10.04.1964
Sameinað þing: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (2754)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þessum sérstæðu umr. er nú að ljúka. Fulltrúar þeirra þriggja flokksbrota, sem kommúnistar hafa innlimað í svokallað Alþb., hafa í ræðum sínum hér í kvöld rækilega sannað það, að heilaþvotturinn hefur tekizt svo vel, að ekki mátti á milli sjá, hver þeirra túlkaði dyggilegast hina kommúnistísku utanríkisstefnu. Hætt er þó við, að hinir kommúnistísku húsbændur hv. þm. Ragnars Arnalds hafi brosað kaldhæðnislega, er hann staðhæfði, að skoðanir sínar á utanríkismálum væru óháðar. En annars hefur þessi ungi þm. á sínum stutta þingferli náð ótrúlegum árangri í hávaðasamri ræðumennsku, svo að lærimeistari hans, hv. 3. þm. Reykv., má fara að vara sig.

Framsfl. hefur í þessum umr. verið dyggur þeirri meginstefnu sinni að hafa a.m.k. tvær stefnur í hverju máll. Annars vegar var ábyrgur og heiðarlegur málflutningur varaformanns flokksins, hins vegar öfgafullur og rangfærslukenndur málflutningur talsmanns Tímadeildar flokksins, sem veldur því , að enginn veit, hvaða stefnu flokkurinn raunverulega hefur. Þessi hv. þm. flutti enn einu sinni þá alröngu staðhæfingu, að ríkisstj. ætlaði að leyfa flotastöð í Hvalfirði, jafnvel gaf í skyn kjarnorkukafbátastöð. Hv. þm. veit, að hér er aðeins um olíubirgðastöð að ræða, sem að vísu Olíufélagið á ekki að ráða yfir, svo sem áður var. Það skyldi þó ekki ráða einhverju um afstöðu Framsfl.?

Allt frá stofnun íslenzka lýðveldisins hefur utanríkisstefna þess verið í höfuðatriðum óbreytt, svo sem hún þá þegar var mörkuð undir forustu þáv. utanrrh., fyrst Ólafs Thors og síðan Bjarna Benediktssonar. Þau meginatriði eru vernd og trygging sjálfstæðis þjóðarinnar og efnahagslegs öryggis með aðild að alþjóðlegum samtökum til verndar friði og réttaröryggi og í nánu samstarfi við vestrænar lýðræðisþjóðir, bæði um efnahagssamvinnu og varnir, eftir að hinn alþjóðlegi kommúnismi tók að brjóta með ofbeldi undir sig frjálsar þjóðir hverja af annarri. Þótt einstaka frávik hafi orðið um stundarsakir frá þessari stefnu vegna þess, að sumir flokkar hafa fallið í þá freistni að draga utanríkismálin inn á vettvang innlendrar flokkabaráttu, þá hefur þó reyndin orðið sú, að þegar til úrslita kom, reyndist þessi stefna eiga svo sterkan hljómgrunn hjá þjóðinni, að engin ríkisstjórn frá stríðslokum hefur talið fært að hverfa frá henni, og lýðræðisflokkarnir, þó stundum með brotalöm í Framsfl., hafa staðið að þessari meginstefnu, þótt að vísu Sjálfstfl. einn hafi óhvikull og einhuga aldrei látið stundar öldurót á innlendum vettvangi hrekja sig frá stefnunni.

Kommúnistar og hjálpardeild þeirra í Þjóðvfl., sem nú hefur endanlega verið innbyrt í skútu kommúnistanna, hafa hins vegar aldrei farið dult með andúð sína á utanríkisstefnu þessari. Þar ráða eðlileg sjónarmið manna, sem telja það Íslendingum farsælast að komast í tölu svokallaðra alþýðulýðvelda. Ágreiningur um utanríkismál varð þess valdandi, að nýsköpunarstjórnin rofnaði á sínum tíma, því að af hálfu sjálfstæðismanna hefur aldrei komið til álita að hörfa frá þessari utanríkisstefnu. Það sannar þó kannske skýrast, hversu stefna þessi er raunhæf og Íslendingum nauðsynleg, að enda þótt kommúnistum hefði tekizt að þoka vinstra liðinu Í Framsókn það í austurátt að fá samþykkta yfirlýsinguna um brottför varnarliðsins 1956, þá reyndist sú samþykkt, þegar á reyndi, svo andstæð íslenzkum hagsmunum, að kommúnistar treystu sér ekki til annars en láta það gott heita, að vinstri stjórnin varpaði samþykktinni fyrir borð og sýndi sannarlega ekki minni áhuga á að hagnýta sér hlunnindi vestrænnar efnahagssamvinnu en aðrar ríkisstjórnir. Kommúnistar hafa því í reynd orðið að kaupa aðild sína að ríkisstjórnum því verði að beygja sig undir þessa utanríkisstefnu í meginatriðum.

Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar og það blasir við hverjum sæmilega sjáandi manni, að þessi utanríkisstefna hefur á svo mörgum sviðum sannað kosti sína, að hún stendur nú fastari fótum en oftast áður, þá gegnir það furðu, að þeim Alþb.-mönnum skuli hugkvæmast að biðja Alþ. um að hverfa frá þessari stefnu og slíta tengsl sín og samvinnu við vestrænar vinaþjóðir og meira að segja heimta útvarpsumræðu um þessa undarlegu hugdettu.

Fyrri ræðumenn stjórnarliðsins hafa gert ýtarlega grein fyrir inntaki utanríkisstefnunnar og þróun utanríkismálanna að undanförnu. Í tillögu Alþb.-manna eru tínd upp nokkur almenn atriði, sem allir eru sammála um, svo sem aðild að Sameinuðu þjóðunum, almenn menningarleg og viðskiptaleg samskipti við allar þjóðir, stuðningur við baráttu undirokaðra þjóða, afvopnun og hollusta við sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar. En auk þess eru tvö atriði, sem jafnan hafa verið kommúnistum þyrnir í auga, aðild Íslands að NATO og vestræn efnahagssamvinna.

Viðhorfinu til varnarmálanna hefur hv. 2. þm. Vestf, gert svo góð skil, að þar er engu við að bæta. Síðan þau frægu orð höfuðsmanns vinstri stjórnarinnar voru töluð, að betra væri að vanta brauð en hafa her í landi, hefur lítill þróttur verið í kröfunum um brottför varnarliðsins. Þótt öll vonum við, að eigi aðeins verði hið erlenda varnarlið óþarft hér, heldur einnig, að vígvélar og herbúnaður verði almennt bannfærð, sjá flestir nú orðið, að varnarliðið er engin ógnun við fullveldi landsins, heldur aðeins hlekkur í þeirri keðju vestrænna varnarsamtaka, sem það er að þakka flestu eða öllu fremur, að tekizt hefur að hindra gereyðingarstyrjöld.

Aðild Íslands að vestrænni efnahagssamvinnu á ómetanlegan þátt í eflingu atvinnuvega þjóðarinnar og velmegun hennar. Hér sem annars staðar Í vestrænum löndum reyndu kommúnistar að gera Marshall-samstarfið tortryggilegt og sögðu það tæki Bandaríkjanna til þess að arðræna þessar þjóðir og gera þær sér háðar. Reynslan hefur þegar sannað haldleysi þessara ásakana. Hin risavaxna efnahagsaðstoð Bandaríkjanna við þjóðir Vestur-Evrópu fyrstu árin eftir stríðið lagði grundvöll að ótrúlega skjótri uppbyggingu þessara landa, sem ýmis eru nú veitendur, en ekki þiggjendur í efnahagssamvinnu við Bandaríkin.

Marshall-aðstoðin átti þátt í margvíslegum framförum hér á landi sem annars staðar, og henni fylgdu aldrei nein pólitísk skilyrði. Síðari efnahagsstofnanir Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna hafa á ótal sviðum styrkt íslenzkt efnahagslíf, og stofnanir þessar hafa verið boðnar og búnar til þess að veita mikilvægar leiðbeiningar og tæknilega aðstoð. Mótvirðissjóður hinnar erlendu efnahagsaðstoðar gegnir nú þýðingarmiklu hlutverki í uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega.

Alla tíð hafa kommúnistar verið trúir þeirri kenningu sinni, að öll þessi aðild Íslendinga að vestrænni samvinnu væri þjóðinni fjötur um fót og tefldi sjálfstæði hennar í voða. Dómur reynslunnar er svo ótvíræður á þessu sviði, að kommúnistar eru löngu sjálfir hættir að trúa sínum eigin áróðri. Þess vegna er nú reynt aðbreyta svolítið um aðferð, og samtímis verða þeir Alþb.-menn fyrir því happi, að Framsókn er utan ríkisstjórnar og sem oft áður ekki vönd að meðulum til þess að reyna að klekkja á pólitískum andstæðingum.

