07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (2730)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hv. áheyrendur. Það liggur nú ljóst fyrir og verður ekki um það deilt, að yfirlýstum höfuðmarkmiðum viðreisnarinnar hefur alls ekki verið náð. Verðbólgan hefur ekki verið stöðvuð og efnahagslífinu hefur ekki verið komið á heilbrigðan grundvöll. Viðreisnarstefnan hefur ekki leitt til velmegunar, heldur til óheillaþróunar á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins. Og hæstv. forsrh. sagði í gær, að erfiðleikarnir, sem við er að fást, væru alveg sama eðlis og áður. Viðreisnin hefur því ekki komið með neina lækningu. Ríkisstj. segir að vísu, að viðreisnin hafi að sumu leyti borið árangur, og bendir því til stuðnings á mikla atvinnu og nokkurn gjaldeyrisvarasjóð. En hvorugt er stjórninni að þakka. Hvort tveggja er að þakka góðu árferði og metaflabrögðum. Viðreisnarstjórnin hefur því raunverulega beðið algert skipbrot.

Það liggur nú einnig ljóst fyrir, að þrátt fyrir alllangan umhugsunartíma hefur ríkisstj. eins og er ekki önnur ráð tiltæk til lausnar þessum vanda, er hún telur vera fyrir hendi, en kaupbindingu samkv, frv. því, sem hún nú hefur lagt fram á Alþingi, og er varla hægt að auglýsa úrræðaleysi sitt með átakanlegri hætti. Þess hefði mátt vænta, að við þær aðstæður hefði stjórnin séð sér þann kost vænstan að beiðast lausnar af sjálfsdáðum og án þess að bíða eftir vantrausti. En stjórnin stritast við að sitja, þó að stjórnarstefnan hafi reynzt röng í meginatriðum og stjórnin sjái nú engin önnur ráð til að fleyta sér um sinn heldur en þau að binda kaup allra launþega, þ. á m. lágtekjumanna og hinna tekjulægstu manna í þjóðfélaginu.

Ríkisstj. játar þó nú, sumpart beint og sumpart óbeint, að ástand og horfur í efnahagsmátum séu engan veginn jafnglæsilegar og stjórnarsinnar vildu vera láta í alþingiskosningunum s.l. vor. Hún verður að viðurkenna, hvort sem henni er það ljúft eða leitt, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar hvíli, eins og sakir standa, á ótraustum grunni og eigi í margvíslegum erfiðleikum, að verðbólga og dýrtíð fari sívaxandi, að kaupmáttur krónunnar fari hraðminnkandi, að kaupgjaldsmál öll séu í hinni mestu upplausn, að afkoma landsins út á við fari versnandi, að gengi krónunnar sé í hættu og að sparifjáraukningin sé hægari en áður. Þannig er nú útkoman í efnahagsmálunum eftir fjögurra ára viðreisnarstjórn.

Hér hefur vissulega átt sér stað óheillaþróun, sem út af fyrir sig væri æskilegt að stöðva. Um það geta sennilega flestir orðið sammála. Vafalaust geta og margir orðið sammála um það, að hér sé hætta á ferð að öllu óbreyttu. Um hitt eru skoðanir skiptar, af hverju þessi óheillaþróun stafi og til hverra úrræða skuli grípa til þess að vinna bug á henni. En á þessum tveim meginatriðum þarf fólk fyrst og fremst að reyna að átta sig. Hvernig stendur á því , að svo er komið sem komið er þrátt fyrir góðæri og tvö metaflaár Í röð, árin 1961 og 1962, og yfirstandandi ár einnig ágætt, og hver ber fyrst og fremst ábyrgð á þessari öfugþróun? Hvaða úrræðum á að beita í baráttunni við óheillaþróun verðbólgunnar og aðsteðjandi efnahagsvanda?

Í málflutningi sínum virðist ríkisstj. kenna öðrum um allar sínar ófarir. Það, sem aflaga hefur farið í landsstjórn, vill hún rekja til stjórnarandstöðunnar. Hún telur stjórnarandstæðinga bera ábyrgð á kaupgjaldshækkununum og verðbólguþróun. Það á að vera stjórnarandstæðingum að kenna, að viðreisnin fór úr böndum. Þessar kenningar ríkisstj. eru blátt áfram broslegar og eru auðvitað fjarri öllum sanni.

