13.05.1964
Sameinað þing: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (2646)

188. mál, áfengisvandamálið

Frsm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Allshn. mælir með samþykkt þáltill. á þskj. 372. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 573, er þáltill. þessi flutt af 6. þm. Norðurl. e., Magnúsi Jónssyni. Það er ekki ástæða til þess að ræða ýtarlega það mál efnislega, sem hér er til umr., eða vandamálið sjálft, þar eð hv. alþm. hafa á yfirstandandi þingi, bæði hér í SÞ. og einnig í hv. Nd., rætt áfengisvandamálið í sambandi við þau frv. til l. og þáltill., er fyrir liggja. Mig langar þó að tefja umr. nokkuð með fáum orðum.

Ég geri ráð fyrir, að meira hafi verið rætt um áfengisvandamálið, bæði í þingsölum og utan þeirra, á yfirstandandi þingi en oft áður, þegar undan eru skilin þau þing, er sett hafa ný áfengislög, eins og gert var á þinginu 1933 og þegar mikilsvarðandi endurskoðun á áfengisl. var gerð 1953-1954. En hver er ástæðan? þjóðin var vakin til allalvarlegrar umhugsunar um þessi mál fyrir tæpu ári með Þjórsárdalsslysinu. Ég ætla ekki að fara að ræða það hér né þau viðbrögð, er hæstv. menntmrh, hafði, og þær ráðstafanir, er hann gerði í samráði við hæstv. dómsmrh., enda hefur það komið fram í þskj. Ég álit, að í þessum efnum gerist mörg Þjórsárdalsslys og fæst Þeirra komi á vit almennings. — Er það ekki Þjórsárdalsslys, þegar stúlkum á gagnfræðastigi er visað úr skóla vegna ölvunar, eins og skýrt var frá í einu dagblaði í vetur? Eða er það ekki Þjórsárdalsslys, þegar ungum mönnum er vísað úr menntaskóla vegna ölvunar, eins og komið mun hafa fyrir í vetur? Að nota Þjórsárdalinn, þennan fagra og friðsæla stað, í þessu líkingamáli er e.t.v. ekki rétt. Á þeim fagra stað hafa margir notið hins glæsta útsýnis og þeirrar stórfenglegu náttúrufegurðar, sem þar gefur að líta. Þjórsárdalurinn er sá friðar- og fegurðarreitur, er líkja mætti við æsku- og uppvaxtarár hvers manns.

Mér hefur lengi verið minnisstæð setning, er einn mikill skólafrömuður sagði fyrir mörgum árum í blaðaviðtali: „Gefðu mér barnið frá 7-10 ára.“ Ég skildi ummæli þessa mikla skólamanns þannig, að ef hann fengi að leggja grunninn að námsferli barnsins á réttum tíma, væri vel séð fyrir framhaldinu. — Er það ekki einmitt fræðsla um áfengismál, sem við verðum að leggja meiri rækt við? Ég tel, að hlutlausa fræðslu um áfengismál þurfi að auka stórlega í skólum landsins, en að því er ég bezt veit, er það aðeins einn dag á ári, 1. febr., sem skólunum er gert að skyldu að fræða nemendur sérstaklega um þessi mál. Ef ungmennum á aldrinum 12—18 ára, sem eru innan dyra skólanna, væri veitt skipuleg og hlutlaus fræðsla um áfengisnotkun og áhrif áfengis á líkama og sál mannsins, þá tel ég, að skapast mundi sú sjálfsvirðing hjá unglingunum, er sérstaklega þyrfti að leggja áherzlu á. Sömuleiðis þarf að vekja þá ábyrgðartilfinningu, er hver einstaklingur verður að hafa á sjálfum sér og sinni framtíð á þessu sviði sem öðrum.

Skoðun mín er sú, að hin tápmikla æska, sem landið byggir og hefur betri skilyrði til auðugra lífs í landinu en nokkru sinni fyrr, muni ekki bregðast hlutverki sínu, hvorki í þessum efnum né öðrum, ef okkur, sem fullorðnir erum, foreldrum, öðrum uppalendum og forráðamönnum skóla tekst að búa svo að æsku og ungmennum þessa lands, að þau þurfi ekki að leita á náðir Bakkusar, svo sem því miður virðist vera allt of algengt. Félagsskapur og sá jarðvegur, sem unglingurinn vex upp í, ræður miklu um afstöðu ungmenna til þessara mála. Almenningsálitið verður að koma þeim til hjálpar, sem gæta eiga settra laga í þessum efnum hverju sinni.

