10.04.1964
Sameinað þing: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (2749)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrir nokkrum árum var ég staddur í Austur-Berlín á hátíðisdegi verkalýðsins, hinn 1. maí. Það var sumar og sól og hátíðahöldin stóðu sem hæst. En hvers konar hátíðahöld voru þetta? Þau voru fyrst og fremst fólgin í stórfelldum hersýningum. Fótgöngulið þrammaði um strætin með stálhjálma og byssustingi. Vélaherdeildir brunuðu fram hjá, skriðdrekar, léttir og þungir, hríðskotabyssur, sprengjuvörpur, herflutningabifreiðar og fallbyssur. Hvers konar vígvélar æddu um torgin með þrumugný, en enginn verkalýður sást marséra. Rödd hans heyrðist ekki heldur. Nokkrir unglingar klöppuðu fyrir hrikalegustu fallbyssunum og skriðdrekunum. Þannig var þá haldið upp á hátíðisdag verkalýðsins í þessu „alþýðulýðveldi“ undir forustu kommúnista. Herskapur, vopnabrak og aftur vopnabrak fyllti loftið í veðurblíðunni.

Þessi mynd kemur upp í hugann, þegar hlustað hefur verið á hinar fjálgu lýsingar kommúnista hér á landi á friðarást sinni og andúð á öltum herskap og hvers konar vörnum Íslands. Hvað meina þessir menn í raun og sannleika? Þeir hafa lofsungið yfirgangs- og vígbúnaðarstefnu hins alþjóðlega kommúnisma, frelsisrán og nýlendukúgun. En Íslandi vilja þeir halda hlutlausu, einöngruðu og varnarlausu. Hv. 9. þm. Reykv., Alfreð Gíslason, sagði að vísu hér áðan, að hlutleysi gæti brugðizt sem vörn. Virðist því oftrú hans á vernd þess vera í rénun.

Myndin frá Austur-Berlín sýndi hinn nakta veruleika, vopnabrak og hernaðarstefnu kommúnista. Sú till., sem hér liggur fyrir, er hins vegar eins konar þokuslæðingur, tilraun til þess að draga athygli Íslendinga frá staðreyndum heimsmálanna og sinna eigin öryggismála á miklum umbrotatímum.

Utanríkis- og öryggismálin eru í dag sjálfstæðismál okkar, og á stjórn þeirra og stefnu veltur í ríkum mæli framtíðarsjálfstæði Íslands og hamingja þeirra kynslóða, sem landið eiga að erfa.

Á síðustu áratugum og þó einkanlega frá upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar hefur orðið stórfelld breyting á afstöðu Íslands til annarra þjóða og í alþjóðamálum. Íslendingar urðu með stofnun hins íslenzka lýðveldis sjálfstæður aðili á alþjóðavettvangi, og með aukinni tækni hafa viðskipti okkar við útlönd margfaldazt, en við það hefur hagur þjóðarinnar orðið háðari erlendum viðskiptum en áður var. Þess vegna er óhjákvæmilegt, að landsmenn láti ekki undir höfuð leggjast að marka skýrt afstöðu sína gagnvart meginstefnu heimsmálanna vegna þeirra margvíslegu áhrifa, sem úrslit alþjóðamála geta haft á hag íslenzku þjóðarinnar.

Með gerbyltingu á sviði samgöngumála hefur einangrun Íslands verið rofin. Íslandi og íslenzku fólki er þess vegna ekki lengur hið minnsta skjól eða vernd í fjarlægð landsins frá öðrum heimshlutum. Fjarlægðirnar mega heita horfnar. Ísland er ekki lengur yzt á Ránarslóðum, heldur mitt á veðramótum heimsátaka. Þau úrræði, sem áður voru talin góð og gild til þess að tryggja sjálfstæði landsins og öryggi þjóðarinnar, eru þess vegna flest einskis virði. Forsendurnar fyrir þeim eru brostnar.