Ég held hins vegar, að það sé óhrekjandi staðreynd, að vaxandi verðbólga og dýrtíð að undanförnu eigi beint og óbeint rætur að rekja til efnahagsaðgerða ríkisstj. sjálfrar og þá fyrst og fremst til viðreisnarinnar 1960 og gengisfellingarinnar 1961. Ekki stóð stjórnarandstaðan að þeim ráðstöfunum. Við framsóknarmenn vöruðum þvert á móti eindregið við þeim og bentum á, hvílíkar afleiðingar það glæfraspil mundi óhjákvæmilega hafa, en aðvörunum okkar var því miður ekki sinnt. Við afgreiðslu efnahagslaganna 1960 bentum við einmitt á Þá starfshætti við lausn efnahagsvandans, sem við töldum eðlilegasta og líklegasta til árangurs. Þá fluttu framsóknarmenn svo hljóðandi dagskrártill., með leyfi forseta:

„Þar sem deildin lítur svo á, að þjóðarnauðsyn sé, að unnið verði að skipan efnahagsmálanna með sem víðtækustu samstarfi, ályktar hún að beina því til ríkisstj. að skipa nú þegar 8 manna nefnd, 2 frá hverjum þingflokki eftir tilnefningu þeirra , og verði verkefni n.: Í fyrsta lagi að gera till. og leggja þær fram á þessu þingi innan þriggja vikna um ráðstafanir, er miðist við að halda verðbólgunni niðri og atvinnulífinu í fullum gangi. í öðru lagi að starfa á milli þinga á þessu ári og hafa tilbúnar fyrir næsta reglulegt Alþingi heildartiltögur um skipan efnahagsmálanna. Og með skírskotun til þess, er að framan segir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég minni aðeins á þetta. Ég býst við því, að það hefði margt getað farið betur úr hendi í dýrtíðar- og efnahagsmálunum, ef þessi till. hefði verið samþykkt á sínum tíma.

Það er alrangt, sem oft hefur verið bent á, að með gengisbreytingunni 1960 hafi aðeins verið skráð sú gengislækkun, sem raunverulega hafi verið orðin með uppbótakerfi og yfirfærslugjöldum. Hún gekk miklu lengra en það. En auk hinnar gífurlegu gengisfellingar og tollahækkunar, sem af henni leiddi, voru svo, eins og alkunnugt er, vextir stórhækkaðir, nýir neyzluskattar á lagðir og ýmis opinber gjöld hækkuð. Það lá í sugum uppi, að þessar samræmdu efnahagsaðgerðir mundu auka dýrtíðina, kalla á kauphækkanir, íþyngja atvinnuvegunum og leiða til margvíslegs misréttis í þjóðfélaginu. Eins og alþjóð veit, hafa allar þessar afleiðingar komið fram. Það er margsannað áður í útvarpsumr., að gengisfellingin 1961 var með öllu óþörf. Hefur það enn á ný verið rökstutt í þessum umr. Í kaupgjaldssamningunum 1961 var að ýmsu leyti farið inn á nýjar brautir, og þeir hefðu getað orðið grundvöllur að vinnufriði, ef rétt var á haldið. En þá greip ríkisstj. til þess óhappaverks að fella gengið á nýjan leik og kastaði þar með olíu á dýrtíðarbálið, sem sannarlega var þó nógu magnað fyrir. Afkoma ársins 1961 sýnir svo glöggt, að ekki verður vefengt af öðrum en Þeim, sem vilja berja höfðinu við steininn, að atvinnuvegirnir gátu án nokkurrar gengislækkunar borið umsamda kauphækkun, sem óumflýjanleg var vegna vaxandi dýrtíðar af víðreisnar völdum. Og það hefði ekki komið til neins gjaldeyrishalla gagnvart útlöndum, þó að gengið hefði verið óbreytt. Það er efalaust einsdæmi í allri veraldarsögunni, að gengi gjaldmiðils hafi verið fellt á metaflaári við batnandi gjaldeyrisaðstöðu og þegar verðmæti útflutningsafurða eykst um 14% frá því á árinu áður. Það er sannarlega ekki að undra, þótt talsmenn stjórnarinnar séu farnir í þessu sambandi að tala um gengisfellingarleik.

Það er rétt, að s.l. sumar hefur ískyggileg verðbólguþróun átt sér stað. En verðbólguþróun og kaupgjaldshækkun s.l. sumar má einmitt að verulegu leyti rekja til þeirra r dýrtíðar, sem siglt hefur í kjölfar þeirra tveggja gengisfellinga og efnahagsaðgerða núv. ríkisstj., sem ég hef getið um. Og eitt er víst, að stjórnarandstæðingar verða ekki sérstaklega sakaðir um þær kaupgjaldshækkanir, sem áttu sér stað s.l. sumar.

