10.04.1964
Sameinað þing: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (2748)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Grundvallarstefna Framsfl. í utanríkismálum hefur verið og er fastmótuð og skýr og er í varnarmálunum óbreytt frá því, sem verið hefur. Sú stefna hefur verið mörkuð á flokksþingum og miðstjórnarfundum, nú síðast á flokksþinginu í fyrravor. Í samþykkt þess um utanríkismál segir svo, með leyfi forseta:

„Framsfl. vill, að stefna Íslands í utanríkismálum sé jafnan við það miðuð að tryggja stjórnarfarslegt og efnahagslegt sjálfstæði landsins og öryggi þess og leitazt sé við að skapa sem viðtækasta samstöðu landsmanna um utanríkismálin. Flokksþingið telur, að Íslendingum beri að kappkosta góða sambúð við allar þær þjóðir, er þeir eiga skipti við. Það vill, að þeir hafi samstöðu með vestrænum þjóðum, m.a. með samstarfi í varnarsamtökum þeirra. Í samræmi við þá stefnu, sem lýst var yfir, þegar varnarsamningurinn var gerður, vilt Framsfl. vinna að því, að varnarliðið hverfi úr landi, svo fljótt sem auðið er, og leggur jafnframt á það ríka áherslu, að það er á valdi Íslendinga sjálfra, hvort hér dvelur varnarlið og hvernig vörnum landsins er fyrir komið. Framsfl. lýsir sig andvígan því, að hér sé leyfð staðsetning kjarnorkuvopna. Flokksþingið minnir á það, að Íslendingar eiga eins og mannkynið allt örlög sín undir því, að friður ríki í heiminum, og leggur þess vegna mikla áherzlu á, að fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi stuðli af fremsta megni að sáttum þjóða í milli, almennri afvopnun og stöðvun tilrauna með kjarnorkuvopn.“

Eins og þessi stefnuyfirlýsing ber með sér og alkunnugt er, er Framsfl. og hefur verið fylgjandi aðild Íslendinga að varnarsamtökum vestrænna þjóða, ekki af því, að framsóknarmönnum sé geðfelld þátttaka Íslands í hernaðarlegum bandalögum, heldur af illri eða jafnvel óhjákvæmilegri nauðsyn. Þeir hafa talið, að með þeim hætti yrði öryggi landsins bezt tryggt, eins og sakir hafa staðið. Atlantshafsbandalagið var raunverulega neyðarúrræði vestrænna þjóða á hættunnar stund.

Fyrst eftir síðari heimsstyrjöldina og stofnun Sameinuðu þjóðanna gætti mikillar bjartsýni. Menn héldu, að ný friðaröld væri runnin upp, en menn urðu fljótt fyrir sárum vonbrigðum. Það tókst ekki að gera Sameinuðu þjóðirnar að þeim friðarverði í veröldinni, sem til var ætlazt. Herveldi Stalíns tók brátt að hneppa hverja Austur-Evrópuþjóðina á fætur annarri í fjötra kommúnisma og leppríkjaskipulags. Þjóðum Vestur-Evrópu voru aðferðir Hitlers í fersku minni, og þær höfðu fengið af því dýrkeypta reynslu þá, hvað einangrunarpólitík, hlutleysisstefna og undansláttur kostaði þær þá. Þeim var það ljóst, að ef þær áttu ekki að eiga á hættu sömu örlög og þjóðir Austur-Evrópu eða þær þjóðir, sem á sínum tíma voru lagðar undir járnhæl nazisma, urðu þær að mynda varnarbandalag vestrænna ríkja og stemma þannig sameiginlega stigu við árásar- og útþenslustefnu alþjóðakommúnismans. Þær stofnuðu Atlantshafsbandalagið, þar sem öll bandalagsríkin gerast samábyrg fyrir öryggi hvers einstaks þeirra, þ.e.a.s. sé árás gerð á eitt þeirra, eru öll hin skuldbundin til varnaraðgerða. Atlantshafsbandalagið var því stofnað til sameiginlegrar og samábyrgrar sjálfsvarnar samkv. 51. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna. Með stofnun bandalagsins stefndu vestræn ríki í raun og veru að tvennu: í fyrsta lagi að því að draga úr styrjaldarhættu og í annan stað að því að vera viðbúin, ef til ófriðar drægi. Af þessum ástæðum var bandalagið upphaflega stofnað. Af þessum ástæðum gengu smáþjóðir Vestur-Evrópu, eins og t.d. Danir og Norðmenn, í varnarsamtökin. Ísland gerðist einnig aðili að bandalaginu, eftir að athugun hafði leitt í ljós og því veríð lýst yfir, að Íslendingar þyrftu ekki og ætluðu alls ekki að stofna her, að þess yrði ekki krafizt, að erlendar herstöðvar væru á Íslandi á friðartímum og það væri algerlega á valdi Íslendinga sjálfra að ákveða, hvaða hernaðaraðstöðu bandalagsþjóðirnar hefðu hér á landi, ef til ófriðar drægi. Hver hefur svo reynslan orðið af starfi Atlantshafsbandalagsins? Staðreyndirnar eru þær, að eftir að það var stofnað, hafa stórstyrjaldir ekki átt sér stað í Evrópu, og eftir að það tók til starfa, hefur alþjóðakommúnisminn ekki brotið undir sig neitt Evrópuríki. Í þeim efnum urðu þáttaskil við stofnun Atlantshafsbandalagsins.