Svo sem öllum er minnisstætt, voru efnahagsmálin stjórnarandstæðingum erfið viðfangs Í síðustu þingkosningum. Var því reynt bæði af hálfu Alþb.- manna og framsóknarmanna að gera landhelgismálið og erlent fjármagn að meginefni kosningaáróðursins. Því var haldið blákalt fram, að ríkisstj. ætlaði að veita Bretum áfram veiðiréttindi í íslenzkri landhelgi, hvort sem Bretar vildu eða ekki. Á hinn bóginn var svo staðhæft, að ríkisstj. áformaði að veita erlendu fjármagni hömlulausan aðgang að íslenzkum atvinnuvegum og hagnýtingu auðlinda landsins og fórna raunverulegu sjálfstæði landsins með aðild að efnahagsbandalagi sexveldanna. Niðurstöður nýafstaðinnar landhelgisráðstefnu í London ættu að hafa sannfært alla um það, hvílíkur sigur landhelgissamningurinn við Breta var fyrir Íslendinga. Með þeim samningi var Íslendingum ekki aðeins tryggð 12 mílna landhelgi, heldur miklu meira, sem vinstri stjórnin undir leiðsögn kommúnista í öllu sínu fljótræði og ógætni hafði láðst að gera. Hv. 6. landsk. þm. hefur þegar gert landhelgismálinu rækileg skil. En ég er sannfærður um það, að landhelgissamningurinn á eftir að verða talinn meðal hinna merkilegustu afreka í sögu íslenzkra utanríkismála. Breyta þar engu um rangfærslur hv. 5. þm. Reykv.

Hinn þáttur landráðabrigzlanna var álíka heiðarlegur. Þegar þannig horfði málum, að bæði Bretar, Danir og Norðmenn leituðu eftir aðild að Efnahagsbandalaginu, taldi íslenzka ríkisstj. sér eðlilega skylt að fylgjast sem bezt með þróun þeirra viðræðna og kynna bandalagsríkjunum hin sérstöku vandamál Íslendinga. Við erum flestum þjóðum fremur háð erlendum viðskiptum, og útilokun frá mörkuðum VesturEvrópu hlaut að valda okkur ófyrirsjáanlegum örðugleikum. Það hefði því blátt áfram verið vitaverð vanræksla af íslenzkum stjórnarvöldum að kanna ekki viðhorf bandalagsþjóðanna til vandamála Íslendinga, ef áðurnefndar þjóðir yrðu beinir aðilar að bandalaginu. Það var hins vegar fram tekið æ ofan í æ, að vegna smæðar þjóðarinnar gætum við ekki gengizt undir ákvæði Rómarsamningsins, að leyfa frjálsan flutning fjármagns og vinnuafls til landsins. En viðbrögð bæði kommúnista og Framsóknarforustunnar urðu hér hin sömu og í landhelgismálinu. Stjórnarflokkarnir skyldu þrátt fyrir allar yfirlýsingar vera staðráðnir í því að ofurselja þjóðina erlendum auðhringum.

Efnahagsbandalagsmálið hefur um sinn a.m.k. tekið þá stefnu, að alvarlegustu vandkvæðum okkar í því sambandi hefur verið bægt frá, en þó aðeins að nokkru leyti. Tollamálastefna beggja efnahagsbandalaganna veldur okkur vaxandi erfiðleikum, og af því það er ofarlega í hugum manna nú, má nefna sem dæmi, að ef ekki væri talið víst, að gæði kísilgúrs úr Mývatni gerðu hann verðmeiri en kísilgúr framleiddan í efnahagsbandalagslöndum, hefði hinn sameiginlegi verndartollur þeirra á kísilgúr getað valdið verksmiðjunni hér lítt viðráðanlegum vandræðum. Hér er því vissulega um alvarlegt vandamál að ræða, nema takist víðtæk samvinna um tollamál, svo sem Bandaríkjamenn hafa reynt að vinna að.

