07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (2732)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar gengið var til alþingiskosninga á s.l. vori, geystust frambjóðendur stjórnarflokkanna um landsbyggð alla með þann boðskap, að nú riði á að tryggja áframhaldandi velmegun með því að framlengja valdaumboð ríkisstj., svo að hún gæti lagt síðustu hönd á kraftaverkið, svo að hún gæti fullkomnað viðreisnarundrið. Þeir voru ekki aldeilis á því, að neitt væri bogið við stjórnina á þjóðarskútunni né hið minnsta athugavert við stefnuna. Menn muna, að þessi var söngur stjórnarsinna, og það breytir ekki staðreyndum, þó að fjmrh. neiti þessu, eins og hann hafði nokkra tilburði til í ræðu sinni hér í kvöld.

Við stjórnarandstæðingar þóttumst hins vegar sjá þegar í vor, að sigling ríkisstj. var háskaleg og lík í lestinni, þar sem viðreisnin var. Við töldum því öllu máli skipta, að breytt yrði um stjórn og stefnu. Þegar flokkur minn, Þjóðvarnarflokkurinn, tók ákvörðun um það, hvernig haga skyldi kosningaundirbúningi og framboðum, taldi hann ástandið í íslenzkum stjórnmálum svo alvarlegt, að einskis mætti láta ófreistað til þess, að hnekkt yrði ríkjandi stjórnarstefnu. Allt bar þar að sama brunni, undirlægjuháttur stjórnarherranna í íslenzkum Þjóðfrelsismálum, undanhald þeirra og brigðmæli í landhelgismálinu, flaumósa tilburðir þeirra til að innlima okkur í Efnahagsbandalag Evrópu og gjörvöll hin svokallaða viðreisnarpólitík. öll stefna stjórnarinnar í meginmálum knúði okkur stjórnarandstæðinga til að leita allra þeirra ráða, er tiltæk væru til að binda endi á slysaferil stjórnarflokkanna. Með tilliti til hins óvenjulega og alvarlega stjórnmátaástands varð það úr, að Þjóðvfl. samdi við Alþb. um sameiginleg framboð á grundvelli kosningastefnuskrár, sem samkomulag náðist um. Samvinna helzt milli flokkanna um sameiginlega baráttu fyrir þessari stefnuskrá, en að öðru leyti starfa þeir sjálfstætt og óháðir hvor öðrum eins og áður.

Kosningarnar í vor fóru á þann veg, að stjórnarflokkarnir mörðu meiri hl. Í dag má öllum vera ljóst, að þessi meiri hl. var fenginn á röngum forsendum. Dýrðarsöngur stjórnarliða frá því í vor er nú löngu þagnaður. Nú keppast stjórnarherrarnir við að lýsa því, sem allir vita, að efnahagskerfi þjóðarinnar er gersamlega úr skorðum gengið, dýrtíð vex örar en nokkru sinni, óðaverðbólga er skollin yfir. Hvað hefur gerzt síðan um kosningar? Hefur dunið yfir hallæri af völdum náttúrunnar? Er stórfelldu aflaleysi um að kenna? Hefur þjóðin haldið að sér höndum og látíð undir höfuð leggjast að draga björg í bú? Eru útflutningsafurðir okkar óseljanlegar? Nei, ekkert af þessu hefur gerzt. Síldarvertíðin í sumar var önnur hin bezta um langt skeið og skilar útflutningsverðmætum, sem nálgast metvertíðina í fyrra. Annar fiskafli hefur yfirleitt verið góður. Almenningur hefur stritað. Hann hefur unnið lengri vinnudag en oftast áður. Framleiðslan hefur selzt greiðlega fyrir hátt verð. Hver er þá skýringin á ástandinu í dag? Forsrh. ólafur Thors sagði í umr. hér á Alþingi á dögunum, að hin gífurlega tekjuaukning sjómanna á síldveiðunum í fyrra hefði haft mjög truflandi áhrif. Svipuð voru ummæli dómsmrh. Í þeim umr., Bjarna Benediktssonar. Þarna er þá fyrsti sökudólgurinn fundinn. Síldveiðisjómenn voru svo frekir og ókurteisir að veiða meiri síld en viðreisnarstefnan þoldi. Þetta finnst þeim háu herrum þó ekki fullnægjandi skýring. Með ýmsum vafningum hafa ráðh. verið að impra á því, að óhófleg kröfugerð verkafólks eigi sinn þátt f, hversu illa er komið. En það mega sumir þeirra eiga a.m.k., að ekki nefna þeir þennan sökudólg án þess, að svolítill blygðunarroði færist þeim í kinnar.

