01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2696)

144. mál, tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. A þskj. 261 höfum við hv. 2. þm. Norðurl. v., hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Reykv. leyft okkur að flytja till. til þál. um tekjustofna handa þjóðkirkju Íslands og aðstoð ríkisins við kirkjubyggingar í landinu.

Þjóðkirkja Íslands er ein af elztu stofnunum í þessu landi. Um aldaraðir var hún, auk þess að vera samnefnari kristinnar trúar, eina verulega menningar- og menntastofnun þjóðarinnar. Margir af höfuðskörungum þjóðarinnar voru þjónar kirkjunnar, svo sem biskuparnir Jón Arason, Brynjólfur Sveinsson og Jón Vídalín og skáldin og prestarnir Hallgrímur Pétursson og Matthías Jochumsson, svo að örfá nöfn séu nefnd. Ekki orkar það heldur tvímælis, að klaustur- og klerkastétt eigum við m.a. að þakka, að fornbókmenntir okkar hafa varðveitzt.

Áður fyrr var kirkjan í landinu sjálfseignarstofnun að öðru leyti en því, sem um kirkjur í einkaeign var að ræða. Þessi stofnun hafði því fasta tekjustofna, sem voru fasteignir, sem kirkjurnar áttu, enda kostuðu kirkjurnar þá af eigin tekjum þjóna sina, prestana, og þá með einhverju framlagi sóknarmanna. Þessi skipan mála um kirkju Íslands hélzt nokkuð eftir síðaskiptin, en með því að biskupsstólarnir voru niður lagðir, gengu eignir kirkjunnar til konunganna, og þá hnignaði veldi kirkjunnar, svo sem kunnugt er.

Í byrjun þessarar aldar voru með löggjöf, sem þá var sett hér, aukin afskipti ríkisins af kirkjumálum, þar sem var ákveðið með launalögum og lögum um sóknargjöld, að ríkissjóður skyldi ábyrgjast lífeyri handa prestum, en laun tóku þeir annars úr prestlaunasjóði. Kirkjurnar höfðu Þá auk þess tekjur af eignum sínum og skatti. Þróunin hefur orðið sú, að þjónar kirkjunnar hafa fengið laun sín frá ríkinu, og þannig er nú komið, að þeir taka þau að mestu eða öllu leyti þaðan, þótt þeir áður fyrr hafi haft nokkrar tekjur af eignum kirkjunnar gegnum prestssetrin. Hins vegar hefur farið svo, að kirkjurnar sjálfar hafa haft litla tekjustofna til uppbyggingar og viðhalds og endurnýjunar á kirkjum, nema að því leyti sem söfnuðirnir hafa séð um þær.

Samkvæmt þeim nýjustu upplýsingum, sem ég hef um kirkjur í landinu, munu hér vera um 280 kirkjur. Af þeim eiga söfnuðirnir 236, bændakirkjur eru 26 og ríkiskirkjur um 18.

Á Alþingi 1944 flutti Gísli Sveinsson frv. til l. um kirkjubyggingasjóð. Gert var ráð fyrir í því frv., að stefnt væri að því, að ríkið legði fram 3/4 af kirkjubyggingunni, en söfnuðurinn 1/4. Þetta frv. var endurflutt árið 1946, og þá voru flm. auk Gísla Sveinssonar hæstv. núv. fjmrh. og Jörundur Brynjólfsson, þá þm. Árnesinga. Frv. þeirra þremenninganna var þá afgreitt með rökst. dagskrá, þar sem gert var ráð fyrir því, að ríkisstj. undirbyggi löggjöf, sem tæki það til athugunar, er frv. stefndi að.

Það, sem síðan hefur verið gert til þess að styðja kirkjubyggingar í landinu, eru lögin um kirkjubyggingasjóð, sem sett voru 1954. Með þeirri löggjöf var ákveðið, að ríkið skyldi leggja 1/2 millj. kr. í kirkjubyggingasjóð og kirkjubyggingasjóður síðan lána til kirkjubygginga í landinu af þessari fjárhæð. A þeim 9 árum, sem kirkjubyggingasjóður hefur starfað. hefur stofnfé hans úr ríkissjóði orðið 6.6 millj. kr., en eins og kunnugt er, er nú fjárhæð til kirkjubyggingasjóðs orðin 1 millj. kr. á fjárl. árlega. Kirkjubyggingasjóður hefur veitt á þessu 9 ára tímabili lán til 70 kirkna, og hafa þar af verið 32 nýbyggingar, sem hafa fengið samtals 5.3 millj. kr., og 38 kirkjur til endurbóta 1.7 millj. kr. Lánareglur sjóðsins eru þær, að hann mun veita lán allt að 20—30% af heildarkostnaði, en vegna þess, hve fjárvana hann hefur verið, hefur hann ekki getað veitt þessi lán nema á löngu tímabili, svo að það hefur tekið ein 4—5 ár að afgreiða þessi lán til þeirra kirkna, sem í smíðum hafa verið. Hins vegar hefur verið reynt á hverju ári að lána eitthvað til allra þeirra, sem um lán hafa sótt.

