10.04.1964
Sameinað þing: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (2750)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Davíð Ólafsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hinn 9. apríl 1940 urðu mikil þáttaskil í stjórnmálasögu okkar. Óviðbúnir að ýmsu leyti urðu Íslendingar þá fyrirvaralaust að taka í eigin hendur öll sín mál, einnig utanríkismálin. Með fullveldistökunni 1918 höfðu Íslendingar lýst yfir hlutleysi og á því varð engin breyting við þetta tækifæri. En fljótlega átti það eftir að koma á daginn, hversu haldlitil sú yfirlýsing var gagnvart hinum kalda veruleika styrjaldarinnar, sem Þá geisaði. Það leið ekki nema réttur mánuður, þangað til búið var að rjúfa það hlutleysi, sem átti að vera vörn þjóðarinnar um aldur og ævi. Þetta þurfti raunar ekki að koma neinum á óvart. Það var til ærin reynsla fyrir því, að styrjaldarþjóðir virða ekki hlutleysi, og þetta atvik var aðeins einn liður í langri keðju hlutleysisbrota fyrr og síðar.

E.t.v. vilja flm. þessarar till. halda því fram, að Finnar hafi verið í hernaðarbandalagi og því hafi árás Rússa á þá árið 1939 verið réttmæt og eðlileg, en hinu síðarnefnda héldu þeir og skoðanabræður þeirra þá fram. Ekki dugði Eystrasaltsríkjunum þremur hlutleysi til að forða sér frá undirokun Sovétríkjanna, ekki einu sinni griðasáttmáli við Rússa dugði þar.

Noregur og Danmörk höfðu í upphafi styrjaldarinnar lýst yfir hlutleysi í hernaðarátökum og voru andvaralausir bak við þá yfirlýsingu. Þjóðverjar virtu slíkt einskis og lögðu þessi lönd undir sig, þegar þeir töldu það henta sér vegna síns styrjaldarrekstrar, og sömu dagana og Bretar rufu hlutleysi Íslands lögðu þjóðverjar undir sig Holland, Belgíu og Lúxemborg, sem höfðu lýst yfir algeru hlutleysi í hernaðarátökum stórveldanna.

Þannig voru síðustu mánuðir ársins 1939 og fyrstu mánuðir ársins 1940 tilvalin sýnikennsla í fánýti hlutleysisyfirlýsinga til verndar sjálfstæði þjóða. Þeim fimm þjóðum, sem síðast voru nefndar, varð þetta svo dýrkeypt reynsla, að þær hafa sýnilega ekki hugsað sér að láta taka sig í rúminu á nýjan leik. Hlutleysið, sem átti að verða þeim vörn, reyndist þeim hörmuleg blekking. Þær eru nú allar meðal hinna áhugasömustu meðlima Atlantshafsbandalagsins og taka á sig þungar fjárhagslegar byrðar í því sambandi, enda telja þær þátttöku sína í bandalaginu sína einustu vörn og bandalagið einmitt enn þýðingarmeira fyrir smáþjóðirnar, sem í því eru, þar sem hinar stærri geta frekar varið sig sjálfar.

Sem betur fer sluppum við Íslendingar við hina bitru reynslu, sem hinar þjóðirnar urðu að þola, en eigi að síður lærðum við af reynslu þeirra og okkar og mótuðum stefnu okkar í utanríkismálum samkv. því. En það er líka lærdómsríkt að skoða reynslu einnar annarrar þjóðar í þessu sambandi og ekki síður fyrir það, að þar koma við sögu skoðanabræður og lærifeður flm. þessarar till. Árið 1956, í lok október, lýsti ungverska byltingarstjórnin því yfir, að Ungverjaland mundi taka upp hlutleysisstefnu í utanríkismálum. Hver voru þá viðbrögð kommúnista um allan heim, einnig hér á landi? Fögnuðu þeir ekki? Samglöddust þeir ekki ungversku þjóðinni? Við þekkjum öll svarið. Við þekkjum þá sorgarsögu, hvernig hlutleysisyfirlýsingin var kæfð í blóði ungverskra frelsisvina. Því var einnig fagnað af íslenzkum kommúnistum.

