04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

22. mál, framkvæmdir Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir til umr., er fram borin í því tilefni, að hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju að gera samning við Atlantshafsbandalagið um mannvirkjagerð í Hvalfirði. Þetta mál hefur tvívegis komið til umr. utan dagskrár í Sþ., og liggur nú ljóst fyrir, að aðalatriði málsins eru fyrst og fremst þessi:

1) Hefur hæstv. ríkisstj. leyfi til að gera þennan samning, án þess að samþykki Alþingis liggi fyrir? Við þm. Alþb. segjum hiklaust nei og vitnum til stjórnarskrárinnar. Hæstv. utanrrh. segir já.

2) Að hverju er verið að stefna í Hvalfirði með framkvæmdum Atlantshafsbandalagsins þar? Er aðeins verið að endurnýja nokkra olíugeyma, leggja nokkrum legufærum og smíða litla bryggju, eins og hæstv. utanrrh. vill vera láta? Eða er nú stefnt að því með markvíssum vinnubrögðum að koma upp í Hvalfirði stórfelldum hernaðarmannvirkjum, flotastöð fyrir Atlantshafsbandalagið og jafnvel kafbátastöð?

Ég vil fyrst snúa mér að lagalegri hlið þessa máls. Hefur hæstv. ríkisstj. leyfi til að gera samning við NATO um að byggja í Hvalfirði átta olíugeyma, bryggju, legufæri og múrninga á hafsbotni til afnota fyrir Atlantshafsbandalagið, án þess að samþykki Alþingis liggi fyrir?

Hæstv. utanrrh. svarar játandi og styður mál sitt með þeim rökum, sem fram komu í ræðu hans 16. okt. s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Varnarliðið hefur verið hér í full 10 ár og haft hér stórkostlegar verklegar framkvæmdir.

Allar hafa þessar framkvæmdir, eins og ég sagði í upphafi, verið bornar undir ríkisstj. og leyfðar án samráðs við Alþingi, enda ekki þingmál. Í samkomulaginu, sem gert verður, ef til kemur, um framkvæmdir í Hvalfirði, verður samið um þær sem hluta varnarliðsframkvæmda samkvæmt varnarsamningnum. Þessar framkvæmdir fara fram á vegum Bandaríkjanna, og gagnvart Íslandi virðist ekki breyta máli, hvaðan féð kemur.“

Þessi röksemdafærsla hæstv. ráðherra er í algerri mótsögn við skýlaus ákvæði stjskr., þar sem segir í 21. gr., með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“

Hæstv. ráðh. segist mega hunza þetta afdráttarlausa ákvæði stjskr. En með hvaða rökum getur hæstv. ráðh. komizt hjá því að virða þetta ákvæði?

Í fyrsta lagi: Getur hæstv. ráðh, skotið sér á bak við þá skýringu, að hér sé ekki um að ræða samning við önnur ríki, eins og stjórnarskráin nefnir? Ég vil þá minna á, að í fjöldamörgum ummælum hæstv. utanrrh. hefur hann talað um samningsgerð við Atlantshafsbandalagið um Hvalfjörð. Í viðtali, sem fulltrúar Alþb. áttu við hæstv. ráðh. í sumar, kom það einnig fram, að ráðh. telur, að samningur þessi geti gilt áfram, enda þótt varnarsamningurinn frá 1951 falli úr gildi. Hér er því greinilega um að ræða nýjan samning við erlend ríki, Atlantshafsbandalagið og Bandaríkjamenn.

