20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

1. mál, fjárlög 1964

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. gerði ég grein fyrir afstöðu Framsfl. til fjárlfrv. og fjárlagaafgreiðslunnar í heild. Að þessu sinni mun ég ekki endurtaka neitt af því, sem ég þá sagði, heldur gera grein fyrir till., sem við höfum flutt hér á sérstöku þskj., 1. minni hl. fjvn., þeim sem meginmáls. skipta.

Í fyrsta lagi vil ég víkja þar að þeirri uppsetningu, sem við höfum gert á 13. gr. fjárlagafrv., sem stafar af þeim vegalögum, sem var verið að samþykkja í hv. Ed. nú fyrir örfáum mínútum. Gert var ráð fyrir því í fjvn., að fjárlagafrv. yrði breytt til samræmis við þessi nýju vegalög, en af ástæðum, sem ég kann ekki að skýra hér, var ekki horfið að því ráði af hálfu meiri hl. fjvn. Er með öllu óeðlilegt að afgreiða fjárlög, eftir að vegalög hafa verið samþykkt, sem mikil áherzla hefur verið lögð á og greitt var fyrir gegnum báðar deildir þingsins, að gæti farið fram, áður en fjárlagaafgreiðslu yrði lokið, til þess að hægt væri að samræma fjárlagaafgreiðsluna hinum nýju vegalögum. Ef fjárlög verða afgr. eins og þau liggja nú fyrir til 3. umr. af hálfu fjvn. eða meiri hl., verða ekki taldar til tekna allar þær tekjur sem gert er ráð fyrir að til veganna gangi af benzínskatti, þungaskatti og gúmmígjaldi, heldur nokkur hluti þessara tekna, eins og verið hefur. Hins vegar verður þá ekki heldur rétt mynd af því, sem ætlazt er til að ríkissjóður sjálfur greiði til vegamála samkvæmt fjárlögum, eins og gert er ráð fyrir í 89. gr. hinna nýafgreiddu vegalaga að sé ákveðið á fjárlögum hverju sinni, heldur verður þar sú mynd, sem sett var upp, þegar frv. til fjárlaga var samið s.l. haust. Þetta er með öllu óviðunandi og gerum við till. um það, að þessu verði breytt til samræmis við hin nýafgreiddu vegalög. Það var alltaf gert ráð fyrir því, að þannig yrði uppsetningin í fjárl. nú, og geta ekki nein annarleg sjónarmið ráðið því, að hinni fyrri skipan sé haldið, þrátt fyrir þessa lagabreytingu, enda er þessi afgreiðsla fjárl. algerlega í ósamræmi við vegalögin og algerlega röng mynd af því, sem framkvæma á með hinum nýju vegalögum. Þess vegna höfum við á þskj. 181 gert till. um uppsetningu á 13. gr. fjárlfrv., eins og alltaf hefur verið gert ráð fyrir að hún yrði að hinum nýju vegalögum afgreiddum, og við treystum því fastlega, að samkomulag geti orðið enn innan fjvn. um, að þess háttar afgreiðsla verði á 13. gr. fjárlfrv., og eru engin frambærileg rök fyrir því að afgreiða málið á annan hátt en þennan.

Þá er hin megintill. okkar til breyt. á fjárlfrv. sú, að þegar fjárlfrv. var lagt fyrir hér á hv. Alþingi á s.l. hausti, er skýrt frá því í grg. frv., að 92 millj. kr. minna sé ætlað til niðurgreiðslna á vöruverði heldur en er framkvæmt á yfirstandandi ári. Vitað var, að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að koma í framkvæmd breytingu á niðurgreiðslum á vöruverði á s.l. hausti, og var sú breyting algerlega undirbúin, en það er líka vitað, að á síðustu stundu, þegar átti að fara að framkvæma þessa breytingu, gaf hæstv. ríkisstj. út fyrirskipun um að hætta við að framkvæma hana. Þess vegna hefur niðurgreiðsla farið fram með sama hætti og áður var. Nú liggur ekkert fyrir um það, hvað verður. Því vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Ætlar hæstv. ríkisstj. að fella niður eða minnka niðurgreiðslur frá því, sem verið hefur? Það hefur ekki komið fram í umr. í fjvn. eða hér á hv. Alþingi, að hæstv. ríkisstj. ætli að gera þetta. En ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér að framkvæma sömu niðurgreiðslur á vöruverði eins og var á yfirstandandi ári, þarf fjárveitingin til niðurgreiðslna á fjárlfrv. að hækka um 92 millj. kr. Við gerum ráð fyrir því, að þessi hækkun eigi sér stað, og gerum till. um það.

Till. okkar á tekjugreinum fjárlfrv. eru miðaðar við þá útgjaldaliði, sem við leggjum til og ég hef hér skýrt, og smærri liði tvo, sem við tókum aftur frá 2. umr. málsins. Við 2. umr. fjárlfrv. gerði ég grein fyrir afstöðu okkar til tekjugreina frv. og þarf ekki að bæta þar neinu við.

Þá leggjum við til á. 22. gr. fjárl., að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að ráðstafa af greiðsluafgangi áranna 1962 og 1963 þeirri fjárhæð, er þar greinir. Vitað er, að greiðsluafgangur ársins 1962 var um 160 millj. kr., og í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. hér á s.l. hausti, eða í okt. s.1., gerði hann grein fyrir því, að verulegur greiðsluafgangur mundi verða á þessu ári. Samkvæmt því yfirliti, sem lá fyrir fjvn. um tekjur til loka októbermánaðar, má gera ráð fyrir því, að tekjur fari fram úr áætlun á yfirstandandi ári um 300–400 millj. kr., eins og ég gerði grein fyrir við 2. umr. Við leggjum til, að 150 millj. kr. verði ráðstafað af þessum greiðsluafgangi á þann hátt, sem hér greinir, að 60 millj. kr. verði lánaðar til byggingarsjóðs ríkisins, að 30 millj. kr. verði lánaðar til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands og að 15 millj. kr. verði lánaðar til iðnlánasjóðs, og að varið verði upp í ríkissjóðshluta af kostnaði við hafnargerðir 30 millj. kr. og í ríkissjóðshluta af kostnaði við byggingu sjúkrahúsa og læknisbústaða 15 millj. kr. Alls leggjum við til að ráðstafa á þennan hátt 150 millj. kr. Það þarf ekki að gera grein fyrir fjárþörf þeirra stofnana, sem við leggjum til að fé verði lánað til, eða þeirra framkvæmda, sem við leggjum til að fé verði veitt til. Kunnugt er það öllum hv. þm., hve fjárþörf er þarna mikil, og fyrir hv. fjvn.grg. um það, að hlutur ríkissjóðs í þeim framkvæmdum, sem þar greinir, lægi eftir, sem þessum upphæðum nemur og meira þó í sjúkrahúsunum. Þess vegna er hér sízt um ofrausn að ræða.

Ég mun ekki fara að halda hér langa ræðu um þetta mál, heldur gera þessa grein fyrir okkar till. og treysti því, að um 1. liðinn, vegamálatill., náist fullt samkomulag um eðlilega og rétta afgreiðslu þingsins á þessu máli.