07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (2737)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er þrælalagafrv., sem er tilefni þess vantrausts, sem hér er borið fram. Um það stendur nú baráttan á þingi og hjá þjóðinni. Gegn því hefur íslenzkur verkalýður risið allur, jafnt sá í vinnugallanum sem hinn flibbaklæddi, jafnt við höfnina sem á plönunum, í verksmiðjum og verzlunum, í skipum og á skrifstofum.

Og það er skiljanlegt, að ráðh. ríkisstj. vefjist tunga um tönn og að skjóti mörgu skökku við hjá þeim, er þeir reyna að verja svo illan málstað sem þrælalögin eru.

Þeir ráðh. Gylfi og Gunnar Thoroddsen sögðu í ræðum sínum hér áðan, að ríkisstj. vildi aðstoða láglaunafólk til þess að fá launabætur. Og hvernig hefur sú aðstoð birzt? Í því, að þegar láglaunamenn hafa knúið fram kjarabætur, hefur ríkisstj. ráðizt á þá með gengislækkun og rænt þá allri kauphækkuninni tafarlaust.

Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, reyndi í innfjálgri ræðu hér áðan að lofa launþegum öllu fögru, ef þeir bara vildu lofa ríkisstj. að fjötra sig. Hvernig dettur honum í hug, að nokkrir láti blekkjast af slíkum fagurgala eftir fjögurra ára níðingsverk afturhaldsins gegn íslenzkum launþegum? Hafi hann viljað íslenzkum launþegum vel, þá hefur hann haft tækifæri í 4 ár til að sýna það. Það hefur hann ekki gert, og nú er of seint fyrir hann að iðrast eftir dauðann — sinn pólitíska dauða.

Gunnar Thoroddsen, hæstv. fjmrh., þóttist harma það, að atvinnurekendur og verkamenn hefðu ekki getað komið sér saman. En hver er sannleikurinn? Einmitt þegar verkamenn og atvinnurekendur hafa samið frjálst, eins og 1961, þá er það ríkisstj., sem ræðst á samninginn og eyðileggur hann með gengislækkun.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, reyndi sem von var að verja nokkuð stjórn sína hér í gærkvöld. Hann kvað lífskjörin aldrei hafa verið betri en nú. Lífskjör hverra? Kannske hálaunamanna og braskara? En lífskjör verkalýðsins eru þau, að meiri vinnuþrældóm og lægri kaupmátt launa hefur hann ekki búið við í tvo áratugi.

Hæstv. forsrh. kvartaði yfir víxlhækkunum verðlags og kaupgjalds. Hverra verk eru þær víxlhækkanir? Það er verk íslenzku verðbólgubraskaranna, sem hækka verðlagið og lækka gengið í sífellu, til þess að ræna þannig kaupgjaldinu af verkalýðnum. Og kaupmáttur tímakaupsins er í dag 20% lægri en í árslok 1958 vegna valds þessara verðbólgubraskara yfir stjórnarstefnunni.

Hæstv. forsrh. kvað launin aðeins geta aukizt, ef þjóðarframleiðslan ykist. Það er nú að vísu rangt. Launin geta líka hækkað á kostnað gróðans hjá auðmönnum og í krafti betri skipulagningar á atvinnulífinu. En tökum samt dæmið af þjóðarframleiðslunni, frá því að hann varð forsrh. 1945 og þar til nú. Hreinar þjóðartekjur á mann hafa aukizt frá 1945 um 25% samkv. skýrslum Framkvæmdabankans, en kaupmáttur lægstu Dagsbrúnarlauna hefur á sama tíma minnkað um 20%. Þarf þá frekar vitnanna við? Aukning þjóðarteknanna bæri meira en 40% kauphækkun, eins og sjá má af þessu, ef rétt væri skipt. Hæstv. forsrh. er, sem kunnugt er, mikill húmoristi. En þegar hann segist vera að gera allt þetta fyrir þá lægst launuðu, jafnvel setja þrælalögin fyrir þá, yfirgengur hann sjálfan sig. Skyldi hann trúa því, ef alþýðan tæki upp á því á morgun að setja lög, sem bönnuðu auðmönnum alla gróðamyndun og sviptu þá yfirráðum yfir atvinnutækjunum, ef einhver segði við hann, að alþýðan væri að gera þetta allt fyrir veslings suðmennina, sem kynnu ekki fótum sínum forráð?

Ég læt nú þetta nægja. Þegar sá, sem vitrastur er og víðsýnastur úr stjórnarliðinu, sjálfur forsrh., talar svona svart, þá má nærri geta, hvernig vörnin ferst hinum smærri spámönnum.

