07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (2739)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Helgi Bergs:

Herra forseti. Gott kvöld, góðir hlustendur. Síðasti ræðumaður var drjúgur yfir því, að stjórnin hefði fengið traust í kosningunum í vor. Þetta segir hann, þótt honum sé það fullljóst, að þeir héldu aðeins meiri hl. sínum vegna þess, að þeir leyndu þjóðina því, sem þeir eru nú að gera, og því, sem nú er komið í ljós.

Gylfi Þ. Gíslason sagði í kvöld, að Framsfl. hefði sex sinnum staðið að því að skerða samningsfrelsi verkalýðssamtakanna. Sannleikurinn er sá, að síðan á stríðsárunum hefur grunnkaup aldrei verið fest með lögum og verkalýðsfélögin aldrei verið svipt samningsréttinum í meira en 20 ár, vegna þess að Framsfl. hefur ekki léð máls á því. Hann dró sínar ályktanir af reynslunni af gerðardómnum á stríðsárunum. Og þeir nota sér það einmitt núna, að þeir telja sig komast fram hjá Framsfl. Það voru bein ósannindi, að grunnkaup hefði verið bundið árið 1950.

Það var glatt á hjalla hjá viðreisnarmönnum fyrir 4 árum. Með lítinn meiri hl., — þótt hann sé naumari núna, — höfðu þeir komið út úr kosningunum þá um haustið og höfðu nú höndlað allan sannleika um, hvernig efnahagsmálum þessarar þjóðar skyldi stýrt. Allt skyldi vegið á peningavogina, og lögmál peninganna skyldu sjálfkrafa stýra hverjum hlut í réttan farveg. Jafnvægi var slagorð þeirra daga.

Jafnvægi á peningamarkaðnum átti að skapa með því að hækka vexti til þess að draga úr eftirspurn og auka framboð lánsfjárins. Þetta var ekki aðeins talin nauðsyn fyrir atvinnulífið, heldur einnig sérstakt hagsmunamál sparifjáreigenda, eins og bankastjórinn Magnús Jónsson var enn að stagast á hér áðan. Nú hefur þetta verið reynt í 4 ár, og jafnvægisleysið hefur aldrei verið meira í peningamálum innanlands, og ófullnægð eftirspurn eftir lánsfé er meiri nú en nokkru sinni fyrr. En atvinnuvegirnir stynja undan vaxtaokrinu, og hinum vísu feðrum virðist alveg hafa yfirsézt sú afleiðing vaxtaokursins, sem augljósust hefði þó átt að vera frá upphafi, en það eru áhrif hinna gífurlegu vaxtagreiðslna á verðlagið í landinu. Háu vextirnir höfðu auðvitað áhrif á verðlagsþróunina og eiga sinn drjúga þátt í því dýrtíðarflóði, sem hefur sópað burt þeim hagnaði, sem sparifjáreigendur áttu að fá, og meira til. Engir hafa verið sárar leiknir af dýrtíðarholskeflunum en einmitt þeir.

Jafnvægi í gjaldeyrismálum skyldi ná með því að skrá rétt gengi, en það var annað slagorð þessara daga, sem aldrei hefur verið skilgreint. Þetta jafnvægi reyndist þannig, að með því að stofna til 600 millj. kr. verzlunarskulda erlendis og með erlendum lántökum öðrum upp á mörg hundruð milljónir tókst að nurla saman í eindæma góðu árferði 1200 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð í bili. En nú berast þær fréttir úr búðum ríkisstj., að 700 millj. kr. halli sé á vöruskiptunum við útlönd, það sem af er þessu ári.

Jafnvægi í verðlagsmálum átti að ná með því að taka vísitöluna, verðlagsmælinn, úr sambandi við kaupgjaldið með lagaboði, og óheftur innflutningur og samkeppni skyldu tryggja verðlagið. Fullyrt var, að jafnvægi mundi nást, þegar vísitalan hefði hækkað úr 100 stigum í 103 stig. Nú er hún komin í 144 stig og ekkert jafnvægi enn sýnilegt. En samkeppnin varð ekki frjáls vegna lánsfjárskortsins og hafði því ekki þau áhrif á verðlagið, sem sagt var, en hefur í staðinn leitt til óhóflegs innflutnings á hvers konar tízkuvöru og óheilbrigðrar birgðasöfnunar í verzluninni á þessu sviði, en skorts á öðrum sviðum.