Þessar sögulegu staðreyndir þarf að hafa í huga, þegar menn mynda sér skoðun um þessi varnarsamtök og þátttöku Íslands í þeim. Það leiðir af framangreindri stefnuskráryfirlýsingu, að framsóknarmenn geta ekki greitt þeirri þáltill., sem hér er til umr., atkv. Í henni felst það m.a., og það er grundvallaratriði hennar, að Ísland lýsi yfir hlutleysi og segi sig úr Atlantshafsbandalaginu. Framsóknarmenn telja ekki þær breytingar enn á orðnar, er geri varnarsamtök lýðræðisbjóða óþörf, enda þótt talsvert hafi miðað í friðarátt að undanförnu, kannske ekki hvað sízt vegna einbeitni Atlantshafsþjóðanna. Við skulum vona, að Sameinuðu þjóðirnar eflist svo, að þær verði þess umkomnar að halda uppi friði og öryggi í heiminum. Að því marki er sjálfsagt að keppa, og að því skulum við Íslendingar styðja eftir beztu getu. Það væri vissulega æskilegt frá mínu sjónarmiði séð, að ástandið í heiminum væri þannig, að Íslendingar þyrftu ekki að vera í sérstöku varnarbandalagi, heldur gætu treyst á Sameinuðu þjóðirnar til varðveizlu friðar og öryggis, því að vegna sérstöðu sinnar eru Íslendingar óneitanlega á ýmsan hátt utangátta í hernaðarlegu bandalagi. En á meðan Sameinuðu þjóðirnar eru ekki styrkari en raun ber vitni og samningar nást ekki heldur um almenna afvopnun, er ekki annað ráð líklegra til verndar friði í álfunni en varnarbandalag hinna vestrænu þjóða. Þegar þannig standa sakir, er óráðlegt fyrir Íslendinga að segja sig úr þeim samtökum eða gefa ótímabærar yfirlýsingar þar um og veikja þar með varnarkeðjuna.

Það leiðir hins vegar engan veginn af þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, að hér skuli eða þurfi ætíð að vera erlent varnarlið eða herbækistöðvar. Er Ísland gerðist aðili að bandalaginu árið 1949, var því einmitt lýst yfir, eins og áður er sagt, að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar væru hér á landi á friðartímum, enda réðu Íslendingar því algerlega sjálfir, hverja aðstöðu þeir létu bandalagsþjóðunum í té í styrjöld eða á sérstökum hættutímum. Að þessari yfirlýsingu stóðu Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Á þeirri forsendu var gengið Í NATO. Bandaríkjastjórn lýsti fyrir hönd hinna aðildarríkjanna fullum skilningi og samþykki á þessari yfirlýsingu um sérstöðu Íslands. Þetta má sanna með mörgum ívitnunum í ræður stjórnmálamanna. Hér skulu aðeins sem dæmi tilfærð eftirfarandi ummæli núv. forsrh., en þau er að finna Í D-deild Alþingistíðinda 1948, bls. 294-295. Þar segir hann svo um viðræður þriggja ráðh. við utanrrh. Bandaríkjanna:

Utanrrh. Bandarfkjanna lagði á það megináherzlu, að samtök þessi væru gerð til eflingar heimsfriðnum, til að draga úr árásarhættu og ættu að öllu leyti að starfa í samræmi við tilgang og reglur Sameinuðu þjóðanna. í lok viðræðnanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjamanna: 1) Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska eftir svipaðri aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, og það mundi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té. 2) Að allir samningsaðilar hefðu fullan hug á sérstöðu Íslands. 3) Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her. 4) Að ekki kæmi til mála, að erlendur her yrði á Íslandi á friðartímum.“

