10.04.1964
Sameinað þing: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (2751)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hv. þm. Sigurður Bjarnason talaði nokkuð um Atlantshafsbandalagið eins og fleiri. Hann hélt því fram, að bandalagið væri sérstakur verndari frelsis, friðar og lýðræðis. Hann sagði, að atkvæði Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefði alltaf verið beitt í þágu undirokaðra þjóða. Mér þykir hlýða að rifja það hér upp, að á seinasta kjörtímabili átti Sigurður Bjarnason ekki sæti á Alþingi, en sat í þess stað sem fulltrúi Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Fyrir rúmu ári, hinn 18. des., urðu miklar umræður á allsherjarþinginu um nýlendustefnu Portúgala. Fyrir þinginu lá till. til ályktunar, þar sem nýlendukúgun portúgalska einræðisherrans var harðlega fordæmd. Farið var hörðum orðum um svívirðilega meðferð Portúgala á fátækum blökkumönnum í Afríku og skorað á allar þjóðir að stöðva vopnasendingar til Portúgala. Við atkvgr. var till. samþ. með yfirgnæfandi meiri hluta, eða 82 atkv., en fulltrúar 20 þjóða greiddu atkvæði á móti eða sátu hjá. Meðal þeirra voru fasistaríkin Portúgal og Spánn, nýlenduveldin Frakkland, Bretland og Belgía ásamt kynþáttahöturum SuðurAfríku. En hvað gerði Sigurður Bjarnason, fulltrúi hins unga lýðveldis í norðurhöfum? Stóð fulltrúi Íslands með hinum 82 þjóðum, sem fordæmdu nýlendukúgun og börðust fyrir frelsi og sjálfstæði þjakaðra þjóða í Afríku? Eða stóð hann með nýlenduveldunum, fasistaríkjunum og öðrum NATO-ríkjum? Var hann í hópi þeirra 20, sem ýmist greiddu atkvæði á móti eða sátu hjá? Það er óþarfi að spyrja. Sigurður Bjarnason og Thor Thors, fulltrúar íslenzku ríkisstj., skipuðu sér í hóp mínni hlutans og studdu Portúgala með hjásetu.

Hvað réð gerðum Sigurðar Bjarnasonar í þetta sinn? Hvar var þá niður komin sú frelsisást og lýðræðiselska, sem áðan stóð í langri bunu upp úr hv. þm.? Hvað olli því, að Ísland var ekki í hópi 82 þjóða heims, sem sameinuðust í að fordæma ofbeldi portúgölsku fasistanna? Hvers vegna var íslenzka þjóðin, friðsöm, vopnlaus smáþjóð, allt í einu komin í flokk með skelfilegustu nýlendukúgurum heims? Svarið þekkjum við öll. Það var ekki vegna skyndilegrar mannvonzku Sigurðar Bjarnasonar. Nei, skýringin er aðeins sú, að Ísland er meðlimur í Atlantshafsbandalaginu. Og þetta var eitt af þeim myrkraverkum, sem meðlimur í NATO er skyldur til að taka á sig.

Íslendingar eru ekki frjálsir til að hafa þær skoðanir í alþjóðamálum, sem þeir vilja. Þeir hafa gerzt bandamenn kjarnorkustórvelda og nýlendukúgara, og ráðamenn þjóðarinnar telja sér því skylt að koma einræðisherranum í Portúgal til hjálpar í stríði hans við fátæka blökkumenn, hvenær sem á þarf að halda. Þetta er NATO-stefnan. En hvað segir alþýða manna á Íslandi? Eru menn samþykkir? Er þetta rétt stefna eða ekki? Við þessari spurningu eru fyrst og fremst tvö svör. Þeir, sem enn þá trúa því í fullri alvöru, að rússnesk árás sé stöðugt yfirvofandi, álíta sjálfsagt, að gamla NATO-hernámsstefnan sé enn þá bezta lausnin. Við verðum að leita okkur verndar, segja þeir, vináttu og sálufélags, jafnvel í hópi portúgalskra fasista. En allir hinir, sem nú orðið álita það fjarstæðukennt, að nokkur árás á Ísland sé yfirvofandi, geta ekki komizt nema að einni niðurstöðu: NATO-stefnan hæfir ekki þörfum og hagsmunum íslenzku þjóðarinnar. Ísland þarf nýja utanríkisstefnu.

