22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (2620)

184. mál, sjómannatryggingar

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. í sambandi við ábendingar hv. 5. þm. Austf. um, að erfitt mundi vera að samræma þær tryggingar, sem hér um ræðir, vil ég geta þess, að fyrir okkur flm. vakir ekki það, að sjúkrasamlagstryggingin, sjúkrasjóðirnir og atvinnuleysistryggingin kæmu undir þá heildartryggingu. sem við erum með í huga, heldur aðeins þær tryggingar, sem taldar eru upp í grg. og gerð sérstök grein fyrir. Við gerum okkur að sjálfsögðu alveg ljóst, að það mundi ekki framkvæmanlegt og kannske ekki eðlilegt að blanda þessum sjóðsframlögum, sem útgerðarmenn greiða fyrir áhafnir, saman við þær beinu tryggingar, sem þeir annaðhvort lögum samkv. eru skyldaðir til að kaupa eða hafa bundið sig til að kauna samkv. samningum við viðkomandi stéttarfélög.

Ég fyrir mitt leyti hef síður en svo nokkuð á móti því, þó að einnig kæmu inn í þessa nefnd fulltrúar frá samtökum sjómanna. Ástæðan fyrir því, að það var ekki tekið með, var sú, að við tökum það alveg skýrt fram í grg., að það er ekki ætlazt til þess, að í nokkru tilliti yrði gengið á rétt sjómanna í sambandi við það, ef tryggingarnar yrðu færðar í eina heildartryggingu, þeirra tryggingar verði ekki að neinu lækkaðar og í engu tilliti skertar. En greiðslur fyrir þessar tryggingar eru allar inntar af hendi af útgerðinni, og má vera, að það hafi valdið því, að við tókum ekki inn í till. einnig fulltrúa frá sjómannasamtökum, en fyrir mitt leyti sé ég ekkert við það að athuga.

Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Austf., ræddi hér þá hlið þessa máls, sem eru hinar frjálsu tryggingar, og taldi, að útgerðarmönnum væri að sjálfsögðu frjálst að koma þeim fyrir á þann hátt, sem þeir teldu hagkvæmast. Þetta er alveg rétt, og skal ég fúslega viðurkenna það. En það, sem fyrir okkur vakir, er, að útgerðarmenn eigi aðgang að einni heildartryggingu, sem fullnægi og uppfylli öll þau skilyrði, sem hinar mörgu tryggingar, sem nú hvíla á útgerðinni í þessu sambandi, gera, þannig að þetta yrði fyrst og fremst að því leyti til hagræðis fyrir útgerðina að þurfa ekki að greiða iðgjöld nema í einn stað fyrir þær fimm tryggingar, sem hún nú greiðir iðgjöld fyrir, fyrir utan tillag til hinna þriggja sjóða, sem ég gat hér um áðan, og annað og ekki síður, sem við teljum, að ef slíkri heildartryggingu yrði komið á, þá mundi vera hægt að lækka þau iðgjöld, sem nú eru greidd fyrir hinar fimm mismunandi tryggingar. Það er þetta tvennt, sem fyrir okkur vakir, eins og fram kemur í grg., að tryggingarnar verði gerðar einfaldari í framkvæmd og reynt að gera þær ódýrari, ef þess er nokkur kostur, með einni heildartryggingu, sem yrði þá annaðhvort í höndum hins almenna tryggingakerfis, almannatrygginga, eða þá tryggingin í heild yrði boðin út á frjálsum markaði.