13.05.1964
Sameinað þing: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (2689)

222. mál, jarðhitarannsóknir

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 51 er till. til þál., sem flutt er af þm. Vesturlandskjördæmis, um jarðhitarannsóknir og jarðhitaleit í Borgarfjarðarhéraði. Skal m.a. í því sambandi athuga möguleika á hitaveitu fyrir Borgarnes. Till. þessari var vísað til fjvn. til athugunar og umsagnar. Á síðustu þingum hafa komið fram allmargar till. frá ýmsum þm., sem hafa gengið í sömu átt, en hverum sig bundin við ákveðin jarðhitasvæði.

Með síaukinni tækni og þekkingu manna á hagnýtingu jarðhitans hefur stóraukizt áhugi almennings í landinu á víðtækum rannsóknum í þessum efnum. Allmikill atvinnurekstur hefur risíð upp í skjóli þessara náttúruauðlinda. Á ég þar við gróðurhúsareksturinn. En auk þess er jarðhitinn notaður í æ ríkari mæli til upphitunar húsa. Hefur það oft ráðið úrslitum um staðsetningu á opinberum byggingum úti á landsbyggðinni, svo sem skólabyggingum og byggingu félagsheimila eða annarra samkomuhúsa, ef nægur jarðhiti hefur verið fyrir hendi á viðkomandi stað. Er það skiljanlegt, þegar haft er í huga, hve mikinn sparnað getur af slíku leitt.

Það er álit hv. fjvn., eins og fram kemur í grg. fyrir till. þeirri, sem hér er til umr. og n. hefur leyft sér að flytja á Þskj. 524, að ályktun Alþingis í þessum efnum beri að miða við landið í heild. Till. þessi hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. , að hún hlutist til um, að á vegum jarðhitasjóðs verði hið fyrsta hafizt handa um nauðsynlegar frumathuganir á jarðhitasvæðum víðs vegar um landið. Að því loknu verði framkvæmdar tilraunaboranir. Skal fyrst hefja framkvæmdir á þeim jarðhitasvæðum, þar sem helzt er að vænta góðs árangurs og þar sem aðstaða að öðru leyti er bezt til hagnýtingar orkunnar.”

Þar sem till. þessi er flutt af n. og þar sem einnig má líta svo á, að hún sé afgreiðsla n. á till. til þál., sem er á þskj. 51 og n. hefur haft til athugunar, þá vænti ég þess, að till. þessi verði afgr. sem ályktun Alþingis að lokinni þessari umr.