Þetta voru orð núv. hæstv. forsrh. Fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, sagði m. a., sbr. D-deild Alþingistíðinda 1948, bls. 326:

„Hann (þ.e. NATO-samningurinn) er hvað Íslendinga sérstaklega áhrærir sáttmáli um það, að þar sem Íslendingar engan her hafi, skuli þeir heldur engan her þurfa að stofna og enga hermenn leggja af mörkum, þótt til styrjaldar komi. Hann er sáttmáli um það, að engin þjóð skuli nokkru sinni hafa her á Íslandi á friðartímum. Hann er sáttmáli um það, að aldrei skuli herstöðvar vera á Íslandi á friðartímum. Hann er sáttmáli um það, að Íslendingar láni baráttunni fyrir frelsinu sömu afnot af landi sínu, ef til átaka kemur, sem þeir gerðu í síðustu styrjöld. Hann er sáttmáli um það, að reyni nokkur nokkru sinni að teygja faðm sinn yfir fald fjallkonunnar, þá rísi 320 millj. bezt menntuþjóða veraldar upp til varnar frelsi hennar og fullveldi.“

Þessi dæmi nægja til að sýna, hver var afstaða þeirra stjórnmálaflokka, sem stóðu að þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, til hersetu hér á landi á friðartímum. Þegar varnarliðið var tekið inn í landið 1951 vegna hins sérstaka hættuástands í heiminum, var gengið út frá því, að það yrði hér aðeins um takmarkaðan tíma og gildistími varnarsamningsins, sem er uppsegjanlegur með tiltölulega skömmum fyrirvara, þyrfti á engan hátt að falla saman við gildistíma NATO-samningsins. Þessi stefna var greinilega áréttuð með ályktun Alþingis frá 28. marz 1956 um breytta skipan varnarmála og brottför hersins, en hún var samþykkt af vinstristjórnarflokkunum og var að verulegu leyti byggð á þáltill., sem þm. Alþfl. fluttu, er sá flokkur var í stjórnarandstöðu. Hitt er annað mál, að vinstri stjórnin treystist ekki til að framfylgja þessari ályktun vegna þess uggvænlega ástands, sem skapaðist sakir uppreisnarinnar í Ungverjalandi og átakanna við Súez.

Afstaða Framsfl. til varnarliðsins hefur ætíð verið í samræmi við þá stefnu, sem upphaflega var mörkuð, enda verður ekki séð, að neinar þær ytri breytingar hafi á orðið, er stefnubreytingu ættu að valda um það efni. En vitaskuld getur verið óhjákvæmilegt að laga sig eftir breyttum aðstæðum á þeim sviðum sem öðrum. Framsfl. vill því greina glöggt á milti þátttöku í NATO og hersetunnar. Hann vill vinna að því , að varnarliðið hverfi úr landi, svo fljótt sem fært þykir öryggis vegna og skuldbindingar ríkisins leyfa. Hann leggur áherzlu á, að það á algerlega að vera komið undir mati Íslendinga sjálfra, hversu lengi varnarliðið dvelst hér. Í samræmi við þessa stefnu vill Framsfl. varast hvers konar ráðstafanir, sem aukið gætu líkur fyrir varanlegri dvöl varnarliðsins hér á landi. Þess vegna lýsti Framsfl. sig að gefnu tilefni á s.l. sumri andvígan auknum herbúnaði í Hvalfirði með byggingu nýrra flotamannvirkja eða á annan hátt og skoraði á ríkisstj. að ljá ekki máls á samningum um slíkt.

Stefna Framsfl. í varnarmálum er þannig óbreytt og sjálfri sér samkvæm. Spurningin er, hvort Alþfl. og Sjálfstfl, hafi skipt um skoðun í þessu efni, en ýmis ummæli fyrirsvarsmanna þessara flokka og gerðir ríkisstj. gætu bent til þess.