En eitt atriði verð ég þó að taka í ræðu Birgis Finnssonar, hv. 2. landsk. Sá ræðumaður sökk svo djúpt að hóta verkalýð Íslands gengislækkun, ef hann bryti þrælalögin á bak aftur. Hann veit, að verkalýður Íslands hræðist engar hótanir. Hann veit fullvel, að ef hann ekki brýtur þessi þrælalög á bak aftur, fær hann önnur til enn lengri tíma, eins og Jón Þorsteinsson, hv. 9. landsk., viðurkenndi berum orðum í ræðu sinni hér áðan. Og verkalýðurinn veit, að ofan á þrælalög fengi hann líka gengislækkun. Braskarar Íslands hafa aldrei getað á öðru grætt en verðbólgu og gengislækkunum og munu halda áfram við þá þokkalegu iðju, svo lengi sem þeim helzt það uppi.

Alþýðuflokksfólkið um allt land stendur við hlið stéttasystkina sinna í verkalýðssamtökum landsins í baráttunni fyrir frelsi þess. Þetta Alþýðuflokksfólk hefur haldið tryggð við flokk sinn þrátt fyrir allt vegna þess, sem hann einu sinni var. Það fólk, sem forðum barðist við auðvaldið undir merkjum hans, hefur alltaf vonazt til þess, að sá dagur kæmi aftur, að það stæði sameinað öllum öðrum í verkalýðssamtökum í lífsbaráttu alþýðunnar á Íslandi. Og sá dagur er nú kominn. Við fögnum þeirri samstöðu við Alþfl.-fólkið, sem skapazt hefur í þessari orrahríð, og við efumst ekki um, að einnig í forustuliði þess flokks muni þrátt fyrir allt finnast sá stjórnmálaþroski, er á örlagastund flokksins heyrir rödd fólks síns og hlýðir henni.

Braskaravaldið hefur með þrætalögum sagt íslenzkum verkalýð stríð á hendur. Hingað til hefur þetta óráðsíuvald, sem aldrei hefur getað stjórnað Íslandi af viti og því síður réttlæti, aðeins heimtað peninga verkalýðsins og rænt þeim í ríkum mæli. Nú heimtar braskaravaldið líka frelsi verkalýðsins, og þá er íslenzkum verkalýð ofboðið. Þess vegna hefur verkalýður Íslands risið upp sem aldrei fyrr í sögu sinni, albúinn þess að brjóta þessi ólög á bak aftur, ef Alþingi Íslendinga sekkur svo djúpt að samþykkja þau.

Erfiðismenn Íslands, verkamenn og verkakonur, bera alla þjóðfélagsbygginguna á herðum sér, allt gróðabákn yfirstéttarinnar, allt embættisbákn hálaunamannanna. Þeir vita það, að ef frv. þetta er samþykkt, hafa þeir engu að tapa nema fjötrunum, en frelsi sitt og lífskjarabætur að vinna. Og þessi verkalýður til sjós og lands þekkir sinn mátt. Hann veit, að hann heldur uppi öllu þjóðfélaginu með framleiðslustarfi sínu. Án hans verður engin síld söltuð, enginn fiskur unninn, engin fleyta hreyfð. Og það vil ég minna auðmenn Reykjavíkur á, að þegar þetta erfiðisfólk réttir að fullu úr bognu baki sínu, sem það nú ber ykkur á, þá hrynur ykkar fúna og spillta gróðahöll sem hrófatildur í rúst. Gætið að því að beita ekki illa fengnum meiri hl. ykkar á Alþingi jafnóviturlega og ykkar rangfengna auði.

Það er hverri yfirstétt nauðsynlegt að læra af dýrkeyptri reynslu. öll þau tilræði, sem íslenzkum verkalýð hafa verið sýnd á undanförnum áratugum með gerðardómum, gengislækkunum og öðrum kúgunarráðstöfunum, hafa sannað, að það er ekki hægt að stjórna Íslandi gegn verkalýðnum. En með því að vera í sífellu að gera tilraunir til slíks, þá er yfirstéttin að gera Ísland að vettvangi eilífra hjaðningavíga. Og þegar nú á að kóróna öll fyrri kúgunarlög með því að gera verkalýðinn að annars flokks fólki í sínu eigin landi, þá rís hann upp sem aldrei fyrr, af því að vinnandi íslenzk þjóð hefur ekki unnað frelsi sínu og barizt fyrir því áratugum og öldum saman til þess að láta nokkra braskara svipta sig því nú. En sá hnefi, sem verkalýðurinn nú kreppir til að berjast fyrir frelsi sínu, getur breytzt í útrétta sáttarhönd á samri stundu og verkalýðurinn finnur, að látíð er af illum áformum gegn frelsi hans og rétti og lífshagsmunum og tekið að stefna í réttlætisátt.

