20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

1. mál, fjárlög 1964

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það gladdi mig stórum að heyra ræðu hæstv. fjmrh. hér í dag. Ég var farinn að búast við því, að fjárlög yrðu afgreidd héðan frá hv. Alþingi, án þess að rödd hæstv. ráðh. heyrðist, nema þegar hann lagði þau fyrir. Og um ræðuna mátti með sanni segja, að það, sem við höfðum sagt, fulltrúar Framsfl., í nál. og í framsöguræðu minni, það hefði sannarlega hitt hæstv. ráðh., því að það var auðfundið á hæstv. ráðh., að þar mátti til sanns vegar færa. „að sannleikanum verður hver sárreiðastur“. Út af því er ekki nema gott að segja, að hæstv. ráðh. finnur þó til þess, að svo margt hefur mistekizt í hans fjmrh.-tíð sem við bentum á og meira þó.

Í sambandi við það atriði, sem hann vék fyrst að við fjárlagaafgreiðsluna, vil ég endurtaka það, að fjárlög þurfa að afgreiðast fyrir áramót, til þess að þau taki yfir allt það tímabil, sem þau eiga að gilda. En m.a. til þess að það sé hægt, þarf að leggja hart að sér um vinnubrögð hér á hv. Alþingi, og það er ekki nægjanlegt, að ríkisstj. og stjórnarsinnar séu þar einir að verki, heldur verður stjórnarandstaðan að taka þátt í því.

Núv. stjórnarandstaða hefur tekið þátt í vinnubrögðum fjvn. alveg af fullu kappi og ekki hirt um það, þótt á hæstv. ráðh. hafi staðið og það hafi orðið að fresta fundi eftir fund til þess að bíða eftir því, sem hjá ráðh. var. Og það er ekki til þess að flýta fyrir vinnubrögðum, að hæstv. ráðh. skuli geyma sér að halda slíka ræðu sem hann flutti hér áðan, þangað til við 3. umr. málsins, sem haldin er á föstudegi og þegar jól eru strax upp úr helgi. Hæstv. ráðh. hefði vel getað komið fram með þessa ádrepu við 2. umr., sem eðlilegt var, því að þá var rýmri tími til umr. heldur en er nú. Þessi vinnubrögð hæstv. ráðh. gætu vel leitt til þess, að tafir yrðu á fjárlagaafgreiðslu, þótt það verði ekki beitt hefndarráðstöfunum núna.

Hæstv. ráðh. talaði hér um blygðunarlausa ræðumennsku og svikastarfsemi, og önnur slík orð viðhafði hæstv. ráðh. Ég man ekki eftir því, að mikið sé af slíkum orðum í þeirri ræðu, sem ég flutti hér við 2. umr. fjárl. Hæstv. ráðh. hefur þó haft nokkra daga til þess að sitja yfir þessari ræðu sinni og ekki tekizt að haga orðum sínum betur en svo, að hann þyrfti að grípa til slíks orðbragðs. Hins vegar varð hæstv. ráðh. á slysni, þegar hann fór að gera samanburð í upphafi sinnar ræðu. Samanburðurinn, sem hæstv. ráðh. gerði, var á ríkisreikningi fyrir árið 1958 og fjárlagafrv., sem hér er til meðferðar, fyrir árið 1964. Sá samanburður, sem við höfum gert, er á fjárl. hvers árs, en ekki annars vegar á fjárlfrv. og ríkisreikningi. Ef við tækjum fjárlögin 1962 og ríkisreikninginn 1962, hvernig verður sá samanburður? Fjárl. gerðu ráð fyrir niðurstöðutölum 1752 millj., en ríkisreikningurinn sýndi 2 milljarða 50 millj. eða var 300 millj. kr. hærri en fjárlögin 1962. Þetta á að vera sýnishorn hæstv. ráðh. um skikkanleg vinnubrögð við samanburð á fjárlögum einstakra ára, annars vegar að bera saman ríkisreikning og hins vegar fjárlagafrv. Okkar samanburður hefur verið sá, eins og ég sagði áðan, að bera saman fjárlög þessara ára og gera þann samanburð hliðstæðan.