Svo sem nýfrjálsum þjóðum með lítt nýttar náttúruauðlindir er eðlilegt, hafa Íslendingar verið hræddir við að leyfa útlendingum aðild að atvinnurekstri hér á landi. Þó höfum við sjaldnast verið hikandi við erlendar lántökur, ekki einu sinni þeir, sem mestan ímugust hafa haft á erlendu fjármagni. Ég þekki engan mann, sem boðar þá kenningu, að við eigum að hleypa erlendu fjármagni almennt eða hömlulaust inn í atvinnuvegi okkar. Hins vegar mun nú fæstum dyljast sú staðreynd, að eigi að virkja íslenzk fallvötn í stórum stíl í þágu stóriðjufyrirtækja, sé hvorugt það framkvæmanlegt nema með atbeina erlends fjármagns í einhverri mynd. Sumir kunna að telja slíkt brölt þarflaust og núverandi atvinnuvegi okkar fullnægjandi. En á það er vert að benda, að skammt er síðan Alþingi mótatkvæðalaust samþykkti ályktun um stórvirkjun í Dettifossi, beinlínis með stóriðju til útflutnings fyrir augum. Þessi ályktun var eftirtektarverð stefnuyfirlýsing, eigi aðeins varðandi virkjun Dettifoss, heldur einnig varðandi viðhorf til erlends fjármagns, því að engum hefur getað dulizt, að stóriðja til hagnýtingar meginhluta orkunnar frá stórvirkjun í Dettifossi var óhugsandi án beinnar aðildar erlends einkafjármagns. Og við höfum enn ljósara dæmi um viðhorfið til erlends einkafjármagns, því að á dögum vinstri stjórnarinnar fól forsrh. hennar trúnaðarmönnum sínum að kanna viðhorf amerískra alúminíumfyrirtækja til byggingar alúmíníumverksmiðju hér á landi. Þótt sú stjórn færi frá völdum, áður en niðurstöður fengjust í málinu, sömdu trúnaðarmennirnir mjög eftirtektarverða skýrslu um þessar athuganir sínar.

Með hliðsjón af þessum atriðum og margvíslegum ummælum forustumanna Framsfl. hlaut það að vekja sérstaka undrun, þegar flokkurinn algerlega söðlaði um rétt fyrir síðustu kosningar, ákærði ríkisstj. fyrir að ætla að ofurselja erlendu einkafjármagni náttúrusuðlindir landsins og taldi þjóðinni lífsnauðsyn að tryggja Framsókn valdaaðstöðu til þess að koma í veg fyrir slík ósköp. — Áhuginn á virkjun Dettifoss til stóriðju gufaði algerlega upp. En af því að kísilgúrverksmiðjumálið var of langt komið, til þess að hyggilegt þætti að snúast gegn því, var bæjarstjórn Húsavíkur látin óska formlega eftir því að fá að sitja fyrir hlutabréfakaupum í væntanlegu fyrirtæki, og mátti þá öllum ljóst vera, að ekki væri þörf erlends fjármagns.

Það skal fram tekið, að margir gegnir framsóknarmenn voru andvígir þessum ósæmilega leik, og nú virðist flokkurinn aftur horfinn að fyrri stefnu Í sambandi við viðhorf til stóriðju og erlends fjármagns, þótt enn reyni vinstri deild flokksins undir forustu formanns hans og Tímans að reyna að ala á tortryggni og reyna að hræða með hættum, sem eiga sér enga stoð í veruleikanum.

Það verður að játa, að kommúnistar hafa alltaf verið sjálfum sér samkvæmir í þessum málum. Þeir hafa talið alla vestræna efnahagsaðstoð illa, þótt allir verði að viðurkenna ómetanlegan þátt hennar í eflingu atvinnuvega þjóðarinnar. Þeir hafa að vísu tekið bandarfskri efnahagsaðstoð fegins hendi í vinstri stjórninni, en þó sem bragðvondu meðall, af því að ekki var kostur á öðru eftirsóknarverðara úr annarri átt. Þeir óskapast því að sjálfsögðu yfir aðild vestræns fjármagns að stóriðju hér á landi og hafa enda gengið svo langt að telja í höfuðmálgagni sínu kísilgúrverksmiðju við Mývatn hinn mesta óvinafögnuð, af því að erlendir aðilar eiga 20% aðild að henni til þess að tryggja sem bezt sölu framleiðslunnar erlendis. Þá hafa þeir látið málgagn sitt á Akureyri halda því fram, að alúminíumverksmiðja við Eyjafjörð mundi eitra allar sveitir Eyjafjarðar og gera þær óbyggilegar. Minna má ekki gagn gera.

Meginstefnan í uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega og viðhorf til hagnýtingar erlends fjármagns í því sambandi er svo mikilvægt hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar, að miklu varðar, að allir þjóðhollir Íslendingar án tillits til annarra stjórnmálaskoðana geti staðið að mótun þeirra r stefnu. Er líka vonandi, að svo verði, þótt Framsfl. hafi fallið fyrir þeirri freistingu í síðustu kosningum að reyna með höfðun til tilfinninga almennings í garð erlends auðvalds að gera merkilegar undirbúningsathuganir stjórnvaldanna tortryggilegar, þótt það kostaði að afneita eigin stefnu.

