10.04.1964
Sameinað þing: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (2745)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hinn 1. des. 1918, þegar Ísland gerðist fullvalda ríki, átti sér stað atburður, sem um margt var einstæður í sögu síðari tíma. Íslendingar voru langsamlega fámennust fullvalda þjóð í veröldinni, þá aðeins 90 þús. manna. Fullveldiskynslóðin gerði sér ljóst, að fámennið markaði Íslendingum sérstöðu um margt, lagði þeim skyldur á herðar, hvatti til varkárni, en einurðar og festu í öllum skiptum við umheiminn. Íslendingum datt ekki í hug að einangra sig, þeir voru staðráðnir í að byggja hér upp nútímaþjóðfélag, læra af öðrum, taka eðlilegan þátt í samskiptum ríkja, en gæta í hvívetna sæmdar sinnar og sjálfsvirðingar. Flestum var ljóst, að það gæti kostað fórnir að varðveita og efla íslenzkt sjálfstæði. Ætti svo sárafámenn þjóð að fá valdið hlutverki sínu, hlaut hún að forðast að láta annarleg sjónarmið draga hugann frá íslenzkum vandamálum. Sízt af öllu mátti hún láta erlend viðhorf, erlenda stórveldapólitík skipta sér í fjandsamlegar fylkingar.

Allt fram yfir stofnun lýðveldisins 1944 mátti segja, að íslenzkir stjórnmálamenn og íslenzk þjóð fylgdi nokkurn veginn þeirri utanríkisstefnu, sem eðlileg var smáríki, er vildi halda sjálfstæði sínu og sæmd. Frá árdögum fullveldisins hafði þjóðinni fjölgað um þriðjung. Efnahagurinn hafði stórbatnað og möguleikarnir til að efla atvinnuvegina voru meiri en nokkru sinni. Hið unga íslenzka lýðveldi hlaut viðurkenningu stórvelda jafnt sem smáríkja og átti þess allan kost að ganga fram frjálst og óháð í fylkingu þjóðanna. Ekkert virtist sjálfsagðara en að Ísland neytti þessa færis, kostaði kapps um góð og heilbrigði skipti við önnur lönd og beitti áhrifum sínum, þótt takmörkuð væru, við hlið óháðra ríkja til fulltingis kröfunni um allsherjar afvopnun og frið. Hver hefur þróunin orðið?

Ég þarf ekki að eyða löngu máli til þess að lýsa íslenzkri utanríkisstefnu síðustu 15—18 ára, því tímabili, þegar íslenzkir valdamenn hafa hvað eftir annað og af æ meiri forherðingu ginnt þjóð sína til að afsala sér dýrmætum réttindum, tengt land sitt hernaðarblökk, gert það að fótaskinni erlendra herja. Jafnframt hafa þeir skert sjálfsvirðingu hennar með því að teygja í sífellu fram betlihendur eftir peningum, eftir korni ellegar þeirri náð að mega stara ókeypis á amerískt dátasjónvarp. Hvað veldur slíkri fyrirmunun? Áróðursmeistarar hernaðarflokkanna staðhæfa: Innganga í NATO fyrir 15 árum, 13 ára samfelld herseta og allt, sem slíku fylgir, er framlag Íslands til vestrænnar samvinnu, liður í krossferð gegn kommúnisma. — Allir, sem andæfa, eru umsvifalaust stimplaðir kommúnistar eða handbendi þeirra, Rússaþjónar. Með svo einföldum hætti er reynt að afgreiða hvern þann stjórnmálaflokk, hóp manna eða einstakling, sem dirfist að mótmæla íslenzkri aðild að herbandalagi, hersetu, jafnvel hermannasjónvarpi á íslenzkum heimilum. Og að því er varðar hernámstekjurnar, gjafaféð og ráðagerðirnar um að opna erlendum auðhringum sem greiðasta leið til Íslands, þá segja málsvarar núverandi stjórnarflokka, að slíkt séu nauðsynlegir og sjálfsagðir þættir í efnahagslegri uppbyggingu. Allt eru þetta staðlausir stafir. Forsendur þeirra r utanríkisstefnu, sem íslenzkir valdhafar hafa rekið um skeið, eru allt aðrar. Því skal að vísu ekki neitað, að einhverjir þeirra hafi fest trúnað á þá kenningu, að rétt hafi verið vegna kommúnistahættunnar að færa vígstöðvar kalda stríðsins inn á íslenzka grund. Til eru þeir menn, sem svo mjög hafa bundið hugann við heimspólitík, glímu andstæðra hugmyndakerfa, að þeir hafa gersamlega týnt hinu þjóðlega, íslenzka sjónarmiði. En meginástæðan er þó ekki þessi. Skýringin á mörgum viðbrögðum íslenzkra valdhafa hin síðari ár er miklu fremur sálræns en hugmyndafræðilegs eðlis. Hér hefur það gerzt, að tiltölulega fjölmennur hópur áhrifamanna hefur glatað trúnni á það, að þjóð þeirra sé þess umkomin að vera stjórnarfarslega, efnahagslega og menningarlega sjálfstæð. Stjórn sjálfra þeirra á íslenzku þjóðarbúi hefur verið léleg, enda stjórnarstefnan röng. Afleiðingarnar eru stöðugir og sívaxandi örðugleikar aðalatvinnuvega þjóðarinnar, sem heimatilbúin óðaverðbólga ætlar gersamlega að sliga. Af þessu draga stjórnarherrarnir síðan þá ályktun, að allur okkar ófarnaður stafi af því, hve við séum fáir, fátækir, smáir. Við séum engir menn til þess að standa á eigin fótum, halda uppi sjálfstæðu, íslenzku ríki. Þess vegna hljótum við að tengjast stærri heild með einhverjum hætti, ganga í bandalög, opna landið fyrir stóriðjufyrirtækjum erlendra auðmanna, gerast handlangarar þeirra og þjónar. Er þá jafnan til þess vitnað, að fólki fjölgi hér ört, svo að brátt verði atvinnuleysi, nema upp rísi stóriðja á vegum útlendra suðhringa. Þó vita allir, að þrátt fyrir stjórnarstefnu, sem verkar eins og dragbítur á þróun íslenzkra atvinnuvega, hefur atvinna vaxið örar en fólksfjöldinn. Svo mikið er framtak þjóðarinnar, svo gjöfular eru íslenzkar auðlindir. Það er og auðsannað, að fiskveiðar okkar eru arðbærari og hagfelldari þjóðarbúinu en nokkur stóriðja. Er þó langur vegur frá því, að sjávarafli sé nú hagnýttur á þann veg, sem bezt má verða. Enn eru þar lítt eða allsendis ónotaðir stórfelldir möguleikar, t.d. á sviði fiskiðnaðar. Svipað má segja um aðrar atvinnugreinar. Möguleikar þeirra eru ekki hálfnýttir enn.