Menn hefðu átt að læra það í síðustu heimsstyrjöld, jafnt Íslendingar sem aðrir, að hlutleysi er smáþjóðum engin vörn. Hlutleysisstefnan var einmitt einkennandi fyrir utanríkispólitík flestra smáþjóða á millistríðsárunum. Sú stefna reyndist þeim skaðvænleg og opnaði bil fyrir árásaraðila. Árásarþjóðir í vígahug virða einskis hlutleysisyfirlýsingar, sem ekki eru studdar nægilegu vopnavaldi. Fyrir þeirri bitru staðreynd stoðar ekki að loka augum. Ég veit, að talsverður hópur Íslendinga auk kommúnista aðhyllist samt sem áður hina gömlu hlutleysisstefnu. Það sjónarmið er í sjálfu sér skiljanlegt hjá friðsömum mönnum eins og Íslendingum, sem hafa ekki vanizt vopnaburði um aldir og hafa flestir rótgróna andúð á hvers konar hermennsku og vopnavaldi. Ég ber fulla virðingu fyrir málstað þeirra manna, sem berjast fyrir hlutleysisstefnu af einlægni, en álít, að skoðanir þeirra byggist meir á óskhyggju en raunsæi. Ég efast ekki um, að svo muni vera um suma flm. þessarar þáltill.

Hlutleysistal hreinræktaðra kommúnista er hins vegar ekki hægt að taka alvarlega. Þeir dönsuðu áður fyrr á annarri línu. 6. nóv. 1938 sagði Einar Olgeirsson t.d. í Þjóðviljanum:

„Það má enn fremur segja, að eftir afstöðu hvers manns og hvers flokks í hvaða landi sem er til Sovétríkjanna fari það, hvort hann vill vernda frelsi sitt og þjóðar sinnar gegn tortímingu, því að nú, þegar utanríkispólitíkin er orðin aðalatriðið í stjórnmálum allra landa, er óhætt að segja, að án bandalags við Sovétríkin er trygging lýðræðis og þjóðfrelsis óhugsandi.“

Þetta var nú hlutleysisboðskapur þeirra herra þá. Í styrjöldinni snerust þeir svo sitt á hvað eftir því, hver afstaða Rússlands var. Í styrjaldarlokin vildu þeir segja hinum sigruðu Þjóðverjum stríð á hendur eða láta það heita svo, að Íslendingar hefðu verið í stríði gegn þeim. Hvenær hefur málgagn kommúnista, Þjóðviljinn, tekið afstöðu gegn Rússum? Andmæltu kommúnistar árás Rússa á Finna? Þá var bara talað um Finnagaldur. Hafa þeir ekki mælt bót framferði Rússa í Tékkóslóvakíu, Póllandi, Ungverjalandi, svo að nokkur dæmi séu nefnd? Hvenær hafa kommúnistar gert aths. við hernaðarbandalag og efnahagsbandalag austan tjalds, og ættu þó allir að vita um tilvist þeirra ? Nei, sannleikurinn er sá, að kommúnistar vilja ekki hlutleysi. Þeir vilja bara ekkert bandalag, sem Sovétríkin eru á móti. Það er kjarni málsins. Engir Íslendingar eru eins miklir einstefnuakstursmenn í utanríkis- og alþjóðamálum og einmitt kommúnistar. Þeir hafa jafnan fylgt kommúnistaríkjunum í blindni og verið taglhnýtingar og annað ekki. Þess vegna taka engir í raun og veru mark á hlutleysisáróðri þeirra nú. Menn vita, að það fylgir enginn hugur máli. Menn vita, að hann er aðeins hluti af nýju dulargervi. Þess vegna er ekki þörf á að eyða fleiri orðum að utanríkisstefnu kommúnista. Hún er ekki annað en bergmál, bergmál að austan.

Þó að við framsóknarmenn getum ekki af framangreindum ástæðum greitt atkv. með þeirri þáltill., sem hér er til umr., erum við sammála sumum þeirra atriða, sem þar eru talin, enda eru þau í samræmi við þá stefnuyfirlýsingu, sem ég las í upphafi máls míns. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þau atriði sérstaklega hér. Ég vil aðeins vekja athygli á því aftur, að Framsfl. leggur ríka áherzlu á, að fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi stuðli af fremsta megni að sáttum þjóða í milli, almennri afvopnun og stöðvun tilrauna með kjarnorkuvopn. Ég býst við því , að undir þetta geti í sjálfu sér allir Íslendingar tekið. Hins vegar greinir menn á um það, með hverjum hætti bezt verði unnið að þessu. Ég held, að þessum markmiðum verði ekki náð með ótímabærum undanslætti og sérsamningum einstakra ríkja. Með því gæti útþenslustefnu einræðisríkja einmitt verið gefið undir fótinn.