Jafnvægi í fjárfestingarmálum átti að skapa með því að loka vænan hluta af sparifé landsmanna inni og frysta í bankakerfinu. Afleiðingin varð sú, að nauðsynlegar framkvæmdir almennings urðu að sitja á hakanum, en þeir, sem höfðu fullar hendur fjár, gátu valsað að vild sinni. Eftir því sem dýrtíðarflóðið jókst, komu afleiðingar þessa í ljós. Allir peningamenn, sem gátu höndum undir komizt, tóku nú að setja peninga sína í fasta fjármuni. Þegar líða tók á árið 1962 fór að bera á samkeppni um vinnuaflið, og ríkisstj. sá, að svo gæti farið, að nauðsynlegar framkvæmdir í þágu þjóðarheildarinnar yrðu útundan. Nú voru góð ráð dýr. Kosningar fóru í hönd, og ferillinn var ekki fagur. Stjórnin tók þá það ráð, sem þó var ekki sérlega rökrétt í þessu sambandi, að taka stórt framkvæmdalán í Bretlandi til þess að koma áfram ýmsum umbótaframkvæmdum í þágu þjóðarinnar. En við þetta voru víða miklar vonir tengdar, og þjóðin fagnaði lántökunni, og það er rétt, sem Jón Þorsteinsson sagði hér áðan, að Framsfl. styður gjarnan fjárframlög til þarfra framkvæmda.

Ófagrar sögur fara að vísu af því, hvernig ríkisstj. úthlutaði þessu fé í kosningabaráttunni í vor, en það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hitt, að ríkisstj. gerði enga tilraun til þess að tryggja það, að aðrar ónauðsynlegri framkvæmdir yrðu að bíða, svo að þessar framkvæmdir kæmust áfram í samkeppninni um vinnuaflið. Af þess háttar framferði hlaut að leiða þenslu, og afleiðingin varð sú, að enska framkvæmdaláninu og raunar fleiri erlendum lánum var hellt út á verðbólgubálið, svo sem öllum er nú augljóst. Þannig breytti ríkisstj. einnig sinni þörfustu framkvæmd í stórslys með fyrirhyggjuleysi og stjórnleysi. Og nú þykist hún hvorki skilja upp né niður í orsökum þeirra r ofþenslu, sem hún er að býsnast yfir. Svona fór um jafnvægið bar.

Jafnvægi á vinnumarkaðnum átti að skapa með því að láta atvinnurekendur og launþega semja um sín mál eins og áður. Forsrh. orðaði þetta svo í ræðu um efnahagsmálafrv. 1960: „Ríkisstjórnin telur, að það eigi að vera hlutverk samtaka launþega og atvinnurekenda að semja um kaup og kjör.“ Já, mikið rétt. En stjórnin hélt ekki þetta heit, heldur greip sífellt inn í málefni þessara samtaka með þeim árangri, að ófriður á vinnumarkaðnum hefur aldrei verið meiri en þessi undanfarin ár. Og nú leggur ríkisstj. fram frv. til 1., sem bannar Það, sem hún áður lofaði. Nú heimtar hún lög, sem banna frjálsa samninga atvinnurekenda og launþega. Þetta lagafrv. er einstakt í sinni röð og algerlega fordæmalaust. Það er rökstutt með kröfuhörku og óbilgirni launþegasamtakanna og þá væntanlega fyrst og fremst hinna lægst launuðu, sem þessi þvingunarlög bitna á.

Ástæða væri því til að rifja upp söguna af samskiptum ríkisstj. við lægst launaða fólkið í landinu, en til þess gefst mér ekki tími nú. Það nægir nú að minna á það, að eftir að núv. flokkasamsteypa kom til valda um áramótin 1958—1959, ríkti alger friður á vinnumarkaðnum í 21/2 ár. Þá sömdu atvinnurekendur og launþegar um hóflega kauphækkun eftir harða og umfangsmikla vinnudeilu. Ríkisstj. tók þá hækkun alla aftur með ástæðulausri og órökstuddri gengislækkun, sem flestir viðurkenna nú að hafi verið versta afglapaverk stjórnarinnar á ófögrum ferli. Enn biðu launþegar í 10 mánuði, þar til þeir fengu aftur hóflega kauphækkun. Móti henni magnaði ríkisstj. dýrtíð svo ferlega, að engir samningar hafa síðan haldið nema fáa mánuði í einu, þar sem launþegar hafa reynt að verja sig áföllum dýrtíðarinnar.

