22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (2640)

188. mál, áfengisvandamálið

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vit lýsa yfir fylgi mínu við þessa till. Ég tel, að hér sé tekið á máli, sem mikil þörf er að leyst verði, því að það vandamál, sem hér um ræðir, drykkjuskaparvandamálið, fer að mínum dómi ört vaxandi. Það er mun meira vandamál nú en það var fyrir aðeins örfáum árum. Og ég held, að það hafi verið alveg rétt hjá flm. þessarar till. að leggja einmitt til, að í þessa nefnd skuli eingöngu kosnir alþm. og stefnt að því að sjá um, að alþm. úr öllum flokkum geti átt kost á því að taka þátt í þessari undirbúningsrannsókn, sem gert er ráð fyrir að fram fari samkv. þessari till. Það kann vel að vera, að það fari nú með þessa nefndarskipun eins og sumar aðrar, sem átt hafa sér stað um svipuð málefni og þetta, að árangurinn verði ekki sem skyldi. En ég held þó, að það sé miklu meiri von til þess, að hægt sé að fá réttan skilning hér á Alþingi á því, hvað nauðsynlegt er að gera í þessum vandamálum, ef það mætti takast að fá a.m.k. 7 alþm. til að rannsaka þessi mál niður í kjölinn og reyna að gera sér á raunhæfan hátt grein fyrir því, hvað hægt er að gera til úrbóta í þessum efnum. Þessu hefur nefnilega þannig verið varið nú um langan tíma, að hér á Alþingi viðurkenna velflestir a.m.k., að drykkjuskaparvandamálið sé mikið vandamál og það þurfi að gera ráðstafanir til þess að reyna að draga úr drykkjuskap í landinu. Þetta er viðurkennt með almennum orðum, en hins vegar hefur mér fundizt, að þegar komið hefur að því að taka nokkuð raunhæft á málinu, þá hafi allt of margir viljað skjóta sér undan, þá hafi menn í mesta lagi verið fúsir til að setja nefnd, einhverra utanþingsmanna helzt af öllu, til þess að kíkja í málið, og þá hefur það fengið að dúsa í þeirri nefnd furðulengi og heldur lítið reyndar tekið síðan upp á Alþingi aftur af þeim till., sem kunna að hafa komið fram í viðkomandi nefnd.

Það var ekki ætlun mín við þessa umr. málsins að fara að telja hér upp nein úrræði eða neitt af því, sem ég tel að kæmi til mála að gera í þessum málum. En ég hlýt þó að benda á, að það er nauðsynlegt að þora að gera vissar ráðstafanir, sem kunna e.t.v. að mæta nokkurri andspyrnu í byrjun, ef maður á að ná nokkrum árangri í þessum efnum. Fyrir nokkrum árum var t.d. leitað eftir því hér til Alþingis að heimila allmiklu fleiri útsölustaði á áfengi en áður hafði verið leyft. Þá var farið fram á það, að velflest samkomuhúsin hér í höfuðstaðnum fengju aðstöðu til þess að selja gestum sínum áfengi. Og því var þá mjög haldið fram, að þetta ætti að verða til þess að aflétta ýmsum ófögnuði, sem áður hafði verið samfara því, að það var óheimilt að hafa áfengi um