Margháttaðri milliríkjasamvinnu hefur fleygt fram á síðustu árum. Allar líkur benda til, að sú þróun haldi áfram. Alþjóðleg samskipti og alþjóðlegt samstarf í mörgum myndum og á ýmsum sviðum munu Því fara vaxandi í framtíðinni, hvort sem okkur Íslendingum líkar það betur eða verr. Einangrun Íslands er úr sögunni. Ísland verður því eflaust að taka þátt í ýmissi alþjóðasamvinnu og alþjóðlegu samstarfi í vaxandi mæli. Þau málefni og meðferð utanríkismála almennt verða því æ mikilvægari fyrir okkur Íslendinga. Ég held, að við höfum haft og munum hafa, ef rétt er á haldið, margvíslegt gagn af þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þar verðum við þó jafnan að fara að öllu með mikilli gát, ekki hvað sízt þegar um er að ræða nýtt og áður óþekkt þjóðasamstarf á sviði efnahagsmála. Þar verður að gæta þess, að ekki sé gengið of nærri efnahagslegu sjálfsforræði þjóðarinnar og fullveldi landsins. Við megum t.d. ekki gleyma þeirri sérstöðu okkar, sem byggist á fámenni þjóðarinnar og ónotuðum möguleikum landsins. Vegna þess þurfum við sérstaklega að standa vel á verði gegn hugsanlegri ásælni útlendinga til landsgæða og atvinnutækja hérlendis. Framsfl. tók því ákveðna afstöðu gegn inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið, er það mál var hér til athugunar og umr. Stefna framsóknarmanna í því máli kemur glöggt fram í ályktun síðasta flokksþings um efnahagsbandalagsmál. Þar segir svo:

„Með hliðsjón af þróun undanfarinna ára og fyrirsjáanlegu framhaldi hennar minnir 13. flokksþing framsóknarmanna á nauðsyn Þess, að íslenzka þjóðin gæti í einu og öllu réttinda sinna og skyldna sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Flokksþingið álítur, að Íslendingar eigi ekki að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Á hinn bóginn telur flokksþingið mikla nauðsyn á, að Íslendingar hafi framvegis sem hingað til mikil og náin viðskiptaleg og menningarleg tengsl við þjóðir Vestur-Evrópu og þá engu síður þær þessara þjóða, sem sameinast kunna Efnahagsbandalagi Evrópu. Álítur flokksþingið því, að markmið Íslendinga eigi að vera að ná sérstökum samningum við Efnahagsbandalag Evrópu um gagnkvæm réttindi í tolla- og viðskiptamálum án annarra tengsla við bandalagið. Ber því, þegar tímabært telst, að leita eftir samningum við bandalagið á þeim grundvelli, en ekki á grundvelli aðildar að bandalaginu, hvorki fullrar aðildar né aukaaðildar.“

Efnahagsbandalagið er að vísu ekki nú á dagskrá, og skal ég ekkert um það fullyrða, hvort eða hvenær það verður aftur til úrlausnar, en stefna Framsfl. þar er skýrt mörkuð, ef til kemur, og á því tel ég engan efa, að einbeitt afstaða Framsfl. átti ríkan þátt í að afstýra óskynsamlegum og vanhugsuðum aðgerðum í því máli. Ályktun Framsfl. um Efnahagsbandalagið gefur einnig nokkuð til kynna grundvallarsjónarmið flokksins í alþjóðlegri efnahagssamvinnu. Afstaða Framsfl. til erlends fjármagns er annars mörkuð í ályktun síðasta miðstjórnarfundar. Þar segir:

„Þó að fundurinn telji, að meginverkefni í íslenzkri iðnvæðingu sé á þeim sviðum, sem rætt er um hér að framan, þ.e.a.s. á sviði sjávarafurða, landbúnaðarframleiðslu og almenns iðnaðar, telur hann eðlilegt, að kannaðir verði möguleikar á uppbyggingu einstakra stærri iðngreina með beinni þátttöku erlends fjármagns samkv. sérstökum lögum og samningi hverju sinni, eins og flokkurinn hefur hvað eftir annað bent á í ályktunum flokksþings. Hins vegar leggur fundurinn áherzlu á, að gæta beri fyllstu varkárni Í þessum efnum, og ályktar: 1) Að ekki komi til mála að slaka á eflingu innlendra atvinnuvega og því siður að draga þá saman til þess að rýma fyrir erlendri stóriðju á Íslandi. 2) Að fram fari nú þegar endurskoðun á lögum um réttindi erlends fjármagns á Íslandi í því skyni að tryggja Íslendingum betur en nú er full yfirráð atvinnumála sinna. 3) Að stofnun iðnaðar í samvinnu við erlent fjármagn er ekki lausn á efnahagsvanda landsins og á aðeins að vera liður í skipulegri uppbyggingu atvinnuveganna. 4) Að tryggja efnahagslegan og tæknilegan grundvöll þess, að við Íslendingar getum sem fyrst tileinkað okkur þá þekkingu, sem flytja skal inn í landið á þennan hátt, svo að slíkur iðnaður geti orðið alíslenzkur iðnaður sem allra fyrst. 5) Að við ákvörðun slíkra framkvæmda yrði stefnt að því, að þær hefðu sem hagkvæmust áhrif á þróun landsbyggðarinnar.“

