06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í D-deild Alþingistíðinda. (2718)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Till. sú, sem hér liggur fyrir til umr. um það, að Alþingi álykti að lýsa yfir vantrausti á ríkisstj. , er að sögn flm. fyrst og fremst borin fram vegna frv. þess um launamál o.fl., sem ríkisstj. lagði fram á Alþingi í s.l. viku. Það er því ekki úr vegi að fara nokkrum orðum um þetta frv. og þær ástæður, sem til þess liggja, að það er borið fram.

Síðari ár hefur kaupgjald og verðlag farið vaxandi. Þó er rétt að geta þess, að á árinu 1960 og fram á mitt árið 1961 hækkaði vísitala framfærslukostnaðar tiltölulega lítið eða aðeins um 5—6 stig. En þá skipti snögglega um. Á síðustu sex mánuðum ársins 1961 hækkaði vísitalan um 10 stig. Árið 1962 hækkaði hún um önnur 10 stig. Og á þessu ári hefur hún til 1. okt. hækkað um 16 stig og á sennilega eftir að hækka enn.

Á þessu tímabili hefur kaupgjald einnig hækkað, þó þannig, að kaupgjald þeirra, sem lægst eru launaðir, hefur ekki til fulls nað að fylgjast með verðhækkununum, og á ég þar við lægsta tímakaup verkamanna. Aðrar stéttir hafa hins vegar fengið ríflegri hækkun í sinn hlut. Gangur þessara mála hefur oftast verið sá, að verkamenn hafa riðið á vaðið og stundum meira að segja þurft að heyja verkfall til þess að fá sínum kröfum framgengt. Aðrir og hærra launaðir hagsmunahópar hafa svo komið á eftir og nað betri árangri, meiri kauphækkun. í kjölfar þessa hafa svo komið verðhækkanir, fyrst og fremst á landbúnaðarvörum, sem eru í föstum tengslum við laun verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, sem hafa étið upp það, sem verkamaðurinn vann með sinni hækkun, vegna þess m.a., að kaup hinna launahærri stétta gekk einnig inn í landbúnaðarverðið.

Niðurstaðan hefur svo orðið sú, sem ég sagði, að árangurinn fyrir þá lægst launuðu hefur orðið harla lítill, raunverulega aðeins sá, að allt verðlag hefur hækkað og stundum meira en kauphækkun þeirra lægstu nam.

Þetta er alkunn saga, sem allir kannast við. Þegar þess vegna landbúnaðarvörurnar hækkuðu mjög verulega s.l. haust og vísitala framfærslukostnaðar hækkaði um 11 stig á tveimur mánuðum, þá var sýnt, að eitthvað varð undan að láta. Verkamenn og ýmsar iðnstéttir settu þá fram kröfur um allt að 40% launahækkanir. Ef þær hefðu nað fram að ganga, þótt ekki væri nema að nokkrum hluta, þá var greinilegt, að aðrir mundu koma á eftir og kaupgjalds- og verðlagsskrúfan mundi enn fara í gang og verðlagið von bráðar hækka um eitthvað svipað. Ríkisstj. ákvað þá að freista þess að reyna að finna einhverja aðra leið til þess að bæta láglaunafólki þá verðhækkun, sem orðin var, án þess að þær kjarabætur hefðu sömu afleiðingar og jafnan áður, að vera gerðar að engu af verðhækkunum, sem fylgdu á eftir jafnörugglega og nótt fylgir degi.

