07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (2727)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. í ræðum í gærkvöld féllu þau orð, að við kosningarnar í sumar hefðu stjórnarflokkarnir skrökvað að þjóðinni um ástand efnahagsmálanna. Ekki er nokkur fótur fyrir þessari fullyrðingu. Í fyrsta lagi má benda á það, að í áramótaræðu hæstv. forsrh. var það rakið skýrt og skilmerkilega, hver háski þjóðinni stafaði af óheillaþróun þeirri, sem verið hefði í launamálum, og ef ekki væru upp tekin skynsamlegri vinnubrögð í þeim efnum, væri hætta á verðbólgu og erfiðleikum atvinnuveganna. Í ræðum margra talsmanna Sjálfstfl. og Alþfl. fyrir kosningarnar kom fram sama sjónarmið, og einnig var bent á það, að fjárfesting væri orðin of mikil.

En þótt nokkrar blikur væru á lofti, hélt þróunin áfram eðlilega í ýmsum greinum. Kosningarnar fóru fram 9. júní, og fram að þeim tíma hafði gjaldeyrissjóðurinn haldið áfram að vaxa. Um áramót var hann 1150 millj., en fram til maíloka hafði hann vaxið um 271 millj. upp í 1421 millj. Það var ekki fyrr en eftir að alþingiskosningar voru um garð gengnar, sem gjaldeyrisstaðan fór að versna. Eins er um sparifjáraukninguna. Fimm fyrstu mánuði þessa árs hafði hún haldið áfram að vaxa. Hún óx á þeim tíma um 303 millj., sem var allmiklu meiri aukning en á sama tíma í fyrra. Það er fyrst eftir kosningarnar, sem fer að draga úr sparifjáraukningunni.

Því fer fjarri, að ríkisstj. hafi gefið þjóðinni villandi upplýsingar um ástandið eða fegrað það frá því, sem var. Hitt er annað mál, að síðan í júní hefur þenslan í efnahagslífinu aukizt og undanfarnar vikur hafa verið uppi hafðar svo hástemmdar kauphækkunarkröfur, að menn eru uggandi um afkomu atvinnuveganna, ef ekki verður að gert.

Þróun launamálanna er eitt aðalviðfangsefni okkar í dag. í nágrannalöndum hefur þróunin verið sú, að samtök launþega og vinnuveitenda hafa gert með sér heildarsamninga fyrir margar eða flestar atvinnugreinar í einu, og slíkir samningar hafa verið gerðir til langs tíma, 2 eða 3 ára. Svo hefur í meginatriðum verið í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Hér hefur þróun þessara mála verið á allt annan veg. Núverandi forusta Alþýðusambandsins, sem er skipuð kommúnistum með stuðningi Framsóknar, hefur þrátt fyrir ítrekuð tilmæli ríkisstj. ekki sinnt þessum verkefnum með neitt svipuðum hætti sem nágrannarnir. Það hefur verið skorað á forráðamenn Alþýðusambandsins að beita sér fyrir, að hægt verði að gera heildarsamninga fyrir alla eða sem flesta meðlimi sambandsins í einu. Þessu hefur verið hafnað. Það hefur verið lagt til að gera samninga til langs tíma. Því hefur verið hafnað. Ríkisstj. hefur beint því til Alþýðusambandsins, að það reyndi fyrir sitt leyti að tryggja kjarabætur til handa láglaunamönnum og að þær yrðu raunhæfar, en þær kjarabætur yrðu ekki að engu gerðar með því , að allar aðrar stéttir fengju það sama eða meira. Þessum tilmælum hefur verið hafnað. Alþýðusambandið taldi það ekki vera í sínum verkahring.