Þetta eru blákaldar staðreyndir, sem við Í engu fáum breytt um, hversu fegnir sem við vildum. Hlutleysisyfirlýsingin frá 1918, sem byggðist á einangrun landsins og legu þess norður við hið yzta haf, hefur þess vegna ekki lengur neitt raunhæft gildi til trausts og halds hinu íslenzka lýðveldi. Þess vegna hefur orðið að fara nýjar leiðir til þess að tryggja sjálfstæði Íslands í viðsjálli veröld, þar sem hrikaleg árás, átök stórvelda og andstæðra hugsjóna, setja svip sinn á gang alþjóðamála. Þegar jötnarnir berjast, er dvergunum hætt. Það er gömul saga og ný.

Helgasta skylda íslenzkra forustumanna á morgni lýðveldisins var þess vegna að taka raunhæfa afstöðu til hinna gerbreyttu viðhorfa, marka stefnu, sem væri í samræmi við vandamál hins nýja tíma og þær margvíslegu hættur, sem þá steðjuðu að okkar frelsisunnandi og friðsömu þjóð. Á þessari skyldu og þessari kröfu mikilla hættutíma höfðu forustumenn Sjálfstfl. glöggan skilning. Á landsfundi flokksins árið 1948 var gerð samþykkt um utanríkismál, þar sem m.a. var komizt að orði á þessa leið:

„Til að tryggja sjálfstæði Íslands og frelsi og vegna hagsmuna þess í bráð og lengd telur fundurinn einsætt, að Íslandi beri að skipa sér í hóp annarra vestrænna lýðræðisríkja, sem þjóðin á samfylgd með vegna legu landsins, menningar sjáifrar hennar og stjórnskipunar. Fundurinn telur þess vegna sjálfsagt, að Ísland taki þátt í viðleitni þessara ríkja til eflingar friðnum í heiminum og endurreisnarstarfi þeirra , svo sem með samtökum þeim um viðreisn Evrópu, sem kennd er við Marshalláætlunina, enda er augljóst, að slík endurreisn miðar að því að skapa það jafnvægi í heiminum, sem bezt tryggir friðinn, auk þess sem hún er Ístandi sjálfu fjárhagsleg nauðsyn beint og óbeint.“

Segja má, að þetta sé kjarni þeirrar stefnu, sem Ísland hefur fylgt í utanríkismálum þau 20 ár, sem nú eru senn liðin síðan lýðveldi var stofnað í landinu. Það var íslenzku þjóðinni mikil gæfa, að sæmilegt samkomulag tókst þegar við stofnun lýðveldisins milli allra lýðræðisflokka hennar um mótun íslenzkrar utanríkisstefnu. Það kom að vísu í hlut tveggja leiðtoga Sjálfstfl., þeirra Ólafs Thors, fyrrv. hæstv. forsrh., og Bjarna Benediktssonar, núv. hæstv. forsrh., að fara með stjórn utanríkismálanna á árunum 1944-53, en á því tímabili gerðust flestir örlagaríkustu atburðir í utanríkis- og öryggismálum landsmanna. Af þeirra hálfu var þó lögð á það megináherzla, að „hvað sem innri ágreiningi liði, yrðum við í lengstu lög að reyna að skapa sem sterkasta samfylkingu í utanríkis- og öryggismálum,“ eins og Bjarni Benediktsson komst að orði í ræðu, er hann flutti á landsfundi Sjálfstfl. árið 1951. Sú stefna, sem mörkuð var í utanríkismálum á fyrrgreindu tímabili, var þess vegna fyrst og fremst íslenzk utanríkisstefna, sem lýðræðisöflin í landinu sameinuðust um og báru fram til sigurs. Framsóknarmenn hafa að vísu verið haltir í afstöðunni til utanríkismála, eins og margra annarra þjóðmála. Sannaðist það greinilega vorið 1956, þegar Framsfl. samþykkti uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin til þess að byggja brú yfir í stjórnarsamvinnu við kommúnista.

Við allar alþingiskosningar, sem fram hafa farið s.l. tæp 20 ár, hefur hin íslenzka utanríkisstefna hlotið fylgi yfirgnæfandi meiri hluta íslenzku þjóðarinnar. Hún hefur þess vegna hlotið þá traustsyfirlýsingu, sem ótvirætt sker úr um það, að Íslendingar líta á sig sem vestræna þjóð, sem leita beri sjálfstæði sínu og öryggi skjóls í samvinnu við hinar frjálsu lýðræðisþjóðir. Allar fullyrðingar kommúnista og fylgifiska þeirra um andúð Íslendinga á vestrænni samvinnu, hvort heldur er á sviði öryggis- eða efnahagsmála, eru því rakalausir stafir, sem enga stoð eiga í raunveruleikanum. Þáltill. kommúnista, sem hér liggur fyrir til umr. og felur í sér fráhvarf Íslands frá vestrænni samvinnu, gengur þess vegna gersamlega Í berhögg við margyfirlýstan þjóðarvilja í frjálsum kosningum í landinu í nær 20 ár.

