06.11.1963
Sameinað þing: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (2720)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við þm. Alþb. höfum borið fram vantraust á hæstv. ríkisstj., vegna þess að ríkisstj. virðist ekki eygja nein heiðarleg úrræði til að leysa þann vanda, sem hún hefur sjálf skapað með stefnu sinni. Hæstv. ríkisstj. ætlar nú að svipta launþega almennum lýðréttindum, samningsrétti, félagafrelsi og verkfallsrétti, næstu tvo mánuði. Samtímis berast fréttir úr stjórnarherbúðunum um, að ríkisstj. undirbúi að setja ný kaupbindingarlög um áramótin og verði þau látin gilda í 2 ár. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafa hæstv. ráðh. ekki fengizt til að lýsa því yfir hér á Albingi, að verkalýðshreyfingin fái rétt sinn og frelsi aftur að tveimur mánuðum liðnum. Meðan sú yfirlýsing liggur ekki fyrir, hljóta launþegar að gera ráð fyrir, að þessi barátta, sem nú stendur yfir um samningsréttinn og félagafrelsið, sé úrslitabarátta verkalýðshreyfingarinnar um réttindamál sin.

Núv. ríkisstj. náði meiri hl. við síðustu alþingiskosningar. En ég vil spyrja: Hvaðan kemur hæstv. ríkisstj. vald til að svipta launþega þeim sjáifsögðu réttindum, sem þeir hafa áunnið sér með lögum eftir áratuga baráttu? Ekki frá þjóðinni. Þjóðin veitti þeim meiri hl. við seinustu kosningar, en ekki einræðisvald. Þjóðin veitti þeim réttinn til að stjórna, en ekki valdið til að svipta borgarana sjálfsögðum réttindum. Valdið, sem ríkisstj. hyggst beita til að handjárna verkalýðshreyfinguna, er tvímælalaust byggt á fölskum forsendum. Við sjáum líka, hver eru viðbrögð fólksins, sem veitti ríkisstj. brautargengi í seinustu kosningum, þegar það sér hið rétta andlit mannanna, sem það studdi til valda fyrir fáum mánuðum. Verkalýðsfélög, sem stjórnað er af eindregnum sjálfstæðis- og Alþfl: mönnum, hafa einróma samþ. mótmæli gegn þvingunarlögunum og skorað á Alþingi að fella frv. Það mótmæla sem sagt fleiri en landráðamenn og kommúnistar. Öll verkalýðshreyfingin snýst til varnar, og nú þegar er orðið ljóst, að meiri hl. þjóðarinnar er á móti þessu frv.

Það vantraust á ríkisstj., sem nú er til umr., er ekki aðeins fram borið af okkur Alþb: mönnum og stutt af Framsfl. Samþykktir og ákvarðanir verkalýðsfélaga um land allt eru eindregin vantraustsyfirlýsing á núv. ríkisstj., vantraust, sem borið er einum rómi fram af þúsundum og tugþúsundum launþega úr öllum flokkum og öllum stéttum. Þessi almenna vantraustsyfirlýsing er áskorun launþeganna til hæstv. ríkisstj., að hún segi af sér tafarlaust, ef hún getur ekki leyst vandann, sem hún hefur sjálf komið þjóðinni í, með öðrum og skaplegri hætti.

Hæstv. ráðh. hafa aldrei staðið jafneinmana og einangraðir sem nú á þessari stundu, og engin fjöldasamtök í landinu hafa enn fengizt til að mæla með ofbeldíslögunum, sem nú á að knýja í gegn. Mér er til efs, að hæstv. ráðh. eigi stuðning vísan utan þings þessa dagana, nema kannske stuðning þeirra unglinga, sem gerðu aðsúg að forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar á útifundinum á Lækjartorgi s.l. mánudag, mölvuðu síðan rúður í flokksskrifstofu Sósfl. og hentu grjóti inn um glugga alþingishússins undir kjörorðinu: „Út með Hannibal, lifi ríkisstj."

Hæstv. ríkisstj. segist þurfa að lögbinda kaup verkalýðsins, því að ella verði óhjákvæmilegt að fella gengi krónunnar enn einu sinni. Nú er það öllum kunnugt, að engin ríkisstj. hefur verið jafnóspör á gengislækkanir og einmitt núv. hæstv. ríkisstj. Og áður hefur hún leyft sér að misbeita gengisskráningu ísl. krónunnar í viðleitni sinni til að halda niðri lífskjörum almennings. Sumir eru að velta því fyrir sér, hvers vegna hún notar ekki sitt gamla vopn og mætir launakröfum verkalýðshreyfingarinnar með gengisfellingu, eins og hún er vön að gera. Svarið við þessari spurningu er að finna í leiðara Alþýðublaðsins 13. okt. s.l. Dagblaðið Þjóðviljinn hafði áður haldið því fram, að hæstv. ríkisstj. hefði fengið um það skipun frá Washington, að ekki mætti fella gengi krónunnar. Þessari fullyrðingu Þjóðviljans svaraði Alþýðublaðið svofelldum orðum í leiðara, með leyfi forseta:

„Hins vegar hefði Þjóðviljinn mátt lita til hinna miklu skulda íslenzkra innflytjenda erlendis til að finna sterkar líkur fyrir því, að borgaraflokkarnir hér á landi hafi ekki áhuga á gengislækkun, eins og sakir standa.“

Með þessum orðum lýsir málgagn viðskmrh. því yfir, að ríkisstj. geti ekki fellt gengið, því að heildsalar og braskarar skuldi of mikið erlendis, því að ef gengið er fellt um t.d. 40%, hækka skuldir braskaranna erlendis um 40% í ísl. krónum. Þess vegna og aðeins þess vegna má ekki fella gengið.

