum námsmönnum við nám erlendis orðið langmest við ýmiss konar tæknifræðinám. Þetta er vissulega æskileg þróun, því að okkur skortir mjög menn með góða og hagnýta menntun á þessu sviði. Hér er í flestum tilfellum um að ræða efnilega menn, sem hafa lokið iðnskólaprófi og sveinsprófi hér heima, en halda síðan út til þess að bæta við sig 3–4 ára námi við erlenda tækniskóla. Nú er að vísu að rísa hér upp vísir að tækniskóla, og menn geta þegar lokið hér undirbúningsnámi, sem styttir framhaldsnámið erlendis um einn vetur. Væntanlega á þessi vísir að tækniskóla hér fyrir sér að vaxa, en það tekur sinn tíma, og á meðan er okkur brýn þörf á, að tiltölulega margir álitlegir menn sæki þessa menntun til annarra landa.

Með hliðsjón af því, sem ég hef nú sagt, er það mjög brýnt að hækka allverulega framlag til námslána og námsstyrkja. Að öðrum kosti hlýtur að rýrna verulega sá stuðningur, sem komið hefur í hlut hvers einstaks námsmanns.

Ég vil í þessu sambandi, þar sem mér er úthlutun lána til námsmanna allvel kunn, gera tilraun til að eyða nokkuð almennum misskilningi, sem oft verður vart við. Ýmsir lítt kunnugir þessum málum virðast halda, að lánum þessum og styrkjum sé dreift af mjög miklu örlæti til allra, sem skreppa út fyrir pollinn og innritast þar í einhvern skóla. En þetta er engan veginn svo. Hér er reynt eftir fremsta megni að fylgja allströngum reglum um þessa úthlutun. Skemmra nám en það, sem tekur tvö ár erlendis, er yfirleitt ekki styrkt eða lán veitt til þess. Fyrstu tvö árin erlendis eru eingöngu veitt lán, en síðan koma styrkir að nokkrum hluta og lán að nokkrum hluta á 3. og 4. námsári, og þó því aðeins að viðkomandi hafi gert fullnægjandi grein fyrir því, að námið hafi borið árangur og gengið með eðlilegum hætti. Loks eru ekki veitt lán eða styrkir til náms í þeim greinum erlendis, sem hægt er með svipuðum árangri að leggja stund á og læra hér á landi.

Greinilegur vottur þess, að hér gilda býsna strangar úthlutunarreglur, er það, að veturinn 1962–1963 voru um 750 Íslendingar skráðir til einhvers náms við skóla erlendis, en aðeins rúmur helmingur þeirra, tæplega 400, uppfyllti sett skilyrði til að hljóta lán eða styrki af opinberu fé. Það er einnig misskilningur, að lán þessi og styrkir hafi verið svo háir á hvern einstakling, að þeir sjálfir og vandamenn þeirra, þ.e.a.s. námsmenn sjálfir og vandamenn þeirra, þurfi lítið fram að leggja til þess að kljúfa námskostnað. Það mun láta nærri, að námslánin og námsstyrkirnir nemi að meðaltali röskum þriðjungi námskostnaðar, í sumum tilfellum nokkru meira, en í öðrum tilfellum heldur minna. Ég held, að það megi því ótvírætt líta svo á og halda því fram, að þeim fjármunum, sem fara til þess að styrkja ungt fólk á menntabraut, sé yfirleitt vel varið og að þeir fjármunir muni koma þjóðfélaginu í góðar þarfir.

Önnur till. mín fjallar um aukna fjárveitingu til handa landsbókasafninu til bókakaupa. Þessu höfuðbókasafni þjóðarinnar eru einungis ætlaðar 600 þús. kr. til bóka-, tímarita- og handritakaupa og til bókbands. Þessi upphæð er vitanlega allt of lítil, og upphæð, sem til þessa hefur verið varið á fjárlögum mörg undanfarin ár, hefur verið of lítil. Meginhluti hennar fer til bókbandsins og safnið verður því að langsamlega mestu leyti að búa að þeim bókaauka, sem það fær með afhendingu skyldueintaka hér innanlands og í bókaskiptum eða með bókagjöfum erlendis frá. Þetta er óviðunandi, enda skortir eðlilega mjög á, að landsbókasafnið hafi á liðnum tímum getað aflað sér allra þeirra handbóka og undirstöðurita í mörgum greinum, sem verða að teljast allsendis nauðsynleg.

