22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (2639)

188. mál, áfengisvandamálið

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum var birt skýrsla barnaverndarnefndar Reykjavíkur, þar sem m.a. var frá því skýrt, að fjöldi heimila væri undir stöðugu eftirliti barnaverndarnefndar vegna óreglu annars hvors eða beggja foreldra. Upplýsingar sem þessar hljóta að sjálfsögðu að setja ugg að öllum, sem á hlýða. En því miður er þetta þó aðeins einn angi af því stóra vandamáli, sem er í sambandi við áfengisnautn meðal okkar þjóðar. Um þetta vandamál út af fyrir sig mætti flytja langt mál, en það mun ég ekki gera, enda fullvíst, að öllum hv. þm. er mætavel kunnugt um fjölmarga liði þessa vanda, og ég veit, að þeir munu allir gera sér grein fyrir því, að hér erum fullkomið öngþveitismál að ræða í mörgum greinum og Það er hin mesta þjóðarnauðsyn, ef auðið væri að finna einhver úrræði til þess að lækna þann mikla vanda og það mikla böl, sem við er að stríða á þessu sviði í okkar litla þjóðfélagi.

Nú munu menn auðvitað segja, að það hafi verið reyndar ótal leiðir í þessu efni. Við höfum reynt áfengisbann, við höfum reynt áfengisskömmtun. Það hafa verið starfandi bindindissamtök um áratugi, og margvísleg löggjöf hefur verið sett á hinum ýmsu tímum til þess að reyna að bæta úr þessum vanda, og þrátt fyrir það hefur vandinn sízt minnkað og jafnvel á ýmsum sviðum vaxið. Allt er þetta vissulega rétt. En ég held, að enginn muni þó vera Þeirrar skoðunar, að við getum gefizt upp í sambandi við allar tilraunir til þess að finna einhver ný úrræði til lausnar þessu mikla vandamáli, heldur verði að einbeita kröftum að Því að reyna að finna nýjar leiðir eða að reyna a.m.k. að fara hinar troðnu slóðir með einhverjum öðrum hætti en gert hefur verið. Og þetta er ástæðan fyrir því, að ég hef leyft mér að flytja þá till., sem hér er til umr. nú.

Eins og ég áðan sagði, hafa um áratugabil margvislegir aðilar unnið að því að vinna gegn óhæfilegri notkun áfengis í landinu, og því er ekki að leyna, að oft og tíðum hefur manni virzt, að þessi barátta væri vonlítil eða vonlaus, og vafalaust margir látið hendur falla í skaut í því sambandi. En hins vegar ber þó mjög að virða þrautseigju margra þeirra, sem að úrlausn vandans hafa reynt að vinna og stuðla að því að bæta úr þessu böli með einhverjum hætti, bæði með því að hjálpa þeim, sem hafa orðið því að bráð, og eigi síður til þess að reyna að girða fyrir það, að menn falli í þetta fen, ekki hvað sízt unglingar, en því miður er því ekki að neita, að einmitt sú hlið vandans hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum. Og það má segja, að eftir að jafnmikið fór að bera á áfengisnautn kvenna annars vegar og nú síðast unglinga og það oft og tíðum óharðnaðra unglinga, hafi þetta vandamál færzt inn á nýtt svið og orðið miklu alvarlegra en áður var, meðan það voru þó karimennirnir einir, sem þessa nautn stunduðu.

Ég skal ekki fara út í þá sálma hér að ræða um einstök úrræði til þess að mæta þessu vandamáli. Auðvitað vitum við öll, að meginorsakar almenns drykkjuskapar er að leita í því, að almenningsálitið er mjög óheilbrigt í sambandi við áfengisnotkun og sorglega mikið andvaraleysi ríkjandi í þeim efnum. Auðvitað viðurkenna allir, að það sé mikið böl, þegar menn verða áfenginu að bráð, og ekki hvað sízt munu allir vera sammála um þá ógæfu, sem því fylgir, þegar óharðnaðir unglingar verða fórnarlömbin. En hins vegar höfum við alltaf og stöndum enn í dag andspænis því mikla vandamáli, að almennt vili fólk ekki snúast gegn áfengisnautninni og hún er enn þá í það miklum hávegum höfð í félagslífi fólks, veizluhöldum og jafnvel talið, að viðhlítandi veizlu sé ekki hægt að halda án þess að hafa þar áfengi um hönd. Meðan slíkur hugsunarháttur er fyrir hendi, er að sjálfsögðu mjög erfitt við þetta mál að ráða. Hins vegar gerast þó oft atvik, sem verða þess valdandi, að allir rumska, svo sem hefur átt sér stað í sumum tilfeilum, þegar almenn hneykslunartilfelli hafa orðið, eins og í sambandi við víðtækan drykkjuskap unglinga, og jafnvel hefur gengið svo langt, að sérstök nefnd hefur verið sett á laggirnar til þess að rannsaka einstök tilfelli í því efni, eins og átti sér stað um hið fræga Þjórsárdalsmál á sínum tíma. Allt er það gott og blessað að taka fyrir þessi einstöku vandamál í sambandi við áfengisbölið. En þetta leysir þó alls ekki þann meginvanda, sem við er að glíma. Hann er enn þá óleystur að öllu verulegu leyti. Nú vitum við það, að þessu máli er víða mjög mikill gaumur gefinn. Það eiga flestar þjóðir, a.m.k. svokallaðar menningarþjóðir, við þetta vandamál að stríða og það sumar í mjög ríkum mæli, og mönnum hefur orðið það ljósara, eftir því sem tíminn hefur liðið, að hér er nauðsyn sérstakra þjóðfélagsaðgerða, og í mörgum löndum er nú vísindalega unnið að því að rannsaka orsakir þessarar meinsemdar, bæði einstaklingsbundnar og þjóðfélagslegar, og leitazt við að finna á þann hátt haldbær úrræði til þess að berjast gegn þessu alvarlega vandamáli. Einnig við verðum að sjálfsögðu að fara inn á þessar brautir og það auðvitað verður að vera öllum ljóst, að hér erum vandamál að ræða, sem verður að íhuga hleypidómalaust á allan hátt.

