10.04.1964
Sameinað þing: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ísland átti eitt sinn því láni að fagna að fá grundvöll lagðan að sjálfstæðri stefnu í utanríkismálum. Það gerðist, þegar lýst var yfir ævarandi hlutleysi landsins. Þá var vel af stað farið og viturlega. Hlutleysi í hernaði hæfir betur en nokkuð annað vopnlausri þjóð, sem kýs að vera fullvalda og eiga einvörðungu friðsamleg skipti við allar aðrar þjóðir.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Þegar ágengir nágrannar sáu sér ekki hag í hlutleysi okkar, fengu þeir á því illan bifur, og þeim veittist það furðu auðvelt að ginna andvaralausa leiðtoga landsins til þess að farga hlutleysinu. Með þeirri ráðstöfun var endanlega horfið frá íslenzkri stefnu í utanríkismálum, og hefur þjóðarskútan síðan siglt þann sjó undir erlendum merkjum. Vopnlaus þjóð gengur í hernaðarbandalag. Þetta hljómar eins og þversögn, enda er slík aðild fjarstæða, sé á annað borð átt við fullvalda ríki. Síðan horfið var frá hlutleysinu, hafa íslenzk utanríkismál verið rekin í samræmi við stefnu, sem mótuð er á erlendum vettvangi af erlendum mönnum í þágu erlendra stórvelda. Þetta er bláköld staðreynd og ekki annað en bein afleiðing þess, að við vorum beygðir undir ok NATO-valdsins. Fyrstu árin eftir þau umskipti áttu ráðh. okkar það til að ræða utanríkismál af sömu kokhreysti og önnur mál. Þá fullyrtu þeir eitt og annað, sem þeir síðar reyndust ekki menn til að standa við, svo sem það, að hér skyldu ekki vera herstöðvar né her á friðartímum. En þeir fengu fljótlega að þreifa á því, að valdið er ekki þeirra í þessum efnum, og nú gæta þeir tungu sinnar betur. Nýlega var hæstv. utanrrh. að því spurður á þingi, hvort leyfð yrði meðferð kjarnavopna Í landinu. Hann svaraði því einu til, að fram á slíkt hefði ekki verið farið. Meira gat hann sem orðvar maður ekki sagt.

Það er tómt mál að tala um hug og vilja íslenzkra ráðh. í utanríkismálum, því að svo sannarlega stýra þeir ekki NATO, þar ráða allt aðrir menn. Það er orðið svo um utanríkismál okkar sem um almenn stjórnmál í einræðislandi, að þau eru vart rædd annars staðar en innan hljóðheldra veggja. Það var ekki haft hátt, þegar Bandaríkjunum var leyfð útvarpsstarfsemi í landinu Þvert ofan í ákvæði íslenzkra laga. Og þó var enn laumulegar að farið, þegar sama stórveldi var veitt einkaleyfi til þess að reka hér sjónvarpsstöð. Erlend íhlutun um íslenzk málefni er orðin daglegt brauð og ógnar jafnt efnahagslífi þjóðarinnar sem tungu og menningu. Óholl áhrif hersetunnar færast ört Í aukana, og er þegar svo komið, að jafnvel ólíklegustu menn risa upp til mótmæla. En hæstv. ríkisstj. situr föst í neti NATO og má sig hvergi hræra. Því þegir hún þunnu hljóði eða svarar skætingi einum, þegar að er fundið.

Engin leið er til þess að meta nú það geigvænlega tjón, sem þjóðin hlýtur af missi hlutleysisins, og enginn veit, hvort það verður nokkru sinni bætt. Eitt örlítið dæmi um það tjón er landhelgissamningurinn við Breta 1961. Með honum var Íslandi gert að afsala sér um aldur og ævi lögskráðum rétti til landgrunnsins. Þann nauðungarsamning getum við fyrst og fremst þakkað aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, eins og hæstv. forsrh. benti réttilega á í blaði sínu fyrir tæpri viku. Hlutlausri þjóð hefði vart verið þröngvað til slíkra samningsgerða, en fórnina urðum við að færa á altari herguðsins.

Þegar friðarstefna Íslendinga varð að þoka fyrir hernaðarandanum, hófu stærstu stjórnmálaflokkarnir hatramman áróður gegn hlutleysinu, og þeim áróðri linnir ekki síðan. Er því fundið margt til foráttu og flest að ósekju. Það er að vísu rétt, að hlutleysi getur brugðizt sem vörn, en hitt er þó enn sannara, að í NATO aðildinni er alls enga vernd að finna. Þvert á móti er hún þjóðinni vísasta leiðin til glötunar í stórstyrjöld.

