06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (2719)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Engin ríkisstj. hefur unnið sér jafnrækilega til óhelgi Í augum allra launþega og sú, sem nú er lýst vantrausti á. Hún hóf feril sinn með stórfelldri gengislækkun í ársbyrjun 1960. Afleiðingin varð gífurleg verðhækkun á öllum vörum, en samtímis var vísitalan tekin úr sambandi. Með lagaboði voru þau ákvæði í frjálsum samningum verkalýðsfélaganna að engu gerð, er kváðu á um, að verðlagsuppbætur skyldu greiddar á kaupið. Þessi sjálfsagða ráðstöfun, að kaup launþega hækkaði, ef verð á vörum og þjónustu hækkaði, var afnumin, og samkv. gengislækkunarlögunum áttu launþegar að taka á sig allar verðhækkanir algerlega bótalaust.

Þannig stóðu málin fram á mitt árið 1961, að verkalýðsfélögin knúðu fram 10% kauphækkun og gerðu samninga, er tryggja áttu vinnufrið í tvö ár, en vegna beinna afskipta ríkisstj. kostaði þessi smávægilega launahækkun margra vikna verkfall. Eins og frægt er orðið, svaraði ríkisstj. þessum kauphækkunum með nýrri gengisfellingu í ágúst 1961. Fyrir þeirri gengislækkun voru engin hagfræðileg rök, og var hún bein hefndarráðstöfun gagnvart verkalýðshreyfingunni og hafði þann tilgang einan að sanna verkafólki, að kauphækkanir væru tilgangslausar. Nýrri dýrtíðaröldu var hleypt af stað, og samningar verkalýðsfélaganna, sem áttu að tryggja vinnufrið í 2 ár, voru að engu gerðir. Síðan hafa verkalýðsfélögin neyðzt til þess að hækka kaupið einu sinni, tvisvar og jafnvel þrisvar á ári vegna síendurtekinna og gegndarlausra verðhækkana.

Á síðustu vikum hafa verðhækkanirnar keyrt um þverbak. Frá því að verkalýðsfélögin frestuðu samningum sínum í sumar, eftir að hafa fengið 71/2 % kauphækkun, hefur verð á matvörum hækkað um 15% að meðaltall samkv. vísitölu hagstofunnar, eða hækkað helmingi meira en kauphækkuninni nam. Kaupmátturinn hefur farið síminnkandi í tíð þessarar ríkisstj. vegna aðgerða hennar í peninga- og verðlagsmálum. Síðan í ársbyrjun 1960 hefur vísitala vöru og þjónustu hækkað um 63%, en á sama tíma hefur kaup verkamanna hækkað aðeins um 35%.

Ef borið er saman árskaup verkamanns fyrir dagvinnu annars vegar og útgjaldaupphæð vísitölunnar hins vegar, litur dæmið þannig út: í marz 1960 hafði verkamaðurinn 1287 kr. afgangs af árskaupi sínu, þegar hann hafði keypt það vörumagn, sem vísitalan reiknar með. En nú skortir verkamanninn 11546 kr. á árskaupið til þess að geta keypt þetta vörumagn. Verkamann vantar nú nærri 13 þús. kr. á árskaupið til þess að standa jafn gagnvart verðlaginu og hann stóð í marz 1960.

Það er þessi þróun verðlagsmálanna, sem er höfuðröksemdin fyrir hinum sjálfsögðu kröfum verkalýðsfélaganna nú um hækkað kaup. En við þetta bætist svo, að hópar hálaunamanna í þjóðfélaginu hafa nú hækkað sín laun langt fram yfir það, sem nemur kröfum verkamannanna. Ég á ekki hér við nauðsynlegar kauphækkanir til ýmissa hópa opinberra starfsmanna, sem höfðu lág laun fyrir, þeirra kaup er sízt of hátt, heldur á ég við menn, sem hafa margföld verkamannalaun, laun, sem eru langt út úr öllu launakerfi okkar og virðast miða að því að koma hér á meira launamisrétti en þekkzt hefur áður. En þeirri þróun ætlar verkar fólk ekki að una.