Þetta er nauðsynlegt, að menn rifji upp fyrir sér nú í tilefni af þeirri till., sem hér liggur fyrir, þar sem hún snýst raunverulega um það, að Ísland skuli lýsa yfir hlutleysi og neita sér þannig um möguleika til að verja sjálfstæði sitt. En með því að hv. 2. þm. Vestf., Sigurður Bjarnason, gerði þessu svo ýtarlega og glögglega skil í ræðu sinni hér á undan, mun ég ekki fara nánar út í það atriði hér, en snúa mér að öðru máli, því máli, sem verið hefur eitt hið viðkvæmasta og vandasamasta af þeim málum, sem íslenzk stjórnarvöld hafa haft við að glíma á sviði utanríkismála eftir styrjöldina, landhelgismálinu. Gagnvart öðrum ríkjum var það fyrst og fremst þetta mál, sem hlaut að hafa mesta þýðingu. Þar var um að ræða vandamál, sem snart grundvöllinn að efnahagslegum hagsmunum þjóðarinnar, en jafnframt var lausn þess óhjákvæmilega tengd þróun á vettvangi alþjóðalaga og snerti því einnig önnur ríki, þ.e.a.s. fyrst og fremst þau, sem hagsmuni höfðu af fiskveiðum við Ísland. Það, sem segir í grg. með till. þessari, gefur mér tilefni til að rifja upp nokkra þætti þessa mikla máls. Að vísu hefur flest af því, sem hér verður að segja, verið margendurtekið áður. En á meðan kommúnistar og þeirra fylgifiskar endurtaka sí og æ sömu ósannindin og blekkingarnar um þetta mál, verður óhjákvæmilegt að endurtaka sannleikann um það.

Með hliðsjón af því, hversu mikill vandi fylgdi þessu máli frá upphafi, var allur undirbúningur þess þegar frá byrjun hinn vandaðasti. Stefnan var mörkuð með landgrunnslögunum árið 1948, en fyrsta aðgerðin, sem byggð var á þeim lögum, var beinar grunnlínur fyrir Norðurlandi og 4 mílna fiskveiðilögsaga árið 1950. Það var fyrsti áfanginn. Svo gerðist merkur atburður 1951. Í okt. Það ár rann út samningurinn, sem Danir höfðu gert við Breta árið 1901 um fiskveiðilögsöguna við Ísland, sem byggði á 3 mílna reglunni. Einmitt um það leyti komst á lokastig mál Norðmanna og Breta, sem rekið var fyrir alþjóðadómstólnum í Haag um grunnlínur við Noreg. Um áratugi hafði staðið deila milli þessara aðila um þetta atriði og einnig um 4 mílna landhelgi, sem Norðmenn töldu sig eiga rétt á. Að lokum varð samkomulag um það á milli aðilanna að vísa deilunni til alþjóðadómstólsins í Haag til úrskurðar, en síðar varð það þó úr, að dómstóllinn skyldi einungis fjalla um grunnlínurnar. Íslenzka ríkisstj. ákvað að bíða átekta, þar til dómur væri fallinn, en hann kom í des. 1951 og var í öllum meginatriðum Noregi í vil. Í úrskurði sínum tók dómurinn verulega tillit til efnahagslegra sjónarmiða, en einmitt það hefur haft grundvallarþýðingu, og markaði úrskurðurinn því tímamót.

Aðeins þremur mánuðum síðar var næsta skref stigið af Íslands hálfu, en það var beinar grunnlínur umhverfis allt landið og 4 mílna fiskveiðilandhelgi. Frá sjónarmiði fiskverndar var þetta tvímælalaust þýðingarmesta aðgerðin í landhelgismálinu, þar sem með henni urðu allar uppeldisstöðvar ungfisks við landið á hinu friðaða svæði og sömuleiðis mestur hluti hrygningarsvæðanna. Áður en til þessara aðgerða kom, höfðu þau sjónarmið Íslendinga, sem lágu til grundvallar framkvæmdinni, verið rækilega kynnt fyrir þeim aðilum, sem áður höfðu haft samninga um að mega stunda veiðar upp að 3 mílum undan ströndum landsins, en hins vegar réttinum til einhliða útfærslu fast fram haldið. Viðbrögð þeirra þjóða, sem veiðar stunduðu hér við land, voru sem kunnugt er þau að virða hinar nýju reglur, en í Bretlandi var hins vegar efnt til löndunarbanns. Allur undirbúningur að framkvæmd þessa máls af Íslands hálfu var með þeim hætti, þar sem m.a. var byggt á úrskurði alþjóðadómstólsins, sem áður getur, að samrýmdist alþjóðalögum, eins og þau þá voru. Það var því í hæsta máta eðlilegt, að íslenzka ríkisstj. skyldi á árinu 1953 bjóða Bretum að leggja málið til úrskurðar fyrir alþjóðadómstólinn, en þó að sjálfsögðu með því skilyrði, að löndunarbanninu yrði aflétt. Þegar brezka ríkisstj. hins vegar taldi, að hún gæti ekki tryggt framkvæmd þessa skilyrðis, gat ekki orðið úr málskoti til dómstólsins, en deilan leystist hins vegar farsællega á annan hátt, með samningi, sem síðar hefur sannað gildi sitt.

