04.11.1963
Efri deild: 9. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (2765)

40. mál, rannsóknarnefnd til rannsóknar á verðbréfa- og víxlakaupum

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. í 39. gr. stjórnarskrárinnar er ákvæði þess efnis, að hvor deild Alþingis um sig geti, þegar ástæða þykir til, skipað nefnd þdm., nefnd með allvíðtæku valdi, til að rannsaka tiltekin mál. Er síðan ráð fyrir því gert, að slik rannsóknarnefnd geri deildinni grein fyrir störfum sínum og niðurstöðum. Ekki mun mikið hafa að því kveðið, að hv. Alþingi skipaði slíkar nefndir. Þó hefur það verið gert og orðið til þess, að aukin vitneskja fékkst um mál, sem nauðsyn bar til að þing og þjóð gerðu sér sem ljósasta grein fyrir. Sérstök ástæða virðist til skipunar slíkrar rannsóknarnefndar, þegar tilefni þykir til að kanna, hvort fram hafi farið eða fram fari einhver sú starfsemi á sviði viðskipta, sem teljast verður óeðlileg og varhugaverð, enda þótt hún brjóti e.t.v. ekki í bága við gildandi lög og verði því tæplega heft eða stöðvuð fyrir atbeina dómstóla. Vissulega getur löggjafinn haft fulla ástæðu til að rannsaka viðskiptahætti af slíkum toga, m.a. til að gera sér grein fyrir því, hvort þörf sé annars tveggja, strangara eftirlits eða nýrrar og fyllri lagasetningar til þess að hefta þess háttar starfsemi.

Nú um tveggja mánaða skeið hafa orðið allmikil blaðaskrif um verðbréfa- og víxlakaup, sem vakið hafa athygli alþjóðar. Bornar hafa verið fram ásakanir og lagðar fram kærur, sem eru þess eðlis, ef sannar reynast, að full ástæða er til, að könnuð verði til nokkurrar hlítar verðbréfa- og víxlakaup opinberra lánastofnana almennt, hvaða meginreglur gilda þar um, hvort þeim hafi verið fylgt eða út af þeim brugðið í alvarlegum atriðum. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi flestir eða allir fylgzt nokkuð með þeim umr., sem orðið hafa Í blöðum um fyrrgreind víxlakaup, og ég skal því ekki fjölyrða mjög um þau.

Upphafið var það, að seint í ágústmánuði s.l. kærði verkamaður hér í bæ verðbréfasala, sem jafnframt er lögfræðingur, fyrir meinta féflettingu. Fyrir 2'/z ári kvaðst verkamaður þessi, sem átti í fjárhagsörðugleikum vegna íbúðarkaupa, hafa neyðzt til að taka lán gegn víxli hjá lögfræðingnum að upphæð 150 þús. kr. og hefði lögfræðingurinn tekið 65 þús. kr. í afföll. Fullyrt er og enda sannað, að ég hygg, að víxill sá, sem hér um ræðir, var þá samstundis seldur einum ríkisbankanum affallalaust. Síðan hefur verið í blöðum skýrt frá dæmum um víxla- og verðbréfasölu, sem talin er svipaðs eðlis, og eins og oft vill verða, þegar slík mál koma upp, án þess að orðrómi sé hnekkt með sönnunargögnum eða viðtæk rannsókn látin fara fram án tafar, hafa komizt á kreik tilgátur um það, að viðskiptahættir af þessu tagi kynnu að hafa tíðkazt í allstórum stíl. Ekkert annað en gagnger rannsókn fær úr því skorið, hvort slíkar tilgátur eru á rökum reistar eða úr lausu lofti gripnar. Hér er um mál að ræða, sem svo mjög snertir almennt viðskiptasiðgæði, að nauðsyn ber til, að sannleikurinn komi í ljós. Hvað sem lagastafurinn kann að segja, þá er það víst, að siðgæðisvitund manna dæmir þann verknað, sem í því fælist, ef opinberar lánastofnanir reyndust sannar að því að gera verðbréfabröskurum auðveldan þann leik að taka stór afföll af fé, sem væri ekki áhættufé þeirra sjálfra, heldur fé bankans, sparifé almennings. Reynist hins vegar svo, að hér sé málum blandað og um rangar sakargiftir að ræða, er nauðsynlegt og sjálfsagt, að þeim, sem fyrir sökum eru hafðir, gefist fyllsti kostur á að hreinsa sig af slíkum áburði.