Þessi uppbygging á kirkjum landsins sýnir þann áhuga, sem er hjá söfnuðum fyrir því að koma kirkjum sínum í lag og byggja nýjar, þar sem þörf er á því. Þrátt fyrir það að svo lítil fjárhagsaðstoð hefur verið veitt, hefur samt verið klifinn þrítugur hamarinn til að koma þessu verki í framkvæmd. Þekki ég til kirkjubyggingar, sem mun hafa kostað um 1.8 millj. kr. og aðeins 236 þús. kr. verið fengnar að láni hjá kirkjubyggingasjóðnum, hinu hefur söfnuðurinn heima fyrir orðið að sjá fyrir á einn eða annan hátt. Nú munu vera á skrá hjá sjóðsstjórn kirkjubyggingasjóðsins um 15 nýbyggingar og 11 kirkjur, sem sækja um fé til endurbóta. Sjóðurinn mun hafa til útlána á þessu ári um 1100 þús. kr. Þetta sýnir þörfina á því að taka betur á til aðstoðar við uppbyggingu kirknanna en gert hefur verið.

Eins og kunnugt er, höfum við á síðari áratugum stefnt að því, að ríkið styddi félagslega uppbyggingu í landinu, svo sem með skólabyggingum, byggingu félagsheimila, íþróttamannvirkja og fleiri slíkum mannvirkjagerðum, sem mættu verða til menntunar og þroska hinni ungu kynslóð í landinu. En þrátt fyrir það, þó að svo hafi verið gert og það sízt um of, hefur ekki verið beinn stuðningur frá ríkisins hendi um uppbyggingu kirkna í landinu á annan veg en gegnum kirkjubyggingasjóðinn, sem er að því leyti beinn stuðningur, að sjóðurinn eignast þetta fé, en það er kirkjunum lánað, svo að ekki erum neinn styrk að ræða til safnaðanna í landinu til að byggja kirkjur.

Það orkar ekki tvímælis, að hér verður að gera breytingu á og íslenzka ríkið verður að styðja meira að kirkjubyggingum en gert hefur verið. Í þáltill. okkar er lagt til, að unnið verði að því að setja löggjöf um þetta efni. Við bendum ekki á sérstakar leiðir til að leysa þennan vanda, það ætlum við þeim að athuga, sem vinna að undirbúningi málsins. En við tökum það þó fram í grg. fyrir till, okkar, að það, sem beri að gera, sé, að beinn stuðningur ríkisins komi til, en þó þannig, að það eigi að hagnýta sér áhuga þann, sem er hjá söfnuðunum í landinu til þess að styðja og byggja upp kirkjur sínar. Eftir hvaða reglum þar skuli farið, ætla ég mér ekki að þessu sinni að fara að benda á, heldur hitt, að kirkju landsins, eina elztu og virðulegustu stofnun okkar þjóðfélags, megum við ekki vanrækja. Það hefur engri þjóð orðið til framdráttar að vanrækja kirkju sína eða þá trú, sem hún flytur. Þess vegna eigum við að auka stuðning við hana með beinum stuðningi ríkisins til kirkjubygginga, og við eigum einnig að hagnýta okkur áhuga safnaðarfólksins til að byggja sínar kirkjur og halda þeim við. Við eigum einnig að athuga möguleika á því, hvort hægt er að fá kirkjunum til handa aðra beina tekjustofna til þess að gera þær sjálfar vel útlitandi og búa þær vel að kirkjumunum. Það vitum við allir, að vel búin kirkja er betri boðberi prédikarans en illa búin kirkja, eins og er okkar háttur að ganga til hátíðar betur búnir en til hversdagsstarfa.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og málinu verði visað til hv. fjvn.