Það, sem ríkisstj. kom fyrst og fremst auga á, var það helzt að gera ráðstafanir til að draga úr útgjöldum þessa fólks, sem vitaskuld var því jafnmikils virði og tilsvarandi kauphækkun. Kom þar fyrst til álita niðurfelling tekjuskatts og útsvara af hinum lægstu tekjum og ívilnun eða lækkun á þessum beinu sköttum á tekjur, sem lágu þar nokkuð fyrir ofan. Þetta, ef framkvæmt yrði, kæmi auðvitað láglaunafólki jafnvel og tilsvarandi launahækkun. En þetta hefur tvo meginkosti. í fyrsta lagi þann, að þessar kjarabætur fara ekki út í verðlagið, þar sem ekki erum beina kauphækkun að ræða. Og í öðru lagi íþyngir þetta ekki útflutningsatvinnuvegunum, sem telja sig þess ekki umkomna að hækka kaupið eins og er. En þetta er erfitt verk og flókið og vandasamt, aðallega vegna þess, að heildarútsvarsupphæð sveitarfélaganna er fastákveðin í fjárhagsáætlun hvers árs, og þá tekjurýrnun, sem sveitarfélögin mundu verða fyrir á þennan hátt, verður að bæta með hækkuðum útsvörum á þá, sem hærri tekjur hafa, og útsvarsstiginn mundi því sennilega þurfa endurskoðunar við, svo að þetta mætti takast.

Fleira kemur til greina en skattaívilnanir og útsvarsívilnanir, svo sem hækkaðar tryggingabætur. Auknar niðurgreiðslur hafa einnig verið nefndar, en þær eru þó af ýmsum ástæðum ólíklegastar til að ná tilætluðum árangri. En sameiginlegt þurfa allar þessar leiðir að hafa, að þær veiti láglaunafólki raunhæfar kjarabætur, án þess að draga hinn venjulega dilk á eftir sér að fara út í verðlagið, og koma þess vegna að fullum notum fyrir þessa lægstlaunamenn.

Til viðbótar þessu, ef það verður ekki fullnægjandi, kemur svo vissulega til álita, að eitthvað yrðu hækkuð laun hinna lægstu, ef sú hækkun fer ekki allan hringinn, því að þá er hún einskis virði, eins og allar slíkar kauphækkanir hafa áður reynzt.

Til þess að kryfja þessi vandamál öll til mergjar hefur ríkisstj. beðið um frest í tvo mánuði, og þó raunar ekki nema í einn og hálfan mánuð, því að meiningin er að hafa afgreitt þessi mál hér á Alþingi fyrir jól. Og mér finnst sannast sagna hart, þegar um svo þýðingarmikið og ég vil segja örlagaríkt mál er að ræða eins og þetta, að þyrla Þá upp gegn því slíku moldviðri eins og nú hefur gert verið, og alveg sérstaklega þegar pólitískir spekúlantar í Framsfl, og Alþb. leitast við að fá það fólk í lið með sér, sem alltaf hefur orðið undir í hagsmunabaráttunni einmitt undir merkjum þessara sömu manna, og þegar nú er verið að reyna að finna raunhæfar kjarabætur því til handa.

Því fremur er þetta furðulegt, þegar fresturinn, sem um er beðið, er ekki lengri en sem svarar þeim tíma, sem venjulega fer til viðræðna atvinnurekenda og launþega um samninga, áður en þeir takast.

Eðlilegast hefði vitaskuld verið, að ríkisstj. hefði fengið frest hjá verkalýðsfélögunum til þess að ganga frá málinu og leggja það fyrir Alþingi. Þá hefði ekki þurft nein lagasetning að koma nú og friður getað haldizt. En forsrh. leitaði eftir þessum fresti hjá forseta A.S.Í. og félögum hans, en við þá hefur hann átt margar og miklar orðræður, áður en frv. var lagt fram. En honum var aðeins gefinn kostur á 7—10 dögum, en það var alls ófullnægjandi tími. Ef skilningur hefði verið sýndur meiri en raun varð á af hálfu Alþýðusambandsforustunnar og vinnufriður tryggður, meðan athugun ríkisstj. fór fram, hefði enga lagasetningu um þetta þurft. En þá hefðu áróðursmenn kommúnista og Framsóknar misst bita úr sínum aski, og það réð úrslitum.