Það hefur stundum verið borið á þá, sem að bindindismálum hafa unnið, að þeir væru ofstækisfullir í sambandi við viðhorf sitt til áfengisnautnar. Þetta kann vel að vera. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er eðlilegt, að þeir menn, sem berjast gegn vandamáli og böli sem þessu, verði í rauninni í mörgum tilfellum það sem menn kalla ofstækisfullir, þegar þeir kynnast til hlítar, hversu alvarlegu viðfangsefni er hér að mæta, og sjá hins vegar það almenna andvaraleysi, sem oftast nær er á hina hliðina í sambandi við lækningu vandans.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að Það verði kosin nefnd 7 alþm. til þess að framkvæma ýtarlega athugun á ástandi í áfengismálum þjóðarinnar, bæði eðli og orsökum þessa mikla vanda, og jafnframt sé nefnd þessari ætlað að kynna sér starfsemi áfengisvarna, starfsemi bindindissamtaka og taka til íhugunar alla gildandi löggjöf um áfengismál á viðtækum grundvelli. Hlutverkið, sem nefnd þessari er ætlað, er að sjálfsögðu viðtækt og víðtækara en ég hygg að nokkurn tíma hafi verið sett niður nefnd til að fjalla um þetta vandamál. Það er þó kannske ekki sérstaks eðlis eða ástæða til þess að útskýra það nánar. Hitt mun sennilega undra hv. þm. nokkuð, að hér er lagt til, sem má teljast nokkuð einstætt, að kjörin sé nefnd alþm. sérstaklega til þess að fjalla um þetta mál. Nefndir þær, sem hingað til hafa um þetta fjallað, t.d. við undirbúning áfengislaganna 1954, voru skipaðar af ríkisstj. á sínum tíma, Þannig að Þessi braut, sem hér er farið inn á, er ekki aðeins varðandi þetta mál, heldur almennt mál hér í þingi, nokkuð sérstæð. En ástæðan til þess, að ég fer þessa leið, er fyrst og fremst sú, að ég tel, að hér sé um svo viðtækt þjóðfélagsvandamál að ræða og einmitt vandamál, sem Alþingi hafi ekki almennt gefið nægilega mikinn gaum, og ég álít það mjög æskilegt allra hluta vegna, að það verði alþm. og það alþm. úr öllum flokkum þingsins, sem framkvæmi þessa athugun og reyni að kynna sér vandamálið til hlítar, og ekki hvað sízt tel ég það æskilegt, af því að n. er einnig ætlað að athuga, hvernig reynzt hafa þær aðgerðir, sem þingið sjálft hefur á undanförnum árum lagt drög að, svo sem t.d. áfengisvarnirnar, sem ákveðnar voru síðast, og stofnun áfengisvarnaráðs með áfengislögunum 1954, og enn fremur, að ætlunin er, að þessi nefnd kynni sér starfsemi hinna ýmsu bindindissamtaka og þá að sjálfsögðu einnig bindindisfræðslu og ótalmargt annað, sem hér kemur til greina. Það er því mjög æskilegt, að það sé sem hlutlausastur aðili, sem þessa athugun framkvæmir, og ég sé ekki, að það sé til nein æskilegri leið í því efni en að það séu þm. sjálfir, sem taki á sig þá kvöð að reyna að kynna sér þetta til hlítar. Ég efast ekkert um, að bindindissamtökunum er ekki nema þökk í því, að slíkur aðili kynni sér þeirra starfsemi. Þau verða oft fyrir hnútukasti og því haldið fram, að Þau vinni ekki skynsamlega að þessum málum og geri ekki nógu mikið, og ég tel einnig nauðsynlegt, að sú hlið málsins sé athuguð til hlítar. Fjöldi nm. er beinlínis ákveðinn með hliðsjón af því, að allir þingflokkar geti hér átt hlut að máli. Hér er ekki um pólitískt mál að ræða, heldur, eins og ég áðan sagði, mjög víðtækt og alvarlegt þjóðfélagsvandamál, sem mér finnst ekki auðið fyrir Alþingi að reyna ekki að taka ákveðnari og fastari tökum en gert hefur verið til þessa.

Þetta er meginefni míns máls, herra forseti, og ég sé ekki ástæðu til, nema frekara tilefni gefist, að ræða málið frekar í einstökum atriðum, en vil leyfa mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. visað til síðari umr. og hv. allshn.