13.05.1964
Sameinað þing: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (2624)

184. mál, sjómannatryggingar

Frsm. (Jón Arnason):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er á þskj. 344, og er efni hennar sem hér segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd, sem athugi til hlítar, hvort ekki sé unnt að breyta núverandi sjómannatryggingum í eina heildartryggingu. N. verði skipuð tveimur tryggingafræðingum og einum manni eftir tilnefningu Landssambands ísl. útvegsmanna. Jafnhliða verði athugað, ef slík breyting telst framkvæmanleg, hvort ekki sé grundvöllur fyrir, að heildartryggingin verði boðin út á frjálsum markaði.“

Eins og fram kom hjá 1. flm. þáltill. við framsögu fyrir málinu, er það ætlun flm. og við það átt, að athugað verði til hlítar, hvort ekki sé unnt að sameina hinar ýmsu sjómannatryggingar, aðrar en þær, sem nú eru á vegum hins almenna tryggingakerfis, í eina heildartryggingu. Svo sem kunnugt er, hafa þessi mál nú á hinum síðari árum þróazt mjög í þá átt, að tryggingunum hefur fjölgað, en það hefur gert málið allt flóknara í framkvæmd, og í sumum tilfellum hefur það jafnvel leitt til þess, að hinar ýmsu tryggingar hafa gripið inn á svið hver annarrar, með þeim afleiðingum, sem eðlilegt er, að öll framkvæmdin verður dýrari en elta hefði þurft, ef meira samræmis hefði gætt. Samkv. upplýsingum, sem fram koma í grg. fyrir till. þessari, er talið, að samtals nemi iðgjöld trygginganna um 85 þús. kr. fyrir 9 mánaða úthald, og er Þá miðað við 11 manna áhöfn.

Fjvn. var á einu máli um að samþykkja efni till., eins og fram kemur í nál., en leggur þó til, að sú breyting verði gerð á um skipun n., að hún verði skipuð 5 mönnum í stað 3 og að þeir verði tilnefndir eins og þar segir: einn tryggingafræðingur, tilnefndur af ráðh., og hinir fjórir tilnefndir af L.Í.Ú., Sjómannasambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, einn maður frá hverjum aðila.

Með till. þessari er fyrst og fremst stefnt að tvennu: í fyrsta lagi að gera tryggingarnar einfaldari og þá með því að sameina þær í eina heildartryggingu, og í öðru lagi er það trú flm., að með þeim hætti mætti ná hagstæðari kjörum og fá tryggingarnar keyptar með ódýrara verði. Um tvennt er að velja, annaðhvort að fela hinu almenna tryggingakerfi landsmanna tryggingarnar, allar þær tryggingar, sem hér um ræðir og þar eru ekki þegar fyrir, gegn einu ákveðnu gjaldi, eða þá að tryggingar þessar verði boðnar út á frjálsum markaði sem ein heildartrygging. Hvor leiðin sem farin yrði, eftir að athugun þessi hefur átt sér stað, er þess að vænta, að niðurstaðan leiði til þess, sem að er stefnt, einfaldari framkvæmdar trygginganna og ódýrari iðgjalda.