Hæstv. ráðh. vék að því, að Framsfl. hefði viljað leggja á meiri álögur í sambandi við efnahagsmál. Hér held ég, að hæstv. ráðh. misminni eitthvað. Framsfl. hefur lýst því yfir, að hann vildi fara leiðina út úr uppbótakerfinu í áföngum. Það var skýrt hér, þegar efnahagsmálafrv. ríkisstj. var til meðferðar á hv. Alþingi 1960. Og einn af samráðh, hæstv. ráðh., hæstv. viðskmrh., hélt því fram, að Framsfl. hefði viljað gera gengisfall í vinstri stjórninni. Svo kemur hæstv. fjmrh. og segir: Framsókn vill alltaf meiri skatta, en ekki leiðina, sem við völdum. — Samt hefur allur þeirra samanburður á gengisbreytingunni 1960 verið miðaður við það, að yfirfærslugjaldið hafi jafngilt gengisbreytingu.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að samanburður okkar á fjárl. 1958 og fjárl. nú væri ekki réttur vegna starfsemi útflutningssjóðs. Ég mun hafa tekið það fram hér á hv. Alþingi áður, en verð að gera það einu sinni enn þá og mér þykir það leitt, ef sá starfsmaður stjórnarráðsins, sem afgreiddi út til þjóðarinnar bókina „Viðreisn“, hefur skilið hæstv. fjmrh. eftir, þegar bókin var send út. En á 31. síðu þessarar ágætu bókar, neðst á síðunni, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hrein útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna afnáms útflutningssjóðs nemur 113 millj. kr., þ.e. vegna niðurgreiðslnanna.“

Þetta treysti ég nú hæstv. fjmrh. til þess að muna eftirleiðis og vera ekki enn þá einu sinni að rugla með það, að útflutningssjóður hafi haft meiri áhrif á stöðu ríkissjóðs en þetta. Þetta á hæstv. ráðh. að vita, jafnvel þótt hann hefði orðið út undan, þegar hann lét útbreiða þessa bók. Hér er því um algerlega hliðstæðan samanburð að ræða á fjárl. og áður hefur verið.

Hæstv. ráðh. spurði um það, hvað við vildum lækka í fjárl., og kem ég að þeim þætti síðar. En ég vil minna hæstv. ráðh. á það. að ég lýsti því yfir í framsöguræðu minni við 2. umr. fjárlagafrv., að stefna ríkisstj. leiddi til þess, hvað fjárl. væru há, og það væri ekki nóg með það, að ríkisstj. tæki af þjóðinni í álögum það, sem þyrfti til þess að mæta útgjöldunum, heldur tæki hún 200–300 millj. meira, eins og gerðist 1962 og mun gerast á þessu ári, heldur en hún þurfti vegna útgjaldanna og að þessi álögustefna hæstv. ríkisstj. hefði leitt til þess, að fjárlög verða að vera svo há sem raun ber vitni um. Þetta vil ég minna hæstv. fjmrh. á, að það er þetta, sem er þungamiðjan, þetta er undirstöðuatriðið undir því, hvers vegna fjárlög eru svo há sem raun ber vitni um.

Ég benti einnig á það, að fjárlög hvers tíma væru spegilmyndin af stjórnarstefnunni, sem ríkti, og það, sem einkenndi þessi fjárlög, væri aukinn rekstrarkostnaður, hlutfallslega minna til uppbyggingar í landinu, aukin útfærsla ríkisbáknsins, fleiri krónur í skattheimtu, vaxandi dýrtíð, hærri fjárlög. Þetta væri í fullu samræmi við stefnu núv. hæstv. ríkisstj. Hæstv. ráðh. spurði: Á að lækka til félagsmála? Hver er ástæðan fyrir því, að það er orðið svo dýrt að lifa í þessu landi, að það verður að greiða framlög frá Tryggingastofnun ríkisins með hverju einasta barni, sem fæðist á Íslandi? Það er vegna þeirrar stjórnarstefnu, sem hér hefur ríkt, og þrátt fyrir þær hækkanir, sem hafa orðið í félagsmálum, þá er fólkið, sem nýtur bótanna, ekki betur sett en áður, nema síður sé, vegna þess, hve dýrtíðin í landinu hefur aukizt. Það er staðreynd. Af hverju þarf að hækka fjárveitingu til niðurgreiðslna á vöruverði, eins og raun ber vitni um? Það er vegna þess, að dýrtíðin hefur vaxið svo hröðum skrefum vegna álögustefnunnar, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt. Framlög til skólabygginga, eru framsóknarmenn á móti þeim? segir hæstv. ráðh. Höfum við ekki alltaf lýst því yfir hér á hv. Alþingi, og ég gerði það við 2. umr. fjárlfrv., að það væri alger samstaða um skólamálin, m.a. vegna þess, að þar fengum við meira til uppbyggingar í landinu heldur en á öðrum uppbyggingarliðum. Og það hefur verið okkar höfuðkrafa að fá aukið framlag af þessum álögum hæstv. ráðh í uppbygginguna í landinu. Þarna hefur nokkuð áunnizt, og þess vegna hefur það verið mál, sem við höfum fylgt fast eftir. Átti að lækka til raforkumála? sagði hæstv. ráðh. Man hann það ekki, að það hefur lækkað til raforkumála frá því 1953 þangað til á fjárlfrv., sem við erum að afgreiða núna? Ég sýndi fram á það við 2. umr. þessa fjárlfrv., að hefði fjárveiting til raforkumála verið hlutfallslega svipuð og heildarupphæð fjárl. hefur hækkað, ætti hún að vera 72 millj. í staðinn fyrir 24. Hæstv. ríkisstj. hækkaði lítils háttar til þessara mála miðað við þörfina nú. En það er í fyrsta skipti, og það hefði verið eftir öðru, ef þeir hefðu farið að lækka úr risafjárlögunum sínum til raforkumála, þeirra mála, sem einna mest er á sótt.