Ekki ber stjórnarandstaðan ábyrgð á kaupgjaldsákvörðun kjaradóms, sem ég er síður en svo að gagnrýna. En út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði varðandi kröfugerð bandalagsins, vil ég bara spyrja að því, hvort sjálfstæðismenn og Alþfl: menn í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja hafi verið andvígir þeirri kröfugerð, sem gerð var. Ekki ber stjórnarandstaðan sérstaklega ábyrgð á kauphækkunum til blaðamanna, bæjarstarfsmanna og bankastarfsmanna. Allar þessar kauphækkanir voru í raun og veru fyrirsjáanlegar fyrir síðustu alþingiskosningar, þó að ríkisstj. segði þá, að allt væri í stakasta lagi, aðeins ef hún fengi meiri hl. til að halda viðreisninni áfram.

Á það var bent í síðustu eldhúsdagsumr., bæði af mér og öðrum, að vaxandi verðbólguþróun væri á næsta leiti. Ég sagði þá t.d. orðrétt: „Fram undan er geysileg launahækkun hjá opinberum starfsmönnum. Aðrir launþegar munu sigla í kjölfarið: Ríkisstj. vill láta líta svo út, að á s.l. sumri hafi gerzt einhverjar óvæntar, ófyrirsjáanlegar skyndibreytingar, sem geri neyðarráðstafanir á borð við kaupþvingunarlögin óhjákvæmilegar. Hún lætur svo sem sér komi á óvart kauphækkunarkröfur verzlunarmanna og verkalýðsfélaga. En það fær ekki staðizt, eins og ég hef þegar sýnt fram á. Henni átti og mátti vera ljóst, hvers var að vænta, en auk þess var um miðjan júní s.l. gert bráðabirgðasamkomulag við verkalýðssamtökin um 71/2% kauphækkun. Það samkomulag gilti til 15. okt. s.l. Þann tíma átti að nota til endanlegrar samningagerðar. Ríkisstj. var vel ljóst, að samkomulagið frá því í júní var aðeins bráðabirgðasamkomulag. Hitt er svo rétt, að verðbólguþróunin s.l. sumar hefur verið sérstaklega ör. Þar í á útlánaaukning bankanna efalaust drjúgan þátt. En fyrstu 8 mánuði þessa árs hefur átt sér stað útlánaaukning hjá bönkunum upp á 433 millj. kr. fram yfir alla sparifjáraukningu á sama tíma, þ.e. samanlagða aukningu spariinnlána og veltuinnlána. Menn geta rétt ímyndað sér, hvaða áhrif svo gífurleg útlánaaukning á svo skömmum tíma hefur haft. Hverjir ráða bönkunum? Stjórnin og hennar stuðningsmenn, sem þar eru alls staðar í meiri hl. Hitt er svo annað mál, sem margir hefðu áreiðanlega gaman af að vita, í hvað þessi auknu útlán fóru. En úr þeirri spurningu leysi ég ekki hér.

Niðurstaðan verður sú, hvort sem mál þessi eru athuguð lengur eða skemur, að það er stjórnarstefnan og stjórnarráðstafanir, gamlar og nýjar, sem leitt hafa til þeirra vandræða, sem við er að glíma. Það er því ríkisstj., sem fyrst og fremst ber ábyrgð á því, að svo er komið sem komið er. Vandinn, sem við er að fást, er fjögurra ára árangur viðreisnarstefnunnar. Og nú kemur ríkisstj. og segir, að þörf sé á nýjum, samræmdum ráðstöfunum í launamálum, fjármálum og peningamálum, til þess, eins og hún orðar það, að vinna bug á þeim vandamálum, sem við er að glíma, og treysta efnahag þjóðarinnar. En ríkisstj. er bara ekki alveg tilbúin með tillögur til varanlegrar lausnar á vandamálunum. En það er svo sem auðvitað, að þessi ríkisstj. getur ekki verið þekkt fyrir annað en finna varanlega lausn á vandanum.