Í öðru lagi: Er ekki mannvirkjagerð Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði kvaðir á landi, eins og stjórnarskráin tilgreinir? Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — vitna til orða hæstv. núv. forsrh.. Bjarna Benediktssonar, frá því er hann var prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Prófessor Bjarni samdi þá ágrip af íslenzkri stjórnlagafræði með hliðsjón af ritum prófessors Einars Arnórssonar. Hæstv. forsrh. lýsir þessu ákvæði stjskr. um kvaðir á landi, og er álit hans samhljóða skoðunum Einars Arnórssonar. Prófessor Bjarni segir:

„Hér er átt við svonefndar „ríkisréttarlegar servitutir“. Þær eru að sínu leyti svipaðar ítökum, kvöðum og ískyldum í landi einstakra manna. Heimila þær annaðhvort öðrum ríkjum yfirráð eða notkunarrétt á landi eða landhelgi og per analogium lofti, sem þeim væri ella óheimilt, t.d. er bannað að efna til heræfinga í landi, lofti eða sjóhelgi, eða landið sjálft er takmörkum háð um notkun einhvers hluta landsins eða ef á því hvíldi skylda til ákveðinnar meðferðar á landi:

Vitna mætti til ummæla fleiri lagaprófessora um þetta atriði, t.d. skrifa hv. 3. þm. Norðurl. v., prófessors Ólafs Jóhannessonar, sem túlkar ákvæðið á sama veg. Prófessor Bjarni nefnir í bók sinni, að heræfingar danskra manna á Íslandi væru kvaðir á landi. Varla getur neinum dulizt, að mannvirki í Hvalfirði, sem NATO reisir og fær afnotarétt af, eru mjög hliðstæðar kvaðir. Mannvirkjagerð Atlantshafsbandalagsins eru kvaðir á landi, því að NATO kemst ekki hjá því, ef af samningum verður, að hljóta þar notkunar- og yfirráðarétt, sem hæstv. forsrh. hefur kallað kvaðir á landi. Atlantshafsbandalagið mun t.d. öðlast afnotarétt af væntanlegum mannvirkjum, sem ekki verður af þeim tekinn með einhliða ráðstöfunum, nema samningnum sé riftað. Sú kvöð mun óhjákvæmilega hvíla á þessum mannvirkjum, að íslenzk stjórnvöld geta ekki ráðskazt með þau að eigin geðþótta. Yfirráð Íslendinga verða takmörkuð og þannig lagðar kvaðir á land.

Í þriðja lagi ber að nefna þá röksemd hæstv. utanrrh., að samið verði um væntanlegar framkvæmdir í Hvalfirði sem hluta varnarliðsframkvæmda samkv. varnarsamningnum. Hæstv. utanrrh. virðist þannig álíta, að hann geti sniðgengið ákvæði stjskr. með því einu að vísa til samningsgerðar við Bandaríkjamenn, sem hlaut lagagildi árið 1951. Fram að þessu hafa Íslendingar verið sammála um, að ákvæði stjórnarskrárinnar skuli sett ofar venjulegum lagaákvæðum. Engum nema hæstv. utanrrh. hefur áður dottið í hug, að íslenzk ríkisstj. geti samið um það við erlent ríki, að framvegis verði skýlaust ákvæði stjskr. sniðgengið í ákveðnu máli. Í þessu tilviki tekur 21. gr. stjskr. af allan vafa. Venjulegur milliríkjasamningur, sem hlotið hefur lagagildi, verður aldrei tekinn fram yfir ákvæði stjskr. Alþingi gat ekki árið 1951 og mun aldrei geta með einfaldri lagasamþykkt afsalað sér þeim rétti fyrir fullt og allt, sem gefinn er með ótvíræðum orðum í stjórnarskrá lýðveldisins. Samningurinn við Bandaríkjamenn, sem gerður var af ríkisstj. vorið 1951 og staðfestur af Alþingi um haustið, veitti heimild til þeirra framkvæmda, sem þá voru fyrirhugaðar, og á þeim landssvæðum, sem Bandaríkjamenn fengu þá að nota. En samþykki Alþingis þarf aftur að koma til, ef gerður er samningur um nýjar framkvæmdir. Í hvert skipti, sem erlent ríki öðlast nýjan notkunarrétt á íslenzku landi, þarf að leita samþykkis Alþingis. Hvað sem hæstv. utanrrh. lætur sig dreyma um, liggur það ljóst fyrir, að í því máli, sem hér um ræðir, er allt bundið á einn þráð, nýr samningur, nýr yfirráðaréttur, nýjar kvaðir á landi og nýtt samþykki Alþingis.