Í hinni pólitísku forustu Alþýðusambandsins ráða ferðinni fyrst og fremst 3 þm. Alþb., þeir Hannibal Valdimarsson, Eðvarð Sigurðsson og Björn Jónsson, þeir menn, sem hafa haft einna hæst hér á Alþ, undanfarna daga í gagnrýni sinni á ríkisstj. og andstöðu gegn launamálafrv. Þeir hafa hafnað öllum þessum tilmælum um skynsamleg vinnubrögð, vinnubrögð svipuð því, sem nágrannaþjóðir okkar viðhafa. Þeir hafa valið aðra leið, vilja hafa lausa samninga, semja til nokkurra mánaða í senn með alls konar fyrirvörum, þannig að samningar geti verið lausir hvenær sem á þarf að halda. Þeir hafa viljað láta hvert einstakt félag semja fyrir sig á mismunandi tíma og til mismunandi tíma. Og hver hefur árangurinn af stefnu kommúnistanna í Alþýðusambandinu orðið fyrir verkamenn, fyrir láglaunamenn? Í stuttu máli þessi: Árið 1961 fengu verkamenn eftir langt verkfall um 10% kauphækkun. Strax á eftir komu aðrar stéttir, fyrst og fremst iðnstéttirnar, og þær fengu ekki 10% hækkun, heldur upp í 17% þær hæstu. Hvað gerðist árið eftir, 1962? Verkamenn riðu á vaðið og fengu um 9% hækkun að meðaltali. Aðrar stéttir, sem hærra voru launaðar, komu á eftir, og lauk þannig, að þeir iðnaðarmenn, sem hæstir urðu, fengu um 20% hækkun.

Ef litið er yfir þessi 2 ár saman, 1961 og 1962, er útkoman þessi: Láglaunamenn, verkamenn, höfðu fengið samtals um 20% hækkun, en þeir iðnaðarmenn, sem mest hlutu, fengu um og yfir 35%. Þessi er árangurinn af stefnu og starfsemi hinnar pólitísku forustu Alþýðusambandsins. Verkamennirnir byrja til þess að reyna að fá einhverjar kjarabætur sér til handa, en vegna vinnubragða og viðhorfs kommúnista og Framsóknar í stjórn Alþýðusambandsins verður útkoman þessi, að þegar hringnum er lokað, hafa verkamenn fengið langminnst, en aðrar stéttir miklu meira. Af því leiðir svo að sjálfsögðu vaxandi dýrtíð þegar allar stéttir í landinu fá þessar hækkanir, svo að að lokum eru kjör verkamanna lakari en áður en kaupgjaldsbaráttan byrjaði.

Það er furðuleg fásinna að kenna ríkisstj. um þessa þróun mála, ríkisstj., sem hefur einmitt margsinnis gert tilraunir til þess að fá forustu verkalýðssamtakanna inn á heppilegar brautir. Þessi þróun, að verkamenn og láglaunamenn hafa orðið verst úti, verður að skrifast á reikning þessarar pólitísku forustu, m.a. þeirra þriggja alþm., sem nú deila einna harðast á ríkisstj., og þeim mun raunalegra er það, hversu gæfuleysið hefur fallið að síðum þessara manna, sem tveir þeirra eru einmitt formenn stærstu verkamannafélaga á Íslandi.

Um leið og það er viðurkennt, að bæta þarf kjör láglaunamanna, og undirstrikað, að ríkisstj. stefnir að því, verður að leiðrétta þær villandi upplýsingar, sem hér eru gefnar um tekjur og afkomu verkamanna. Eftir lýsingum sumra hv. þm. mætti ætla, að hér væri íslenzk alþýða í algeru svelti og byggi við meiri örbirgð og fátækt en þekkist í nokkru landi Evrópu utan kommúnistaríkjanna. Upplýsingarnar, sem okkur eru gefnar, eru þessar: Útgjaldaupphæð vísitölufjölskyldu, sem sýni þarfir meðalfjölskyldu, sé 95 þús. kr. á ári, en verkamaðurinn hafi aðeins 67 200 kr. til þess að lifa á. Nú eins og áður hefur af opinberri hálfu, hagstofu og skattstofu, verið gert yfirlit um meðaltekjur verkamanna í Reykjavík, þær voru á s.l. ári ekki 67 þús., heldur 89 þús. kr. Þær verða á þessu ári, 1963, ekki 67 þús., heldur um 100 þús. kr., og í þessum 100 þús. kr. eru aðeins taldar tekjur fyrirvinnunnar, en ekki annarra fjölskyldumeðlima, þannig að hafi eiginkona eða börn tekjur, koma þær til viðbótar þessum 100 þús. kr. Tal stjórnarandstæðinga um, að verkamenn hafi ekki nema 67 þús. kr. til lífsframfæris, er því óraunhæft með öllu.