Till. sú um skipun nefndar til að rannsaka verðbréfa- og víxlakaup lánastofnana, sem ég og hv. 4. þm. Norðurl. e. flytjum á þskj. 40, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Efri deild Alþingis ályktar að skipa 4 manna nefnd, eins frá hverjum þingflokki, innandeildarmanna samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að rannsaka:

1) hvort brögð séu að því, að bankar og aðrar lánastofnanir hafi á undanförnum árum átt einhver þau skipti við verðbréfa- og víxlasala, sem samrýmast ekki eðlilegum viðskiptareglum;

2) hvort eðlilegum viðskiptareglum sé almennt fylgt um kaup og sölu verðbréfa;

3) hvort á kunni að skorta fullnægjandi löggjöf um verðbréfasölu og eftirlit með henni. Nefndinni heimilast að ráða í þjónustu sína sérfróðan mann um banka- og viðskiptamál, er vinni með henni að rannsókninni.

N, skal hafa það vald, sem heimilað er í 39. gr. stjórnarskrárinnar, til þess að heimta skýrslur af embættismönnum og öðrum.

N. skal að rannsókn lokinni gefa deildinni ýtarlega skýrslu um störf sín og niðurstöður.“ Till. þessi er, eins og fyrr segir, einkum fram komin vegna blaðaskrifa og málaferla, sem orðið hafa um víxla- og verðbréfakaup nú að undanförnu. Eins og kunnugt er, hefur vikublaðið Frjáls þjóð birt margar greinar um þessi efni, þar sem fram hafa komið ófá atriði, sem alþjóðar athygli hafa vakið og þurfa vissulega allra hluta vegna að upplýsast til fulls. Og þó að ekki verði sagt, að önnur blöð hafi birt ýkja mikið um þessi mál, sum enda þagað þunnu hljóði, þá hafa nokkur þeirra tekið eindregið undir þá kröfu, að hið rétta verði leitt í ljós. Þannig segir dagblaðið Tíminn hinn 29. sept. s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Í vikublaðinu Frjálsri þjóð, sem birti kæru Ágústar Sigurðssonar, hafa auk þess verið að birtast fregnir af öðrum hliðstæðum málum, sem ekki hafa verið kærð eða tekin til rannsóknar. Sumar þessar greinar blaðsins hafa verið í viðtalsformi við nafngreinda menn. . . . Í viðtölum við þessa menn og fleiri kemur fram, að þeir gera ráð fyrir að þurfa að mæta fyrir rétti út af máli Ágústar og öðrum hliðstæðum. Jafnvel virðist vikublaðið Frjáls þjóð hafa samband við menn, er bjóðist sem vitni til að gefa upplýsingar, bæði í sambandi við hið kærða mál og önnur, sem hefur verið skrifað um. Verður að fara fram ýtarleg rannsókn í kærumáli Ágústar og öðrum hliðstæðum málum. . . Það er eins nauðsynlegt að upplýsa, hverjir eru hafðir fyrir rangri sök, eins og hitt, hverjir eru sekir.“

Hinn 28. sept. ritaði Alþýðublaðið leiðara um þessi mál og sagði þá, með leyfi hæstv. forseta: „Grófust og andstyggilegust eru talin þau afbrot, er menn kaupa víxla með miklum afföllum og selja síðan fullu verði í opinberum peningastofnunum. Undanfarnar vikur hafa blaðaskrif og málaferli valdið miklum umræðum almennings um þessi mál. Einstakt atvik hefur verið kært til dómstóla, og var Búnaðarbankinn nefndur í því sambandi. Bankastjórar hans hafa lýst óskum sínum um fullkomna rannsókn á því máli og hvers konar misferli. Þjóðin er sammála þeim. Þessi mál verður að upplýsa, og í framtíðinni verður að fyrirbyggja alla misnotkun á aðstöðu í peningaviðskiptum. Þetta er eitt þeirra mála, þar sem tiltrú alþýðunnar á stofnunum og valdakerfi þjóðfélagsins er í veði:

Þessi afdráttarlausu orð voru ummæli Alþýðublaðsins. Enginn vafi leikur á, að menn taka almennt undir þá kröfu, að þessi mái verði upplýst.