Á annasömum sumarmánuðum hefur hæstv. ríkisstj. ekki gefizt ráðrúm til að hugsa Þessi mál til þrautar, enda þótt hún vissi mætavel eftir bráðabirgðasamkomulagið í júní, hvers vænta mátti, og hafi þannig haft 41/2 mánuð til þess að velta þessum málum fyrir sér. En hina varanlegu lausn telur hún sig geta fundið á 2 næstu mánuðum, en á meðan hefur hún fundið það þjóðráð að banna með lögum allar kauphækkanir fyrst um sinn og fram að áramótum, a.m.k. til að byrja með, enda stendur svo vel á, að langflestir hinna betur launuðu í þjóðfélaginu hafa nú að undanförnu fengið mjög verulegar kjarabætur, svo að kaupgjaldsstöðvunin bitnar í bili fyrst og fremst á láglaunamönnum og hinum tekjulægri þjóðfélagsþegnum. Þetta er eina úrræði ríkisstj., og hún segir, að ekki sé annarra kosta völ í bili a.m.k.

Ég held, að þessi leið ríkisstj. sé einhver sú ósanngjarnasta og ósæmilegasta, sem unnt er að velja, eins og á stendur. Ég held líka, að þetta sé ein sú óskynsamlegasta leið, sem hægt var að fara, og á því mun stjórnin eiga eftir að kenna, ef hún heldur fyrirætlunum sínum til streitu.

Ranglætið liggur í augum uppi, að ætla að neita öllu láglaunafólki um lagfæringar á kaupi, eftir að flestir tekjuhærri launamenn hafa fengið verulegar kjarabætur. Það er augljóst mál, að dagvinnukaup verkamanns nægir ekki honum og fjölskyldu hans til framfæris. Hann kemst ekki af, nema hann geti unnið því meiri yfirvinnu. Einhverjar kjarabætur til hinna lægst launuðu eru því óumflýjanlegar. En ríkisstj. segir: Það er ekki hægt, atvinnuvegirnir þola ekki kauphækkun. — Það var skaði, að ríkisstj. skyldi ekki láta fylgja frv. sem fskj. leiðbeiningar til fimm manna fjölskyldu um það. hvernig hún ætti að fara að því að lifa af 67200 kr. yfir árið. A.m.k. hefði verið rétt, að ríkisstj. hefði látið flytja t.d. eitt útvarpserindi um það efni. Það er einnig augljós ósanngirni að synja skrifstofu- og verzlunarfólki hjá einkafyrirtækjum um allar launabætur, eftir að bankamenn, bæjarstarfsmenn og skrifstofumenn í ríkisstofnunum, sem sambærileg störf vinna, hafa fengið kaup sitt hækkað allverulega. Það er ósanngjarnt að ætla sér að leysa vandamál efnahagsmálanna fyrst og fremst á kostnað láglaunamanna og tekjuminnstu þjóðfélagsþegnanna.

Ríkisstj. segist síðar ætla að gera ráðstafanir, sem feli í sér kjarabætur til þeirra , sem verst eru settir. En hvers vegna eru þessar ráðstafanir ekki gerðar samtímis kaupbindingarlögunum? Þær eru ekki tilbúnar. En þó sagði hæstv. forsrh. í gær, að athuganir ríkisstj. að undanförnu hefðu einkum að því beinzt að finna, hvaða ráðstafanir væri hægt að gera til að rétta hlut hinna lægst launuðu. Þess er ekki að vænta við þessar aðstæður, að launþegar vilji eiga nein eftirkaup við núv. ríkisstj., enda lítið mark takandi á loðnum yfirlýsingum hennar.

Ég held, að kaupbindingin sé alls ekki framkvæmanleg, jafnvel ekki um stundarsakir. Það rignir daglega yfir Alþingi mótmælum frá launþegasamtökum hvarvetna um land. Mörg verkalýðsfélög virðast staðráðin í að virða þau að vettugi. Ég held, að þessi kaupbinding sé dæmd til að mistakast, og því verður hún aðeins til þess að auka vandann. Þess vegna er hún óskynsamleg. Auk þess er hún í algeru ósamræmi við áður yfirlýsta stefnu ríkisstj. Í aths. við viðreisnarlagafrv. 1960 segir svo: „Það er stefna ríkisstj., að það sé og eigi að vera verkefni samtaka launþega og atvinnurekenda að semja um kaup og kjör.“ Þessa yfirlýsingu endurtók hæstv. forsrh. í framsöguræðu sinni um frv.

Margt bendir til þess, að ríkisstj. hugsi sér að framlengja kaupbindinguna í einni eða annarri mynd eftir áramótin, a.m.k. hefur hún ekki viljað gefa yfirlýsingu um hið gagnstæða.

Af því, sem hér hefur stuttlega verið rakið, er auðsætt, að kaupbindingarfrv. ríkisstj. er hreint óráð, en ekkert úrræði. Það er í raun og veru ekki hægt að hugsa sér öllu rækilegri uppgjöf en þá játningu, sem felst í kaupbindingarfrv. ríkisstj. og málflutningi hennar.

