20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

1. mál, fjárlög 1964

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við 2. umr. um frv. til fjárlaga bar ég fram 5 till. til breyt. á þessu frv. og fóru 4 þessar till. til atkv. Það fór þannig, að allar voru þær felldar. En eina dró ég til baka til 3. umr. vegna sérstakra tilmæla. Af þessum 4 till., sem voru felldar, hefur þó ein náð fram að ganga, með því að fjvn. hefur fallist á að taka inn á fjárl. framlag til sjúkrahússins á Sauðárkróki vegna skemmda af völdum jarðskjálfta. Ég hafði lagt til, að veittar yrðu 100 þús. kr., en í till. fjvn. er lagt til, að ríkisstj. sé heimilt að greiða allan kostnað, og er ég auðvitað stóránægður með þá lausn málsins.

Till., sem ég dró til baka, var till. um 400 þús. kr. framlag til viðbótarbyggingar á skólahúsi á Blönduósi. Eftir að till. hafði verið dregin til baka, rituðu allir þm. Norðurl. v. fjvn. bréf og skoruðu á hana að taka til greina þá beiðni, að veittar yrðu 200 þús. kr. til þessarar skólabyggingar. Fjvn. hefur ekki séð sér fært að verða við þessum tilmælum, og sé ég þá fulla ástæðu til þess að endurflytja tillöguna í því formi, sem hún upprunalega var, þ.e.a.s. miðað við 400 þús. kr. framlag. En fari svo, að hún verði felld, vil ég taka það fram, að ég mun að sjálfsögðu styðja till. hv. þm. Framsfl. úr Norðurl. v., sem leggja til, að veittar verði 200 þús. kr. til þessa verks.

Auk þessarar endurfluttu till. minnar, vil ég leyfa mér að flytja hér till., sem ekki hefur komið fram áður og ekki verið prentuð eða verið útbýtt enn þá. Vildi ég vænta þess, að leitað verði afbrigða um að bera hana hér fram. Þessi brtt. er við 14. gr. B. 13. lið, þar sem segir: „Til leiklistarstarfsemi 660 þús.“ Ég vil flytja hér till. um, að liðurinn orðist svo: Til leiklistarstarfsemi 1 millj. kr., þar af til leikhúsa og leikflokka, er frumflytja ný íslenzk leikhúsverk, eigi minna en 250 þús. kr. — Leikritahöfundar íslenzkir hafa þá sérstöðu meðal listamanna og rithöfunda landsins, að þeir eiga mjög erfitt með að koma verkum sínum á framfæri með þjóðinni. Þessu veldur að sjálfsögðu fyrst og fremst sú staðreynd, að það er dýrara að koma slíkum listaverkum fyrir almenningssjónir en þegar um verk annarra listamanna er að ræða. Við þekkjum, hvernig listamennirnir fara að. Málarinn heldur sýningu á verkum sínum, rithöfundurinn getur gefið út skáldsögu sína, söngvarinn heldur konsert og ljóðskáldið gefur út ljóðabók, og þannig mætti lengi telja. Allt þetta kostar að vísu nokkurt fé í hverju tilfelli, en þó er það framkvæmanlegt og ekki svo mjög kostnaðarsamt. En allt öðru máli gegnir um þau verk, sem leikritahöfundurinn semur. Hann er miklu verr á vegi staddur. Öllum ber saman um, að það hefur mjög takmarkað gildi að gefa út leikrit á prenti, og uppfærsla á leik er mjög dýr, eins og allir vita. En á hinn bóginn er það almennt álit manna, að það verði að færa leikinn á svið, ef vel á að vera. Höfundurinn verður að fá tækifæri til að sjá leikinn færðan í þann búning, sem hæfir honum, og þeim, sem til þessa máls þekkja bezt, ber saman um, að verulegur eða töluverður hluti af sköpun eins leikverks fari einmitt fram á sjálfu sviðinu. Einnig mun mönnum bera saman um, sem til þessa máls þekkja, að í seinni tíð hefur verið sorglega lítil viðleitni af hálfu íslenzkra leikhúsa til að gefa ungum leikritahöfundum tækifæri til þess að sjá verk sín sett á svið og furðulítið um það, að ný íslenzk leikhúsverk væru frumflutt. Nú er vitað, að fjöldamargir ungir höfundar hafa samið mörg leikrit og leikhúsverk, en flestir þessara manna hafa aldrei fengið uppfært eitt einasta verk eftir sig. Ástæðan er auðvitað sú, að leikhúsin telja það of áhættusamt og of dýrt að flytja óþekkt íslenzk verk, — þau telja, að engin trygging sé fyrir því, að aðsókn verði mikil og að aðgangseyrir muni greiða þann kostnað, sem af uppfærslunni leiðir. Oft hefur það verið þannig hér á landi, að aðeins eitt verk eða jafnvel ekkert íslenzkt leikhúsverk hefur verið frumflutt á ári, og á seinasta leikári hefur þó verið óvenjugott í þessu efni. Það hafa verið flutt, að ég held, tvö leikrit, eitt í Þjóðleikhúsinu og annað hjá Leikfélagi Reykjavíkur. En þetta eru þó aðeins tvö ný íslenzk leikrit, sem hafa komizt á svið. Leikhússtjórar hafa verið að boða fyrir þennan vetur, hvað þeir hygðust sýna almenningi, og mér er ekki kunnugt um, að boðuð sé ein einasta ný íslenzk sýning eða frumflutningur á neinu nýju verki hér á landi í vetur. Það er því augljóst, að í þessu efni verður að verða gerbreyting og ríkisvald, sem vill hlúa að menningu landsins, verður að koma þarna til skjalanna og hjálpa til, í brtt. minni hef ég lagt til, að heildarfjárhæð til leikstarfsemi hækki um samanlagt 340 þús., þ.e.a.s. úr 660 þús. í 1 millj., og þar af fái þau leikhús og leikflokkar, sem taka það ágæta hlutverk að sér að frumflytja ný íslenzk leikhúsverk, að minnsta kosti 250 þús. kr. til styrktar slíkri starfsemi.

Ég vona að lokum, að hv. Alþingi skilji þá erfiðleika, sem íslenzk leikritun á við að glíma, og þá sérstöðu, sem hún hefur í íslenzku menningarlífi.