07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (2735)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Góðir hlustendur fjær og nær. Undanfarna daga hafa hæstv. ráðh. staðið hér hver á fætur öðrum í ræðustól á sjálfu Alþingi og lýst yfir því, að efnahagsmál þjóðarinnar séu komin í algert öngþveiti. Jafnframt hafa þeir viðurkennt, að þeir hafi engin úrræði á takteinum til þess að leysa þennan mikla vanda. Þetta úrræðaleysi kemur mönnum að vísu ekki svo mjög á óvart, sem fylgzt hafa með ferli hæstv. ríkisstj. allt frá því að hún kom til valda og þá einkum undanfarnar vikur og mánuði. Það hefur alltaf verið ljóst, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. og almenn landsmálastefna hennar hlyti fyrr eða síðar að leiða til efnahags- og stjórnmálaöngþveitis.

Meginmarkmið íhaldsstjórnar undanfarinna ára virðist hafa verið að þjóna auðvaldinu í landinu og efla það sem mest. Má segja, að þessu höfuðmarkmiði sínu hafi ríkisstj. náð með hinni breyttu tekjuskiptingu meðal þjóðarinnar og áhrifum þessara afla á framkvæmdir og fjárfestingu í landinn, þar sem blind þjónusta við verzlunarauðvaldið í Reykjavík hefur sett svip sinn á framkvæmdir og fjárfestingu algerlega á kostnað almenningsframkvæmda, svo sem húsnæðis fyrir almenning og uppbyggingastarfsemi úti um landsbyggðina, í vegamálum og öðrum samgöngumálum, í raforkumálum, ræktunarframkvæmdum, hafnargerðum og skólabyggingum, svo að nokkuð sé talið. Það hefur verið einkenni stjórnarfarsins undanfarin ár að láta landsbyggðina sitja á hakanum með sín framfaramál, enda varla við öðru að búast af núverandi valdhöfum. Er það þó illa farið, því að mikilvægara og þjóðnýtara starf er ekki unnið annars staðar í landinu en einmitt í sveitum og sjávarþorpum úti um landið. Mönnum ætti að vera það ljóst, að sú verðmætasköpun, sem á sér stað í frumatvinnuvegum okkar, er undirstaða allrar annarrar starfsemi í landinu. Hinir fornu aðalatvinnuvegir okkar eru enn sem fyrr burðarásinn í íslenzku efnahagslífi, og ætti að vera keppikefli hverrar stjórnar að vernda hagsmuni þeirra og þess fólks, sem við þá vinnur, hvar sem það býr á landinu.

Ég vil leyfa mér að gera húsnæðismálin að sérstöku umræðuefni, þó að í stuttu máli verði, enda er þar um að ræða þann þátt í þjóðarbúskap okkar, sem einna mest hefur verið vanræktur. Er þess fyrst að minnast, að byggingarkostnaður hefur vaxið gífurlega, og þar við bætist sú stefna hæstv. ríkisstj. að banna hreinlega bönkum og sparisjóðum nokkra fyrirgreiðslu við efnalitla húsbyggjendur, sem eðlilega hefur leitt til mikils samdráttar í íbúðabyggingum. Þótt rangsnúið sé, virðist það falla prýðilega að smekk og réttlætisskyni sumra hæstv. ráðh, að guma af vaxandi tryggingastarfsemi, en láta sér fátt um finnast, þótt hundruð fjölskyldna hafi ekki sæmilegt þak yfir höfuðið. Það er ekki til neins fyrir ríkjandi stjórnarvöld að víkja þessum málum til hliðar eða láta þau mæta afgangi, þegar metin er nauðsyn fjárfestingar, sízt af öllu þegar á spilum er haldið eins og undanfarin ár, Þar sem skemmtistaðir, verzlunarhallir og alls konar umboðsmiðstöðvar hafa bókstaflega gleypt í sig megnið af byggingargetu þjóðarinnar og valdið með því óeðlilegu kapphlaupi um efnivöru og vinnuafl og viðurkennt er, jafnvel af hæstv. ráðh., að það sé ein meginundirrót þenslunnar í efnahagslífinu, sem nú er um það bil að velta hæstv. ríkisstj. úr sessi.

Ég vil leyfa mér að endurtaka það, sem ég hef áður sagt við svipað tækifæri: „Réttur til húsnæðis á að vera jafnsjálfsagður og réttur til ellilífeyris og annarra tryggingabóta. Þjóðin hefur mætavel efni á því að byggja hóflegar, en vandaðar íbúðir yfir hverja einustu fjölskyldu í landinu, hvort sem er í bæ eða sveit.“ En til þess að svo megi verða, verður að taka húsnæðismálin nýjum tökum. Það þarf að skipuleggja byggingarstarfsemina, bæði lánamálin og almenna byggingarhætti. Það þarf að fá skilning á því, að húsnæðismálin séu fyrst og fremst félagslegt vandamál, þ.e.a.s. úrlausnarefni, sem opinberir aðilar, eins og ríkisvaldið og bæjaryfirvöldin, eiga að leysa í samstarfi við banka og aðrar lánastofnanir.