Hvernig hefur svo hin íslenzka utanríkisstefna verið í framkvæmd á undanförnum árum? Á grundvelli hennar hefur Ísland gerzt aðili að fjölþættu alþjóðlegu samstarfi, sem allt stefnir að því að tryggja frið í heiminum, auka efnahagsleg og menningarleg viðskipti þjóða í milli og stuðla að uppbyggingu og framförum. Ísland gerðist árið 1946 aðili að samtökum Sameinuðu Þjóðanna og hefur á vettvangi þeirra hagnýtt sér dýrmæta aðstöðu sína til þess að auka þekkingu á landi og þjóð, stuðla að lausn mikilvægra hagsmunamála íslenzku þjóðarinnar og vinna Íslandi traust og álit meðal þjóða heimsins. Á þingum Sameinuðu þjóðanna hefur atkv. Íslands jafnan stutt hinar ungu þjóðir, sem eru að létta af sér oki nýlenduskipulagsins, með hverjum þeim hætti, sem staðið hefur í okkar valdi. Náin samvinna hefur verið höfð við fulltrúa hinna Norðurlandaþjóðanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og hefur sú samvinna átt ríkan þátt í að auka áhrif þessara litlu, friðsömu þjóða á gang alþjóðamála á hinu mikla þjóðanna þingi.

En þótt Sameinuðu þjóðirnar væru stofnaðar til þess að hindra yfirgang og tryggja frið og öryggi í heiminum, reyndist nauðsynlegt að efna til nýrra samtaka til þess að standa vörð um heimsfriðinn. Arið 1949 var svo komið, að Sovétríkin höfðu svipt margar þjóðir Austur og Mið-Evrópu frelsi sínu. Á sama tíma sem hinar vestrænu lýðræðisþjóðir afvopnuðust að heimsstyrjöldinni lokinni, efldu Rússar herbúnað sinn að miklum mun og notuðu hann síðan til þess að framkvæma vægðarlausa útþenslustefnu í Evrópu. Til varnar gegn þessari yfirgangsstefnu í Evrópu og í alþjóðamálum yfirleitt var Norður-Atlantshafsbandalagið stofnað vorið 1949. Íslendingar gerðust stofnendur þess, vegna þess að þeir gerðu sér ljóst, að sjálfstæði Íslands yrði ekki varðveitt með hlutleysisyfirlýsingum einum saman. Sárbitur reynsla fjölmargra þjóða, sem urðu nazismanum að bráð við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar, og síðan örlög þjóða Austur- og Mið-Evrópu sönnuðu áþreifanlega, að varnarleysi og hlutleysi býður árásinni heim. Yfirgnæfandi meiri hluti lýðræðissinnaðs fólks á Íslandi taldi aðild að varnarsamtökum vestrænna þjóða lífsnauðsynlega fyrir sjálfstæði og öryggi Íslands. Flestir þm. hinna þriggja lýðræðisflokka á Alþingi studdu hana einnig, en kommúnistar hömuðust gegn henni, grýttu alþingishúsið, brutu rúður þess og sneru mynd Jóns Sigurðssonar forseta til veggjar.

Atlantshafsbandalagið hefur reynzt traustasti varnarmúrinn, sem byggður hefur verið í þágu friðarins, frá því að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Það hefur stöðvað framsókn hins alþjóðlega kommúnisma í Evrópu, tryggt öflugar varnir hins frjálsa heims og lagt grundvöll að víðtæku samstarfi um efnahagslega uppbyggingu og batnandi lífskjör meðal þjóða sinna. Það er því að þakka, að friðarhorfur hafa um skeið farið batnandi í Evrópu, á sama tíma sem uggvænlegar blikur hafði dregið á loft í Asíu, þar sem varnirnar eru veikari gegn útþenslustefnu hins alþjóðlega kommúnisma. Í þessu sambandi er það athyglisvert, að ófriðlega horfir nú í Asíu milli tveggja forusturíkja kommúnismans, Sovétríkjanna og Rauða-Kína. Bendir margt til þess, að þungamiðja alþjóðlegra deilumála hafi nú færzt frá Evrópu til Asíu. Árás Rauða-Kína á Indland sýndi líka, að Indverjum var lítið skjól að hlutleysi sínu, sem þeir Nehru og Krishna Menon höfðu þó sett allt sitt traust á.