Um þessar mundir eru 15 ár liðin, síðan Íslendingar gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Í upphafi var svo um hnútana búið, að landsmenn geta ekki leyst sig úr þessu bandalagi fyrr en árið 1969, eða eftir 5 ár. Íslendingar geta sagt upp herstöðvasamningnum hvenær sem er og eiga að gera það án tafar. En 1969 geta þeir endanlega tekið upp hina nýju utanríkisstefnu og lýst yfir ævarandi hlutleysi í hernaði.

Þegar ekki er lengur unnt á friðartímum að hræða menn með Rússagrýlu og telja fólki trú um, að árás úr austri sé yfirvofandi, gripa NATO-sinnar til þess ráðs að spyrja: Hvers virði var hlutleysi Íslands í seinustu styrjöld? Og þeir bæta gjarnan við: Ef ekki eru hér herstöðvar og styrjöld brýzt út, munu stórveldin keppast um að ná hér aðstöðu. Það verður barizt um landið með hörmulegum afleiðingum fyrir landsmenn.

Þessi kenning hefði staðizt fyrir 20 árum, en hún er fjarstæðukennd í dag. Það er alkunna, að á fáum árum hefur orðið gerbylting í drápstækni og vígbúnaði. Röksemdir, sem áður töldust góðar og gildar í umræðum um varnarmál, eru skyndilega orðnar óráðshjal. Sovétríkin og Bandaríkin byggja hernaðarmátt sinn á vetnissprengjum og eldflaugum, sem skjóta má hvert á land sem er. Engar þekktar varnir eru til gegn þessum vopnum. Til marks um hin gerbreyttu viðhorf má geta þess, að stórveldin eiga tugi kjarnorkukafbáta, sem skotíð geta eldflaugum, og í hverjum slíkum kafbáti eru sprengjur, sem hafa talsvert meiri áhrifamátt en allar þær sprengjur samanlagt, sem sprungu í seinustu heimsstyrjöld. Það er furðuleg glópska, ef menn skilja ekki, að í slíkum heimi gilda ekki sömu lögmál og í seinustu styrjöld. Tímarnir eru breyttir. Fyrir 20 árum var unnt að verja Ísland. Þá var hugsanlegt, að barizt væri um landið. Nú er ekki unnt að verja Ísland. Og í kjarnorkustyrjöld hafa stórveldin engan áhuga á landi, sem engar herstöðvar hefur, þegar styrjöldin brýzt út.

Það er viðurkennt af öllum, að í kjarnorkustyrjöld mundu Bandaríkin og Sovétríkin hrapa niður á stig hinna frumstæðustu landa, kannske á fáeinum dögum, vegna óstjórnlegs manntjóns og eyðileggingar. Hvaða heilvita maður getur haldið því fram, að undir slíkum kringumstæðum færu stórveldi heimsins að berjast um Ísland? Hvaða erindi ættu þeir hingað? Hvað væri hér að sækjast eftir, ef engar herstöðvar væru í landinu? Það tekur langan tíma að koma upp þeirri aðstöðu, sem nota má í stríði, og styrjöldin væri vafalaust löngu búin, áður en landið kæmi að gagni.

Það er ekki trúlegt og ekki sennilegt, að Ísland verði fyrir árás, hvorki á friðartímum né stríðstímum, ef hér eru engar herstöðvar og landið er hlutlaust og friðlýst. En hvað verður, ef í landinu eru herstöðvar, þegar styrjöld brýzt út? Sá tími er liðinn, að varnir komi til greina. Hins vegar er það viðurkennt, jafnvel af sérfræðingi ríkisstj., að herstöðin á Suðurnesjum verður sprengd í loft upp þegar á fyrstu augnablikum stríðs, eins og aðrar herstöðvar Bandaríkjamanna og Sovétríkjanna. Þannig er ljóst, að hernámsstefnan mun leiða dauða og tortímingu yfir meiri hluta landsmanna, ef til stríðs kemur.