Í sambandi við þennan þátt í ræðu hæstv. ráðh. sagði hann það kröfur Framsóknar, að það skuli alltaf hækka jafnt hlutfallslega til allra málaflokka í fjárl. Hæstv. ráðh. veit þó vel, að það, sem við höfum farið fram á, er, að uppbyggingin í landinu fengi hlutfallslega jafnmikið og verið hefur á fjárl. Þessi þáttur fjárlagafrv. hefur lækkað ár frá ári hlutfallslega. Og það eru fleiri en við, sem hafa gert kröfu til þess, að uppbyggingin í landinu fengi hlutfallslega jafnmikið af fjárl. frá ári til árs. Ég minnist þess í fróðlegu yfirliti, sem fyrrv. vegamálastjóri, Geir heitinn Zoëga, skrifaði í Fjármálatíðindi 1956, þá skýrði hann frá því, hvað hefði verið hlutfall milli vegaframkvæmda í landinu eða vegafjár í landinu og fjárl. um áratuga skeið. Þeim embættismanni fannst máli skipta, að vegirnir hefðu haldið hlutfalli sínu. Og þeir höfðu gert það fram til þess, að þessi hæstv. ráðh. fór að hafa áhrif á fjármálastjórnina.

Sérstakan kafla hafði þessi hæstv. ráðh. um vegamálin, og byrjaði hann með því á sinn smekklega hátt, sem hann hefur gert áður, að lýsa því yfir, að þeir menn, sem hafa unnið að vegagerð í þessu landi fram að þeim tíma, að hann varð ráðh., hafi lítið kunnað til verka. Heldur hæstv. fjmrh. virkilega, að verkstjórarnir í vegagerð ríkisins hafi kunnað svo lítið fyrir sér í framkvæmd verka, að þeir hafi látið fjárveitinguna fara í að flytja vegaflokkinn? Trúir hæstv. fjmrh. því, að þannig hafi verið á málum haldið? Það hefur verið bent á það mörgum sinnum hér á hv. Alþingi að auðvitað var unnið að vegagerðinni ekkert síður en nú með hagkvæmni og útsjónarsemi af hendi verkstjóranna. Fjárveitingarnar voru notaðar, vegaflokkurinn var settur niður, þannig að hægt var að nota fjárveitingar í fleiri vegi. Og með því einmitt að ákveðin var fjárveiting til svo margra vega sem áður var gert, var hægt að teygja vegakerfið út um byggðir landsins, eins og gert var, og ég er sannfærður um, að það er einmitt þessi stefna, sem hefur leyst vegumálin fyrr en samdráttarstefna hæstv. ráðh. Hins vegar hafa þessar fjárveitingar margar hverjar á seinni árum verið það litlar, að vonlaust var annað en draga saman. Það hefur svo leitt til þess, að bæði við þm. Vesturl, og aðrir höfum orðið að bæta okkur upp hinar lágu fjárveitingar til vegamálanna með stórkostlegum lánum. Og það er ekki gert að gamni sínu að taka nokkurra milljóna lán og láta heimabyggðina standa undir vöxtunum. Það er gert af þeirri einföldu ástæðu, að nauðsynin er svo brýn, að það verður að gerast.