Íslenzk verkalýðshreyfing hefur á undanförnum áratugum orðið að hafa vit fyrir þeim ofstopamönnum auðsins og gróðans, sem hafa hvað eftir, annað í gróðasýki sinni ætlað að sundra þessari þjóð á nýrri Sturlungaöld og ofurselja hana erlendu valdi. Verkalýð Íslands langar ekkert til þess að sjá auðinn, sem hann hefur skapað með hörðum höndum sínum, glatast í allsherjar átökum komandi vikna, Austfjarðasíldina eyðileggjast, vetrarsíldarvertíðina fara forgörðum, verðmæti, er skipt gætu hundruðum millj. kr., eyðast eða aldrei verða til. En frelsi sitt, samningsrétt sinn metur hann miklu meira en allt þetta.

Verkalýður Íslands er reiðubúinn jafnt til þess að berjast til þrautar fyrir frelsi sínu, ef ekki er annars kostur, eins og til hins, að leysa sameiginleg vandamál okkar þjóðar af viti og réttlæti. Og vandamálin eru ekki stór. Ef við værum bláfátækir í dag, íslendingar, ef okkur skorti skip og verksmiðjur, ef síldin brygðist og markaðurinn fyrir þorskinn hryndi, ef atvinnuleysi syrfi að, þá væri vissulega vandamál að leysa. En nú er Ísland ríkt, atvinnutækin mikil, auðlindir sjávar gjöfular, og allur heimurinn er okkar markaður og hrópar á matvæli vor. Vandinn er því lítill móts við það, sem hann einu sinni var. Það þarf aðeins að halda nokkrum hamslausum bröskurum í skefjum, láta þá ekki vaða inn á öll svið atvinnulífsins með gráðuga gróðakló sína. Það þarf að deila rétt því mikla, sem verkalýðurinn skapar, beita viti og forsjá í stjórninni á efnahagslífinu.

Og forsendan fyrir að leysa vandann og hefja samstarf er að láta þetta þrælafrv. hverfa út úr heiminum. Og það vil ég segja við hæstv. ráðh. þessarar ríkisstj., ekki sízt þá þeirra, sem ég met hátt sem raunsæja stjórnmálamenn, að það er enginn sjómaður að minni fyrir að rifa segl í stormi, og nú er stýrt beint í stormsveip, ef eigi er sveigt hjá. Þeir eru menn að meiri að meta nýjar aðstæður, er þær skapast. Og það þykist ég vita, að enginn þeirra hafi átt von á því ofviðri, sem nú er á brostið, er þeir ýttu þessu frv. úr vör. Eða hvort mun marga hafa órað fyrir því þá, þegar þrælalögin nú voru lögð fram, að þorri íslenzkra verkalýðsfélaga stæði reiðubúinn til allsherjarverkfalls á mánudaginn kemur og 500 manna fundur í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur samþykkti einróma harðvítug mótmæli gegn þrælafrv. og skoraði á Alþingi að fella það?

Það er sjálft fólkið, vakandi og virkt, sem er að verki um allt Ísland í dag. Hin vinnandi þjóð er vöknuð til varðstöðu og baráttu um frelsi sitt. Jafnt alþýðan sjálf sem yfirstéttin má minnast þess, er Björnstjerne Björnson og Matthías kváðu forðum:

Vér mörgu, vér smáu, vér vinnum þetta verk,

og vilji ei hinir skilja, þá fram með tygin sterk.

Það byrjaði sem blærinn, er bylgju slær á rein,

en brýzt nú fram sem stormur, svo hriktir í

grein.

Og rokviðrið nálgast, fyrr en nokkur veit af.

En nákalt og rjúkandi kveður við haf.

Sú þjóð, sem veit sitt hlutverk, er helgast afl

um heim.

Eins hátt sem lágt má falla fyrir kraftinum

þeim.

Hinn góði málstaður verkalýðsins mun sigra í þeim átökum, sem fram undan eru, af því að fólkið, launþegar um allt land, er þess albúið að berjast og fórna fyrir hann, fyrir frelsi sitt og rétt. En þá yrði gifta Íslands mest, ef sá sigur ynnist, án þess að okkar litla þjóðfélag yrði tætt í sundur í þeirri efnahagslegu borgarastyrjöld, sem þrælalögin stofna til, ef samþykkt yrðu. — Góða nótt.