hönd á þessum samkomustöðum. Þá var mikið um það talað, að það þyrfti að leggja af slíkan óvanda eins og þann, að menn væru á alls konar pukurslegan hátt að koma með áfengi inn á þessa samkomustaði, og allt átti síðan að fara fram með miklu betri hætti, eftir að þessir samkomustaðir hefðu fengið formlegt og lagalegt leyfi til þess að selja áfengi. Auðvitað gat engum manni blandazt hugur um það á þessum tíma, að það, sem lá á bak við þessar óskir, var, að forráðamenn þessara samkomustaða voru að búa í haginn fyrir sig fjárhagslega. Þeir vildu fá aðstöðu til þess að geta haft nokkurn hagnað af því að selja áfengi. Og í ýmsum tilfellum höfðu þessir aðilar beinlínis viðurkennt það, að þeir stæðu nokkuð höllum fæti með reksturinn á sínum samkomustöðum í samkeppni við þann eina stað hér í bænum, sem þá hafði leyfi til áfengissölu. Alþingi lét undan í þessum efnum og hefur á þann hátt skapað, t.d. í samkomuhaldi í landinu, Þeim aðilum, sem veita áfengi, sérstakan forgangsrétt eða sérstaka aðstöðu fjárhagslegs eðlis fram yfir aðra staði eða önnur samkomuhús, sem hafa ekki leyfi til þess að selja áfengi. Ástandið er því raunverulega þannig nú, að frá löggjafans hálfu eru þau samkomuhús í landinu, sem selja áfengi og vinna að því að dreifa því út, verðlaunuð, en hinir samkomustaðirnir bera sig eins og hinir gerðu áður, bera sig illa undan því, að þeir hafa ekki samkeppnisaðstöðu við þessa. Ég mundi auðvitað í þessum tilfellum vilja leggja það til um allmarga samkomustaði, sem nú hafa heimild til vínsölu, að þessi heimild yrði af þeim tekin, því að ég álít, að á almennum samkomustöðum eigi ekki að fara fram vinsala. En hitt kæmi þó vissulega til greina líka, að styrkja og styðja þá samkomustaði alveg sérstaklega, sem halda uppi samkomum, án þess að þar sé haft vín um hönd. Ég veit um forustumenn, sem stjórna samkomuhaldi hjá vissum félagsheimilum, sem höfðu beinlínis sett sér þær reglur, að þeir skyldu ekki heimila neinar þær samkomur, sem mættu flokkast undir drykkjumannasamkomur, í þeim húsakynnum. En reynslan sýndi þeim það, að þá átti svo að segja að einangra þessa samkomustaði, þeir áttu að verða skágengnir, ef þeir settu þarna upp strangar reglur. Þá voru þeir ekki taldir samkeppnisfærir við hina, sem höfðu alveg lausan tauminn í þessum efnum. Nei, það kæmi vissulega til greina, að þær ráðstafanir yrðu gerðar í sambandi t.d. við samkomuhald, að þeir staðir, sem stæðu fast á því, að þar væri ekki vín haft um hönd, nytu alveg sérstaks stuðnings hins opinbera. í slíkum ráðstöfunum kæmi fram vilji opinberra aðila til þess að reyna að hafa áhrif á gang málanna.

Ég held líka, að það sé alveg nauðsynlegt að taka með allt öðrum hætti á drykkjuskaparafbrotum ýmsum en gert er. Nú ber allt of mikið á því, að ýmiss konar brot séu beinlínis afsökuð með því, að viðkomandi hafi verið drukkinn, og hann fái linari dóm að ýmsu leyti í slíkum tilfellum, og það ber allt of mikið á því, að opinberir starfsmenn, t.d. beint á vegum opinberra aðila, komist hreinlega upp með það að brjóta settar reglur í störfum sínum einmitt í sambandi við drykkjuskapinn. Ef einarðlega yrði tekið á slíkum atriðum, held ég, að það gæti haft allmikið að segja.

Ég skal svo ekki hér fara að ræða þetta mál á víðum grundvelli, en vil aðeins segja það, að ég styð eindregið þá till., sem hér er flutt. Ég held, að það sé kominn meira en tími til þess, að Alþingi sjálft rannsaki þetta mál og það ýtarlega og reyni að gera sér grein fyrir því, hvað helzt er tiltækilegt að gera til þess að draga verulega úr vaxandi drykkjuskap, sem tvímælalaust er að mínum dómi í landinu, því að ég held, að það sé enginn vafi á því, að drykkjuskaparóregla hefur farið í vöxt hin síðari ár, svo að það er sannarlega tími til kominn að reyna að reisa þar skorður gegn.