Stjórnarandstæðingar vitna mjög í þá yfirlýsingu ríkisstj. frá 1960, að hún vildi forðast að skipta sér af samningum vinnuveitenda og launþega, kjör þeirra ættu að byggjast á frjálsum samningum. Það er rétt, að ríkisstj. vildi í lengstu lög treysta því, að samtök atvinnurekenda og launþega gætu náð samningum um kjaramálin, þannig að kjörin yrðu bætt í samræmi við aukna þjóðarframleiðslu, að gætt yrði hagsmuna láglaunamanna og það tækist að ná heildarsamningum til langs tíma til þess að tryggja atvinnuöryggi, eðlilega þróun og eðlilegar kjarabætur. Það eru ríkisstj. vissulega mikil vonbrigði, að leið hinna frjálsu samninga hefur ekki skilað betri árangri en raun er á, og af því neyðumst við til þess að grípa nú inn í með frv. til laga til þess að fá nokkurra vikna frest til frekari undirbúnings málanna.

Framfærsluvísitala hefur hækkað frá ársbyrjun 1960 um 44 stig. Þessa miklu verðlagshækkun kenna stjórnarandstæðingar ríkisstj. Nokkur hluti þessarar vísitöluhækkunar stafar af verðhækkun erlendrar vöru vegna tveggja gengisbreytinga. Hvernig voru þessar gengisbreytingar til komnar? Hin fyrri þannig, að núv. stjórn lét meta krónuna, meta, hvers virði hún var eftir daga vinstri stj., og lét skrá krónuna með því gengi, sem hún raunverulega hafði. Sú verðlagshækkun, sem stafar af leiðréttingu á genginu, viðurkenningu á genginu, er ekki sök núv. stj., sem aðeins viðurkenndi í verki það ástand, sem orðið var fyrir tilverknað annarra. Seinni gengisbreyt., í ágúst 1961, var á ábyrgð þeirra manna, sem þá knúðu fram kauphækkanir í landinu, sem voru ótvírætt umfram greiðslugetu þjóðarinnar, meiri en framleiðsla hennar gat borið.

En hækkun vísitölunnar stafar aðeins að nokkru leyti af hækkun erlendra vara. Nær 18 stig af þessum 44, eða um 40% af vísitöluhækkuninni, stafa af hækkun landbúnaðarvara. Sú hækkun stafar fyrst og fremst af auknum tekjum verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna. Bændur eiga rétt á því skv. lögum að fá hækkun á sínum tekjum, hliðstætt því, sem þessar stéttir fá í auknar tekjur. Þetta er því reikningsdæmi. Að nokkru leyti stafar hækkun landbúnaðarvara af því, að leiðréttur hefur verið verðlagsgrundvöllurinn. Þegar framsóknarmenn deila á stj. fyrir hækkun verðlagsins, eru þeir þá að gefa í skyn, að landbúnaðarvörurnar, sem eru um 40% af hækkuninni, hafi hækkað of mikið? Hafa að áliti Framsóknar laun bóndans hækkað of mikið, eða hafa of miklar leiðréttingar verið gerðar á verðlagsgrundvellinum? Og þegar kommúnistar deila á ríkisstj. fyrir hækkun vísitölunnar, sem stafar þannig 40% af hækkun landbúnaðarvara, eru þeir þá að deila á ríkisstj. fyrir það, að verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn hafi á viðreisnartímanum haft of háar árstekjur, en það eru þær, sem hafa fyrst og fremst leitt til hækkunar landbúnaðarvara?