Í fjórða lagi ber að nefna þá röksemd hæstv. utanrrh., að skapazt hafi fordæmi. Ráðh. segir, að Bandaríkjaher hafi áður fengið leyfi til framkvæmda hér á landi, án þess að leitað væri eftir samþykki Alþingis, og hefur hæstv. ráðh. sérstaklega tilnefnt lóranstöðina á Snæfellsnesi. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að ill fordæmi hafa verið gefin. Alþingi hefur áður verið sniðgengið og stjórnarskráin verið þverbrotin. En ráðh. þarf ekki að imynda sér, að fyrri afglöp réttlæti það, sem nú á að gera. Glæpur er engu minni, þótt áður hafi verið framinn. Auk þess er rétt að minna á, hver gerði samninginn við NATO í marz 1959 um lóranstöð á Snæfellsnesi. Það var enginn annar en núv. hæstv. utanrrh. Hæstv. ráðh. þarf víssulega ekki að imynda sér, að hann geti stungið stjórnarskrá lýðveldisins undir stól fyrir fullt og allt og um alla framtíð, þó að hann hafi einu sinni áður komizt upp með það. Hver er svo skýringin á því, að hæstv. utanrrh. tókst árið 1959 að gera samning við Atlantshafsbandalagið um mannvirkjagerð á Snæfellsnesi, án þess að fram kæmi krafa um, að Alþingi fjallaði um málið? Ekki get ég svarað þessari spurningu til fulls, en e.t.v. er skýringin sú, að hæstv. utanrrh. lét starfsmenn sína gefa villandi upplýsingar um þessa samningsgerð á sínum tíma, bæði þjóð og þing var blekkt. Hinn 19. marz 1959 gaf deildarstjóri í utanrrn. blöðunum upplýsingar um væntanlega samninga, og var þá alls ekki minnzt á, að samningurinn væri við Atlantshafsbandalagið, eins og síðar kom á daginn og eins og utanrrh. hefur núna upplýst. Hins vegar var það gefið í skyn, að stöðin yrði reist á vegum póst- og símamálastjórnarinnar. Upplýsingar utanrrn. voru slíkar, að engan gat grunað, að fáum árum síðar yrði risið á Snæfellsnesi hæsta mannvirki í Evrópu, sérstaklega útbúið til þess að auðvelda kafbátum miðanir. Það er satt að segja ótrúleg ósvífni af hæstv. utanrrh. að ætla að réttlæta athæfi sitt nú með því að vitna í NATO-framkvæmdir, sem hann sjálfur laumaði inn á þjóðina fyrir nokkrum árum.

Það mun fáum koma á óvart, að fyrirætlanir ríkisstj. um framkvæmdir í Hvalfirði skuli framkvæmdar með lævísi og brögðum, og engan þarf víst að undra, að vart verði við tilhneigingar til að brjóta sjálfa stjórnarskrána. Saga hernámsins á Íslandi er saga um svik á svik ofan. Ferill hernámsstefnunnar er markaður af sviknum loforðum og beinum lögbrotum. Keflavíkursamningurinn 1946 var samþykktur þvert ofan í loforð flokkanna í kosningunum þá um sumarið, og eins var um NATO-samninginn 1949. Herstöðvasamningurinn 1951 var ekki aðeins herfileg svik á gefnum loforðum, heldur og hreint stjórnarskrárbrot, því að Alþingi var ekki kvatt til ráða fyrr en hálfu ári eftir að herinn var kominn til landsins. Siðan hefur sömu ólögunum verið beitt og milliríkjasamningar gerðir í trássi við lög og rétt og án samráðs við æðstu stofnun landsins. Það er sannarlega tími til kominn, að þessum myrkraverkum ljúki og hæstv. utanrrh. sé skyldaður til að fara með utanríkismálin eins og þau séu mál þjóðarinnar, en ekki einkamál hans sjálfs.