Fleiri mál í sambandi við starfshætti lánastofnana hafa verið og eru á dagskrá, vekja undrun almennings og renna stoðum undir þá till. um rannsóknarnefnd, sem hér er fram borin. Menn spyrja: Hvernig gat það skeð, að á þeim tímum, þegar bankar draga verulega úr lánastarfsemi, skuli lítt þekktur forstöðumaður ekki ýkja merkilegrar vínstofu í Reykjavík koma með fullar hendur lánsfjár úr hverri peningastofnuninni á fætur annarri, ekki einungis hér í höfuðstaðnum, heldur allt austan af Fljótsdalshéraði? E.t.v. þætti þeim fróðlegt að vita, bændunum þar eystra, eftir hvaða reglum er farið við lánveitingar úr bankaútibúinu þeirra. Þar stofnaði Búnaðarbankinn útibú fyrir nokkrum árum, og þótti það góð og skynsamleg ráðstöfun, þar kæmi þá saman innlánsfé fólks úr nærliggjandi byggðum, sem gæti síðan orðið atvinnu- og menningarlífi austur þar til eflingar og örvunar. Nú dreg ég ekki í efa, að útibú þetta hafi þegar komið Austfirðingum að góðum notum og eigi þó eftir að gera betur. En vissulega hrökkva menn við, þegar vínsali úr Reykjavík, sem reynist hreinn ævintýramaður, er handtekinn og yfirheyrður og upp úr kafinu kemur, að hann hefur getað labbað inn í bankaútibú austur á landi og fengið þar að láni hálfa þriðju millj. kr., ekki til búnaðarframkvæmda austur á Héraði, heldur í umboði einhvers nýstofnaðs skipafélags hér í höfuðstaðnum. Og reynist það rétt, sem fullyrt er, að umrætt skipafélag hafi með engu móti getað fengið lán þetta á eigin nafni, heldur hafi veitingamanninum reykvíska verið betur trúað og honum veitt lánið, þá fer sú spurning að verða næsta áleitin, hvort hér hafi verið fylgt eðlilegum viðskiptareglum útibúsins. Vissulega er ástæða til, að athuguð sé bankastarfsemi af þessu tagi og leitazt við að fá fullnægjandi skýringar á henni.

Þar sem nafn Búnaðarbankans og útibús hans á Egilsstöðum hefur verið nefnt hér sérstaklega, þykir mér rétt að leggja á það áherzlu, til að koma í veg fyrir misskilning, að till. sú, sem hér er flutt, fjallar um rannsókn verðbréfa og víxlakaupa opinberra lánastofnana almennt, ef með því fengist nokkurt yfirlit um það, hvernig þeirri starfsemi hefur verið og er hagað. Það er óþarft að fara um það mörgum orðum, hve nauðsynlegt er, að almenningur geti borið sem fyllst traust til opinberra lánastofnana. Ég á þá ekki einungis við, að þeim sé treyst sem vel stæðum og fjárhagslega öruggum fyrirtækjum, heldur engu siður hitt, að þær njóti álits og verðskuldi það fyrir réttláta lánastarfsemi í hvívetna. Það er sá hornsteinn, sem rekstur þeirra hlýtur að byggjast á.