Hæstv. ráðh. gat þess, að fjárveitingarnar til vegamála hefðu haldizt nokkurn veginn í hlutfalli við vísitölu vegaframkvæmdanna. Og þá seildist hann svo langt, að hann fór að vitna í frv. eða lögin, sem hv. Alþingi var að afgreiða í dag. En hann gleymdi því, hæstv. ráðh., að það hefur enginn fjmrh. á Íslandi haft aðrar eins tekjur af umferðinni í landinu eins og hæstv. núv. ráðh. S.l. ár, 1962, mun ríkissjóður hafa haft um 200 millj. kr. í nettótekjur af umferðinni í landinu. Á árinu 1963 er ríkissjóður búinn að hafa í leyfisgjöld af bifreiðum um 130 millj. kr. Hvaða ár er sambærilegt við slíkar tekjur? Nettótekjur af umferðinni á árinu 1963 munu verða margfalt meiri en áður, það mun þurfa áratugi fyrri ára til að jafna við slíkt. Og svo er hæstv. ráðh. ánægður yfir því, að þegar nýbúið er að leggja á þjóðina 100 millj. kr. vegna samgangnanna, þá sé hægt að vitna til þess, að það haldi í við dýrtíðina, hann er ánægður með það. Þetta er nokkuð langt sótt eftir rökunum, þegar þannig er að farið. Hins vegar átti hæstv. ráðh. að vita um tekjuaukann, hann átti að vita um bifreiðafjölgunina í landinu, sem hefur verið um 100% frá 1950–1960 og er áætluð um 100% frá 1960–1966. Og á þessu eina ári, 1963, er búið að tollafgreiða til landsins yfir 4000 bifreiðar. Bifreiðarnar stækka ár frá ári, meir og meir af þungaflutningum færist inn á aðalleiðirnar, enda er það deginum ljósara og þarf ekki framar vitnanna við, að 60 alþm. sameinast ekki um það að leggja á þjóðina 100 millj. kr. í álögum, nema af þeirri einföldu ástæðu, að þeir vita, að málið er svo mikið nauðsynjamál, að það þolir ekki bið. Vegakerfið í landinu hefur verið að grotna niður undir handleiðslu þessa hæstv. ráðh., og það var brýn nauðsyn að taka á sig svo þungar búsifjar, sem vegalagafrv. lagði á þjóðina, til þess að létta hér af. Og þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að fara að tala hér með hátíðleik um, að betri vinnubrögð, endurnýjaður vélakostur, þetta allt sé nú að gerast undir hans handleiðslu og muni bæta úr stórkostlega. Þeir gleyma því, hv. stjórnarsinnar, oft, að þeir eru búnir að stjórna málum ríkisins sameiginlega, þessir flokkar, í 5 ár, og það er nú tími til kominn, að þeir fari að endurnýja einhverja vél, ef þeir hafa ekki gert það neitt fyrr.