Nú er svo komið, að öllum má vera ljóst, að hæstv. ríkisstj. riðar til falls og á raunar ekki annað eftir en stíga það manndómlega spor að segja formlega af sér. Hæstv. ríkisstj. hefur misst tökin á stjórnartaumunum, og þó að henni hafi farið flest einstök mál illa úr hendi, er það úrræðaleysi hennar í verðbólgu- og dýrtíðarmálum, sem bezt styður kröfuna um frávikning hennar þegar í stað. Og þegar þess er enn fremur gætt, að hið háskalega ástand í dýrtíðarmálunum á rætur í sjálfum efnahagsaðgerðum og fjármálastjórn hæstv. ríkisstj., verður krafan um afsögn hennar þeim mun betur rökstudd.

Efnahagsaðgerðirnar í ársbyrjun 1960 leiddu yfir almenning meiri og almennari verðhækkanir og kjararýrnun en hægt var að gera ráð fyrir, að launþegar í landinu sættu sig við til lengdar. Þó er það staðreynd, sem aðrir hafa bent á á undan mér, en ekki sakar að endurtaka, að allt var kyrrt á kaupgjaldssviðinu hið fyrsta viðreisnarár, 1960, og hálft ár 1961. Engar kauphækkanir áttu sér stað fyrr en í júní 1961.

Svo sem alkunna er, var kaupgjaldi í landinu þannig háttað árið 1958, á seinasta ári vinstri stjórnarinnar, að dagkaup verkamanna var 21.85 kr. á klukkustund. Mátti þetta teljast viðunandi kaupgjald á þeim tíma, miðað við ríkjandi verðlag, enda var það stefna ríkisstj. þá að halda kaupgjaldi svo háu sem gjaldþol atvinnuveganna megnaði. Þá voru sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu, mjög sællar minningar, og kröfðust þess, að kaup yrði hækkað. En eftirleikinn þekkir öll þjóðin. Sjálfstfl. tókst um nokkurra mánaða skeið árið 1959 að ná þeirri aðstöðu að stjórna í gegnum Alþfl. og greiða götuna fyrir varanlegri íhaldsstjórn í landinu. Eitt hið fyrsta verk þessarar ríkisstj. var að lækka kaup verkamanna, sem verið hafði 21.85 kr. á vinstristjórnartímanum, niður í 20.67 kr. og annað kaup í samræmi við það. Þetta lækkaða kaup hélzt síðan óbreytt hálft þriðja ár, þ.e. 1959, 1960 og fram í júní 1961. M.ö.o.: almenningur í landinu bar þannig viðreisnarbyrðarnar bótalaust og kauplækkun íhaldsins að auki.

Í júní 1961 leystu samvinnufélögin og verkalýðsfélögin á Norðurlandi kaupgjaldsdeilur með sanngjörnum samningum, sem aðilar voru fúsir til að hlíta. En hið merkasta við þessa samninga var það, að samið var um kaup og kjör til tveggja ára, eða lengri tíma en áður hafði þekkzt í kaupgjaldssamningum, þó að því tilskildu, að verðlag héldist að mestu óbreytt á tímabilinu. Sáu allir, að þarna var um beina áskorun á ríkisvaldið að ræða um að gera allt, sem í þess valdi stæði, til þess að viðhalda jöfnuði milli verðlags og kaupgjalds. Með því móti mátti tryggja vinnufrið í 2 ár. En hvernig brást hæstv. ríkisstj. við þessari áskorun? Hún gerði það með því að kalla norðlenzku kaupgjaldssamningana svikasamninga og hefndi sín með því að lækka gengi íslenzku krónunnar með uppdiktuðum rökum, sem ekki fengu staðizt í neinu.

Með gengislækkuninni 1961 hefst núverandi verðbólguþróun fyrir alvöru. Æ síðan hefur verið styrjaldarástand í kaupgjalds- og verðlagsmálum, sem náð hefur hámarki í frv. hæstv. ríkisstj., sem felur í sér bann við því, að launafólk og vinnuveitendur semji um kaup og kjör. Lengra er ekki hægt að ganga í óréttlæti og lögleysum. Það er eins og hæstv. ríkisstj. hafi ekki verið sjálfrátt, þegar hún réðst til þessa verks, því að henni mátti vera ljóst, að með þessu var hún að efna til stjórnleysis eða a.m.k. ófriðarástands um lengri eða skemmri tíma. Slík lög sem þessi stríða gegn almennri réttarvitund þjóðarinnar, og því er ekkert líklegra en þau verði brotin, án þess að fært reynist að refsa gegn slíkum brotum. Lögin eru óframkvæmanleg og munu einungis stuðla að virðingarleysi almennings fyrir löggjafarstarfi almennt. Auk þess munu slík ákvæði án efa torvelda stórlega samstarf ríkisvaldsins og samtaka almennings um hin mikilvægustu mál.

Allt þetta sýnir, að hæstv. ríkisstj. er komin í þrot. Hún er úrræðalaus, og hún stefnir út í stjórnleysi. Það verður að breyta til, taka upp nýja stjórnarhætti, þar sem hagsmunir almennings og hagsmunir landsbyggðarinnar verða látnir sitja í fyrirrúmi fyrir blindri gróðrahyggju, sem haldið er uppi með þvingunaraðgerðum og lögleysum, ef ekki vill betur til. Ég tek undir það vantraust, sem hér hefur verið flutt á hæstv. ríkisstj., og því fyrr sem hún víkur, því betra. — Góða nótt.