01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (2698)

144. mál, tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að fara að þreyta hér kappræður við hv. 3. þm. Reykv., en verð að byrja mál mitt með því að lýsa ánægju minni yfir því, að till. okkar hefur þó haft nokkurn árangur, því að hv. 3. þm. Reykv. hljóp til nú og fór að flytja brtt. um óskyld efni, efni, sem hann hefði getað verið búinn að flytja þáltill. um eða gera aðrar ráðstafanir til að koma í framkvæmd fyrr, ef þessi till. hefði ekki ýtt við honum. Ég ætla ekki heldur að fara að deila við þennan hv. þm. um afstöðu hans til kirkjunnar, hann getur haft sína skoðun á þeim málum óáreitt fyrir mér, eins og ég hef mína. Ég vil líka segja þessum hv. þm. það, að hann fer ekki svo í gegnum veraldarsöguna, í hvaða trúarbrögðum sem væri, að hann finni ekki bletti, sem væri hægt að sýna, að svartir séu. Og ég vil líka segja það, að það er ekki heldur sama, hvort við berum saman lífsviðhorf okkar í dag eða þau, sem voru á 16. og 17. öld. Hitt er staðreynd, sem haldið er fram í okkar grg., að innan íslenzku þjóðkirkjunnar hafa verið höfuðskörungar þessarar þjóðar, eins og Jón Arason og Matthías Jochumsson o.fl., o.fl. Það er líka staðreynd, að ýmis verðmæti andlegs efnis voru varðveitt fyrir störf kirkjunnar og klaustranna áður fyrr. Það er líka staðreynd, að íslenzka þjóðin, ríkið, fyrst konungdæmið og síðar ríkið, tók við eignum kirkjunnar. Þess vegna á kirkja landsins kröfurétt á þennan aðila að sinna málum hennar betur en gert hefur verið. Margar kirkjur áttu þær stóreignir, að þær hefðu á engan hátt þurft að leita til ríkisins um aðstoð við uppbyggingu, ef þær hefðu eignir sínar nú áfram, eins og t.d. Garðakirkja á Akranesi, sem átti mest af því landi, sem Akraneskaupstaður stendur á, og fleiri dæmi mætti nefna. Á þennan hátt á því kirkjan nokkurn kröfurétt á ríkið.

Um það má deila, í hvaða röð við eigum að taka hina ýmsu málefnaflokka fyrir. En á það má líka minna, að íslenzka ríkið styður skólabyggingar í landinu verulega. Íslenzka ríkið styður íþróttamannvirki í landinu líka og fleiri og fleiri slíkar stofnanir, eins og félagsheimili. Mér er það ljóst, og ég er fylgismaður þess, að ríkið styðji að þessari uppbyggingu, en ég vil líka, að ríkið styðji að uppbyggingu á kirkjum landsins.

Hv. 3. þm. Reykv. vitnaði í meistarann frá Nazaret og í því sambandi vitnaði hann einnig til barnanna, en meistarinn sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín.“ Og það er ekki andstætt hans kenningu eða hans boðskap, nema síður sé, að einmitt börnin eigi kost á því að koma í kirkju.

Það hefur sýnt sig, að íslenzka þjóðin hefur jafnan haft áhuga á kirkju sinni. Þess vegna voru kirkjur landsins ein bezt gerðu hús hér á landi áður fyrr, meðan þjóðin var skammt á veg komin í uppbyggingu. Um áratugaskeið var veruleg afturför í þessu. Kirkjan stóð í stað og meira en það, en þjóðin sótti fram á öðrum sviðum í uppbyggingu. Nú á síðustu áratugum hefur þjóðin hins vegar vaknað að áhuga fyrir kirkjum sínum, kirkjubyggingum og að endurbæta þær kirkjur, sem fyrir eru. Það hefur verið sýndur lofsverður og mjög virðingarverður áhugi hjá söfnuðum landsins fyrir að koma kirkjubyggingum í framkvæmd. En það hefur legið eftir aðstoð íslenzka ríkisins, og það sýnir sig, hvað þessi litla fjárhæð, sem ríkið lagði fram með l. frá 1954, um kirkjubyggingasjóð, hefur orkað. Sú fjárhæð hefur nú verið tvöfölduð. En þetta nægir ekki. Það er ofvaxið söfnuðunum að koma áfram kirkjubyggingunum, eins og hugur þeirra stendur til. Það, sem till. okkar fer því fram á, er, að ríkið styðji einnig að uppbyggingu þjóðkirkjunnar í landinu, eins og það styður að uppbyggingu skólanna, sjúkrahúsanna, félagsheimilanna, íþróttamannvirkjanna og fleiri slíkra stofnana. Og við teljum okkur hafa fullkomin rök fyrir því, bæði söguleg rök vegna þess boðskapar, sem kirkjan flytur, og þess áhuga, sem er hjá fólkinu í landinu að koma og búa sína kirkju betur en áður hefur verið, þrátt fyrir það þó að ríkið hafi ekki lagt þar af mörkum meira en er. Við treystum því fastlega, að hv. alþm. leggi þessu máli lið, svo að það megi ná fram að ganga kirkjunni og þjóðinni til farsældar.