Þá var hæstv. ráðh. mjög hneykslaður yfir því, ef ætti nú að fara að verja tekjuafgangi ríkissjóðs á þann hátt eins og framsóknarmenn legðu til. Taldi hæstv. ráðh., að hér væri um mjög fráleita stefnu að ræða og hún mundi skapa verðbólgu o.fl., sem ekki væri æskilegt fyrir þjóðfélagið og hann a.m.k. vildi ekki standa að.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að það hefur skapað dýrtíðina í þessu landi, að hæstv. ráðh. hefur hagað svo skattálagningu, að hann tekur 100 millj. af þjóðinni umfram þær þarfir, sem þarf vegna ríkisútgjaldanna. Það er undirstaðan undir dýrtíðinni, eins og hér hefur verið áður lýst. Ég vil líka minna hæstv. ráðh. á það, að á s.l. ári var hann mjög ánægður og næstum því grobbinn yfir því að taka lán úti í Bretlandi, sem hann skírði framkvæmdalán. Er það eitthvað hagkvæmara og betra að taka lán erlendis til framkvæmda en nota þá fjármuni, sem búið er að taka af þjóðinni í sköttum og álögum til ríkissjóðs umfram þarfir? Hæstv. ráðh. vildi nú e.t.v. skýra þetta fyrir þingheimi. En leyfist mér svo að spyrja: Á að hætta að byggja íbúðir yfir almenning? Einn þátturinn í okkar till. er að lána til íbúðabyggingasjóðs, til byggingarsjóðs ríkisins. Á hinn almenni borgari í þessu landi að fara að hætta að byggja yfir sig? Vitað er það öllum, að nú er verið að afgreiða lán úr byggingarsjóði og þar fá menn 25–30% af því, sem þeir sækja um. Ætlar hæstv. ráðh. að leggja greiðsluafganginn inn í peningastofnanir og lána hann svo út aftur í stórbyggingarnar við Suðurlandsbraut? Er það hagkvæmari stefna ríkinu? Hún er það vafalaust frá sjónarmiði ráðh., en ekki frá sjónarmiði hins almenna borgara. Á að hætta að kaupa jarðir í þessu landi? Það hefur verið nógu erfitt, og við leggjum til, að það gangi nokkur hluti af greiðsluafganginum í veðdeild Búnaðarbankans, til þess að ungir bændur og bóndaefni geti fengið lán til þess að kaupa jörð. Er það tjón fyrir þjóðfélagið, að það verði hægt að sinna þessu? Er það að dómi hæstv. ráðh. að skapa verðbólguna? Er það fráleitt að efla iðnlánasjóð, svo að hann geti lánað í iðnaðinn? Eigum við að hætta að byggja upp iðnað hér á landi? Það virðist vera það að dómi hæstv. ráðh., því að við leggjum til, að nokkur hluti af þessari upphæð fari í iðnlánasjóð, til þess að lána til nýrra iðnaðarframkvæmda víðs vegar um landið. Og er það orðið fráleitt að byggja upp hafnir í þessu landi? Það er ein af till. okkar, að þeir, sem eiga inni sín hafnarlán, fái þau greidd með þessari fjárveitingu og geti haldið áfram við eðlilegar framkvæmdir í höfnum. Og er það orðið fráleitt að greiða byggðarlögunum, sem eiga hjá ríkissjóði stórar fjárhæðir vegna byggingar sjúkrahúsa og læknisbústaða, að greiða þeim með þessum tekjuafgangi? Þetta er ein af till. okkar, sem hæstv. ráðh. telur svo mjög fráleita.

Þá kem ég að sparnaðinum. Hæstv. ráðh. sagðist vonast til þess, að þeir hlífðu sér við því að lesa enn þá einu sinni upp sparnaðarlistann. Ég skal viðurkenna það, að ég get vel skilið, að hæstv. ráðh. þyki ekkert gaman að því að heyra lesin upp fyrirheitin um sparnað, sem hann gaf í upphafi síns ráðherradóms.

Hins vegar gef ég ekkert loforð um það nema ég grípi til listans endrum og eins, þegar ég tel það henta, og það er ábyggilega nauðsynlegt að minna hæstv. ráðh. á það, hver hans fyrirheit voru í þessum efnum, því að hann virðist svo gersamlega hafa gleymt því í framkvæmdinni.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri mikil nauðsyn í sambandi við hagsýsluna, sem hann ræddi mikið um, að vera ekki að slá upp því, sem gera ætti í þeim efnum. Hver hefur verið að slá málinu upp nema. hæstv. fjmrh.? Ég minnti á það við 2. umr. fjárlagafrv., þegar hæstv. fjmrh. lagði hér fyrir á Alþingi annað fjárlagafrv. sitt. Og ég ætla að minna hæstv. ráðh. á þetta enn á ný og með leyfi hæstv. forseta að lesa upp kafla úr ræðu þessa hæstv. ráðh. við það tækifæri. Hann mundi þá átta sig á því, hæstv. ráðh., hvernig stjórnmálamenn fara að því að slá málum upp. En þar segir ráðh. svo, með leyfi hæstv. forseta.

