15.04.1964
Sameinað þing: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (2761)

179. mál, utanríkisstefna íslenska lýðveldisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hlýt að vekja athygli hæstv. forseta á því , að hér hafa farið fram alger þingsafglöp. Á þennan hátt er vitanlega ekki hægt að bera upp hvorki þetta mál né önnur í þinginu og hefur aldrei verið gert hér áður. Ef forseti léti hér staðar numið við atkvgr. um málið, jafngilti það því, að hér hefði engin atkvgr. farið fram um þá till., sem fyrir liggur. Ég hlýt því að gera kröfu til þess, að forseti láti hér fara fram atkvgr. um till. á þinglegan hátt, eins og þingsköp segja til um, en slíta ekki út úr á þennan hátt aðeins formála, sem er fyrir hverjum einstökum lið. Þetta væri svipað því, að forseti tæki í frv. aðeins fyrstu setninguna Í 1. mgr. og bæri þá setningu upp. Slíkt hefur vitanlega aldrei þekkzt. Hér á vitanlega að bera upp þessa till., og ég geri hiklausa kröfu um það, að samkv. þingsköpum verði till. borin upp. Hins vegar er það margföld venja hér, að einstakir töluliðir eða heilar málsgr. séu bornar upp út af fyrir sig í till., og það gefur auðvitað alveg auga leið, að það er ekki hægt að bera upp þennan fyrri hluta, þar sem stendur: „Alþingi ályktar að lýsa yfir því , að þessi eru grundvallaratriði íslenzkrar utanríkisstefnu“, og síðan kemur ekkert meira. Þetta er alveg óframkvæmanlegt. Ég óska eftir því, að hæstv. forseti endurtaki nú atkvgr. og fari hér rétt að, að till. verði borin upp þannig, að hver einstakur töluliður verði borinn upp út af fyrir sig, því að ella, ef forseti héldi við það, sem gert hefur verið, hefur verið komið í veg fyrir það, að atkvgr. færi hér fram um till., sem flutt er. Og það er út af fyrir sig sérstakt mál hér á þingi.