Íslendingar hafa einnig gerzt þátttakendur í Norðurlandaráði, sem er samtök hinna fimm norrænu þjóða, og í Evrópuráði, sem er samtök þjóða Vestur- og Suður-Evrópu. Bæði þessi samtök hafa það markmið að auka menningarleg og efnahagsleg viðskipti þeirra þjóða, er að þeim standa. Á Alþingi því, sem nú stendur yfir, hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram till. um, að Ísland gerist aðili að UNESCO, Menningar- og fræðslustofnun Sameinuðu þjóðanna, en sú stofnun hefur beitt sér fyrir víðtækri samvinnu á sviði menningarmála, lista og vísinda meðal þjóða heims.

Á grundvelli hinnar íslenzku utanríkisstefnu hefur Ísland einnig tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum ráðstefnum, þar sem fjallað hefur verið um mál, er varða íslenzku þjóðina. Lagt hefur verið kapp á að kynna aðstöðu Íslands og þjóðar þess hvarvetna þar, sem því hefur orðið við komið og líkur voru til taldar, að að gagni mætti verða. Sendiráð Íslands og utanríkisþjónustan hafa enn fremur verið notuð til að afla markaða fyrir íslenzkar framleiðsluvörur og efla menningarsambönd, ekki sízt við þær þjóðir, sem okkur eru skyldastar.

Þannig hefur hin íslenzka utanríkisstefna í stórum dráttum verið í framkvæmd. En ekki er óeðlilegt, þó að þeirri spurningu heyrist varpað fram, hvort það fjármagn, sem varið hefur verið til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi af hálfu okkar Íslendinga á undanförnum árum, hafi borgað sig, hvort þessi litla þjóð hafi ekki reist sér hurðarás um öxl með þátttöku sinni í margvíslegum alþjóðasamtökum og fjölda ráðstefna víðs vegar um heim, hver sé árangurinn af þessu öllu saman. Hann hefur tvímælalaust orðið sá, að öryggi og sjálfstæði Íslands hefur verið treyst í viðsjálli veröld. Ísland hefur komið fram sem sjálfstæður aðili á alþjóðavettvangi, og þjóð þess hefur öðlazt þar traust og virðingu sem atorkusöm og dugandi menningarþjóð. Í skjóli alþjóðlegrar samvinnu hefur Ísland i verið veittur stórfelldur, efnahagslegur stuðningur til uppbyggingar þjóðnytjafyrirtækja og margvíslegra nauðsynlegra framkvæmda í landinu. Í baráttunni fyrir vernd fiskimiðanna hefur þátttaka okkar Í Atlantshafsbandalaginu, Efnahagssamvinnustofnun Evrópu og fleiri alþjóðlegum samtökum orðið okkur að ómetanlegu gagni. Fyrirheitið um heimflutning íslenzku handritanna í Danmörku er einnig ávöxtur af víðtæku norrænu samstarfi á vettvangi Norðurlandaráðs, norræna þingmannasambandsins, norrænu félaganna og fleiri norrænna stofnana. Stóraukin og fjölþætt menningarviðskipti við fjölda þjóða og stuðningur við íslenzk vísindi og listir eiga einnig í ríkum mæli rætur sinar að rekja til þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Hin raunhæfa íslenzka utanríkisstefna og þátttaka Íslands í fjölþættu alþjóðlegu samstarfi hefur þannig haft stórfellda þýðingu fyrir íslenzku þjóðina á fjölmörgum sviðum þjóðlífs hennar.

