13.05.1964
Sameinað þing: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (2636)

193. mál, meðferð dómsmála

Frsm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur athugað þáltill. þá, sem hér um ræðir, á þskj. 388, og orðið sammála um að mæla með samþykkt hennar. Efni till. er, að hæstv. dómsmrh. láti rannsaka, á hvern hátt muni kleift að hraða rekstri og afgreiðslu dómsmála hér á landi og að gera að þessari rannsókn lokinni annaðhvort viðeigandi ráðstafanir eða leggja till. um það efni fyrir Alþingi, eftir því sem niðurstaða athugunarinnar leiðir í ljós.

Það er að sjálfsögðu mjög nauðsynlegt öllum mönnum að fá ekki aðeins réttláta, heldur einnig skjóta meðferð mála sinna, hvort sem um einkamál eða opinber mál er að ræða. Óhæfilegur dráttur í meðferð dómsmála getur valdið hlutaðeigandi aðilum miklu tjóni og óhagræði, og þegar um refsimál er að ræða, er það alkunnugt, að rannsóknirnar og meðferð málsins eru oft fullt eins mikil þrautatíð fyrir þann, sem í hlut á, eins og jafnvel refsitíminn sjálfur. Þess vegna er ástæða til þess að leggja áherzlu á, að meðferð dómsmála sé hraðað eins og föng eru á.

Hér á landi áður fyrr var það löngum nokkuð landlægur siður, að öll meðferð mála fyrir dómstólum tók langan tíma. Það átti öðru fremur rót sína að rekja til þess, að hér giltu gamlar og úreltar réttarfarsreglur, sem við bjuggum við lengi fram eftir öldum. Á síðustu áratugum hafa verið sett ný lög um þessi mál, eins og kunnugt er, bæði um meðferð opinberra mála og um meðferð einkamála og um hæstarétt. Af þessum nýju lagasetningum hefur auðvitað leitt miklar breytingar til bóta, og þessi mál eru nú ólikt betur á vegi stödd en áður var. Þó vantar enn nokkuð á, til þess að sagt verði, að dómgæzlan sé í fullkomnu lagi. Enn þá munu a.m.k. sumir málaflokkar dragast nokkuð lengi í afgreiðslu, og þar gætir nokkurs seinagangs. Einnig er þetta talsvert misjafnt eftir embættum, og getur margt til komið, skortur á starfsliði m. a., óhagkvæmar aðstæður að öðru leyti o.s.frv. En enn þá mun það ekki dæmalaust, að málsmeðferð fyrir héraðsdómi standi yfir jafnvel árum saman. Þegar svo þar við bætist meðferð málsins fyrir hæstarétti, sem oft tekur einnig nokkuð langan tíma, þá er sýnt, að biðin eftir úrslitunum getur orðið nokkuð löng og lengri en æskilegt væri. Þess vegna er nauðsynlegt að finna á máli þessu þá heppilegustu lausn, sem föng eru á, og því mun þessi till. vera flutt. Fyrri flm. hennar er maður, sem þessum málum er mjög nákunnugur, hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson.

Með hagkvæmri lausn þessa máls mundi í fyrsta lagi vinnast verulegt hagræði fyrir alla þá, sem mál eiga að sækja eða verja fyrir dómstólum, og í öðru lagi aukin virðing almennings fyrir lögum og rétti, en hennar er vissulega full þörf, ekkert síður nú á tímum en oft áður.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta. Till. skýrir sig sjálf og er að okkar dómi í allshn. eðlileg og sjálfsögð. Þess vegna er mælt með, að hún verði samþykkt.