01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (2702)

144. mál, tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það mun hafa verið í fyrra í sambandi við frv. til l. um sölu á kristfjárjörð, að blað hv. 3. þm. Reykv. gat þess, að þessi hv. þm. væri helzti forsvarsmaður Krists á Alþingi. Ég verð að segja það, að ég kenndi hálfpartinn í brjósti um þennan hv. þm., þegar blað hans sagði þannig frá, því að ég sá ekki betur en blaðið væri að drótta að þessum hv. þm., að hann væri hrokkinn út af línu, sem ég veit þó að hann vili ekki fara út af, því að ég þykist vita, að hann sé sammála þeirri ágætu frú, sem heimsótti þetta land, Ekaterinu Furtsevu, að kristindómur og kommúnismi eigi enga samleið. Ég held, að þessum hv. þm. hafi mislíkað þessi frásögn blaðsins, því að hann setur sig aldrei úr færi síðan, bæði hér í dag og áður, að ráðast á kirkjuna, svo að mér sýnist, að það sé rétt, sem ég segi, að blaðið hafi gert honum nokkurn óleik með þessari frásögn.

En ég ætla ekki að fara að deila neitt við þennan hv. þm. um kirkjuleg málefni. Ég vil aðeins með einu orði benda á Það, sem er skoðun mín og ég held, að sé söguleg staðreynd, að bygging kirkna hafi aldrei staðið í vegi fyrir t.d. byggingu sjúkrahúsa eða barnaheimila, heldur jafnvel þveröfugt, að kirkjubyggingar hafi stutt að því, að byggð voru barnaheimili, sjúkrahús og aðrar líknar- og menningarstofnanir. Þetta hygg ég, að sé staðreynd, sem ekki verður gengið fram hjá. Þess vegna álít ég, að efling kirkjulegs starfs, í hvaða mynd sem er, og þar kemur vitanlega til bygging guðsþjónustuhúsanna, muni verða til þess, að við sinnum miklu betur en við gerum — og ég er sammála hv. þm. um að við þurfum að gera — að byggja yfir vangefin börn og sjúkrahús og annað, sem við þurfum að gera og gerum mjög svo mikið af nú á tímum, eftir því sem geta okkar leyfir. Ég vil því aðeins benda á þetta, sem ég er sannfærður um, að efling kristnilífsins, í hvaða mynd sem er, mun vissulega styðja að því, að við vinnum betur að ýmsum þeim málefnum, sem við þurfum að vinna að, eins og t.d. því að sinna betur vangefnum börnum og öðrum þeim, sem eru minni máttar í þjóðfélagi okkar. Ég held þess vegna, að þetta sé alger misskilningur hjá hv. þm. þótt við vinnum betur að því og styðjum söfnuðina betur að því að byggja sín guðsþjónustuhús en við gerum í dag, þá muni það á engan hátt draga úr því, að við vinnum að öðrum nytsömum verkefnum.