Fyrir hálfu öðru ári var það mesta baráttumál forustumanna núverandi stjórnarflokka, að Ísland gerðist aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu. Í öllum áróðri stjórnarliðsins var hvergi ýjað í þá átt, að dvergþjóð sem Íslendingum kynni að vera miður hollt að tengjast slíku bandalagi. Andstaðan gegn því ráðabruggi varð hins vegar öflugri en ríkisstj. hafði búizt við. Þeir Íslendingar voru þess vegna margir, einnig úr röðum kjósenda stjórnarflokkanna, sem vörpuðu öndinni léttar, þegar þær leiðir lokuðust, a.m.k. í bili. Menn voru sannfærðir um, að Ísland hefði fyrir giftusamlega rás viðburðanna sloppið úr yfirvofandi háska. En dálítill hópur fjáraflamanna og stjórnarherrarnir sjálfir ásamt blindustu fylgismönnum voru nokkurn veginn þeir einu, sem hörmuðu atburðinn, fjáraflamennirnir af þeirri ástæðu, að þá hafði dreymt um þann gróðaveg sér til handa að gerast vikapiltar erlendra auðhringa í landi sínu, stjórnarherrarnir vegna þess, að þeir virðast hafa glatað trúnni á það, að íslenzka þjóðin sé fær um að bjargast af eigin efnum. Svo lengi og ákaft hafa þeir mænt á auð og vald stórþjóða, að þeir hafa fengið glýju í augu af þeim sýndarljóma. Þess vegna er þeim svo tamt orðið að líkja Íslandi við borðlága kænu á ólgusjó veraldar, sem hljóti að dragast aftur úr hafskipum stórvelda, nema hún hengi sig aftan í eitthvert þeirra. Er þá sú ályktun á næsta leiti, að öruggast og áhyggjuminnst sé að hafa sig um borð í hafskipið og yfirgefa kænuna.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum fyrir hálfu fimmta ári og markaði þá stefnu í innanlandsmálum, sem kennd er við viðreisn, lét hún blása fyrir sér í lúðra og berja bumbur, um leið og hún tilkynnti hátíðlega, að nú mundu upp teknir nýir og betri siðir en áður höfðu tíðkazt. Margir stjórnarliðar munu í upphafi hafa gert sér um það vonir, að viðreisnarstefnan svonefnda yrði þess megnug að styrkja fjárhagskerfið, bæta þjóðarhag. Helztu leiðtogar stjórnarflokkanna litu hins vegar frá upphafi á viðreisnina sem nauðsynlegan lið í þeirri fyrirætlan að aðlaga íslenzkt efnahagskerfi þeirri stóru heild, sem þá dreymir stöðugt um, að Íslendingar tengist sem traustustum böndum.