Þá var málgagn ríkisstj., aðalmálgagn hennar, Morgunblaðið, dálítið skorinorðara hér í haust, þegar það talaði um landráðalýðinn, sem nú krefðist kauphækkana. Það var að skrifa um kjarabaráttu íslenzkrar alþýðu. Í fullu samræmi við þessar kenningar lagði ríkisstj. fram í síðustu viku frv. sitt um launamál o.fl., frv., sem hefur það að geyma, að svipta á alþýðu tandsins um tveggja mánaða skeið í þessum áfanga verkfallsréttinum og réttinum til að semja um kaup sitt og kjör, og þetta er gert, eftir að yfir hafa dunið örustu og stórfelldustu verðhækkanir lífsnauðsynja, sem um getur. Það er gert, eftir að fjölmargir þjóðfélagsþegnar hafa fengið miklar kauphækkanir, hinir launahæstu embættismenn svo ríflegar, að hækkanirnar einar nema allt að tvöföldum árstekjum verkamanns. Þetta afdráttarlausa bann við hinni minnstu kauphækkun til handa verkafólki er eina úrræðið, sem ríkisstj. kveðst hafa tiltækt nú til að forða efnahagskerfi landsins frá hruni.

Hvað hefur þá gerzt síðan í vor, þegar stjórnarflokkarnir unnu kosningarnar undir því kjörorði, að allt væri í sómanum, ekki þyrfti annað að gera en gefa þeim tækifæri til að fylgja sömu stefnu, þá væri öryggi fengið og velsældin tryggð. Vissulega hafa mikil tíðindi gerzt á þessum skamma tíma. Sú stefna í efnahagsmálum, sem fylgt hefur verið undanfarin ár og kennd er við viðreisn, er gjaldþrota. Gjörvöll spilaborgin er hrunin. Úrræðalausir og ráðvilltir norpa stjórnarherrarnir nú á rústunum og gripa í vanmætti til þess úrræðis að segja verkalýðshreyfingu landsins stríð á hendur.

Hver voru loforðin, sem núv. ríkisstj. gaf, þegar hún tók við völdum og hófst handa um viðreisnina? Í höfuðatriðum þessi: Að koma efnahagslífi þjóðarinnar á traustan grundvöll, að stöðva verðbólgu og halda dýrtíð í skefjum, að endurskipta þjóðartekjunum þannig, að þær dreifist af sem fyllstu réttlæti á þjóðfélagsþegnana, að láta samtök launþega og atvinnurekenda eina semja sín í milli um kaup og kjör án afskipta ríkisvaldsins. Niðurstaðan eftir 4 viðreisnarár er þessi: Samkv. lýsingum stjórnarherranna sjálfra er jafnvægið Í efnahagsmálum á þá lund í dag, að greiðslujöfnuður fer hríðversnandi, sparifjáraukning minnkar, eftirspurn eftir lánsfé vex, neyzla og fjárfesting er langtum meiri en þjóðarbúið þolir. Í stað þess að verðbólgan sé stöðvuð, hefur dýrtíð magnazt ofsalegar undanfarna mánuði en nokkru sinni á jafnskömmum tíma. Framfærsluvísitala hefur hækkað á tímabilinu júní-okt. úr 131 stigum Í 143 stig og vísitala vöru og þjónustu úr 153 stigum í 175 stig, 22 stiga hækkun á 4 mánuðum. Endurskipting þjóðarteknanna til að koma á sem fyllstu réttlæti milli þjóðfélagsþegnanna hefur verið framkvæmd þannig, að verðbólgubraskarar hafa rakað til sín meiri gróða en nokkru sinni, að hálaunamenn hafa fengið konunglegar launabætur, en þegar verkalýðsstéttin kemur síðust allra með sinar kröfur og á henni brotnar ein holskefla dýrtíðarinnar annarri hærri, þá segja stjórnarherrarnir: Nú er nóg komið. Hagkerfið okkar þolir ekki meira. Við höfum skammtað hinum svo ríflega, að það er ekkert eftir handa ykkur.

Þá er að minnast á efndir heitsins um, að ríkisvaldið skyldi ekki hafa afskipti af launasamningum. Það féll að vísu fljótt í gleymsku, og einstakir starfshópar fengu að kynnast gerðardómum og lögbindingu. En nú á að fullkomna verkið, afnema verkfallsrétt og samningsrétt með lögum.