Því hefur verið haldið fram í umr. um þetta mál, að frv. það, sem ríkisstj. hafi lagt fram nú, sé einstakt í sinni röð og með því sé ráðizt gegn hefðbundnum réttindum verkalýðsins. Þetta er fullkomlega rangt. Ýmis fordæmi eru fyrir lagasetningu eins og þessari, og hafa þau þó ekki verið talin brjóta í bága við hagsmuni eða réttindi eins eða neins, enda er það hreint öfugmæli hvað þetta frv. snertir. Nærtækasta dæmið, sem raunar oft hefur verið nefnt í umr. um þetta frv., er, þegar núv. og þáv. formaður A. S. Í. setti sem félmrh. í vinstri stjórninni 1956 brbl. um nákvæmlega sama efni, og má um þau segja, að hann hafi gengið feti framar þá en gert er nú, þar sem hann, um leið og hann þá festi kaupið, lækkaði það um 6 vísitölustig, eða sem er það sama raunverulega, lét ekki koma til framkvæmda 6 stiga hækkun, sem átti að ganga í gildi 3 dögum eftir að brbl. voru sett.

Efni þeirra brbl., sem Hannibal Valdimarsson gaf út sem félmrh. 28. ágúst 1956, er bezt lýst með orðum hans sjálfs í framsöguræðu, þegar hann leitaði staðfestingar Alþingis um haustíð á brbl. Hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Efni frv. er það, að ríkisstj. hefur ákveðið að festa verðlag og kaupgjald í landinu um 4 mánuði.“ Og festingunni fylgdi svo í kaupbæti 6 vísitölustiga kaupskerðing. Hann hefur reynt að afsaka sig með því , að yfir hafi vofað hækkun á landbúnaðarafurðum og þeirri hækkun hafi verið forðað með brbl. Hann gleymir þá að taka fram, að þá hækkun áttu launþegar að fá bætta 1. des., en sú hækkun var einnig stöðvuð með þessum lögum. Hér var því um hreina kaupbindingu að ræða. Launþegum var þó ekki bannað að gera verkfall þá, segir Hannibal Valdimarsson nú til þess að afsaka sig. Þar sem samningar voru yfirleitt ekki lausir, þegar þetta gerðist, var ekki hægt fyrir launþega að gera verkfall hvort sem var, og eina kaupbindingin, sem til greina gat komið þá, var að stöðva vísitöluálagið, og það gerði Hannibal líka rækilega.

Þá er sagt, að verðlagsins hafi verið miklu tryggilegar gætt þá en nú er gert í frv. ríkisstj. En undanþáguákvæði voru vissulega til í brbl. Hannibals og lagt í vald ríkisstj. og innflutningsskrifstofunnar, hvernig þau væru framkvæmd. En nú er þetta lagt á vald réttra verðlagsyfirvalda, og sé ég ekki, að á þessu tvennu sé ýkjamikill munur.

Þegar allt um þrýtur, er því svo haldið fram, að frv. núv. ríkisstj. sé einstakt í sinni röð að því leyti, að það eigi að verka aftur fyrir sig frá þeim degi, er það var lagt fram. En brbl. Hannibals Valdimarssonar verkuðu vissulega líka aftur fyrir sig. Þau voru gefin út 28. ágúst, en verðlagsákvæði þeirra voru látin gilda frá 15. ágúst. Það ber því allt að einum brunni, mismunur á þessum brbl. og núv. frv. er harla lítill, annar en sá, að brbl. Hannibals Valdimarssonar festu kaupið með kaupskerðingu, en þetta frv. gerir það ekki, og brbl. voru látin gilda í 4 mánuði í staðinn fyrir nú aðeins í tvo og raunverulega ekki nema hálfan annan mánuð.