Á síðasta Alþingi voru sett lög um það, að næðust ekki samningar milli ríkisins og opinberra starfsmanna, skyldi sérstakur dómstóll, kjaradómur, ákveða þeim laun. Í sumar felldi kjaradómurinn sinn fyrsta dóm. Hann taldi eðlilegt, að opinberir starfsmenn fengju að meðaltall 45% hækkun á kaupi sínu. Með hliðsjón af þeirri verðlagsþróun, sem orðið hefur undanfarin ár, munu fáir telja það óeðlilega niðurstöðu. Síðan hafa starfsmenn Reykjavíkurborgar og fleiri bæja fylgt í kjölfarið og einnig bankastarfsmenn. Tveim vikum áður en kjaradómur felldi úrskurð sinn, sátu lægst launuðu stéttir þjóðfélagsins að samningum við sina vinnuveitendur. Þær féllust á að láta sér nægja 7~/z% hækkun gegn því að fá aftur leiðréttingu í okt. Sama gerði verzlunar- og skrifstofufólk. Forsrh. nefndi þetta „þjóðhátíðarsamninga“ í hjartnæmri ræðu, sem hann hélt á þjóðhátíðardaginn af svölum þessa húss. Ég hef engan mann talað við síðan, sem hefur ekki gert ráð fyrir því, að þetta fólk hlyti að fá einhverja leiðréttingu sinna mála. En nú launar ríkisstj. þjóðhátíðarsamningana og kemur til Alþ. og biður það að lögbjóða óbreytt kaup þessara stétta. Ríkisstj. hefur hækkað kaup verkafólks og skrifstofufólks, sem hjá henni vinnur, og hún vill nú láta banna öðrum með lögum að borga fólki, sem vinnur sömu störf og hefur sama undirbúning undir störfin, svipuð laun og gert er hjá ríkinu sjálfu, hjá bæjarfélögum og bönkum. Hér er um að ræða hróplegt ranglæti.

Eitt meginboðorð þeirra , sem fást við löggjafarstörf, er það að misbjóða ekki réttlætis og siðgæðiskennd þjóðarinnar. En þau lög, sem ríkisstj. biður nú um, eru ósanngjörn gagnvart stórum hluta þjóðarinnar, og með þeim er réttlætiskennd fólksins efalaust misboðið. Þeir, sem þau samþykkja, taka á sig þunga ábyrgð af þeim afleiðingum, sem það kann að hafa fyrir virðingu þjóðarinnar fyrir lögum og rétti.

Af þessu, sem ég hef nú rakið, er alveg augljóst, hverjir það eru, sem sýnt hafa óbilgirni. Og það eru hvorki launþegasamtökin né atvinnurekendur, því að báðir þessir aðilar hafa sýnt hófsemi og ábyrgðartilfinningu í því vandasama hlutverki, sem þjóðfélagið ætlar þeim að gegna. Óbilgirnin er ríkisstjórnarinnar.

Það var eitt af vígorðum viðreisnarmanna á sinni tíð, að þannig skyldi búið að útflutningsatvinnuvegunum, að þeir gætu staðið á eigin fótum. En hvernig metur nú ríkisstj. sjálf aðstöðu fiskiðnaðarins eftir 4 ára viðreisn? Hún metur hana þannig, að nú verður að setja lög, sem banna hærri kaupgreiðslu til lægst launuðu verkamannanna en 28 kr. á klst. eða 67 200 kr. fyrir alla dagvinnutíma ársins, til þess að þessar atvinnugreinar geti starfað. Þetta kaupgjald svarar til þess, að hraðfrystihúsin borgi að meðaltall innan við 3000 kr. í vinnulaun fyrir hvert framleitt tonn af freðfiski. Meira er ekki hægt, segir ríkisstj. En það er hægt að láta þau borga 1500 kr. í vexti fyrir hvert tonn, og það er hægt að láta þau borga 1400 kr. í útflutningsgjöld fyrir hvert tonn og á fjórða hundrað krónur í opinber gjöld fyrir hvert tonn, eða samtals yfir 3200 kr. í þessi gjöld, auk annarra smærri gjalda, sem beinlínis er á valdi ríkisstj. að ákveða. Væri ekki nær að setja lög, sem banna slíkar óhóflegar álögur, en það er m.a. lækkun þessara álaga, sem leið Framsfl. út úr vandamálunum gerir ráð fyrir.