Hafi nokkur stjórnarstefna beðið algert skipbrot, þá er það stefna núv. ríkisstj. Það er sannast sagna, að viðreisnarpólitíkin var frá upphafi dæmd til ófarnaðar. Einstakt góðæri, metafli ár eftir ár frestaði að vísu því, sem fram hlaut að koma. En eftir að meginskriðan fór af stað, hefur engin árgæzka dugað til að stöðva hana, og hina síðustu mánuði hafa ófáar aðgerðir ríkisstj. sjálfrar beinlínis magnað þensluna, verkað sem olía á eld.

Það mætti segja mér, að herkostnaður stjórnarflokkanna í kosningunum s.l. vor sé ekki lítill verðbólguvaldur. Þeir voru staðráðnir í því að vinna þessar kosningar, hvað sem það kostaði, stjórnarflokkarnir, enda létu þeir þjóðina borga kostnaðinn, og þessi herkostnaður bitnar á hinu veika fjárhagskerfi landsins með gífurlegum þunga. Ég fullyrði, að aldrei hefur nokkur íslenzk ríkisstj., — og hafa Þær þó fæstar verið heilagar, — aldrei hefur nokkur beitt opinberu fjármagni eins skefjalaust fyrir kosningavagn sinn og viðreisnarstjórnin gerði á liðnu vori. Allir bankar, tryggingasjóðir og peningastofnanir aðrar voru opnaðar upp á gátt. Kosningasmalarnir voru á þönum út um allar jarðir og leituðu menn uppi til að spyrja þá, hvort þá vantaði ekki einhverja fyrirgreiðslu, t.d. myndarlegt lán. Hinir voru einnig margir, sem höfðu sig sjálfir á kreik, vissu, að nú var rétta stundin til að fá umbun fyrir veitta og væntanlega liðsemd. Menn þurftu fyrirgreiðslu fyrir sjálfan sig, fyrir fyrirtæki sitt eða hlutafélagið. Enn aðrir komu og minntu á peningaþörfina til að leggja tiltekinn veg, til að reisa ákveðna kirkju, veitingahús eða bíó. Aðstoðin þurfti að berast fljótt, og hún þurfti að vera myndarleg, annars væri eins líklegt, að kosningarnar færu illa. Og fjármagni var stráð af miklu örlæti á báðar hendur. Óskabarn ríkisstj., verzlunin, fékk vitanlega bróðurpartinn. Útlánaaukning til verzlunarinnar var frá áramótum til júlíloka orðin 234 millj. kr. eða meiri en til sjávarútvegs og landbúnaðar samanlagt. Og hin stuttu vörukaupalán heildsala erlendis munu þegar hafa hækkað á Þessu ári um 180 millj. kr. Svo var Það kosningalánið, enska lánið, 240 millj., það var sett í umferð. Eftir slíkar aðfarir stjórnarflokkanna þarf enginn að vera sérlega hissa á því , þótt verðbólgan vaxi ört og gjaldeyrisstaðan sé orðin hörmuleg.

Eftir að opinberir starfsmenn og margar aðrar stéttir og starfshópar höfðu fengið miklar kauphækkanir í sumar og haust, kom vist fáum til hugar, að verkamenn og annað láglaunafólk gæti látið allar verðhækkanir yfir sig ganga án þess að fá hlut sinn réttan. Verkalýðssamtökin höfðu með samkomulagi við atvinnurekendur og ríkisstj. á s.l. vori fallizt á að bíða með meginkröfur sínar til haustsins. Því var marglýst yfir, að allar raunverulegar kjarabætur, þótt í öðru formi væru en bein hækkun tímakaups, skyldu metnar til jafns við hana. Hitt blandaðist engum hugur um, að verkalýðsfélögin hlytu að krefjast verulegra kjarabóta í okt. í siðasta lagi. Ríkisstj. hafði fengið dýrmætan fjögurra mánaða frest. Hún notaði ekki frestinn. Hún hafði engan viðbúnað og stóð uppi nú í lok októbermánaðar án þess að hafa nokkrar jákvæðar till. fram að færa. í þess stað leggur hún fram frv. um algert bann við frekari kauphækkunum. Það bann nær til allra þeirra , sem ekki höfðu þegar komið ár sinni fyrir borð, til verkamanna, verzlunarmanna og ýmissa fleiri. Og þetta bann virðist ekki aðeins eiga að standa Í þessa tvo mánuði. Fyrir áramót er gert ráð fyrir, að ný löggjöf verði sett, og þrátt fyrir endurteknar fsp. hefur ríkisstj. ekki fengizt til að lýsa því yfir, að óskoraður samnings- og verkfallsréttur verði leyfður á ný eftir áramót. Það er því vist, að svo framarlega sem ríkisstj. heppnast fyrirætlun sín nú, þá er ætlunin að svipta verkalýðshreyfinguna þessum dýrmæta rétti til frambúðar. Það er ætlunin að lögbinda til frambúðar það gífurlega launamisrétti í íslenzku þjóðfélagi, sem komið hefur verið á og aukizt stórlega síðustu mánuði.