Ég legg til, að þessi upphæð verði tvöfölduð, hún hækki í 1.2 millj. kr.

Þriðja till. mín er um hækkun á framlagi til þjóðskjalasafns til bóka- og handritakaupa og til umbúnaðar skjala. Til alls þessa eru einungis ætlaðar á fjárl. nú 50 þús. kr. Ég legg til, að liðurinn verði 200 þús. kr.

Fjórða till. mín er um hækkun á framlagi til þjóðskjalasafns til míkrófilmunar á skjölum. Þetta er mikið nauðsynjaverk. Þeir, sem hafa notað þjóðskjalasafnið á undanförnum árum, vita, að stöðug handfjötlun og notkun mikilvægra frumrita slítur þeim um skör fram á löngum tíma. Með nútímatækni er hægt án tilfinnanlegs kostnaðar að draga mjög úr þessari notkun frumheimilda og bjarga þeim þannig frá skemmdum eða eyðileggingu. Jafnframt er hægt fyrir tiltölulega litla fjármuni að útvega söfnum utan Reykjavíkur jafngildi ýmissa frumheimilda með því að gera af þeim mikrófilmur, og væri það verulegur stuðningur við þá menn, sem stunda fræðistörf úti um byggðir landsins. Ég legg til, að þessi liður hækki úr 10 þús. kr. í 100 þús. kr.

Þá er till. um lítið eitt aukna fjárveitingu til hinnar stóru vísindalegu orðabókar yfir íslenzkt mál, sem unnið er að á vegum Háskóla Íslands. Hér er um að ræða einhverja þá mikilvægustu starfsemi, sem nú er unnið að í þágu íslenzkra fræða. En verkefnið er afar mikið og það sækist eðlilega seint. Nú starfa að orðabókinni þrír vísindamenn. Ég legg til, að hv. Alþ. hækki fjárveitingu til þessa menningarstarfs úr 325 þús. kr. í 500 þús. kr. Þá væri hægt að bæta við einum föstum starfsmanni, og mun ekki af veita.

Þá er lítil brtt. Hún fjallar um einn hinn minnsta lið þessara stóru fjárlaga. Í allmörg ár hefur staðið þar smápóstur, algerlega óbreyttur bæði að orðalagi og krónutölu. Ég hef ekki hirt um að gá að því, hve mörg árin eru orðin. Þar stendur: „Til rithöfundasjóðs Kelvins Lindemanns, enda verði fénu varið til dvalarkostnaðar fyrir skandinavískan rithöfund hér á landi.“ Þessi sjóður, sem danski rithöfundurinn Kelvin Lindemann stofnaði skömmu eftir stríðslok, ef ég man rétt, mun vera í vörzlu norrænna rithöfundasamtaka, og hann veitir rithöfundum dvalarstyrki á Norðurlöndum til skiptis. Nokkrir íslenzkir rithöfundar hafa hlotið styrki úr þessum sjóði. Hin litla fjárveiting til þessa sjóðs, sem á sínum tíma var tekin hér upp í fjárlög, mun hafa verið gerð til þess að greiða fyrir því, að norrænir rithöfundar ættu þess kost að koma hingað til lands, dveljast hér um stundarsakir, flytja hér ef til vill fyrirlestra um bókmenntir eða lesa úr verkum sínum. Upphæðin var frá upphafi mjög lítil, einar 2500 ísl. kr., og nú er hún orðin beinlínis brosleg, en hún hefur haldizt óbreytt í fjárlögum, eins og ég sagði, í allmörg ár. Mér finnst ekki vera nema um tvennt að gera: fella þessa óveru alveg niður eða hækka fjárveitinguna. Ég legg til, að í þessu skyni verða veittar 25 þús. kr.