Þá er klifað á því, að hlutleysi í hernaði sé úrelt. Þetta tyggur hver eftir annan, allt frá fákænum Varðbergspiltum upp í hálærða lagaprófessora, án alls tillits til þess, að fullyrðingin stangast á við augljósar staðreyndir. Um allan heim finnast hlutlausar þjóðir, og tala þeirra fer meira að segja vaxandi. Í Evrópu eru Svíþjóð og Finnland, Austurríki, Írland og Sviss meðal hlutlausra landa og hafa síður en svo hug á að farga hlutleysi sínu. Þetta eru smáþjóðir, sem hafa ekki frekar en við Íslendingar nein tök á að verja land sitt í stórveldastyrjöld. Samt og meðfram einmitt þess vegna forðast þær hernaðarbandalög eins og sjálfa pestina og halda fast í hlutleysið. Þótt stórveldin leggi yfirleitt kapp á að ánetja smáþjóðir og gera þær sér háðar hernaðarlega, neyðast þau stundum til að beita sér fyrir hlutleysi ríkja. Þetta er alkunna. Með því viðurkenna þau í verki ekki aðeins tilverurétt hlutleysis, heldur og þýðingu þess í róstusömum heimi. Á alþjóðaþingum gætir áhrifa hlutlausu landanna svo mjög, að þau eru þar nefnd þriðja aflið. Þau hasla sér völl milli hinna stríðandi hervelda og bera klæði á vopnin. Þetta er göfugt verk og þessum þjóðum til sæmdar. Það er ekki tilviljun, að hins hlutlausa Indlands gætir meira á sviði heimsmála en Japans, að Svíum er sýndur meiri trúnaður á alþjóðavettvangi en Dönum og Norðmönnum og að Írland nýtur meiri virðingar hjá Sameinuðu þjóðunum en Ísland. Þannig er þó veruleikinn og hann blasir við augum. Hlutlaus lönd eru mýmörg til og þeim fjölgar, og jafnvel herskáar ríkisstj, afneita ekki nauðsyn þeirra . En uppi á Íslandi halda NATO-postular áfram að breiða þá falskenningu út, að hlutleysi sé úrelt og aflóga hugtak. Og NATO-menn okkar láta sér þetta ekki nægja, heldur reyna þeir að telja hrekklausu fólki trú um, að hernaðarlegt hlutleysi sé löstur, því að það jafngildi afskiptaleysi um heimsmál, ef ekki algeru skoðanaleysi. Einnig þessi fullyrðing fer í bága við staðreyndir. Eins og heimsfréttir herma, taka hlutlausu ríkin sannarlega afstöðu til mála á alþjóðaþingum og láta að sér kveða þar. Ef einhver munur er, er hann einna helzt sá, að hlutlausu ríkin eru frjáls að því að mynda sér skoðun, á meðan lönd hernaðarbandalaganna eru bundin í báða skó.

Meginþorri allra þjóða þráir frið og hlýtur því í hjarta sínu að óska hlutleysisstefnunni vaxandi gengis í heiminum. Af friðarþrá er einnig sprottin sú von, að dýrðardagar hernaðarbandalaga verði ekki margir og að þau megi úreldast sem fyrst. Frá styrjaldarlokum var allt kapp lagt á að skipta heiminum í tvær fjandsamlegar fylkingar og sá tortryggni, hatri og ótta meðal þjóða. Forusturíki heims í austri og vestri kepptu hvort við annað um að ná á sín snæri sem stærstum hluta jarðkringlunnar og voru þá ekki ætíð vönd að meðulum. Úr þessum eitraða jarðvegi spruttu Atlantshafsbandalagið og önnur stríðsbandalög, og úr honum draga þau síðan lífsnæringuna. Á meðan hernaðarandi ræður ríkjum, dafna þessi bandalög, en koðna niður, jafnótt og stríðsæsingum linnir. Annað háir og þessum bandalögum eftirstríðsáranna, þegar til lengdar lætur. Í mörgum viðkvæmum málum verða þjóðirnar að lúta boði og banni þess stórveldis, sem ægishjálminn ber í bandalaginu. Þetta þola þær ekki til langframa. Fyrr eða síðar rís innbyrðis ágreiningur, sem síðan vex, unz bandalagið liðast sundur. Í NATO eru einkenni þessarar veilu þegar komin í ljós. Þar er nú hver höndin upp á móti annarri, eins og alkunna er.