Það var ljóst, að aðgerðirnar 1952 voru aðeins áfangi, þar sem þróun alþjóðalaga á þessu sviði var nú mjög ör. Á alþjóðavettvangi var á árunum þar á eftir unnið sleitulaust að því að kynna málstað Íslands og styrkja þannig aðstöðu þess, en ekki gefst tækifæri til þess hér í þessu stutta máli að gera grein fyrir því í einstökum atriðum.

Með vinstri stjórninni árið 1956 var framkvæmd landgrunnslaganna og þar með aðgerðir í landhelgismálinu byggðar á þeim lögum fengnar í hendur kommúnistum. Þá var breytt um starfsaðferðir. Vegna þeirrar miklu þýðingar, sem landhelgismálið hlaut og hlyti að hafa sem utanríkismál, var öllum þeim, sem þekkja starfsaðferðir og markmið kommúnista, ljóst, að hér var hætta á ferðum, einmitt að því er snerti frekari aðgerðir í landhelgismálinu. Það kom og greinilega í ljós þegar eftir ráðstefnuna í Genf 1958, að kommúnistaforustan hafði á því mestan áhuga að haga aðgerðum þannig í framkvæmdum í landhelgismálinu, að hlyti að leiða til árekstra við bandamenn okkar í Atlantshafsbandalaginu. Þar með komust þeir inn á svið íslenzkra utanríkismála, þar sem þeir gátu haft áhrif á gang mála vegna stöðu Íslands í Atlantshafsbandalaginu langt út fyrir þann ramma, sem landhelgismálið sem slíkt gat gefið tilefni til. Og þetta tækifæri skyldi nú notað. Það vakti t.d. athygli í þessu sambandi, að nokkrum vikum áður en reglugerðin um 12 mílna landhelgi gekk í gildi fór sá ráðh., sem gaf út reglugerðina, þáv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, austur til Moskvu. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér, hvert erindi hans þangað var. Áður en reglugerðin kom til framkvæmda og einnig fyrst á eftir neituðu kommúnistar auðvitað harðlega, að landhelgismálið og aðgerðir í því hefðu hið minnsta með Atlantshafsbandalagið að gera eða samband Íslands við bandalagið. En það er eins og hið sanna komi ávallt í ljós og þá jafnvel stundum eftir hinum ólíklegustu leiðum. Í nýútkominni bók eftir amerískan prófessor, Morris Davis að nafni, sem nefnist „Iceland extends its fisheries limits“, eða „Ísland færir út fiskveiðitakmörk sín“, rekur höfundur gang landhelgismálsins fram að útfærslunni 1958 og fyrst þar á eftir. Ræðir hann í því sambandi einmitt þetta atriði. Segir hann þar frá því, að hinn 25. marz 1960, en það er á meðan stóð á annarri Genfarráðstefnunni, hafi hann átt viðtal við Lúðvík Jósefsson í Genf og hefur eftir honum orðrétt þessa eftirtektarverðu setningu:

„Að því, er minn flokk varðaði, var eitt af meginatriðunum í sambandi við útfærsluna það, að hún mundi skaða Atlantshafsbandalagið.“ Síðar dregur hann svolítið úr þessu, en um það segir svo orðrétt: „Alþb., hélt hann (þ.e. Lúðvík) áfram, lagði ekki til útfærslu í 12 mílur til þess að skaða Atlantshafsbandalagið, en það,“ Alþb., „er ánægt yfir því, að það varð ein af afleiðingum hennar.“ Það má því vera hverjum manni ljóst, hvaða markmið það var, sem kommúnistar kepptu að. Þetta sýnir einnig ljóslega, og sérstök ástæða er til að vekja athygli á því hér, þegar kommúnistar ætla með tillögugerð sinni að segja fyrir um það, hvernig íslenzk utanríkisstefna skuli mótuð, að þegar þeir komust í aðstöðu til að ráða framkvæmd í máli, sem í eðli sínu hefur mikla þýðingu í samskiptum Íslands við aðrar þjóðir, létu þeir annarleg sjónarmið ráða við framkvæmd málsins og leiddu þannig stórkostlega hættu yfir þjóð sína.