„Undanfarna áratugi hafa útgjöld fjárl. hækkað ár frá ári, svo að það hafa þótt litlar fréttir, þótt lögð væru fram á hverju þingi hæstu fjárlög í sögu þjóðarinnar. Við undirbúning fjárlfrv. fyrir 1961 var reynt að snúa inn á aðra braut og freista þess að færa útgjöldin niður. 14 eru útgjaldagreinar fjárl. Þessi viðleitni hefur borið þann ávöxt, að 10 af útgjaldagreinum fjárlaga lækka frá gildandi fjárlögum. Þótt ekki sé hér um stórar fúlgur að ræða miðað við heildarupphæð fjárl., er það stefnubreyting, sem máli skiptir. Risabygging ríkisins verður ekki endurskoðuð og endurskipulögð á nokkrum mánuðum, en mestu varðar, að starfið sé hafið með hentugum vinnubrögðum og réttu hugarfari.“

Og svo segir hæstv. ráðh., að menn eigi ekki að vera að slá upp, þótt þeir hafi hugsað sér að gera stórátök í sparnaðarátt, hagsýslu og öðru slíku. Það eiga ekki að vera neinar auglýsingar í sambandi við það. En hver hefur svo reyndin orðið í sambandi við þennan þátt, hæstv. ráðh.? Reyndin hefur orðið, eins og ég benti á hér í ræðu minni við 2. umr. fjárl., að fjárl. hafa hækkað um 70–75%, frá því að þessi ræða var flutt, og enginn hefur stjórnað fjármálum íslenzka ríkisins nema hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, eftir að yfirlýsingin um sparnað og lækkun fjárlaga var gefin svo hátíðlega hér á hv. Alþingi.

Og svo vil ég einnig minna á það, hvað ég sagði hér um árangurinn af sparnaði hæstv. ráðh. Árangurinn er þessi: Um fyrsta málaflokkinn má segja, að honum hefur verið mætt. Ríkisútgjöldin hafa verið lækkuð með því að hækka eigin tekjur þessara stofnana, eins og gert hefur verið með pósti og síma. Tekjur þessara stofnana hafa verið hækkaðar um 100%, og þar með var hægt að lækka fjárl. um nokkrar millj. kr. Í öðru lagi hefur svo verið geymdur halli af rekstrinum, sbr. Skipaútgerð ríkisins o. fl. í þriðja lagi hafa sparnaðartill. hæstv. ráðh. leitt af sér, að verið er að setja upp stór útgjaldabákn, eins og skattakerfið, hagsýsluna, Efnahagsstofnunina og fleiri slíkar stofnanir. Þetta er þegar orðið og verður þó enn þá meira síðar geysimikið útgjaldabákn. Og eftir því sem hæstv. ráðh. talaði hér um hagsýsluna áðan, mun hún enginn eftirbátur verða um það. Og svo hefur sparnaðinum verið komið í framkvæmd með því að skipta um nöfn, eins og gert hefur verið í sambandi við nefndirnar. Þetta er staðreynd, sem ég benti hér á um daginn, um leið og ég spurði hæstv. ráðh. um, hvernig tekizt hefði með framkvæmd á þessum og hinum liðunum. Og þurfum við ekki frekar um það að deila, því að það er þessi eina staðreynd þar til staðar.

Hæstv. ráðh. virtist vera óánægður með það, að við hefðum haft sæmilegt samkomulag í fjvn. og staðið að till., sem n. flutti sameiginlega. Ég gerði einnig grein fyrir því, að í raun og veru var um þrjá málaflokka að ræða. Veigamestar voru leiðréttingar úr rn. sjálfum. Engin ástæða var til þess að vera á móti þeim leiðréttingum, þó að við hins vegar hefðum kosið, að þá útgjaldaliði suma hverja hefði ekki þurft að greiða. En stefna hæstv. ríkisstj., bæði um útfærslu ríkiskerfisins og dýrtíðarstefnan, — það voru afleiðingar af henni, að til þessara útgjalda kom. Svo eru uppbyggingarliðirnir, að þeim stóðum við eðlilega. Eins og ég tók fram áðan, hefur það verið okkar stefna og er.

