01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (2699)

144. mál, tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. frsm., 3. þm. Vesturl., hélt nú, að þessi þáltill. Þeirra fjórmenninganna hefði gert eitthvert gagn, hún hefði orðið til þess, að ég hefði loksins farið að hugsa um barnaheimili. Heldur fylgist nú hv. þm. illa með því, sem gerist í þingsölunum. Það hefur legið fyrir í Nd. um nokkurt skeið frv. til l. um aðstoð ríkisins við barnaheimill. Það mun vera komið til n. fyrir þó nokkru. Ég veit ekki, hvort hann er í þeirri nefnd, en a.m.k. hefur fram að þessu verið lagzt á það . Hann á vafalaust a.m.k. tvo flokksbræður í þeirri nefnd, sem þetta frv. er í, svo að hann gæti kannske ýtt við þeim um, að þeir ættu að fara að hugsa ofur litið um að gera eitthvað fyrir börnin og barnaheimilin og koma þessu frv. úr nefnd. Það varð nefnilega ekki vart við það, þegar það frv. var rætt í Nd., að það væri neinn áhugi, t.d. hjá Framsfl., fyrir því að ýta undir, að slík heimili kæmust á, og það virðist vera svo, að meira að segja þessi hv. þm., sem annars fylgist sæmilega með hér, hafi ekki einu sinni gert sér þetta ljóst, því að hann hélt, að þetta væri í fyrsta skipti, sem það kæmi fram till. um, að ríkið færi að leggja eitthvað fram til þessara barnaheimila. Nei, það er ekki í fyrsta skiptið, þvert á móti. Vegna þess að ég er hræddur um, að það hafi verið slælega unnið að því að fá þetta frv. fram, og hef í því sambandi líka meira að segja mjög litla trú á þessum tveimur góðu framsóknarmönnum, sem munu vera í þeirri nefnd, sem mun hafa það til meðferðar, þá vildi ég nota þetta tækifæri til þess að minna á, hvað þyrfti að gera viðvíkjandi börnunum, þannig að sú vitneskja vaknar ekki fyrst nú, heldur hefur hún verið til, en það hefur verið daufheyrzt við því. En það má hins vegar vel vera, að ástandið sé þannig í þjóðfélaginu, að það sé hægara að fá menn til þess að hugsa um kirkjubyggingar en um barnaheimili eða um heimili fyrir vangefin börn. Það má vel vera, og þá er það frá mínu sjónarmiði dómur um, að það sé ekki sérstaklega kristilega hugsandi þjóðfélag, sem þannig hugsar.

Hv. þm. segir, að það hafi legið eftir aðstoð ríkisins við kirkjubyggingar og við evangelísku lútersku söfnuðina í landinu. Ég held, að það sé algerlega rangt. Ég held, að ríkið hafi einmitt sýnt mjög mikil afskipti af þessu og hlynnt mjög að þessum söfnuðum, að þeir geti haft sína starfsmenn og þeir geti haft sín fundarhús og annað slíkt. Og ég held, að það sé alltaf verið að bæta meiru og meiru við í þessum efnum og því sé rangt að ásaka ríkið um slíkt.