Eftir því sem lengra leið og betur kom í ljós, að viðreisnarpólitíkin olli hér sívaxandi glundroða og hratt af stað lítt viðráðanlegri óðaverðbólgu, þeim mun ákafari urðu stjórnarherrarnir að ná sem skjótustum tengslum við erlent auðvald. Um skeið voru þeir vongóðir um, að þessi óskadraumur rættist með aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Þegar þær vonir brugðust, voru hafnar samningaviðræður við erlend auðfélög um stofnun stóriðjufyrirtækja hér á landi, svo sem alúmíníumverksmiðju og olíuhreinsunarstöðvar. Mikil leynd hefur hvílt yfir þessum viðræðum og þess gætt, að stjórnarandstaðan fengi sem minnst um þær að vita. Nýlega var þó frá því skýrt, að viðræðurnar væru í fullum gangi og kæmust e.t.v. brátt á lokastig. Síðan hefur verið haldið uppi í stjórnarblöðunum látlausum áróðri fyrir því, að samið verði sem fyrst við auðhringa um stóriðjurekstur á Íslandi. Farið er um það fjálglegum orðum, hvílíkt lán það væri, ef erlend fyrirtæki fengjust til þess að nytja auðlindir íslenzkrar þjóðar. Þó að hér sé og hafi lengi verið stórfelldur skortur á vinnuafli og möguleikar atvinnuvega þjóðarinnar varla nýttir til hálfs, er hrópað á útlenda stóriðju vegna þess, hve fólksfjölgun á Íslandi sé ör. Á því er einnig þrástagazt, að í stóriðjumálum ættum við að taka Norðmenn okkur til fyrirmyndar, ekki hafi þeir verið smeykir við erlent fjármagn, heldur byggt upp margvíslegan iðnað með þátttöku þess.

Við skulum athuga þessa síðastnefndu staðhæfingu örlítið nánar og gera um leið stuttan samanburð á okkur og Norðmönnum. Ýmsar óvéfengjanlegar tölur eru tiltækar í því sambandi. Lítum fyrst á fólksfjöldann. Noregur er að vísu smáríki. Landið byggja þó 3 millj. 600 þús. manna. Íslendingar eru 180 þús. Móti hverjum einum Íslendingi eru 20 Norðmenn, móti hverjum 100 Íslendingum 2000 Norðmenn. Þær tölur, sem ég hef handbærar um erlenda fjárfestingu í Noregi, eru 2 ára gamlar. Þá nam öll hlutabréfaeign útlendra manna og fyrirtækja þar í landi 455 millj. norskra kr., eða rúmlega 2700 millj. ísl. kr., og þess ber að gæta, að þetta erlenda fé í norskum fyrirtækjum var ekki til komið á skömmum tíma, heldur smám saman á mörgum tugum ára. Miðað við fólksfjölda væri hliðstæð erlend fjárfesting hér á landi 135 millj. ísl. kr. Öll sú mikla fjárfesting, sem vitnað er til að átt hafi sér stað í Noregi og talin er fordæmi fyrir Íslendinga, jafngildir því, að útlendingar eignuðust hér á hálfri öld eða svo eina allstóra síldarverksmiðju eða 2—3 nútíma togara. Slík erlend fjárfesting þyrfti vitanlega ekki að verða háskaleg okkur Íslendingum. En er það nú þetta eða eitthvað þessu líkt, sem stjórnarvöldin bollaleggja um, þegar þau eru að undirbúa erlenda stóriðju á Íslandi? Nei, í sambandi við alúminíumverksmiðjuna eina eru nefndar tölur eins og 1200 millj. kr. í stofnkostnað og aðrar 1200 millj. til byggingar raforkuvers, sem að hálfu leyti eða meira yrði reist og rekið í verksmiðjunnar þágu. Jafnframt er frá því greint, að í rauninni sé slík verksmiðja of lítil til að skila arði, enda gefið í skyn, að hér sé aðeins um fyrri eða fyrsta áfanga að ræða. Verksmiðjan kynni siðar að verða stækkuð um helming eða meira.

Gerum enn einn samanburð á Íslendingum annars vegar og Norðmönnum hins vegar. Hugsum okkur, að erlendir auðhringir leggi fé í atvinnurekstur í báðum löndunum og veltu í krónutölu jafnhárri upphæð í hvoru landi. Væri framleiðsla fyrirtækjanna 1/40 hluti af framleiðslu Norðmanna og fertugasti hver verkfær maður starfandi í þjónustu þeirra, mundu samsvarandi tölur á Íslandi vera helmingur þjóðarframleiðslu og helmingur verkfærra manna. Slíkur munur er hér á.