Launamál opinberra starfsmanna og kjaradóm hefur borið mjög á góma í umr. um launamálafrv. Stjórnarandstæðingar hafa notað það mál svo í áróðri sínum og upplausnarstarfi, að hverjum manni, sem til þekkir, hlýtur að blöskra tvöfeldni þeirra og tvískinnungur. Ég ætla rétt að rekja nokkur tildrög þessa máls.

Opinberir starfsmenn höfðu árum saman krafizt samningsréttar um laun sin, í stað þess að þau væru ákveðin af Alþ. með launalögum. Vinstri stj. hafði ekki sinnt þessum óskum. Núv. stj. ákvað hins vegar að beita sér fyrir þessu mannréttindamáli, og lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna voru samþ. á Alþ. 1962 með shlj. atkv. Samkv. þeim skyldu samningar fyrst reyndir til hlítar. Ef þeir tækjust ekki, skyldi óháður dómstóll, kjaradómur, skera úr, en hann er að meiri hluta skipaður af hæstarétti. Kjaradómur er þannig óháður æðsti dómstóll í þessum málum, hliðstæður hæstarétti í venjulegum dómsmálum.

Þegar kommúnistar tala um úrskurð kjaradóms eins og hann væri ákvörðun ríkisstj., ber það aðeins vott um, hvað þessir þm. eru gersneyddir skilningi á því grundvallaratriði lýðræðísins, að dómstólar séu óháðir, sjáifstæðir og lúti ekki fyrirmælum ríkisstjórna. En þetta skilningsleysi þeirra skýrist auðvitað af því, að öll hugsun þeirra er formyrkvuð af einræðisskipulagi kommúnismans, sem þekkir ekki hugtakið óháðir dómstólar.

Við endurskoðun á launum opinberra starfsmanna þurfti að hafa tvennt í huga. Annars vegar var það almennt viðurkennt, að þeir höfðu orðið aftur úr á undanförnum árum og þurftu því almennt að fá kjarabætur. Hins vegar þurfti að rétta hlut þeirra , sem miklu fé og tíma höfðu varið til náms og sérstakar kröfur voru til gerðar um menntun, sérhæfni og ábyrgð. Alþjóðamarkaður má segja, að nú sé opinn fyrir ýmsa sérfræðinga, og Ísland átti vissulega á hættu, að missa af ágætum, nauðsynlegum starfskröftum, ef hlutur þeirra yrði ekki bættur. Og langt nám og aukna ábyrgð þurfti vissulega einnig að launa. Þessi sjónarmið leiddu til þess, að launamismunur milli hinna lægst launuðu og hinna sérfróðu, háskólagenginna manna o.fl., hlaut að aukast. Um þetta meginatriði voru Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og ríkisstj. sammála. En sá var munurinn, að bandalagið vildi ganga miklu lengra en ríkisstj. í þessum launamismun. Þegar bandalagið lagði fram kröfur sínar, vildi það, að lægst launaði flokkurinn fengi 5050 kr. á mánuði, en þeir hæst launuðu 32800, eða 61/2 sinnum hærra. Ríkisstj. þótti hér allt of langt gengið um launahæð hinna hæstu og hinn gífurlega launamismun. Fyrstu till. hennar voru, að hámarkslaun yrðu 14 700 kr. á mánuði, eða rúml. 31/2 sinnum hærri en lægsti launaflokkur. Hverjir stóðu nú að þessum kröfum bandalags opinberra starfsmanna? Í stjórn þess er svokölluð vinstri forusta, sem mjög var fagnað á sinni tíð af Tímanum og Þjóðviljanum. Forustumenn bandalagsins eru í innsta hring Framsfl. og kommúnista, og allar þessar kröfur voru samdar í nánu samráði við og með samþykki æðstu manna þar.

Kjaradómurinn fór hér þá leið, að hann ákvað hæstu laun 19 910 kr. á mánuði, eða 4 sinnum hærri en lægstu laun, sem eru nýliðar í nokkrum störfum.