Núv. ríkisstj., sem í upphafi ferlis síns hafði á stefnuskrá sinni, að samtök launþega og atvinnurekenda ættu ein að gera út um kaupgjaldsmál, kórónar nú sín ljótu afskipti af þeim málum með frv. um launamál o.fl., sem nú liggur fyrir Alþingi. Í þessu frv. felst hatrammari árás á frelsi verkalýðsfélaganna og kjör verkafólks en áður þekkist í þingsögunni. Eftir hinar miklu verðhækkanir og kauphækkanir til hálaunamanna á nú að banna allar kauphækkanir og leiðréttingar til þeirra , sem lægst hafa laun og verst eru settir, og svipta verkalýðsfélögin þeirra helgasta rétti, verkfallsréttinum, sem er einn af hornsteinum lýðræðisins í landi okkar. Sagt er, að aðeins sé um að ræða frest í tvo mánuði, meðan verið sé að finna lausn málanna. Því er til að svara, að ríkisstj. hefur haft nægan frest. Hún hefur haft frest síðan um miðjan júnímánuð í sumar, að verkalýðsfélögin frestuðu samningum sínum til 15. okt. Hafi hún ekki notað þennan frest, hefur hún flotíð sofandi að feigðarósi. Henni átti að vera fullvel ljóst, að hverju fór. Forsrh. var einnig boðinn frestur í allt að hálfan mánuð, áður en frv. var lagt fram, til þess að þrautreyna samninga.

Í þessu sambandi vil ég mótmæla mjög harðlega ummælum Emils Jónssonar ráðh., sem hann viðhafði hér áðan. Hann sagði, að forsrh. hefði farið fram á frest, en ekki fengið. Sannleikurinn er sá, að forsrh. fór aldrei fram á neinn frest við okkur. En hins vegar kom drengskapur hans fram í því , að um leið og hann þóttist viðhafa vinsamlegar viðræður við okkur, var verið að undirbúa þessi þokkalegu lög. Við buðum frestinn, en hann var ekki þeginn. Það virðist því eitthvað annað liggja á bak við en aðeins að fá frest, enda sagt í frv. sjálfu, að ætlunin sé að skipa þessum málum með nýrri löggjöf fyrir áramót, þegar þessi lög eiga að missa gildi, gæti reyndar eins orðið með brbl., eftir að Alþingi hefur verið sent heim í jólaleyfi. Engar yfirlýsingar hafa fengizt um það, að í þeirri löggjöf, sem taka á við af Þessari, verði ekki sömu þrælatökin á verkalýðshreyfingunni og nú eru fyrirhuguð. Í framsöguræðu sinni fyrir frv. sagði forsrh., að bæta ætti kjör hinna lægst launuðu eftir öðrum leiðum en kauphækkunum. Virðist þetta ótvírætt benda til, að áfram eigi að banna kauphækkanir.

Svo er látið heita, að í frv. sé einnig lagt bann við verðhækkunum. En þetta er rangt. Dyrum er haldið opnum fyrir verðhækkunum, og í framsögu sagði forsrh., að leyfðar væru verðhækkanir, sem stöfuðu af hækkunum á erlendum vörum og hækkun á tilkostnaði á undanförnum mánuðum. Það er því opin leið til að hækka verð á vörum og þjónustu, svo sem rafmagni, hitaveitu og strætisvagnagjöldum, en þetta hefur allt staðið til að hækka að undanförnu. Það má því allt hækka nema kaupið.

Aðalrökin, sem fram eru færð fyrir frv., eru þau, að neyzla og fjárfesting hafi aukizt meira en hægt sé að veita og þetta hafi leitt til mjög óhagstæðs verzlunarjafnaðar. Menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, var svo smekkvís að segja hér fyrir nokkrum dögum, að kauphækkanirnar í fyrra og á Þessu ári ættu sök á þessari þróun. Ætli það sé ekki kaupgeta verkafólks, sem kallað hefur á innflutning 3000 bíla á þessu ári? Og ætli það sé ekki þetta fólk, sem hefur byggt t.d. verzlunarhallirnar hérna inn með Laugaveginum? Nei, því fer víðs fjarri. Kauphækkanirnar dugðu ekki einu sinni til að halda í við verðlagið, hvað þá meira, eins og margsannað er. Nei, það er stefna sjálfrar ríkisstj., sem á sökina. Hið óhefta frelsi auðmanna og braskara í verzlun og framkvæmdum og möguleikar þeirra til að sölsa undir sig lánsfé og gróða er meinvaldurinn. En þetta eru gæðingar ríkisstj., og við þeim má ekki hrófla. Þess vegna á að leysa vandann á kostnað þeirra, sem minnst bera úr býtum, og hefta frelsi þeirra . Og þennan dans virðist Alþfl. ætla að dansa, þó ekki af hjartans lyst, nema þá helzt hæstv. menntmrh., og svo sannarlega ætti það þá að verða hans dauðadans á stjórnmálasviðinu.

