16.12.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

1. mál, fjárlög 1964

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það væri að sjálfsögðu ærin ástæða til þess að ræða hér nokkuð um þá fjármálastefnu, sem þetta frv. ber vitni um, en ég mun þó sleppa því að þessu sinni, enda síður þörf vegna þess, að þetta var mjög rækilega gert af hv. frsm. 1. minni hl. fyrr við þessa umr. Ég mun þess vegna láta nægja að þessu sinni að mæla stuttlega fyrir tveimur brtt., sem ég hef lagt fram við frv.

Fyrri brtt. er á þskj. 144, og eru flm. að henni ásamt mér 3 þm. aðrir. Þessi till. fjallar um það að hækka framlagið til skálda, rithöfunda og listamanna úr 2.1 millj. kr. í 3.5 millj. kr. Samhljóða till. þessari fluttum við sömu þm. á seinasta þingi, en þá náði hún ekki fram að ganga, þ.e.a.s. um þessa sömu upphæð. Síðan þá hefur orðið mikil hækkun á framfærslukostnaði í landinu, og einnig, eins og þessi fjárlög bera merki um, mikil hækkun á framlögum ríkisins til flestra mála, og þess vegna ekki óeðlilegt, að veruleg hækkun verði á þessu framlagi, og það því frekar sem það hefur mjög dregizt aftur úr öðrum framlögum á undanförnum árum. Nauðsyn þess að búa sem bezt að skáldum og listamönnum þjóðarinnar tel ég ekki þörf að ræða, vegna þess að hún er áreiðanlega öllum þm. ljós. Ég tel þetta svo augljóst mál, að ég mun ekki ræða það frekar að sinni.

Ég kem þá að annarri brtt., sem ég flyt og er á þskj. 150. Þessi till. fjallar um það að hækka styrkinn til Þjóðvinafélagsins úr 10 þús. kr. í 250 þús. kr., og vil ég fara um það nokkrum orðum.

Hér í þessum sal er mynd af manni, þeim manni, sem Alþ. virðir tvímælalaust mest allra þeirra, sem hér hafa átt sæti. En það má líka í því sambandi rifja það upp, að þessi maður, Jón Sigurðsson, bar mikið traust til Alþ. og sýndi það á margan hátt. Ef til vill hefur hann kannske sýnt það einna ljósast á þann hátt, að þegar hann var kominn á efri ár, þá beitti hann sér fyrir stofnun félagsskapar, Þjóðvinafélagsins, sem hann ætlaði að vinna að ýmsum merkum þjóðnytjamálum og ekki sízt á þann hátt að gefa út ýmsar bækur, alþýðlegar fræðslubækur, sem mættu vera þjóðinni til upplýsingar og stuðnings á mörgum sviðum. Og Jón Sigurðsson taldi, að þessi félagsskapur, sem hann hafði svo mikinn áhuga á, yrði bezt tryggður á þann hátt, að í stað þess að hann yrði starfræktur eins og önnur félög í landinu, þá yrði Alþ. sjálfu falið að vera þetta félag, og þess vegna kom hann því þannig fyrir, að Þjóðvinafélagið varð Alþingi, þ.e.a.s. Alþ. tók það að sér fyrir hans forustu að vera Þjóðvinafélagið. Og þar með taldi hann tryggt, að þetta félag gæti starfað þannig í framtíðinni eins og hann hafði ætlað því. En hvernig hefur nú Alþ. brugðizt við þessu trausti, sem Jón Sigurðsson sýndi því? Jú, það er að vísu haldinn hér öðru hverju þingfundur, sem er kallaður aðalfundur Þjóðvinafélagsins, en sá fundur er eingöngu fólginn í því, að form. félagsins gefur hér skýrslu um störf þess, sem eru nánast sagt engin, eins og nú er komið. Og það er líka ekki óeðlilegt, þegar litið er á þá fjárveitingu, sem Alþ. veitir til þessa félagsskapar, því að eins og fjárlögin. bera með sér, þá eru það 10 þús. kr., sem Alþ. veitir nú árlega til starfsemi Þjóðvinafélagsins. Og það þarf ekki að rekja það, að fyrir þetta fjármagn er ekki hægt að leysa mikið starf af höndum.

Ég tel, að það sé skylda Alþ. við Jón Sigurðsson og til þess að það sýni sig verðugt því trausti, sem hann sýndi því á sínum tíma, þegar hann fól því að vera Þjóðvinafélagið, að það geri betur við þetta félag en átt hefur sér stað á undanförnum áratug, enda er það líka víst, að þetta félag getur enn átt mörg merk og nauðsynleg verk að vinna, ekki síður en á þeim tíma, þegar það var stofnað af Jóni Sigurðssyni, og þó sérstaklega ef það héldi áfram að starfa í þeim anda, sem hann ætlaði því á sínum tíma.

Það er í samræmi við það, sem ég hef nú sagt, að ég hef lagt til, að þessi fjárveiting til Þjóðvinafélagsins verði hækkuð úr 10 þús. kr. í 250 þús. kr., og ég tel það hreina lágmarksupphæð, til þess að Alþ. ræki þá skyldu, sem á því hvílir í þessum efnum við þann mann, sem hefur verið þess merkasti foringi.