En um leið og fiskvinnslustöðvunum er bannað að borga meira en 28 kr. á klst., er öðrum, sem að undanförnu hafa yfirborgað stórlega, 40 —50 kr. á klst., lögheimilað að halda því áfram. En ríkisstj. gerir enga grein fyrir því, hvernig fiskvinnslustöðvarnar eiga að halda sínu fólki upp á þessar spýtur í samkeppni við þá, sem yfirborga og er lögheimilað að gera það. Væri ekki nær að reyna heldur að tryggja framleiðsluatvinnuvegunum og nauðsynlegustu framkvæmdum vinnuaflið með því að láta ónauðsynlegasta hluta einkafjárfestingarinnar bíða um sinn?

Framsfl. telur nauðsynlegt, að efnahagsmálum Íslands sé stjórnað.

Þegar menn renna huganum 4 ár aftur í tímann, að upphafi viðreisnarinnar, þá verður mönnum efalaust minnisstæðast hið taumlausa yfirlæti, sem ríkisstj. gekk að verkefnum sínum með. Forsrh. lýsti því yfir, að tilgangslaust væri annað en að horfast í augu við allan vandann í einu. Fjmrh. lofaði nýjum þjóðfélagsháttum. Í áróðurspésum Sjálfstfl. var því lofað, að nú skyldi lokið því 30 ára tímabili, sem Framsfl. hefði sett svip sinn á. Allt var rangt, sem áður hafði verið gert á því tímabili, sem þó er mesta framfaratímabil íslenzku þjóðarinnar. Einkum var veitzt að vinstri stjórninni, og Þar létu ekki ráðh. Alþfl. sinn hlut eftir liggja og settu það ekki fyrir sig, þó að þeim væri málið skylt. Með þessu hugarfari hófu þeir sitt stríð. Lúðrar voru þandir, trumbur voru slegnar, og undir blaktandi fánum lögðu þessir riddarar viðreisnarinnar til atlögu gegn kaupgetu almennings, sem þeir töldu skapa umframeftirspurn og gjaldeyrishalla, gegn fjárfestingu á vegum almennings, sem þeir töldu skapa þenslu og verðbólgu. Nú höfðu þeir höndlað allan sannleikann. Nú skyldi allur vandinn leystur og upp renna hinir góðu gömlu dagar.

En dramb er falli næst. Nú eru þeir komnir aftur úr herferð sinni. Þeir eru komnir til Alþ. og gefa því þá skýrslu, sem fjmrh. orðaði svo við 1. umr. fjárlaganna: „Á þessu ári er orðinn ískyggilegur halli á viðskiptunum við útiönd. Innflutningurinn hefur aukizt gífurlega, gjaldeyrissjóðurinn hefur ekki vaxið frá áramótum, sparifjáraukning er tregari en áður, eftirspurn eftir vinnuafli í mörgum greinum svo mikil, að enginn vegur er að fullnægja henni, og yfirborganir og undandráttur sigla í kjölfarið. Fiskvinnslustöðvarnar telja sig trauðlega geta risið undir þeirri hækkun kaupgjalds og annars kostnaðar, sem orðin er.“ Svo mörg voru þau orð. Og nú biðja þeir Alþ. um það að lögbjóða á íslandi lægsta kaup, sem nokkurs staðar þekkist í nágrenni okkar, því að að öðrum kosti ráði þeir ekki við neitt. Þangað lá þá eftir allt saman leiðin, sem eitt sinn var kölluð „leiðin til bættra lífskjara.“ Og séu þeir spurðir, hvað þeir ætli að gera næst, er fátt um svör, helzt þau, að þeir ætli að halda viðreisninni áfram. Lúðrarnir eru þagnaðir, trumburnar eru rifnar og stríðsfánar viðreisnarinnar í henglum. Það er ekki hátt á þeim risið núna, riddurum hinnar sorglegu myndar, en stríð sitt vilja þeir hafa áfram og stefnumiðin óbreytt.

En þjóðin ætlast til forustu Alþ. í annarri baráttu, baráttu fyrir bættum lífskjörum Íslendinga til sjávar og sveita, baráttu fyrir öflugum stuðningi við atvinnuvegi landsmanna, svo að þeir geti komið á hjá sér þeim endurbótum og þeirri framleiðniaukningu, sem nauðsynleg er til þess að geta greitt það kaup, sem þjóðinni er sæmandi, í stað þess að þeim sé íþyngt stöðugt með vaxtaokri, skattlagningu og öðrum álögum, — baráttu fyrir betri framtíð Íslendinga í landi sínu. Ríkisstj. er nú ber að því að hafa sagt þjóðinni ósatt frá efnahagsmálum þjóðarinnar fyrir síðustu kosningar. Hún hefur því fyrirgert öllu trausti, og henni ber að fara frá. —Góða nótt.