Þá er brtt. um hækkun á styrk til vísinda- og fræðimanna. Þessi styrkur hefur staðið á fjárlögum lengi, og allmargir hafa notið hans á mörgum undanförnum árum, en styrkurinn hefur mjög lítið hækkað að krónutölu nú allmörg undanfarin ár. Það má geta nærri, að fjárhæð, sem gat talizt nokkur stuðningur fyrir allmörgum árum, er allsendis ófullnægjandi í dag og kemur vísinda- og fræðimönnum að tiltölulega litlu gagni. Upphæðin er satt að segja svo lítil, að sá aðili, sem hefur fengið það verkefni að úthluta henni, menntamálaráð, er á hverju ári í stökustu vandræðum með að deila þessum aurum milli tiltölulega nokkuð margra manna. Það var svo lengi, að nokkurn veginn föst hlutföll héldust milli fræðimannastyrkja annars vegar og styrkja til skálda og listamanna hins vegar. Það var yfirleitt þannig, að þegar hækkun varð á listamannastyrkjum, þá var talið eðlilegt, að fræðimannastyrkirnir hækkuðu í svipuðu eða sama hlutfalli. Fyrir 9 árum voru hlutföllin 1 á móti 5, þ.e.a.s. að fræðimenn fengu þá 1 kr. á móti hverjum 5, sem skáld og listamenn fengu á fjárlögum, og fannst þó mörgum, að hlutur fræðimanna væri þá sízt gerður betri en efni stóðu til. Síðan hefur fjárveiting til listamanna hækkað öðru hvoru að krónutölu, en fræðimannastyrkirnir sáralítið, enda er svo komið nú, að samkv. gildandi fjárlögum eru umrædd hlutföll nokkurn veginn 1 á móti 10, þ.e.a.s. veittar eru 215 þús. kr. til vísinda- og fræðimanna, en 2 millj. 134 þús. til skálda og listamanna. Og nú hefur hv. formaður fjvn. skýrt frá því, að von væri á fyrir 3. umr. till. frá nefndinni um hækkun á listamannalaunum. Ég fagna því, að von skuli vera á þeirri till., því að það er full þörf á að hækka þau laun. En ég vil jafnframt leggja á það áherzlu, að styrkurinn til vísinda- og fræðimanna fáist einnig hækkaður verulega. Ef hv. form. fjvn. gefur kost á því, að n. athugi þetta mál milli umræðna, þá er ég að sjálfsögðu fús til að draga mína till. til baka til 3. umr.

Síðasta brtt. mín er nýr liður: Til kynningar íslenzkrar myndlistar, tónlistar og bókmennta innanlands, samkv. ákvörðun menntamálaráðs. Fyrir 2 árum eða þar um bil var gerð nokkur tilraun með slíka starfsemi. Að þeirri tilraun stóðu menntamálaráð og ríkisútvarpið í sameiningu. Ég held, að ég megi fullyrða, að þessi tilraun hafi að mörgu leyti tekizt vel. Á um það bil 50 stöðum víðs vegar um land var á vegum þessara tveggja stofnana flutt íslenzk list, og að þeirri kynningu stóðu ýmsir af fremstu listamönnum þjóðarinnar, einkum tónlistarmenn og rithöfundar. Lítið eitt var myndlist einnig kynnt bæði með fyrirlestrum, skuggamyndasýningum og listsýningum á einum, tveimur eða þremur stöðum. Almenningur tók þessari viðleitni vel, og ég tel skaða, að þar hefur ekki orðið framhald á. Stafar það eingöngu af skorti á fjárframlögum í þessu skyni. Enda þótt aðgangseyrir væri seldur að þessum listkynningum, varð af þeim nokkur fjárhagslegur halli, og það voru fyrrgreindar stofnanir, sem tóku hann á sínar herðar. Samkvæmt þeirri reynslu, sem af þessari tilraun fékkst, þykist ég mega fullyrða, að með 200 þús. kr. fjárveitingu, eins og ég legg hér til, megi skipuleggja fjölbreytta listkynningu, vinna umtalsvert menningarstarf, ekki sízt í þágu hinna dreifðu byggða landsins. Hin mörgu og myndarlegu félagsheimili, sem upp hafa risið víðs vegar um land á síðari árum, eru mörg hver tilvalin til þess að hýsa slíka gesti, sem koma með lifandi list, beztu listamenn þjóðarinnar, vildi ég vænta að þar gætu orðið, sem kæmu til fólksins með lifandi list. Þá má líka segja, að félagsheimilin séu tekin að rækja raunverulegt menningarhlutverk, en slíkt hlýtur að vera tilgangurinn með byggingu þeirra, þótt þeir möguleikar, sem þannig hafa skapazt, hafi engan veginn verið hagnýttir sem skyldi enn sem komið er. Ég vil eindregið æskja þess, að hv. fjvn. taki til athugunar milli umræðna efni þessarar síðustu till. minnar. í trausti þess, að það verði gert, mun ég taka till. aftur til 3. umr.