Já, en við sjáum bara ekkert annað úrræði, segja þeir í ríkisstj. Og svo ákallar ráðlaus ríkisstj. stjórnarandstöðuna og segir: Hver eru ykkar úrræði? Bendið þið á einhver ráð. Það er náttúrlega ekki beinlínis hlutverk stjórnarandstöðunnar að ráða fram úr þeim vandamálum, sem stjórn og þingmeirihluta ber að hafa forustu um að leysa. En við framsóknarmenn höfum þó bent á ýmis úrræði til að létta byrðar atvinnuveganna, svo sem lækkun vaxta, afnám eða lækkun útflutningsgjalda og niðurfellingu tolla, og gera þeim þannig kleift að mæta nokkurri kauphækkun, sem varla verður umflúin til lengdar. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort þau úrræði reyndust fullnægjandi, en þau eru a.m.k. spor í rétta átt. í kaupgjaldsmálunum vilja framsóknarmenn reyna samningaleiðina til þrautar, og það er trú mín, að vandi efnahagsmálanna verði ekki leystur nema á grundvelli samninga og víðtæks samstarfs.

Það er vissulega margt fleira en hér hefur verið rakið, sem miður hefur farið hjá núv. ríkisstj. Ég nefni aðeins aðbúnaðinn að unga fólkinu og framkomuna í garð bænda. Hér er eigi kostur að rekja þau mál. Ég nefni aðeins hinn rangláta launaskatt á bændur. Samkv. l. á að ákveða söluverð á afurðum landbúnaðarins þannig, að heildartekjur þeirra , sem landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Þetta lagaákvæði hefur verið framkvæmt þannig, að tekið hefur verið meðaltal af tekjum verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna og bændum reiknaðar tekjur Í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara í samræmi við það. En eftir að tekjur bændanna hafa verið ákveðnar með þessum hætti, er lagður á þeirra hlut sérstakur skattur til einnar ríkisstofnunar. Slíkur aukaskattur er ekki lagður á þær tekjur verkamanna, sjómanna eða iðnaðarmanna, sem kaup bændanna miðast við. Bændur einir verða að þola slíkt af hálfu löggjafarvaldsins þrátt fyrir mótmæli stéttarsambands þeirra og búnaðarþings. Þessi sérstaki skattur, sem stjórnarflokkarnir hafa lagt á bændur, nemur um 2% af launum þeirra . öll er skattheimta þessi hin ranglátasta, og það nær vitaskuld ekki nokkurri átt, að bændur skuli sviptir eignarrétti að þessum framlögum sínum. Hitt væri þó sök sér, ef framlag hvers og eins væri áfram eign hans og á sérreikningi sem eins konar skyldusparnaður eða ellitrygging. En gallinn er bara sá, að hluti skattsins fer til þess að greiða gengistöp búnaðarbankasjóðanna, en gengistöp gjaldeyrisbankanna voru á sínum tíma færð á gengistapsreikning, og er að þessu leyti farið verr með fjárfestingarsjóði landbúnaðarins en fjárfestingarsjóði annarra stofnana.

Ég sé, að hæstv. landbrh. muni vera ætlað að stíga í stólinn hér á eftir mér. Vafalaust reynir hann að benda á einhver ímynduð afrek sín í landbúnaðarmálum. En ég vil bara benda á, að sú afrekaskrá er byggð á hugsunarhætti mannsins, sem sagði: Ef engir aðrir hæla mér, þá verð ég að gera það sjálfur. Ég skal þó gjarnan taka það fram, að ég veit, að hæstv. landbrh. persónulega vill gera vel í þessum málum. En hann ræður bara engu í þeirri ríkisstj., sem hann situr í. Hann er þar utangarðsmaður. Það er sá sorglegi sannleikur, sem bændur landsins allir verða að gera sér ljósan.

Stjórnarstefnan hefur reynzt röng í meginatriðum. Vandamálin nú eru bein afleiðing þeirra r stjórnarstefnu. Ríkisstj. ber höfuðábyrgð á vandanum, en stendur nú gagnvart honum úrræðalaus og ráðþrota, því að kaupbindingarlögin kalla ég engin úrræði. Ríkisstj., sem sér ekki annan kost til að fleyta þjóðarskútunni en þann að leysa vanda atvinnuveganna á kostnað þeirra þjóðfélagsþegna, sem verst eru settir, á ekki rétt á sér. Hún á að fara frá og það sem fyrst. Það er öllum fyrir beztu. — Góða nótt.