En nú hefur kommúnistaflokkurinn, Alþb., eins og hann nú kallar sig, lagt fram till. um það hér á hv. Alþ., að breytt skuli um stefnu í íslenzkum utanríkismálum. Hver er kjarni þessarar till.? Hann er sá, að Ísland skuli segja sig úr varnarsamtökum vestrænna þjóða, hverfa frá vestrænu samstarfi, hætta við allar varnir í þágu öryggis og sjálfstæðis landsins, en taka í þess stað upp hlutleysisstefnu og halla sér í austurátt.

Í þessu sambandi ber fyrst að minnast þess, að stefna íslenzkra kommúnista í utanríkismálum hefur á undanförnum áratugum verið mjög á reiki. Fyrir síðari heimsstyrjöldina voru Sovétríkin mjög andvíg hlutleysisstefnunni, og árið 1938 komst páfi hins alþjóðlega kommúnisma m.a. að orði á þessa leið:

„Raunverulega táknar hlutleysisafstaðan hliðhylli við árásina, útfærslu styrjaldarinnar og þróun hennar til heimsstyrjaldar. Í hlutleysisafstöðunni liggur viðleitni til þess að fullnægja þeirri ósk, að árásaraðilarnir séu ekki hindraðir í myrkraverkum sínum.“

Undir þessa skoðun tóku leiðtogar íslenzkra kommúnista hressilega. Einar Olgeirsson komst þá meira að segja að orði þannig í forustugrein í málgagni kommúnista hér á landi hinn 3. febr. 1939:

„Vér eigum strax að leita tryggingar Bandaríkjanna og annarra ríkja fyrir sjálfstæði voru og friðhelgi, svo að vér séum ekki einangraðir og varnarlausir ofurseldir yfirgangi og ágirnd hins nazistíska Þýzkalands.“

Hafa menn nú heyrt annað eins? Og það er sjálfur Einar Olgeirsson, sem þetta segir! Hann heimtaði ameríska hervernd Íslands. „Önnur var öldin, er Gaukur bjó á Stöng, þá var ei til Steinastaða leiðin löng.“ Þremur árum áður hafði blað kommúnista hér á landi krafizt varnarbandalags Norðurlanda og taldi það ,,mál málanna, fjöregg norrænnar samvinnu, sjálfstæðis og frelsis á Norðurlöndum.“ Þá voru kommúnistar ekki hræddir við varnarbandalög. Á þessum árum voru kommúnistar ekki heldur sífellt að flíka friðarást sinni. Í einu rita þeirra var þá m.a. komizt að orði á þessa leið:

„Það er nauðsynlegt að berjast skarpri baráttu gegn þeim skoðunum, að Íslandi komi ekki stríðsundirbúningurinn við og muni engan þátt eiga Í stríði.“

Málgögn kommúnista hér á landi hvöttu þá einnig kommúnista til að taka þátt í borgarastyrjöldinni á Spáni.

Þegar síðari heimsstyrjöldin hófst, fögnuðu íslenzkir kommúnistar bandalagi Hitlers og Stalíns, er hratt styrjöldinni af stað. En á meðan Sovétríkin höfðu ekki flækzt í styrjöldina, gerðust íslenzkir kommúnistar hlutlausir gegn átökum hinna vestrænu lýðræðisþjóða og nazista. Þegar Hitler hafði ráðizt á Sovétríkin, fauk hlutleysisstefna íslenzka kommúnistaflokksins hins vegar út í veður og vind. Þá mátti ekki nefna hlutleysi, af því að það var óhagstætt Sovétríkjunum. Friðarást kommúnista hér á landi var þá ekki heldur meiri en svo, að Brynjólfur Bjarnason lýsti því yfir á Alþingi árið 1941, að Íslendingar mundu ekki telja það eftir sér, þótt hér á landi yrði „skotið án allrar miskunnar“! Loks vildi Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., að Ísland segði Þýzkalandi og Japan stríð á hendur árið 1945.

Nú, þegar hinar vestrænu lýðræðisþjóðir hafa myndað með sér bandalag, sem fyrst og fremst hefur það takmark að vernda sjálfstæði þeirra og öryggi og tryggja heimsfriðinn, telur íslenzki kommúnistaflokkurinn það lífsnauðsynlegt fyrir Íslendinga að taka upp hlutleysisstefnu. Það fer ekkert á milli mála, hverra hagsmuna Alþb: menn eru að gæta með þessari till. sinni. Það eru ekki hagsmunir Íslendinga.