Hann sagði, að hann vildi sem minnst fara út í söguna og slíkt, og það er mjög rétt af honum. Það er miklu heppilegra að halda sig við viðhorfin í dag. Ég verð nú að segja það, hvað snertir viðhorfin í dag, að ég held, að fyrir þjóðkirkju Íslands væri hollara að hugsa dálítið meira um félagsleg og ekki sízt þjóðfélagsleg mál heldur en hún gerir. Það er svo með gamlar stofnanir, þeim hættir oft við að kalka og verða eins og innihaldslaust form. Hins vegar, svo framarlega sem menn vilja reyna að halda lífi t.d. í þessum söfnuðum og þessari stofnun, eiga menn að láta þau félagslegu mál meira til sín taka en íslenzk þjóðkirkja hefur gert og reyna að vinna á þeim sviðum, m.a. einmitt að mannúðarmálunum, einmitt að þeim málum, sem varða bróðurkærleika og annað slíkt. Ég held, að sú evangelíska lúterska kirkja á Íslandi mundi hafa unnið sér meiri hylli, ég meina hylli hjartnanna, með því að gangast fyrir t.d. byggingu barnaheimila eða heimila fyrir vangefin börn heldur en t.d. byggingu Hallgrímskirkju. Ég held það. En það dæmir náttúrlega hverum þetta eftir því, hvað hann metur mest.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að kaþólsku klaustrin hefðu Þó varðveitt okkar gömlu handrit. Það er alveg rétt. Ég viðurkenni það, að það var sá stóri kostur við þau, að þau voru ekki svo ofstækisfull að eyðileggja allt þetta gamla. Þau gátu varðveitt þann dýra arf, sem við höfum frá heiðninni, og er það vissulega eitt af því bezta, sem þau hafa gert, og hafa þau samt ýmislegt gott gert.

En svo kom hv. þm. inn á eitt atriði, sem ég held að við verðum að athuga mjög grandgæfilega lögfræðilega séð. Mér sýndist hv. þm. bera fram þá kröfu fyrir hönd kirkjunnar, að hún ætti kröfu á ríkið vegna jarðeigna, sem hún hefur átt. Ég kallaði fram í hjá hv. þm. og spurði, hvort hann ætti við kaþólsku kirkjuna. Það er

alveg rétt, að hin kaþólska kirkja á Íslandi var svipt mjög miklum jarðeignum, sem konungur tók til sín sem handhafi ríkisvalds og Ísland síðar seinna meir fékk og kallaði þjóðjarðir, þær konungsjarðir, sem þá hafði ekki verið ráðstafað öðruvísi. Á hv. þm. við þessar jarðir, sem konungsvaldið á miðri 16. öld tók af kaþólsku kirkjunni? Mig langar til að vita, hvort það er komin fram rödd hér á Alþingi, sem gerir kröfu á íslenzka lýðveldið, kröfu í nafni þeirrar kirkju, sem svipt var sínum jarðeignum á Íslandi í kringum 1550, og ég vildi gjarnan, að þetta væri sagt dálitið nánar. Við vitum allir, að kaþólska kirkjan var mjög rík, og kaþólska kirkjan er enn þá hér á Íslandi. Ég vil leyfa mér að spyrja: Fyrir hönd hvers gerir hv. þm. þessa kröfu? Er það fyrir hönd kaþólsku kirkjunnar, sem þá var svipt sínum jarðeignum á Íslandi? Ég vil leyfa mér að búast við, að það geti varla verið svo. Ég held, að ef við eigum að fara út í þessi mál út frá lögfræðilegu sjónarmiði, þá mundum við fara nokkuð langt út fyrir það, sem hv. þm. hefur yfirleitt dottið í hug í þessu sambandi. Lögfræðilegar kröfur kaþólsku kirkjunnar, — ég vildi nú leyfa mér að segja með tilliti til ýmissa dóma í hæstarétti, — þær eru þá löngu fyrndar, ef þær hafa nokkurn tíma átt við nokkur rök að styðjast. Og ég er hræddur um, að það verði ekki fallizt á, að kirkjan, hvorki sú kaþólska né sú lúterska, eigi nokkra kröfu á hendur ríkinu þannig. Og ég held, að það sé ekki rétt að flytja þessi mál frá því sjónarmiði. Ég held, að það sé ekki rétt að fara að vitna í gamla kirkju, sem hér hafi verið voldugur, mikill jarðeigandi og hafi verið svipt sínum jarðeignum og eftir margs konar ráðstafanir hafi þó þær jarðeignir að lokum nú á þessari öld lent mikið til þeirra bænda, sem á þeim jörðum unnu. Og ég býst ekki við, að þeir vilji fara að gerast landsetar kaþólsku kirkjunnar aftur. Ég held þess vegna, að við eigum ekki að ræða þessi mál frá þessu sjónarmiði. Við getum rætt þau frá hinu sjónarmiðinu, hvort við viljum á vissum sviðum styðja að því starfi, sem kirkjan vinnur, og það gerir ríkið nú í allríkum mæli, og ég held, að við eigum að athuga þess vegna, hvort það eru ekki aðrir hlutir þarna, sem eiga að ganga fyrir.