Sem betur fer, lét þjóðin ekki villa sér sýn, og markvisst hefur verið haldið áfram á þeirri braut að kanna helztu leiðir, er til greina virðast koma að sinni til þess að koma upp nýjum orkuverum og stóriðjufyrirtækjum í því skyni að tryggja sem bezt efnahagslegt öryggi þjóðarinnar. Slík þróun á ekki að verða núverandi atvinnuvegum fjötur um fót, heldur beinlínis verða þeim til styrktar á ýmsa lund, og vissulega hugkvæmist engum hugsandi manni að hagnýta ekki til hlítar þroskamöguleika núverandi atvinnugreina.

Erlent einkafjármagn hefur vissulega reynzt viða þjóðum með vanþróað stjórnarfar hættulegt. En ekki virðist nein frambærileg ástæða fyrir því, að Íslendingar Þurfi að vera í þeim hópi, þótt kommúnistar telji það sjálfsagt. Það er líka reginmisskilningur, að við bæjardyr okkar biði erlendir auðkýfingar með fulla gullpoka til þess að kæfa okkur í gullflóði, ef við drögum loku frá dyrum. Það er engin tilviljun, að frændur okkar Norðmenn fengu sínum heimskunnasta borgara, Tryggve Lie, það sérstaka hlutverk að laða erlent fjármagn til Noregs. En þótt erlent fjármagn liggi þannig áreiðanlega ekki svo á lausu sem margir álíta, verðum við að gæta þess, að það er ekki stórt fyrirtæki á mælikvarða stórþjóða, sem er risavaxið á okkar mælikvarða, og við verðum við uppbyggingu stóriðju að gæta þess að raska ekki jafnvægi í þjóðfélaginu. Sumir kunna að segja, að við eigum að takmarka okkur við erlent lánsfé, en það er síður en svo víst, að miklar erlendar lántökur séu hættuminni en bein aðild erlends einkafjármagns, en þetta verður að kanna í hverju einstöku tilfelli. Meginsjónarmiðið verður að vera það að hagnýta af raunsæi og hyggindum það erlent fjármagn, sem kann að vera í boði hverju sinni, en hafa þó ætíð það meginatriði efst í huga að hafa húsbóndavaldið örugglega í eigin höndum.

Aðild Íslendinga að vestrænni efnahagssamvinnu er þeim svo nauðsynleg, að jafnvel kommúnistar hafa neyðzt til að viðurkenna Þá staðreynd í verki í vinstri stjórninni. Með ráðagerðunum um stóriðju, sem nú er unnið markvisst að og kísilgúrverksmiðjan við Mývatn er fyrsti áfanginn, er verið að marka stefnuna um hagnýtingu erlends fjármagns, þar sem það hentar, til uppbyggingar fjölþættara atvinnulífi í landinu. Um mótun þeirrar stefnu næst vonandi samstaða allra annarra en kommúnista, sem enn hafa með flutningi þáltill. sinnar sannað ótvirætt, að þeir geta ekki átt samleið með öðrum Íslendingum um mótun utanríkisstefnu þjóðarinnar.

Fátt er meiri prófsteinn á hæfileika þjóðar til sjálfstæðis en meðferð utanríkismála hennar. Þau mál mega því sízt af öllu verða bitbein í innanlandsátökum þeirra flokka, sem í meginefnum geta þar átt samstöðu. Kommúnistar hafa í engu frjálsu landi getað átt samstöðu með öðrum flokkum um mótun utanríkisstefnu. Kommúnistar hafa að vísu í öllum þessum löndum þótzt vera allra manna þjóðlegastir og þjóðhollastir, en hvarvetna, þar sem þeir hafa fengið völdin í sínar hendur, hefur þjónustan við forustuland heimskommúnismans orðið allsráðandi, þótt vandinn verði að vísu meiri, eftir að forustulöndin eru orðin tvö. Þáltill. þeirra Alþb.-manna er á yfirborðinu mörkuð af sömu þjóðhollustustaðhæfingunum. En hver trúir því, að tilgangurinn sé ekki hér sá sami og meðal skoðanabræðranna í öllum vestrænum löndum, enda sannar till. það sjálf, þegar hún er skoðuð niður í kjölinn?

Íslenzk utanríkisstefna er í dag fastmótuð. Reynslan hefur staðfest, að Þessi stefna er í beztu samræmi við hagsmuni þjóðarinnar. Íslenzka þjóðin mun aldrei lúta leiðsögn kommúnista og fylgisveina þeirra í utanríkismálum. Þáltill. þeirra er að megintilgangi í ósamræmi við sjálfstæðis- og frelsishugsjónir íslenzku þjóðarinnar, og því mun Alþingi fella hana. —Góða nótt.