Nú gerist það hér á Alþ. dag eftir dag, að þingmenn stjórnarandstæðinga ráðast á ríkisstj. fyrir það, að hún hafi aukið ósæmilega og óhæfilega misréttið í launamálum og misskiptingu launa í landinu. Einn þm. kommúnista sagði í þingræðu í gær, að þetta væri fullkomlega í anda og stíl viðreisnarstjórnarinnar, að þeir fengju minnst, sem lægst hefðu launin, en þeir mesta hækkun, sem mest höfðu fyrir. Þetta segja þeir menn, sem kröfðust margfalt meiri hækkana fyrir þá hæst launuðu, miklu meiri launamismunar en kjaradómur úrskurðaði, hvað þá sem ríkisstj. lagði til.

Við kröfugerð hinna opinberu starfsmanna var það jafnan undirstrikað af hálfu framsóknarmanna og kommúnista, að kröfurnar væru gerðar til þess að samræma laun opinberra starfsmanna við þau laun, sem veitt væru á almennum vinnumarkaði, og ættu aðrar stéttir alls ekki að geta á þeim grundvelli krafizt hækkana. Nú er blaðinu snúið við. Þótt kjaradómur tæki ekki til greina nema nokkuð af kröfunum, reyna nú þessir sömu menn að æsa hverja stétt og hvern starfshóp til að gera nýjar og auknar kröfur vegna þeirra kjarabóta, sem opinberir starfsmenn hafa fengið. Og einn hv. þm. kommúnista segir, að verulegur hluti opinberra starfsmanna fái miklu hærri laun en þeir eigi að fá, og heimtar þau lækkuð. Ég verð að segja, að það er hörmulegt að þurfa að horfa ofan í það hyldýpi tvöfeldni og óheilinda, sem birtist í þessum málum.

Við heyrum hér úr munni kommúnista, að hér hafi skapazt á Ísland í alger þjóðarsamstaða móti frv. ríkisstj. um launamát. Það er nú ekki nýtt, að kommúnistar séu þjóðin. Það er vitnað í allan þann fjölda verkalýðsfélaga, sem hafa boðað verkföll í mótmælaskyni við frv. frá og með 11. þ.m. Ég hef nú athugað, hve mörg félög hafa boðað verkföll. Tvö félög höfðu boðað verkföll, áður en frv. var lagt fram, en þau, sem boðað hafa verkföll, að því sagt er til að mótmæla þessu frv., eru 23 félög. Í Alþýðusambandinu eru 220 félög. Það er rétt að það nái því, að það sé tíunda hvert félag, sem svarað hefur kalli kommúnistanna og boðað verkfall í þessu skyni. Ef litið er á félagsmennina, þá munu í Alþýðusambandsfélögunum vera samtals um 35 þús. félagsmenn, en í þessum félögum, sem boðað hafa mótmælaverkföll og eru allfjölmenn sum, munu vera um 9 þús. félagsmenn, m.ö.o., þó að það sé ekki nema 10. hvert félag, þá er það þó í kringum 4. hver félagsmaður innan vébanda Alþýðusambandsins, sem er Í þessum félögum. Þetta er þá öll uppskeran eftir hinn taumlausa áróður fyrir verkföllum í mótmælaskyni í fulla viku. Það er ekki að furða, þótt kommúnistar segist hafa alla þjóðina á bak við sig í sinni andstöðu.

Þá hefur verið vitnað í umr. í Ed. í dag um launamálafrv. í fjölmennan fund, sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur hélt í gærkvöld, og þá stóð mikið til hjá stjórnarandstæðingum, því að nú átti að klekkja á ríkisstj. Þeir fluttu till. um, að verzlunarmenn samþykktu að hefja verkfall, náttúrlega í mótmælaskyni við frv., en þegar á leið fundinn, sáu stjórnarandstæðingar sitt óvænna og drógu verkfallstili. til baka, svo að hún kom aldrei til atkvæða.