En svo að síðustu fór hv. þm., – ég skal ekki fara út í langar umr. við hann hér, — hann fór að minnast á börnin og sagði, að Jesús frá Nazaret hafi sagt: „Leyfið börnunum að koma til mín.“ Ég veit nú ekki, hvort það er aðalatriðið í sambandi við þessi mál, að kirkjan skapi sér áróðursaðstöðu gagnvart börnunum. Ég held, að áróðurinn í börnunum hafi verið ræddur dálítið undanfarið opinberlega hér á Íslandi. Ég held, að áróðurinn í börnunum ætti að eiga sér sem minnst stað, og það er meira en nóg, Það sem gert er að því að kenna þeim í barnaskólunum nú í þessum efnum. Það er bezt að láta þau sleppa sem mest við áróðurinn, líka þennan trúarlega áróður. Við skulum fyrst og fremst reyna að hugsa um þeirra heilbrigði og geta veitt þeim þeirra, sem eiga bágast, aðbúnað, m.a. vangefnum börnum, og reyna að sjá til þess, að þau börn, sem þurfa aðhlynningu af hálfu þess opinbera, hvort heldur er við barnaskólana eða á barnaheimilum, geti fengið hana. Ég held, að fyrst og fremst ætti það opinbera að reyna að sjá til slíks og reyna að sjá um, að það sé gert vel við börnin hvað slíkt snertir. Við skulum leyfa mönnum helzt að mynda sér sínar skoðanir sem allra sjálfstæðast, þannig að þeir hafi þar úr ýmsu að velja. M.a. liggur fyrir flestum þm. nú bréf frá manni, sem mun hafa verið í þeim evangelísku lútersku söfnuðum hér á Íslandi, að hann tekur þessi mál mjög alvarlega og vill losna undan þeim skildaga, sem hann hafi verið settur í við skírnina, og getur ekki fengið sig lausan og á í erfiðleikum í sambandi við biskupinn, á í erfiðleikum í sambandi við kirkjumrh. og hefur skrifað til Alþingis í sambandi við þetta líka. Við skulum aðgæta það vel, að það er mjög eðlilegt, að menn fái að mynda sér sinar lífsskoðanir, þegar menn eru það þroskaðir, að þeir geta tekið við. Ég býst við, að það sé ekki neinn maður hér inni slíkur, að hann álíti, að einmitt sú trúarskoðun, sem t.d. evangelíska lúterska kirkjan hefur, sé öllum trúarskoðunum í veröldinni framar og það geti ekki verið hugsanlegt, að menn með því að kynna sér hluti betur geti komizt að einhverri annarri niðurstöðu. Það er þess vegna mjög óeðlilegt, að það sé sköpuð nokkur sérstök áróðursaðstaða fyrir nokkra sérstaka söfnuði þannig, frekar en t.d. áróðursaðstaða fyrir einhverja sérstaka pólitíska flokka í börnum, og bezt að leyfa barnssálinni að þroskast án þess að verða fyrir slíkum áróðri, en reyna að hlynna að börnunum að öðru leyti. Og því miður er það svo, að í þessu þjóðfélagi, sem er að gagnsýrast af spillingu og peningagirnd, er einmitt hætt við, að barnssálin hvað mest verði úti, þannig að það má ósköp vel hugsa dálítið betur um þessi mál en gert hefur verið. Þess vegna leyfi ég mér nú að flytja þessa brtt., sem ég vona að sú nefnd, sem þetta mál fer til, komi til með að athuga með skilningi.