Þá vék hæstv. ráðh. að því, þegar hann ræddi um niðurgreiðslurnar og talaði um trúna á niðurgreiðslurnar, að niðurgreiðslurnar væru orðnar eitthvert trúaratriði sumra manna. Mér er ekki alveg ljóst, við hvern hæstv. ráðh. var að tala. Þetta hefur verið sú stefna, sem þeir hafa ekki fylgt síður en aðrir og tóku upp ýmsa nýja þætti í niðurgreiðslum í upphafi valdatíma síns og töldu þá góða og gegna, meðan þeir héldu þeim uppi. Og hæstv. ráðh. sagði, að þetta skekkti myndina, skekkti verðlagið. Það hefur verið bent á það hér á hv. Alþingi, að t.d. niðurgreiðsla á fóðurbæti gerði það að verkum, að kornframleiðsla innlend gæti ekki keppt við það, og við leituðum eftir því hér á hæstv. Alþingi að fá þetta leiðrétt. Hæstv. ráðh. var ekki þá til viðtals um það. Hins vegar verðum við að gera okkur grein fyrir því, að niðurgreiðslur hafa áhrif á verðlagið í landinu, og þess vegna skiptir það máli, hvort hæstv. ríkisstj. ætlar að halda þeim áfram óbreyttum eða ekki. Það skiptir máli fyrir verðlagið í landinu, hvort niðurgreiðslur eigi að minnka um tæpar 100 millj. eða ekki, og það er raunverulega það, sem um er að ræða, og ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda þeim áfram, niðurgreiðslunum, þá á hún að ætla fé til þess á fjárlögum, eins og venja er um aðra útgjaldaliði, en ekki taka upp þáttinn, sem hún tók upp við afgreiðslu fjárl. fyrir 1961, að láta vanta á áætlunina 70–80 millj. kr., eins og þá var gert, og greiða það svo utan fjárl. Það er ekki sá háttur eða þau vinnubrögð í afgreiðslu fjárl., sem á að viðhafa, og það er stundum annað, sem verið er að ræða í þessu sambandi í sambandi við till. okkar.

Þá kom hæstv. ráðh. með það, að það væri nú svo með niðurgreiðslurnar, að þær væru gallaðar, því að ríku mennirnir nytu þeirra líka og það væri verið að borga fyrir þá ríku með niðurgreiðslunum, og þetta líkaði hæstv. ráðh. ekki vel. Hvernig var það, hæstv. ráðh., með lækkunina á tekjuskattinum? Fór það fram hjá þeim tekjuháu? Ekki virðist mér, að sú hafi orðið raunin. Að því leyti sem ég hef kynnt mér þau mál, þá virðist mér, að það hafi ekki farið fram hjá þeim tekjuháu, og það hefur verið bent á hér á Alþingi, hver munur væri á því, sem maðurinn með háu tekjurnar hefði fengið í lækkun skatta miðað við manninn með lágu tekjurnar. Það voru engar smáupphæðir, nokkrir tugir þús. Þá var ekki verið að hugsa um það, hvers ríki maðurinn nyti. Hvernig er það með fjölskyldubæturnar? Fá ekki allir fjölskyldubætur, hversu tekjuháir eða efnaðir sem þeir eru, ef þeir á annað borð hafa til þess fjölskyldustærð? Það er alveg eins og með niðurgreiðslurnar, að það njóta þeirra allir þegnar þjóðfélagsins. Þess vegna held ég, að hæstv. ráðh. geti ekki haldið hér langa ræðu um það, að þessi ráðstöfun þeirra á fjárlfrv. sé neitt í þeim anda að sýna andúð þeirra á ríkum mönnum. Hæstv. ráðh. mun hafa fundið þetta upp, um leið og hann var að undirbúa ræðuna eða e.t.v. um leið og hann var að flytja hana, enda er það alveg út í hött. Það, sem máli skiptir, er þetta: Ætlar hæstv. ríkisstj. að halda áfram með þær niðurgreiðslur, sem eru í dag gildandi, eða ætlar hún að lækka þær um 100 millj. kr., eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir?

Síðasti þáttur hæstv. ráðh. var að skýra brtt. þær, sem hann flytur við tekjugreinar fjárlfrv. Hann komst að því, hæstv. ráðh., að tekjustofnarnir væru nú sennilega svo rúmir, að þeir leyfðu 12 millj. kr. hækkun á tekjuáætluninni. Skýring hæstv. ráðh. var nú nokkuð brosleg, og þeir, sem fylgdust með undirbúningi að fjárlagaafgreiðslunni í gær, vita það ósköp vel, að skýringin er öll önnur en hæstv. ráðh. gaf. Þeir vita það ósköp vel, að skýringin er fólgin í skekkjunni, sem kom upp milli áætlaðra gjalda, sem niður áttu að falla vegna vegalaganna. Þar kom upp 12 millj. kr. skekkja, sem hæstv. ráðh. þurfti að leiðrétta í dag. Allar aðrar skýringar eru út í hött, því að þetta er staðreyndin. Hæstv. ráðh. hefði þess vegna getað ósköp vel sparað sér þetta. Annars var margt í ræðu þessa hæstv. ráðh. í samræmi við þessa síðustu skýringu hans, í ósamræmi við veruleikann.