Hv. þm. Sigurður Bjarnason er jafnframt þingstörfum ritstjóri Morgunblaðsins. Í leiðara blaðsins hefur hann oftlega haldið því fram, að hlutleysi sé ekki til. Hlutleysi sé sama og skoðanaleysi og slík stefna leiði aðeins til glötunar. Eins og ég tók fram í upphafi míns máls, hefur Sigurður Bjarnason oft setið á þingum Sameinuðu þjóðanna. En mér er spurn: Hvernig hefur hv. þm. getað setið þar árum saman án þess að uppgötva, að yfir 30 ríki í Sameinuðu þjóðunum fylgja hlutleysi í hernaði? Það þarf ekki litíð ofstæki til að loka þannig augunum fyrir staðreyndum. Áreiðanlega hefur enginn erlendur stjórnmálamaður leyft sér þann munað að halda því fram, að hlutleysi í hernaði eigi eitthvað skylt við skoðanaleysi. Meira en þriðji hver fulltrúi á allsherjarþinginu er frá hlutlausri þjóð, og þessi ríki eru einmitt fullkomlega frjáls og óháð í skoðunum, enda ekki bundin á hernaðarklafa neins stórveldis.

Við skulum viðurkenna staðreyndir. Við skulum játa þá staðreynd, að hlutleysisstefnan er stefna okkar tíma. Ár frá ári fjölgar hlutlausum þjóðum, meðan herbandalög stórveldanna eru í upplausn. Hlutlausar þjóðir hafa óumdeilanlega tekið forustuna í friðarstarfi og sáttaviðleitni á alþjóðavettvangi. Menn frá hlutlaus

um þjóðum gegna öllum æðstu og mikilvægustu embættunum hjá samtökum Sameinuðu þjóðanna, enda eru þau samtök nú margfalt betur búin undir að gæta sjálfstæðis og frelsis smáþjóða en var um Þjóðabandalagið gamla fyrir stríð. Nú nýlega lýsti Frakklandsforseti því yfir, að vonin um frið í Suðaustur-Asíu væri einmitt bundin við samninga um hlutleysi smáþjóða í þeim heimshluta. Með þeirri yfirlýsingu hefur einn helzti forustumaður Atlantshafsbandalagsins viðurkennt kosti hlutleysisstefnunnar, og ættu skjaldsveinar NATO á Íslandi ekki að þurfa frekar vitnanna við.

Hæstv. utanrrh. flutti þá ræðu hér Í kvöld, sem dæmir sig sjáif. Það er alkunna, að sá maður hefur aldrei orðið sáttur við sannleikann, og nægir þar að benda á fullyrðingar hans um gerðir Alþb. í vinstri stjórninni og fleira. Þetta eru hrein ósannindi, sem hrakin hafa verið aftur og aftur. Það hefði verið fróðlegra að heyra hæstv. ráðh. minnast á Hvalfjörð. Nýlega upplýsti ráðh. í þingræðu, að á árinu 1956 hefðu Bandaríkjamenn lagt fram áætlanir um stórfelldar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði, eins og ráðh. sagði þá orðrétt. Hernámsflokkarnir voru búnir að samþ. þessa ráðagerð, en guggnuðu vegna andstöðu almennings við hernámið. Síðan hafa Bandaríkjamenn aldrei misst áhugann á Hvalfirði. En nú á að nálgast markið í áföngum, skref fyrir skref. Fyrst var það lóranstöð á Snæfellsnesi, hæsta mannvirki í Evrópu, síðan nákvæm botnrannsókn á Faxaflóa og nú síðast olíustöð og birgðastöð. Enginn þarf að efast um, að þeir munu ná takmarki sínu, ef látið er undan í hverju nýju skrefi. En verður það gert? Því hefði utanrrh. verið nær að svara.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um áskorun hinna 60 til Alþ. um að loka fyrir bandaríska hermannasjónvarpið, en á þessu skjall voru samankomnir margir helztu menningarfrömuðir þjóðarinnar. Á vegum hernámsandstæðinga hafa listamenn, rithöfundar og menntamenn mótmælt hundruðum saman bæði hersetu og hermannasjónvarpi, en enginn úr þeim hópi var fenginn til að rita undir áskorun 60-menninganna. Má af þessu draga þá augljósu ályktun, að verulegur hluti hugsandi manna á Íslandi er andvígur því, að erlent sjónvarp haldi aðstöðu sinni í íslenzku menningarlífi.

Eins og enn er í fersku minni, urðu harðar umr. um þetta mál í Alþingi fyrir 2 árum. Knappur meiri hluti stjórnarflokkanna tók á sig þá ábyrgð að hleypa sendingum sjónvarpsins inn í íslenzkt þjóðlíf. Nú, þegar mótmætaaldan rís, borin uppi af forustumönnum íslenzkrar menningar úr öllum flokkum, er ekki nokkurn bilbug að sjá á stjórnarflokkunum. Mér er ekki kunnugt um einn einasta þm. úr þessum flokkum, sem er reiðubúinn að rísa gegn flokksvaldinu og styðja málstað 60-menninganna á þingi. Og hæstv. menntmrh. þegir, aldrei þessu vant.