Þó að ég hafi einkum rætt hér um opinbera banka og aðrar lánastofnanir, vil ég einnig leggja áherzlu á nauðsyn þess, að fyrirhuguð rannsókn beinist jafnframt, eftir því sem tök eru á, að fyrirkomulagi verðbréfasölu Í landinu almennt. Við flm. till. teljum líklegt, að á því sviði sé verulegra breytinga þörf. Sú mun reynsla allra þjóða, sem búa lengi við stöðuga og mikla verðþenslu og lánsfjárskort, að kaup og sala verðbréfa reynist þar nokkurt vandamál. Hafa og flestar þjóðir, þar sem auðmagnið er fyrst og fremst í höndum einstaklinga og fyrirtækja, sett allviðtæka löggjöf um verðbréfasölu, komið henni í fast kerfi og tekið upp eftirlit með henni. Jafnvel í þeim löndum, þar sem verðbréfamarkaður mun hvað frjálsastur, er hann háður einhvers konar opinberu eftirliti. Í Bandaríkjunum, þar sem frelsi auðmagnsins er mikið, eins og menn vita, hefur ekki þótt annað gerlegt en að koma á eftirliti með verðbréfamarkaði. Slíkt eftirlit var, að því er mér er tjáð, lítið sem ekkert í Bandaríkjunum þar til eftir verðhrunið mikla við upphaf heimskreppunnar árið 1929. Síðan hefur Bandaríkjaþing öðru hvoru skipað rannsóknarnefndir, sem fengið hafa viðtækt vald til að kanna verðbréfamarkaðinn og gera tillögur um endurbætur. Nefndir þessar hafa oftar en einu sinni flett ofan af stórfelldu og þjóðhættulegu fjármálabraski þar í landi og átt mikinn þátt í að kippa ýmsu í liðinn, sem aflaga hefur farið. Ein slík rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings skilaði áliti í septembermánuði s.l. eftir margra mánaða störf. Í fréttum um skýrslu hennar segir, að í þetta sinn hafi ekki verið um að ræða afhjúpanir neinna stórfelldra fjármálahneyksla, en þó bent á sitthvað varhugavert og bornar fram tillögur um eitt og annað, sem betur þótti mega fara, og á það var lögð rík áherzla í þessari frétt, að einmitt rannsóknarnefndir þær, sem þingið hefur skipað öðru hvoru, nefndir, sem peningafurstarnir eiga yfir höfði sér og oft eru settar á laggirnar án nokkurs fyrirvara, hafi átt geysimikinn þátt í því að takmarka eða hindra óeðlilegt verðbréfabrask og hættulegar sveiflur á verðbréfamarkaði Bandarfkjanna. Í nágrannalöndum okkar flestum eða öllum hafa lengi gilt ströng lög og reglur um verðbréfasölu. Eru þar að staðaldri undir eftirliti haldin kaupþing, þar sem verðbréf ganga kaupum og sölum og eru skráð til verðs. Er það að sjálfsögðu mikilvægt fyrir einstaklinga og þjóðfélagið í heild, að verðbréf séu keypt og seld á sannvirði, þ.e. því verði, sem ákvarðast af framboði og eftirspurn. Hafa opinberar lánastofnanir Í þessu efni mikilvægu hlutverki að gegna og geta að sjálfsögðu, ekki sízt hér á landi, ráðið miklu um verðbréfagildi.

Hér á hv. Alþingi hafa nokkrum sinnum verið flutt frv. til I. um kaupþing. Ekki náðu þau fram að ganga, þar til heimildarákvæði um slíkan verðbréfamarkað voru sett inn í löggjöfina um Seðlabankann árið 1960. Þessi heimildarlög hafa ekki verið notuð enn þá, hvað sem veldur. Vel kynni svo að fara, að rækileg rannsókn á íslenzkum verðbréfa- og víxlamarkaði leiddi í ljós, að ástæða þætti til að koma hér á laggirnar kaupþingi, annað tveggja á grundvelli áður nefndrar heimildarlöggjafar eða með nýrri lagasetningu, ef annað form þætti betur henta. Um þetta skal ég ekkert fullyrða, en ástæða virðist til, að það verði rækilega kannað.

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er ráð fyrir því gert, að rannsóknarnefndin fái heimild til, meðan hún gegnir störfum, að ráða í þjónustu sína sérfróðan mann um viðskipta- og bankamál, er starfi á vegum hennar að hinni fyrirhuguðu rannsókn. Þetta teljum við flutningsmenn eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt, ef verulegur árangur á að nást.

Ég tel óþarft að fara um till. fleiri orðum á þessu stigi málsins. Ég legg til, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. allshn.