Þegar rætt er og ritað um þessi mál eins og íslenzka og norska þjóðin séu jafnstórar og efnahagslíf beggja ámóta öflugt, er í því fólgin hin háskalegasta blekking. Erlend fjárfesting í þeim mæli, sem hér virðist í uppsiglingu, á sér naumast hliðstæðu í fullvalda og raunverulega sjálfstæðu ríki. Fordæmin finnast að vísu. Auk hreinna nýlendna er þeirra einkum að leita í ýmsum löndum Mið- og Suður-Ameríku, þar sem bandarísk auðfyrirtæki drottna yfir hag fólksins, hirða arðinn af striti þess og halda leppum sínum í valdastólum, séu þeir nógu auðmjúkir og hlýðnir. Ég trúi því ekki, að nokkur sá Íslendingur sé til, sem að lokinni nákvæmri íhugun þessara mála vill tefla á tvær hættur um það, að þjóð hans verði búið þvílíkt hlutskipti.

Ég hef dregið hér upp nokkra mynd af stefnu núverandi ríkisstj. í utanríkismálum, vikið stuttlega að fortíðinni, en lagt höfuðáherzlu á hitt, hvað í vændum getur verið, ef öllu lengra er haldið á sömu braut.

Um utanríkisstefnu Framsfl., ef stefnu skyldi kalla, get ég verið fáorður. Ég er þess fullviss, að yfirgnæfandi meiri hluti framsóknarmanna vill gagngera stefnubreytingu í íslenzkum utanríkismálum. En framsóknarforustan, þeir fáu menn, sem flokknum stjórna, hafa séð um það, að ýmist hefur Framsfl. tekið á sig fulla meðábyrgð um hin verstu óþurftarverk í utanríkismálum eða leikið tveim skjöldum, borið kápuna á báðum öxlum. Hlutleysisstefnunni hefur framsóknarforustan varpað gersamlega fyrir borð og marglýst yfir hollustu sinni við NATO. Hún stóð að hernámi landsins, en hefur hin síðari ár slegið úr og í að því er varðar dvöl erlends hers á Ísland i á friðartímum. Nú er forusta Framsóknar spurð: Hver er afstaða Framsfl. til fyrirætlana ríkisstj. um að opna landið fyrir erlendum auðhringum? Hver er afstaða flokksins til erlendrar hersetu á Íslandi í dag? Hver er í raun og sannleika utanríkisstefna Framsfl.?

Alþb. og Þjóðvfl. eru á einu máli um það, að gerbreyting þarf að verða á stefnu íslenzka lýðveldisins í utanríkismálum. Till. sú, sem hér er flutt, miðar að því að marka stefnuna á þann veg, sem flm. telja rétt og nauðsynlegt, bæði í ljósi fyrri atburða og nýrra viðhorfa. Till. er á bessa leið:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir því, að þessi eru grundvallaratriði íslenzkrar utanríkisstefnu:

að íslenzka þjóðin haldi fullu sjálfstæði sínu,

stjórnarfarslegu sem efnahagslegu;

að Íslendingar einir hafi eignar- og yfirráðarétt yfir auðlindum landsins og atvinnutækjum;

að hvorki sé á Íslandi her né herbækistöðvar;

að Ísland sé hlutlaust í hernaðarátökum,

enda segi það sig úr Atlantshafsbandalaginu, jafnskjótt og samningar leyfa;

að Ísland starfi innan Sameinuðu þjóðanna og hvarvetna á alþjóðavettvangi að friðsamlegri lausn deilumála og styðji hverja þá viðleitni til takmarkaðrar eða almennrar afvopnunar, sem fram kann að koma;

að Ísland veiti undirokuðum og nýfrjálsum þjóðum ötulan stuðning í baráttu þeirra fyrir fullu frelsi og efnahagslegu sjálfstæði;

að Ísland hafi við hverja þjóð sérhver þau skipti, menningarleg og viðskiptaleg, sem samrýmast hagsmunum og sæmd íslenzku þjóðarinnar.“

Þannig hljóðar sú till., sem hér er til umr. Í kvöld. Íslendingar hljóta að fagna því heils hugar, að vopnatrú og valdastefna eru á undanhaldi í heiminum í dag, hernaðarbandalögum hrakar, andrúmsloftíð í veröldinni er að breytast til batnaðar. Við Íslendingar þurfum nú að rísa úr ösku herstefnunnar, ganga fram á alþjóðavettvangi með óbundnar hendur og ferska sjón, hætta að hanga aftan í fjarlægu vopnavaldi og láta sjást, að við séum frjálsir menn, gæddir yfirsýn og ábyrgðartilfinningu gagnvart heill okkar sjálfra og lífi mannkynsins.