Önnur röksemd fyrir frv. er sú, að útflutningsatvinnuvegirnir beri ekki hærra kaup. Þó að þetta væri rétt, ber að hafa í huga, að kaupið er ekki nema litill hluti af tilkostnaði t.d. hraðfrystihúsanna, líklega um 20%. Stærri hundraðshlutar eru háðir ákvörðunum stjórnarvaldanna, t.d. vextir og útflutningsgjaldið. Með því einu að fella niður 7.4% útflutningsgjaldið væri hægt að hækka kaup fólksins í frystihúsunum um minnst 30%, og það verða allir að gera sér ljóst, að kaup þessa fólks, sem leggur nótt með degi til að bjarga hinum mestu verðmætum, verður óumflýjanlega að hækka.

Það má óhikað fullyrða, að ekkert þingmál hefur mætt jafneindreginni andúð allrar þjóðarinnar sem frv. ríkisstj. um launamál o.fl. Það stríðir algerlega gegn allri siðgæðis- og réttarvitund almennings. Mótmælunum rignir yfir frá verkalýðsfélögunum, jafnt þeim, sem lúta forustu stjórnarsinna, sem hinum. Hið íslenzka prentarafélag undir forustu Alþfl. manna hefur nú staðið í viku mótmælaverkfalli. Hafnarverkamenn í Reykjavík lögðu niður vinnu sem einn maður daginn sem frv. var lagt fram. Mótmælafundurinn á Lækjartorgi s.l. mánudag var einn sá fjölmennasti, sem hér hefur sézt. Eins var á Akureyri. í öllum þýðingarmestu atvinnugreinum stöðvaðist öll vinna eftir hádegi á mánudag í Reykjavík, Hafnarfirði, á Akureyri, í Vestmannaeyjum og miklu víðar. Þessi viðbrögð verkafólksins eru algert einsdæmi og sýna einhug þess í baráttunni gegn frelsissviptingunni og ranglætinu.

Hæstv. ráðh. tala nú mjög um, að þeir vilji eiga vinsamleg samskipti og viðræður við verkalýðshreyfinguna. En drengskapur þeirra er slíkur, að fyrst á að leggja verkalýðsfélögin í fjötra, binda þau við staur og taka síðan upp vinsamlegar viðræður. Illa þekkja þessir menn þjóð sína, Íslendingseðlið, ef þeir halda, að slíkt geti tekizt.

Nei, ríkisstj. á nú aðeins einn kost, sem vit er í að taka, og hann er sá að draga frv. sitt til baka og taka upp heiðarlega samninga við verkalýðsfélögin. Enn er ekki of seint að snúa við. En geri hún það ekki, er stefnt í styrjöld, og það eitt er víst, að sú barátta verður atvinnuvegunum og þjóðinni allri miklu dýrari í peningum auk alls annars en sú kauphækkun, sem nú væri hægt að semja um. Við höfum boðið samningsleiðina og frest, en verði það ekki þegið, þá skora ég á allt verkafólk að skipa sér einhuga um frelsi samtakanna og lífshagsmuni sina í þeirri örlagaríku baráttu, sem fram undan er.

Vera má, að stjórnarflokkarnir eigi enn nógu margar ólamaðar hendur hér á Alþingi til að samþykkja frv. ríkisstj. En væri vilja þjóðarinnar leitað, yrði það kolfellt. Þess vegna getur það aldrei orðið annað en ólög.