Þá er því haldið fram, að sá mismunur sé á málsmeðferðinni þá og nú, að þá hafi verið haft samband við framámenn verkalýðsfélaganna. Hv. 5. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, sagði raunar áðan, að þetta hefði verið gert með samþykki verkalýðsfélaganna, þó að mér vitanlega hafi það ekki verið borið undir eitt einasta verkalýðsfélag Í landinu. Það sanna er, að það hefur verið haft samband við framámenn ýmissa verkalýðsfélaga, en ekki við félögin sjálf, og málið aldrei tekið fyrir á fundi í einu einasta verkalýðsfélagi. Á þeim eina fundi, sem um málið virðist hafa verið haldinn með stjórnum verkalýðsfélaganna hér í Reykjavík 1956, var fullur fjórði hluti fundarmanna ekki tilbúinn til að greiða málinu jákvæði og nokkrir eða allmargir beinlínis andvígir því , svo að munurinn, þó að hann sé einhver með öllum þeim áróðri, sem nú hefur verið hafður uppi, er ekki ýkjamikill.

Hitt gerði svo gæfumuninn þá, 1956, að stjórnarandstaðan þá studdi málið í stað þess ofsalega áróðurs, sem núverandi stjórnarandstaða hefur rekið gegn frv. Ef stjórnarandstaðan 1956 hefði farið eins að og gert er nú, þá er ósýnt, hvernig farið hefði 1956.

Mér hefur þótt rétt að draga þessar staðreyndir fram í dagsljósið, því að þær varpa skýru ljósi á baráttuaðferðir stjórnarandstöðunnar og sýna, svo að ekki verður um villzt, að það er önnur afstaða tekin til mála, þegar núv. stjórnarandstöðuflokkar eru í stjórn, heldur en þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Það, sem þeir telja rétt að gera, þegar þeir eru í stjórn, er óhæfa, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, þó að um nákvæmlega sömu aðgerðirnar sé að ræða. Það er kannske að vísu léleg afsökun, ef eitthvert óhæfuverk er hér á ferð, að einhver annar hafi áður gert slíkt hið sama. En þar sem fyrirmyndin er sjálfur siðameistarinn og vandlætarinn, forseti A.S.Í., sem ekki má vamm sitt vita í neinu til orðs eða æðis, þá getur vart verið um slíkt að ræða.

Þá hefur verið sagt: Af hverju var ekki hægt að gera einhverjar þessar ráðstafanir strax, um leið og frv. var lagt fram? Því hef ég raunar áður svarað. Til þess vannst ekki tími. Þróun mála varð með svo örum hætti síðustu vikurnar. Og þá hefði ekki heldur þurft að biðja um frest, eins og nú er gert.

Þá hefur verið á það bent, að laun opinberra starfsmanna hafi hækkað mjög verulega með kjaradómi, sem gekk um laun opinberra starfsmanna í júlíbyrjun í sumar, og þetta er rétt. En á það vil ég benda í því sambandi, að um þau lög, sem lágu til grundvallar Þeim dómi, var fullt samkomulag á Alþingi, og um niðurstöðu dómsins réð ríkisstj. vitaskuld engu.

Þá vildi ég geta þess, að þegar launamál tekjuhæstu launþega þessa lands hefur borið á góma hér á Alþingi, hafa þessir menn átt öruggan málsvara í formanni A.S.Í. sem hefur verið óþreytandi að tala þeirra máli, vitandi þó, að þegar einum er skammtaður mjög ríflegur hluti af kökunni, þá verður þeim mun minna eftir handa hinum. Þá hefur Hannibal Valdimarsson ekki gætt sem „skyldi hagsmuna sinna umbjóðenda.