Við inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið fyrir réttum 15 árum mælti einn hv. þm. þessi orð:

„Af setu erlends hers í landinu á friðartímum mundi stafa stórkostlegur þjóðernisháski.

Íslenzkri tungu og íslenzkri menningu hlyti að vera stefnt í voða, ef hér yrði erlendur her að staðaldri, og sjáifstæði landsins yrði nafnið eitt.

Hver mælti þessi stóru orð? Það var enginn annar en Gylfi Þ. Gíslason, núv. yfirmaður mennta- og menningarmála á Íslandi. Sá, sem áður varaði við áhrifum hersetunnar, hann ber nú höfuðábyrgð á innrás hermannamenningarinnar í íslenzkt þjóðlíf, svo stórfelldri, að þingmanninn Gylfa Þ. Gíslason hefði ekki órað fyrir slíku árið 1949. Þessi sami maður stendur nú í varnarstríði fyrir erlent sjónvarp gegn samfelldri fylkingu íslenzkra menntamanna. Stundum er mér nær að halda, að menntmrh. viti ekki, hvað íslenzk menning er.

Íslenzk menning er ekki dauður arfur frá liðinni tíð, handrit frá Sturlungaöld eða minjagripir hjá þjóðminjaverði. Íslenzk menning er skapandi starf þúsunda manna og lifandi áhugi og umræður tugþúsunda. Skilur ekki menntmrh., að þegar erlent sjónvarp er komið inn á fjórða hvert heimili í Reykjavík og nágrenni, hlýtur íslenzkt menningarstarf að vera í hættu? Þúsundir manna á Faxaflóasvæðinu dragast að nokkru út úr íslenzku félagslífi, bókmennta- og listalífi og hverfa frá íslenzkum viðfangsefnum til erlendra áhugamála. Erlendur aðili hefur brotizt með sterkasta áróðurstæki nútímans inn í íslenzka menningarhelgi.

Hefur hæstv. ráðh. gert sér Það ljóst, að vegna sjónvarpsins eru þeir margfalt færri hér í kvöld en fyrir einu ári, sem hlusta á útvarpsumræður frá Alþingi og eru með því þátttakendur í vandamálum líðandi stundar? Svo að tekið sé dæmi, hefur hæstv. utanrrh., flokksbróðir Gylfa, langtum minna tækifæri til að koma ósannindum sínum á framfæri við þjóðina vegna þess, að þúsundir Íslendinga hafa í kvöld setið við sjónvarpið og horft á ameríska kúrekamynd, sem á íslenzku mundi nefnast „Hráskinn“, eða þeir hafa beðið eftir þættinum „Fight of the week“, sem þýðir á íslenzku „Slagsmál vikunnar“, en sá þáttur átti að hefjast fyrir nokkrum mínútum, eða kl. 10, að sögn dagblaðsins Vísis.

Sjónvarpsmálið er ein af afleiðingum NATO-stefnunnar. Hin misheppnaða utanríkisstefna eftirstríðsáranna hefur alvarlega sýkt menningu þjóðarinnar og sjálfstæðisvitund, að ég tali ekki um siðferði. Eða hvað hugsa menn, þegar þjófnaðarmálin spretta eins og gorkúlur upp úr skíthaugum hernámsins næstum því mánaðarlega?

Ísland þarf nýja utanríkisstefnu. Það er kjarni þessa máls. Ísland á ekki að einangra sig frá öðrum þjóðum, slíkt dettur engum í hug. En þjóðin verður að halda reisn sinni. Íslendingar verða að varðveita sjálfstæði sitt og menningu, og þeir eiga ekkert erindi í herbandalag með nýlenduþjóðum og kjarnorkustórveldum. Íslendingar! Höldum góðri vináttu við Bandaríkjamenn, en vísum á brott hinum erlenda her og tökum upp þá einu stefnu, sem Íslandi sæmir, ævarandi hlutleysi í hernaði, því að eins og þjóðskáldið Davíð Stefánsson kvað:

„Svo viti það öll voldug þjóðabákn,

að vopnleysið er Íslands friðartákn.“

Góða nótt.