Í þeirri till., sem hér liggur fyrir til umr., leggja kommúnistar áherzlu á, að Ísland veiti undirokuðum og nýfrjálsum þjóðum ötulan stuðning í baráttu þeirra fyrir fullu frelsi og efnahagslegu sjálfstæði. Þetta segja sömu mennirnir sem varið hafa í líf og blóð hina nýju nýlendustefnu Sovétríkjanna, sem hneppt hafa fjölda þjóða undir nýtt nýlenduok, á sama tíma sem hin gömlu nýlenduveldi í Vestur-Evrópu hafa veitt 800 millj. manna frelsi og sjálfstæði.

Það sýnir einnig fullkomna fyrirlitningu kommúnista á hagsmunum íslenzku þjóðarinnar, að þeir hafa undanfarin ár haldið því fram, að varnir Íslands séu fyrst og fremst byggðar upp til árása á Sovétríkin og fylgiríki þeirra. Allir sjá, hvílíka hættu kommúnistar eru hér að leiða yfir íslenzkt fólk, enda hafa málgögn þeirra hér á landi hvað eftir annað gert því skóna, að mesta þéttbýli Íslands gæti einn góðan veðurdag hrunið í eina rjúkandi rúst, eftir að kjarnorkusprengjum hefði verið varpað á það. Hverjir væru líklegastir til að varpa helsprengjum yfir íslenzka byggð? Mundi nokkrum heilvita íslendingi koma til hugar, að það yrðu bandamenn Íslands í varnarbandalagi hinna frjálsu þjóða?

Nú síðast halda kommúnistar því fram, að verið sé að undirbúa árásarstöðvar kjarnorkukafbáta í Hvalfirði, enda þótt sú staðhæfing sé gersamlega úr lausu lofti gripin.

Allt ber þetta að sama brunni og sannar, að kommúnistar hér á landi miða afstöðu sína til alþjóðamála ekki við hagsmuni Íslendinga, heldur við hagsmuni erlends stórveldis. Þetta er hörmuleg og dapurleg staðreynd, sem íslenzka þjóðin verður nú að gera sér ljósa. Kommúnistar leggja nú til, að Ísland verði gert varnarlaust, en þeir höfðu ekki átt sæti í vinstri stjórninni nema örfáa mánuði, þegar þeir tóku ábyrgð á samningi um áframhaldandi dvöl varnarliðsins hér á landi um ótiltekinn tíma og létu meira að segja borga sér dollara fyrir viðvikið. Sá samningur er enn í gildi, og m.a. á honum byggist dvöl varnarliðsins hér á landi í dag.

Að lokum þetta: Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að hin íslenzka utanríkisstefna beri enn sem fyrr að miða að því að tryggja sjálfstæði landsins og öryggi fólksins með friðsamlegu samstarfi við allar þjóðir og þátttöku í varnarsamstarfi þeirra þjóða, sem okkur eru skyldastar að menningu, hugsjónum og uppruna. Við teljum, að Atlantshafsbandalagið sé í dag skjöldur heimsfriðarins og jafnframt helzta skjól sjálfstæðis og öryggis Íslendinga. Það er skoðun okkar, að þátttaka Íslands í alþjóðlegri samvinnu á sviði efnahags- og menningarmála sé íslenzku þjóðinni nauðsynleg og geti átt ríkan þátt í óhjákvæmilegri hagnýtingu auðlinda landsins til sköpunar bættum lífskjörum allra landsins barna. Við viljum eiga viðskipti við allar þær þjóðir, sem af okkur vilja kaupa, vinna markaði fyrir íslenzkar afurðir sem víðast, þannig að við verðum engum sérstökum viðskiptaaðila háðir um of.

Þetta er stefna núverandi ríkisstjórnar. Þetta er hin raunhæfa, íslenzka utanríkisstefna, sem miðast fyrst og fremst við hagsmuni Íslands og þess fólks, sem það byggir. Höfuðtakmark hennar er frelsi landsins, farsæld og öryggi fólksins. Því takmarki samrýmist sú till., sem hér liggur fyrir, ekki. Þess vegna mun hún verða felld.— Góða nótt.