Þegar miðstjórn Alþfl. fékk þetta frv. um launamál o.fl. til meðferðar, áður en það var lagt fram, þá samþykkti hún með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. að heita því stuðningi sínum í trausti þess, eins og segir í ályktun, sem um það var gerð, að þörfum láglaunafólks verði mætt með útsvars- og skattaívilnunum, lágmarkslaunum, hækkuðum tryggingabótum o.fl. Miðstjórnin gerði sér ljóst, að hin óbeina aðstoð við þetta fólk kemur að beztum notum og verður hverjum einstaklingi drýgri en sú launahækkun verður, sem fer strax út í verðlagið, enda er almenningur yfirleitt búinn að gera sér ljóst, að víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds þjóna engum tilgangi öðrum en þeim að gera verðgildi peninganna minna. Við teljum þess vegna, að það væri mikil ógæfa, ef ríkisstj. yrði ekki veittur sá frestur, sem hún hefur beðið um, til þess að gera Þessa tilraun. Með einhverjum hætti verður líka að lagfæra það misræmi, sem orðið hefur í kaupgjaldi þeirra hópa, sem eftir hafa orðið í kaupgjaldskapphlaupinu, um leið og tryggt er, að sú leiðrétting fari ekki allan hringinn og geri lagfæringuna að engu, eins og svo oft hefur orðið raunin á, vegna þess að veik og margklofin atvinnurekendasamtök hafa ekki megnað að standa á móti þeirri óheillaþróun og lálaunafólkið þannig dregizt aftur úr. Ríkisvaldið verður því að láta þessi mál til sín taka, ef takast á að koma þeim á heilbrigðari braut til hagsbóta fyrir láglaunafólk.

Þó að vantrauststill. sú, sem hér liggur nú fyrir, sé kannske sérstaklega borin fram vegna þessa máls, sem ég hef nú gert að umræðuefni, hefur gagnrýni stjórnarandstöðunnar svo sem beinzt að fleiri stjórnarathöfnum, sérstaklega viðreisninni, sem þeir telja að hafi alveg farið út um þúfur, og skal ég því með örfáum orðum koma nokkuð að því. Ég skal aðeins nefna nokkur þau atriði, sem ég tel að lánazt hafi fyllilega, eins og til var stofnað.

Traustíð á gjaldmiðlinum t.d. hafði verið endurvakið, þó að nú upp á síðkastíð með hinum miklu víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags hafi krónunni verið sýnt það tilræði, sem ekki er séð fyrir endann á. Ríkisstj. er þó staðráðin í því að beita öllum tiltækum ráðum til að halda í horfinu og reyna til hins ýtrasta að vernda þetta traust á peningum okkar, enda er það einn hornsteinninn og kannske sá styrkasti undir öllu okkar efnahagslífi. Þetta traust hefur leitt til mjög örrar sparifjármyndunar og gjaldeyrissjóða stærri en nokkurn tíma hafa verið til síðan í styrjaldarlok. Lánstraust okkar erlendis er endurvakið og peningar okkar eru keyptir erlendis, en þar vildi enginn áður lita við þeim. Þetta er vissulega mikill og farsæll árangur af núv. stjórnarstarfi. Verzlunin hefur að heita má verið gefin algerlega frjáls, og meira vöruval en nokkru sinni er nú til í verzlununum. Vöruskömmtun þekkist ekki. Bótakerfið, útflutningsuppbæturnar, er horfið og hið margfalda gengi, sem við það var bundið, sömuleiðis. Fiski- og kaupskipaflotinn hefur aldrei vaxið jafnört og skipastóllinn hefur aldrei verið jafnmikill og fullkominn og nú. Byggingarframkvæmdir eru nú meiri en hægt er að útvega menn til. Það, sem hér má að finna, er, að það er farið of geyst og meira lagt undir en hægt er að framkvæma í einu.

Er það þetta, sem stjórnarandstaðan gagnrýnir? Nei, vissulega ekki. Framsóknarforustan t.d. hefur marglýst því yfir, að ekki sé nógu fé veitt út í efnahagslífið, sparifjárbindinguna eigi að leysa upp og sparifé eigi allt að lána út. Þetta er svo furðuleg afstaða hjá flokki, sem telur sig ábyrgan stjórnmálaflokk, að það þarf áreiðanlega langt að leita til Þess að finna nokkra hliðstæðu. Verðbólguþróunin í landinu er að miklu leyti því að kenna, að of mikið er fjárfest. Svo vilja þeir framsóknarmenn lækna þetta ástand með því að magna fjárfestinguna enn meir með því að veita til hennar meira fjármagni, sem auðvitað mundi einnig hafa í för með sér, að gjaldeyrissjóðirnir mundu tæmast, landið missa allt traust út á við og komast á vonarvöl, eins og gerzt hafði áður undir þeirra stjórn. Þetta er það, sem landsfólkið má eiga von á, ef þeim tækist að hrifsa til sín stjórnartaumana. En sem betur fer geri ég ekki ráð fyrir, að margir mundu verða þess fýsandi.