Sjálf reglugerðin um 12 mílna fiskveiðilögsöguna árið 1958 var að sjálfsögðu þýðingarmikil framkvæmd, en setning reglugerðarinnar var aðeins önnur hlið málsins. Hin var sú, sem sneri að framkvæmd hennar, þ.e.a.s. að tryggja það, að hinar nýju reglur væru virtar. Þetta síðara atriði tókst þeirri stjórn, sem reglugerðina setti, ekki að framkvæma. Það féll í hlut núv. hæstv. ríkisstj. að leiða þann þátt til lykta og bægja burt þeirri hættu, sem yfir hafði vofað, en jafnframt að tryggja þjóðinni fullan sigur í lífshagsmunamáli hennar með hyggilegum samningum við þann andstæðing, sem harðastur hafði verið, og verður það aldrei fullþakkað. Kommúnistar, studdir af Framsóknarfl., gerðu sannarlega allt, sem þeir máttu, til þess að hindra lausn deilunnar við Breta. Það var nánast óbærileg tilhugsun fyrir þá, að leidd yrði til lykta á friðsamlegan hátt hættuleg deila við þessa bandalagsþjóð okkar, deila, sem frá upphafi var til þess ætluð frá þeirra hálfu að koma Íslandi út úr Atlantshafsbandalaginu. En hér er hollt að minnast þess einmitt í þessu sambandi, að þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu og sá andi skilnings og vináttu, sem þar ríkir milli bandalagsþjóða, var veigamikil forsenda fyrir því, að svo vel tókst til um lausn deilunnar. Okkur var þá mikill styrkur að bandalaginu.

Að lokum er svo rétt að rifja enn einu sinni upp þennan samning og þær hrakspár stjórnarandstöðunnar, sem kváðu við allt frá því, að samningurinn var gerður. Bretar viðurkenndu óafturkallanlega 12 mílna fiskveiðilögsöguna við Ísland. Þar með var það þýðingarmikla atriði leyst fyrir alla framtíð, og reglugerðin frá 1958 hafði með því fengið raunverulegt gildi. í öðru lagi voru dregnar nýjar grunnlínur á fjórum stöðum um landið, og jók það mikið sjálfa fiskveiðilögsöguna einmitt á svæðum, sem hafa mikla Þýðingu fyrir okkar fiskveiðar. Bretar fengu heimild til að veiða í þrjú ár milli 6 og 12 mílna á takmörkuðum svæðum og tímum. Sá tími og sú heimild rann út nú fyrir réttum mánuði. Allt frá því, að samningurinn var gerður, var því rækilega haldið að þjóðinni af stjórnarandstöðunni, að þessi veiðiheimild Breta væri aðeins byrjunin og mundi framlengd og sennilega í miklu ríkari mæli, þegar 3 ára tíminn væri liðinn. Sérstaklega minnast menn þess, hversu hatrammur þessi áróður var fyrir kosningarnar í fyrra. Svo kom fiskimálaráðstefnan í London í vetur, og þá héldu þessir sömu aðilar því fram, að sú ráðstefna væri fyrst og fremst sett á svið til að fá framlengda veiðiheimildina. En svo sprakk sú blaðran, eins og allar hinar, og 11. marz s.l. , þegar síðasti erlendi togarinn hvarf út fyrir 12 mílurnar, stóðu þessir herrar uppi afhjúpaðir ósannindamenn.

Af þeim atriðum samningsins, sem upphaflega var deilt um, er nú aðeins eitt eftir, hrakspár andstæðinganna. Að því er hin atriðin varðar, hafa þau þegar afsannazt. Það atriði, sem enn er deilt um, er málskot til alþjóðadómstólsins. Hinn 5. maí 1959 samþ. Alþingi einróma ályktun, þar sem segir, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948. Í samningnum er vísað til þessarar samþykktar Alþ., og hefur því engum rétti verið afsalað, eins og haldið hefur verið fram. Eins og við höfum hingað til byggt aðgerðir okkar á alþjóðalögum og sigrar okkar í landhelgismálinu hafa byggzt á því, að svo hefur verið, munum við einnig hér eftir gera það. Fyrir alla framtíð mun samkomulagið frá 1961 verða til ómetanlegs gagns, þar sem það hefur tryggt Íslendingum grundvöll til að standa á, þaðan sem þeir geta haldið áfram baráttu sinni í landhelgismálum með hagsmuni Íslands eina fyrir augum.