Þegar ég fór að athuga um framsögu fyrir hönd hv. allshn. um þetta mál, fékk ég gefnar upp nokkrar tölur, sem ég vil skýra frá.

Sala áfengisverzlunar ríkisins nam á árinu 1955 89.2 millj. kr., en á s.l. ári nam salan rösklega þrisvar sinnum hærri upphæð, 277.6 millj. kr. Tölur þessar gefa að sjálfsögðu ekki rétta hugmynd um aukningu áfengisneyzlunnar á þessu tímabili vegna þeirrar miklu hækkunar, sem orðið hefur á áfengi. Áfengisneyzlan á árinu 1955 var 1.45 lítrar af 10% áfengi á hvert mannsbarn í landinu, en á s.l. ári eða árið 1963 var neyzlan rúmlega 33% hærri eða 1.93 lítrar af 100% áfengi á hvert mannsbarn. Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu um áfengisnotkun landsmanna aftur til ársins 1881, en að vísu er það meðaltal 5 ára tímabila til ársins 1950. Skýrsla þessi sýnir, að árið 1963 er áfengisneyzla landsmanna mest á þessari öld. Við verðum að fara aftur til tímabilsins 1896–1900 til þess að fá sambærilega tölu, eða 1.96 lítra á mann. Ef við lítum á árið 1935, sem var fyrsta heila árið eftir að sala sterkra drykkja var leyfð á ný, var neyzlan 0.90 lítrar á mann, en árið 1963 rúmum 114% hærri. Á tímabilinu 1936-1940 var meðalneyzlan 0.88 lítrar á mann á ári, en s.l. ár var hún rúmum 119% hærri en meðaltal fyrrnefnds tímabils. Mér virðist, að hér séu mjög athyglisverðar tölur, er sýna, að áfengisneyzla landsmanna er orðin ískyggilega há og þörf muni vera mikilla almennra aðgerða.

Það er vissulega íhugunarefni, að það var einmitt á tveimur síðustu tugum nítjándu aldarinnar, að áfengisneyzlan er sambærileg við líðandi stund. Nefnd sú, er kosin verður af þinginu, ef till. verður samþykkt, má íhuga, að aðrar ástæður lágu til grundvallar þeirri miklu neyzlu, hin mikla örbirgð landsmanna mun hafa ráðið miklu. Nú ræður velsæld mestu, og áberandi er, að kvenfólk og ungmenni neyta nú talsverðs áfengis, er mun hafa verið undantekning í þá daga.

Ég skal ekki orðlengja þetta meira, en eins og ég sagði í upphafi, leggur allshn. til, að þáltill. á þskj. 372 verði samþykkt. N. er ljóst, að hér erum mikið og vandasamt verk að ræða. Með leyfi forseta, vil ég lesa till.:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd sjö alþingismanna til þess að rannsaka svo sem verða má ástandið í áfengismálum þjóðarinnar og eðli og orsakir þessa mikla vandamáls. Skal n. jafnframt kynna sér framkvæmd áfengisvarna, starfsemi bindindissamtaka og endurskoða eftir þörfum gildandi löggjöf um áfengismál. Að loknum athugunum sínum skal n. gera rökstuddar till. um þær úrbætur, er hún telur nauðsynlegar og framkvæmanlegar.“

Það er mikið verk, sem nefnd þeirri verður falið, ef hún verður kosin, að grafa svo djúpt ofan í þetta vandamál, og ég vona, að henni farnist vel. Allshn. telur það mjög vei til fatlið, að í n. verði eingöngu alþm., er litið verður á sem sérstaka fulltrúa þeirra, sem setja skuli lög og reglur að lokinni rannsókn.

Á þskj. 573 er þess getið, að Gísli Guðmundsson, hv. 3. þm. Norðurl. e., áskildi sér rétt til þess að flytja viðbótartill., og hefur hann gert það á þskj. 552. Allshn. hefur ekki haft tækifæri til þess að taka afstöðu til brtt. eða viðbótartill. Að mínu viti er hún að engu leyti afgerandi, því að að sjálfsögðu mundu þeir, er kosnir verða, hafa samráð við áfengisvarnaráð og starfandi félagssamtök gegn áfengisbölinu. En samkvæmt brtt. er fyrirskipað, að svo skuli gert. Ég tel, að sá háttur muni verða hafður á, hvort sem brtt. verður samþ. eða ekki, og tek þess vegna ekki persónulega afstöðu til till. En eins og fyrr segir, mælir allshn. einróma með þáltill