Eitt mál vildi ég mega minnast á að lokum, sem ríkisstj. hefur látið mjög til sín taka, en það eru tryggingamálin. Vinstri stjórnin hafði sýnt þessum málum fádæma tómlæti alla þá tíð, sem hún var við völd. Engar endurbætur voru gerðar á tryggingalögunum og fjárframlög til þeirra voru skorin við nögl. Kemur þar glöggt fram skilningur þeirra eða réttara sagt skilningsleysi á þörfum þeirra , sem við erfiðust kjör eiga að búa í þjóðfélaginu. Vinstri stjórnin réð afgreiðslu fjárlaga tvisvar, fyrir árin 1957 og 1958. Fyrra árið voru útgjöld til trygginga og félagsmála yfirleitt alls á 17. gr. fjárl. réttar 100 millj. kr. og síðara árið 106 millj. Nú hafa þessi framlög til félagsmála verið hækkuð upp í 604 millj. á fjárlagafrv. fyrir árið 1964. Hafa þá framlög til þessara mála verið sexfölduð, frá því að vinstri stjórnin lét af störfum fyrir 5 árum tæpum. Þetta er eitt af því , sem ég tel að núv. stjórn hafi bezt gert og vinstri stjórnin verst og sýnir greinilegar en flest annað, hvern hug þessar ríkisstj. hvor um sig bera til þeirra , sem erfiðast eiga uppdráttar.

Annað mál þessu náskylt vildi ég einnig nefna, en það eru verkamannabústaðirnir, þ.e.a.s. húsnæðismál hinna efnaminnstu og láglaunafólks, þeirra sem minnsta möguleika hafa til að eignast þak yfir höfuðið. Um fá mál gerir stjórnarandstaðan sér nú tíðræddara en húsnæðismálin og Þá erfiðleika, sem menn eiga við að etja, sem vilja byggja yfir sig. En þegar þessir sömu menn voru í ríkisstj., sýndu þeir verkamannabústaðabyggingunum fullkomið tómlæti. Lögin um verkamannabústaði voru raunar afnumin sem sjálfstæð lög og felld inn í annan lagabálk. Strax þetta sýndi hugarfarið. Framlögin til þeirra voru skorin við nögl, og lánsfjárútveganir voru litlar eða engar. Öllu þessu hefur núv. stjórn breytt. Sérstök lög hafa aftur verið sett um verkamannabústaði. Fjárframlög frá ríki og bæ hafa verið hækkuð mjög verulega, um 67%, og lánsfé útvegað, meira heldur en nokkru sinni áður. Lánsupphæð á hverja íbúð hefur verið tvöfölduð.

Þessar aðgerðir allar, sem ég nú hef talið, eru vissulega hinum efnaminnstu, sem þurfa að byggja, meira virði en margt annað. Og þessi afstaða til verkamannabústaðabygginga ásamt hinum gífurlegu endurbótum á tryggingalögunum sýnir betur en margt annað, hvernig núv. ríkisstj. hefur snúizt við vanda hinna efnaminnstu og lægst launuðu, sem annars eiga fárra kosta völ.

Þetta er nefnt hér nú vegna sýndarbaráttu stjórnarandstöðunnar fyrir hina lægst launuðu. Og mitt síðasta orð skal vera Þetta: Verið vel á verði gegn tálbeitum og áróðurssnörum kommúnista og Framsóknar. Þar geta menn fest sig, án þess jafnvei að gera sér þess grein og vita af því, eins og ýmsar ályktanir, sem gerðar hafa verið nú um launa- og verðlagsstöðvunarfrv. ríkisstj., bera vott um, þar sem allir eða a.m.k. flestir óska nú einskis frekar en að sú hringrás verði stöðvuð. — Góða nótt.