Í þessari stuttorðu yfirlýsingu Alþýðublaðsins er fólginn innsti kjarninn í stefnu hæstv. ríkisstj. Hverra hag ber hún fyrir brjósti? Er það hagur almennings eða hagur þjóðarheildarinnar? Alþýðublaðið svarar opinskátt: Það er hvorugt. Það er hagur íslenzkra innflytjenda, heildsala, braskara. — Ríkisstj. getur sem sé hugsað sér að skerða lífskjör almennings um 40% með glöðu geði, en þegar kemur að pyngju heildsalanna, er sannarlega annað hljóð í strokknum.

Þvingunarlögin, sem nú eru til umr., eru fyrst og fremst stórárás á verkalýðshreyfinguna. En þau kunna jafnframt að vera tveggja mánaða frestur, sem heildsalarnir fá til að greiða skuldir sínar, áður en ríkisstj. gefst upp á þvingunarlögunum og ræðst á launþegana með nýrri gengisfellingu eftir áramót. Ríkisstj. hefur reynt að telja fólki trú um, að aðeins tvennt sé til, gengislækkun eða kaupbinding, því að ef kaupið hækki, verði að fella gengið. Þetta er auðvitað fráleit falskenning. Enginn heiðarlegur hagfræðingur mun halda því fram, að milli launa og gengisskráningar krónunnar ríki eitthvert dularfullt orsakasamband, enda er það flestum kunnugt, að ýmsir aðrir liðir efnahagslífsins hafa meiri áhrif á dýrtíðina og gengi krónunnar en launin.

Alþb. hefur því hvað eftir annað bent á, að engin þörf sé á að leysa vandamál efnahagslífsins á kostnað lægst launuðu stéttanna með gengislækkun eða kaupbindingu. Framleiðslan þolir verulega kauphækkun, ef ríkisstj. aðstoðar útflutningsatvinnuvegina og hættir t.d. vaxtaokrinu. Vinnulaunin eru aðeins hluti af framleiðslukostnaði, t.d. aðeins fimmti hluti af rekstrarkostnaði hraðfrystihúsa. Og sýnt hefur verið fram á, að með því að afnema útflutningsskattinn mætti hækka laun verkafólks um 30%.

En ríkisstj. vill ekki velja þessa leið. Hún hefur ákveðið að stjórna landinu með hliðsjón af þörfum heildsala og braskara. Hæstv. ráðh. mega þó vita, að engin leið er að stjórna landinu í andstöðu við nær alla launþega þjóðarinnar.

Nú er dökkt útlit í þjóðmálum okkar. Fyrir dyrum standa hörð átök milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar. Stórverkfall er í aðsigi og milljónaverðmæti í hættu. Ábyrgðin hvílir á herðum hæstv. ríkisstj. Hún hefur neitað öllu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og ráðizt á réttindi hennar. Ríkisstj. dæmir sig sjálf. Það er hennar sök, hvernig komið er málum. Verkamannakaup er aðeins 5700 kr. á mánuði miðað við 8 tíma vinnu. Samkv. opinberum útreikningum Þarf verkamannafjölskylda að hafa um 9500 kr. í laun til að eiga fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, og þó er húsaleigan aðeins reiknuð 90O kr. á mánuði. Hver er svo húsaleigan í Reykjavík í dag? Hún er 3 og 4 og 5 og jafnvel 6 þús. kr. á mánuði fyrir þriggja herbergja íbúð. Ástandið í húsnæðismálunum hefur aldrei verið jafnhörmulegt og væri það eitt næg ástæða til, að hver heiðarleg ríkisstj. segði af sér. Hundruð fjölskyldna eru á götunni vegna þess eins, að vaxtaokur ríkisstj. og samdráttur í íbúðabyggingum hefur sprengt upp húsaleiguverðið og framboð á leiguhúsnæði er sama og ekkert. Hér höfum við sem sagt enn eitt dæmi um, hvílíkar afleiðingar stefna ríkisstj. hefur haft.

Hæstv. ríkisstj. hefur glatað trausti þjóðarinnar. Hin fruntalega árás á verkallýðshreyfinguna er næg ástæða, og kemur þó fleira til. Áformin um nýjar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði eru tvímælalaust í andstöðu við vilja meiri hl. þjóðarinnar. Einnig í því máli kemur ofbeldis- og einræðishneigðin skýrt fram. Hæstv. ríkisstj. ætlar sér að semja við erlent stórveldi um herstöðvagerð í Hvalfirði, án Þess að leita eftir samþykki Alþingis, eins og stjórnarskrá lýðveldisins fyrirskipar. Það verður aldrei nægilega undirstrikað, að þessi ríkisstj., sem nú situr, hlaut meiri hl. við seinustu kosningar, en ekki einræðisvald.

Herra forseti. Vantrauststill. okkar Alþb. manna er borin fram til að hindra, að einræðishneigð hæstv. ríkisstj. fái útrás. Ríkisstj. styðst við tveggja atkv. meiri hl., og aðeins 2 stjórnarþm. ráða úrslitum. Nú er vegið harkalega að réttindum verkalýðssamtakanna. Meðal stjórnarþm. eru nokkrir þeir, sem kjörnir voru í vor sem sérstakir fulltrúar verkalýðsins, t.d. hv. 12. þm. Reykv., Eggert Þorsteinsson, og hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson. Alþingi á ekki að vera brúðuleikhús. Þar á ekki að vera unnt að kippa í spotta. Þjóðin bíður þess að fá að vita, hvort fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar ætla ekki að vernda rétt hennar á úrslitastund.