Þegar spurt er, hvernig verkamenn eigi að lifa á 67 þús. kr. árslaunum, en það er kaupið fyrir 8 klst. vinnu alla virka daga ársins, þá hefur ríkisstj. svar á reiðum höndum. Framtöl sýna, að árslaun verkamanna hafi í fyrra orðið milli 80 og 90 þús. kr., sagði fjmrh. hér í kvöld. Og fjmrh. fullyrti áðan, að laun verkamanna mundu verða um 100 þús. á þessu ári. Ef það reynist rétt, er ástæða til að spyrja: Með hverjum hætti getur verkamaður fengið 100 þús. kr. árstekjur? Með því að vinna eftirvinnu, næturvinnu, helgidagavinnu, með linnulausu striti. Lögfesting á 28 kr. tímakaupi hinna lægst launuðu er því lögfesting á vinnuþrælkun. Það er í reynd verið að leiða í lög 11—12 klst. vinnudag hjá íslenzkum verkalýð. Með ötlu skemmri vinnutíma er óhugsandi, að láglaunamaður geti séð meðalstórri fjölskyldu farborða undir viðreisn.

Það hefði einhvern tíma þótt ólíklegt, að forustumenn Alþfl. berðust fyrir öðru eins og þessu, og alveg er það blöskrunarlegt, þegar Alþfl: ráðh. Gylfi Þ. Gíslason stendur hér fyrir framan hljóðnemann, eins og hann gerði áðan, og fer um það mörgum og hjartnæmum orðum, að allt sé nú þetta gert af einskærri umhyggju fyrir láglaunamönnum, á þá væri skellt hurðum, eftir að aðrir hefðu fengið sitt, til þess að leita ráða til að bjarga þeirra hag. Nei, það fer ekki hjá því, að mönnum blöskrar. Og þeir hafa líka komizt að raun um það undanfarna daga, ráðh. Alþfl. og þm., að kaupbindingarfrv. á fáa formælendur í röðum óbreyttra fylgismanna þess flokks, heldur hlýtur fordæmingu margra. Margir sjálfstæðismenn láta þá skoðun og hiklaust í ljós, að eftir þá atburði, sem gerzt hafa í kjaramálum á liðnu sumri, sé það óhæfa að ætla nú að skella hurðum á verkamenn og annað láglaunafólk. Fordæming þessa hátternis er hvorki bundin við flokka né stéttir. Fjölmargir úr hópi þeirra , sem nýlega hlutu miklar kauphækkanir, gera sér þess fulla grein, að hér er verið að fremja stórfellt ranglæti, og víst er, að ýmsir atvinnurekendur eru ekkert hrifnir af þessu tiltæki. Þeir sjá sem er, að lagafrv. um launamál o.fl. er bæði óréttlátt og óviturlegt. Það er óvit að hafna með fyrirlitningu samkomulags- og samningaleiðinni og lýsa styrjöld á hendur verkalýðshreyfingunni, — styrjöld, sem hlýtur að verða hörð, þar eð ekki er einungis um kaupgjaldsbaráttu að ræða, heldur eru hin dýrmætustu réttindi í veði, — réttindi, sem alþýðustéttirnar hafa aflað sér með langvinnri baráttu, verkfallsrétturinn og samningsrétturinn um kaup og kjör. Ríkisstj. hóf þessa styrjöld. Hún ber meginábyrgð á því, hver eftirleikurinn verður. Sú ábyrgð getur orðið þung. Alþýða landsins mun verja réttindi sín og lífshagsmuni. Fólk rís upp gegn ranglætinu, hvar í flokki sem það stendur.

Að síðustu þetta: Sú ríkisstj., sem stendur nú á rústum viðreisnarinnar og hefur ekkert fram að færa eftir 4–5 mánaða umhugsunarfrest annað en ranglát þvingunarlög, sem engu geta bjargað, aðeins aukið vandræði og upplausn, sú ríkisstj. á að víkja. — Góða nótt.