Það er sagt, að frv. ríkisstj. um launamál sé stefnt fyrst og fremst gegn verkamönnum og öðrum láglaunamönnum. Þetta er rangt. Hið gagnstæða er rétt. Það voru ekki verkamenn, sem voru búnir að boða verkföll, þegar þetta frv. var lagt fram, heldur voru það aðrar stéttir, sem sumar hafa miklu hærri laun en verkamenn. Ef frv. yrði ekki að lögum, er hagur verkamanna í mestu hættu, þá mundi fara eins og fyrr, að kauphækkunarholskefla gengur yfir alla þjóðina, og þegar aldan er riðin af, þá liggja eftir í valnum þeir lægst launuðu og verst settu við verri kjör en áður, og atvinnuvegirnir hafa hlotið áfall, samkeppnisaðstaða þeirra út á við versnað, starf þeirra lamað. Ef frv. verður að lögum, er þessari vá vonandi forðað. Ríkisstj. fær þann frest, það ráðrúm, sem hún hefur óskað eftir, til þess að tryggja grundvöll framleiðslunnar og færa láglaunafólki raunhæfar kjarabætur, sem verða ekki af því teknar á næstu vikum í villtri hringekju verðbólgunnar.

En eru þá þessar kjarabætur eitthvað meira en orðin tóm? Af þeim atriðum, sem í athugun eru, vil ég nefna þessi, sem hér fara á eftir:

1) Afnám tekjuskatts af launum meðalfjölskyldu, sem hefur 115—120 þús. kr. tekjur.

2) Veruleg lækkun á útsvari láglaunamanna, en hjón með tvö börn, sem hafa 100 þús. kr. tekjur, hafa nú í Reykjavík milli 10 og 11 þús. kr. í útsvar.

3) Hækkun á fjölskyldubótum.

4) Hækkun á ellilífeyri og örorkubótum.

5) Gagnger athugun á því , hvort ekki er hægt að tryggja láglaunafólki hærri tekjur fyrir 8 stunda vinnudag en nú er, m.a. með breyttum vinnubrögðum og vinnutilhögun.

6) Kerfisbundið starfsmat, eins og nú er unnið að hjá sjómannastéttinni, verði framkvæmt með sem flestum stéttum til þess að fá rökstuddan grundvöll undir launagreiðslur og launahlutföll.

7) Ákvæðisvinna verði aukin sem mest, en reynslan sýnir það viða, að með henni aukast tekjur launþega verulega með óbreyttum eða jafnvel styttri vinnutíma.

8) Aukin áherzla verði á það lögð að hagnýta hvers konar tæknilegar nýjungar, sem geta aukið framleiðni, bætt nýtingu og vinnubrögð og gert fyrirtækjum kleift að gera betur við starfsfólk sitt en áður.

9) Tekin verði upp í fjárlög nú fjárveiting til þess að standast kostnað af viðtækum undirbúningi og aðgerðum til aukinnar hagkvæmni og hagræðingar í atvinnurekstrinum, þjálfunar manna til leiðbeiningar og fræðslu um bætt skipulag, rekstrartækni og vinnubrögð. Það er kunnugt, að með bættri nýtingu hráefna, vinnuafls og tækja má bæta lífskjörin og það jafnvel stórlega. Það liggja nú fyrir till. forstjóra Iðnaðarmálastofnunar Íslands um þetta mái, sem gerðar hafa verið að tilhlutun vinnutímanefndar og félmrh.

10) Leiðrétting á kjörum þeirra starfshópa, sem sannanlega hafa ekki enn fengið lagfæringu til samræmis við hliðstæða, sambærilega starfsmenn samkv. úrskurði kjaradóms.

Þessi atriði og mörg fleiri eru til athugunar hjá ríkisstj., þeim er ekki slegið föstum, sum þeirra flókin og krefjast mikils undirbúnings og tíma til rannsóknar, og þess vegna hefur ríkisstj. óskað eftir þeim fresti, sem launamálafrv. fer fram á.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Gamla aðferðin til þess að bæta kjör verkamanna og láglaunafólks hefur verið reynd lengi, gefizt illa og beðið skipbrot. Við megum ekki halda áfram við úrelta, árangurslausa aðferð. Nú viljum við reyna og verðum að reyna nýjar leiðir. Í því skyni er frv. um frestun á hækkun launa og verðlags fram borið.