09.05.1964
Sameinað þing: 75. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

49. mál, æskulýðsmálaráðstefna

Frsm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Till. til þál., sem útbýtt hefur verið á þskj. 50, fjallar um það, að Alþingi feli ríkisstj. að kveðja til ráðstefnu, sem hafi það að verkefni að taka til rækilegrar athugunar hin margþættu vandamál í sambandi við skemmtanir, félagslíf og tómstundir æskufólks og gera till. til úrbóta. Í till. er gert ráð fyrir því, að saman yrði kölluð 25 manna ráðstefna, þar sem sæti ættu helztu æskulýðsleiðtogar og fulltrúar stjórnmálaflokkanna auk fulltrúa kvenfélagasambands og nokkurra fleiri aðila.

Tilefni þessarar þáltill., sem flutt var snemma hér á þessu Þingi, á fyrstu dögum þess, mun hafa verið ekki hvað sízt útvarpserindi, sem Snorri Sigfússon fyrrv. námsstjóri flutti þá, þar sem hann hvatti mjög til þess, að slíkt ráð yrði reynt til þess að bæta nokkuð ástandið í þessum þýðingarmiklu málum. Hér var um það að ræða að reyna að koma á fót aukinni æskulýðsstarfsemi til þess að hafa holl áhrif á tómstundalíf unglinga, og hygg ég, að allir muni sammála um, að þess sé engin vanþörf í því nokkuð rótlausa þjóðfélagi, sem við nú lifum í.

Eftir að þessi till. kom fram hér á hv. Alþingi, eða nánar tiltekið 20. des. s.l. skipaði hæstv. menntmrh. nefnd 10 manna, forustumanna á sviði uppeldis- og kennslumála, til þess að semja frv. til l. um æskulýðsmál. Í þessu frv. átti sérstaklega að taka til athugunar ákvæði um skipulagðan stuðning hins opinbera við æskulýðsstarfsemi, sem ætti hvað helzt að miða að því að veita æskufólki þroskandi viðfangsefni i tómstundum. Hér hefur því nokkuð verið komið til móts við þann anda, sem í till. þessari felst, og vil ég leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir þessari nefndarstofnun.

Með hliðsjón af því, sem gerzt hefur í málinu, síðan till. var borin fram, hefur allshn. sameinaðs Alþingis orðið sammála um að vísa þessari þáltill. til ríkisstj., og mér er kunnugt um það, að flm. till. eru þessari afgreiðslu samþykkir, enda verði á það treyst, að 10 manna n. taki það til athugunar í sambandi við lausn verkefnis síns að kalla saman æskulýðsmálaráðstefnu á svipuðum grundvelli og þessi þáltill. gerir ráð fyrir. Þess vegna er það till. allshn., að till. til þál. á þskj. 50 verði vísað til hæstv. ríkisstj.