Þessi ályktun þarf ekki skýringa við. Þar er undirstrikað, að bein þátttaka erlends fjármagns Í uppbyggingu stærri iðngreina komi því aðeins til greina, að tryggt sé, að Íslendingar hafi fullt vald á þeim málum. Það er höfuðatriðið.

Utanríkismálin eru mikilvæg og vandmeðfarin. Þess vegna vill Framsfl., að reynt sé að skapa sem víðtækasta samstöðu landsmanna um þau mál. Ég held, að á því sviði þurfum við að varðveita sem mesta einingu þrátt fyrir átök um innanlandsmál. Illvígar deilur um utanríkismál geta blátt áfram verið hættulegar og veikt aðstöðu Íslands út á við. Ég held því, að um utanríkismálin þurfi þeir flokkar að standa saman, eftir því sem unnt er, sem aðhyllast sömu grundvallarsjónarmið í þeim málum, enda þótt þeir séu á algerlega öndverðum meiði um stefnuna í innanlandsmálum. Það er því illa farið að mínum dómi, að utanrmn. skuli að verulegu leyti hafa verið vikið til hliðar og í reyndinni gerð áhrifalaus, en hún hefði verið eðlilegur aðili til að móta af Alþingis hálfu stefnuna í utanríkismálum og vera utanrrh. í senn til ráðuneytis og aðhalds. Samkv. þingsköpum á að leggja mikilvæg utanríkismál, hvort sem þau eru þingmál eða ekki, fyrir utanrmn., og er auðvitað ætlazt til þess, að það sé gert, áður en ákvörðun er um þau tekin. Á því hefur orðið mikill misbrestur. Það hefur ekki verið haft það samráð við utanrmn. um þessi mál, sem til er ætlazt. En það skal skýrt fram tekið, að í því efni er ekki við núv. ríkisstj. eina að sakast. Á starfsháttum utanrmn. þyrfti að verða breyting, hún þyrfti að verða virkur aðili við mótun og framkvæmd íslenzkrar utanríkisstefnu.

Það er skýrt samkv. því , sem áður er sagt, á hverjum grundvallaratriðum Framsfl. vill byggja íslenzka utanríkisstefnu. Við nánari mótun hennar þarf þó auðvitað að mörgu að hyggja. Smáþjóð þarf jafnan margs að gæta í skiptum sínum við aðrar þjóðir. Þar mega Íslendingar hvorki láta stjórnast af minnimáttarkennd né heldur skáka í því skjóli, að okkur leyfist sitthvað umfram aðra eingöngu vegna smæðar okkur. Þar verðum við að standa við allar skuldbindingar og megum aldrei fá á okkur óáreiðanleikaorð. Þar megum við ekki láta aðra hugsa fyrir okkur. Við megum ekki fylgja neinni þjóð eða þjóðum í hugsunarleysi eða blindni. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu fylgir auðvitað engin kvöð til þess að fallast á stefnu einstakra bandalagsþjóða í utanríkismálum, enda geta þar ýmsir árekstrar átt sér stað, eins og dæmin sanna. Og vestræn stórveldi eru vissulega langt frá því að vera óskeikul í sinni utanríkisstefnu.

Í utanríkismálum verðum við, þrátt fyrir alla alþjóðlega samvinnu, að fylgja lífsreglunni, sjálfur leið þú sjálfan þig. — Þar verðum við að treysta á okkur sjálfa, en ekki á annarra forsjón. Þess vegna verðum við jafnan sjálfir og án forsagna annarra þjóða að móta okkar eigin utanríkisstefnu á hverjum tíma, eftir því sem íslenzkir hagsmunir krefjast og aðstæður og þjóðréttarreglur leyfa. — Góða nótt.