Hernaðarbandalögin eru ömurleg fyrirbæri kalda stríðsins og hættulegri heimsfriði en nokkuð annað. Þetta veit hver maður með óbrjálaða dómgreind. Þeim mun sorglegra er, að íslenzkir ráðh., ég tala nú ekki um minni spámenn, skuli í heyranda hljóði fá sig til að vegsama nokkurt þessara bandalaga. En þetta gera þeir því miður. NATO er sungið lof og prís af sömu ákefð og ofstæki og hlutleysi er rangtúlkað og rægt. Þó er NATO ekki lofað svo mjög fyrir kjarnasprengjur, kafbáta og flugskeyti, heldur er það dásamað fyrir eiginleika, sem það hefur sízt til að bera. Þess vegna neyðast lofsyngjendur til að láta hlutina standa á höfði og snúa lofi í háð. Það er talað um varnir landsins og vernd þjóðarinnar með skírskotun til herbækistöðva, sem síður en svo yrðu fólkinu til verndar í stríði og gætu í hæsta lagi orðið einhvers megnugar til árásar eða gagnárásar. Það er talað um verndun vestræns lýðræðis af miklum fjálgleik og um samvinnu við frjálsar þjóðir, og er þá átt við hernaðarlega samábyrgð Íslands og landa á borð við einræðisríkið Portúgal ásamt Tyrklandi, Grikklandi, Frakklandi og Vestur-Þýzkalandi, þar sem menn eru hundeltir sakir stjórnmálaskoðana sinna. Loks er talað um vinabjóðir okkar í NATO og það án afláts, einnig þau missirin, er ein fremsta þeirra óð hingað með alvæpni og dólgslegri hótun um valdbeitingu, ef blakað yrði við vissum veiðiþjófum í landhelginni.

Þannig er allt á eina bókina lært. Hafður er uppi ofstækisfullur, forheimskandi áróður í því skyni að fá íslenzka menn til að sætta sig við þann skaða og þá skömm, sem leiðir af útlendri hernaðarstefnu á Íslandi.

Að vísu má sín mikils áróður, sem studdur er af ríkisvaldinu og auk þess nær ótakmörkuðu fjármagni, en alvaldur er hann þó ekki. Þúsundir Íslendinga hafa frá öndverðu skilið, hvaða glapræði var framið, þegar hlutleysinu var á glæ kastað af glámskyggnum eða hugdeigum forráðamönnum. Þessum þúsundum er það einnig ljóst, að vaxandi ágengni útlendinga, samfara þverrandi viðnámi hérlendra valdhafa, á rót sína að rekja til NATO-aðildarinnar. En það eitt að skilja og greina meinsemdina er ekki nægilegt. Það þarf einnig að taka til höndum um að uppræta hana. Gagnger stefnubreyting er knýjandi nauðsyn. Hverfa verður frá þeirri erlendu óheillastefnu, sem nú er ákvarðandi um öll utanríkismál okkar, og marka í hennar stað sjálfstæða stefnu, byggða á friðarvilja þjóðarinnar og friðarviðleitni. Hornsteinn hinnar nýju stefnu hlýtur að verða yfirlýsing um ævarandi hlutleysi landsins í hernaði. Af henni leiðir síðan sjálfkrafa, að herinn flytjist úr landinu með allt sitt hafurtask og að Ísland láti lokið aðildinni að NATO. Þá verður staða Íslands á albjóðasviði við hlið þeirra þjóða, sem beita sér fyrir afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála, styðja frelsisbaráttu undirokaðra þjóða og vinna að auknu albjóðlegu samstarfi á sviði efnahags. menningar og vísinda. Á þingum Sameinuðu þjóðanna tökum við hverju sinni afstöðu til mála í samræmi við hugsjón friðar, frelsis og jafnréttis án tillits til, hvort þessari eða hinni þjóðinni fellur það í geð. Íslendingar hafa hug á frjálsum skiptum við sem flestar þjóðir og veita fúslega viðtöku öllu erlendu, sem til menningar horfir, en þeir vilja fá að hafna því, sem ómenning er að eða er sjálfstæði landsins hættulegt.

Þessi er hin nýja stefna í grundvallaratriðum. Þeir mörgu, sem hana aðhyllast þegar, verða allir sem einn að gerast virkir í baráttunni fyrir sigri hennar. Ef enginn skerst úr leik, þarf varla að efast um árangur. Þá munu afturhaldsöflin neyðast til að láta undan siga. Út á við mun Ísland vaxa í áliti og margfalda áhrif sín, og þjóðin þarf síður að ala ugg í brjósti eftir en áður, jafnvel þótt óvinsælt kunni að reynast í bili að láta ekki segja sér fyrir verkum.

Að lokum skulum við minnast þess, að þau sjónarmið, sem þessi íslenzka utanríkismálastefna byggist á, henta ekki aðeins þjóð okkar í bráð og lengd, heldur eru þau og langlíklegust til velfarnaðar öllum heimi. — Góða nótt.