Ég hef nú rætt um lagalega hlið þessa máls með það fyrir augum að sýna fram á, að ríkisstj. hefur enga heimild til þess að gera samninga við Atlantshafsbandalagið um framkvæmdir í Hvalfirði, nema samþykki Alþingis komi til, jafnvel þó að sú mannvirkjagerð sé aðeins fólgin í byggingu 8 olíugeyma, hafskipabryggju og múrningu á hafsbotni og aldrei verði meira gert í Hvalfirði.

Næst liggur fyrir að ræða þá spurningu, að hverju er raunverulega stefnt. Þetta mál er einmitt svo örlagaríkt fyrir Íslendinga vegna þess, að þær framkvæmdir, sem nú er talað um, eru aðeins fyrsta litla skrefið til miklu voldugri og háskalegri framkvæmda, byggingar flota- og kafbátastöðvar i Hvalfirði. Það skal fúslega játað, að ekki er unnt að leggja hér fram beinar sannanir fyrir því, að ríkisstj. hafi þegar leyft byggingu flotastöðvar í Hvalfirði eða hafi það í undirbúningi. En unnt er að færa að því svo sterkar líkur, að þær taka af allan vafa. Við skulum fyrst athuga sögu þessa máls.

Það liggur nú fyrir sem skjalföst staðreynd, að Bandaríkjamenn hafa lengi haft hug á að koma slíkum stöðvum upp á Íslandi. Hvalfjörður var í seinasta stríði ein helzta flotastöð Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi, og flestar skipalestir á leið um norðanvert hafið höfðu viðkomu í firðinum. Þegar eftir að landið var hernumið öðru sinni árið 1951, var farið að ræða um nýja flotastöð í Hvalfirði. Bandaríska flotamálaráðuneytið lét teikna og gera áætlanir um sprengingu kafbátalægis inn í Þyrli, og átti þetta risavaxna neðansjávarbyrgi að þola loftárás með sterkustu kjarnorkuvopnum þeirra tíma. Síðar var þessum ráðagerðum breytt og 1955 var gerð hjá Atlantshafsbandalaginu ný áætlun um miklar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði. Um þessar ráðagerðir komst hæstv. utanrrh. svo að orði á þingfundi 16. okt. s.l., með leyfi forseta:

„Snemma á árinu 1955 komu fram till. frá NATO um, að komið skyldi á fjarskiptasambandi milli Bretlands og Íslands á vegum NATO og á kostnað Infrastructur-sjóðsins. Einnig komu fram á sama tíma till. um, að gera skyldi í Hvalfirði geymslur fyrir olíu og sprengiefni ásamt aðstöðu fyrir skipalægi samkv. Infrastructur-áætlun NATO.“

Síðar í sömu umr. sagði hæstv. ráðh , með leyfi forseta:

„Árið 1955 koma tilmæli til utanrrh. Framsfl. um stórfelldar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði.“

Í upplýsingum hæstv. utanrrh. kom það skýrt fram, að hinar stórfelldu hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði voru stöðvaðar með samþykkt Alþ. 28. marz 1956. Andstaða almennings gegn herstöðvunum og hræðsla hernámsflokkanna við kjósendur kom að þessu sinni í veg fyrir, að Hvalfirði yrði breytt í flota- og kafbátastöð. Næstu árin eru engar ákvarðanir teknar, Hvalfjarðarmálið liggur i salti. En á sama tíma verður úti i heimi mjög þýðingarmikil breyting á hernaðartækninni. Herbúnaður Atlantshafsbandalagsins breytist og forustumenn þess leggja vaxandi áherzlu á notkun kafbáta i hugsanlegri styrjöld, sérstaklega svonefnda Pólaris-kafbáta, sem skotið geta kjarnorkuhlöðnum eldflaugum. Bandaríkjamenn hafa smíðað sér flota af slíkum kafbátum, en þeim hefur gengið erfiðlega að fá fyrir þá hentuga aðsetursstaði. Það er opinber staðreynd, að Bandaríkjamenn hafa hvað eftir annað leitað til Norðmanna og farið fram á að fá að reisa kafbátastöðvar í norskum fjörðum, en þessum tilmælum hefur ævinlega verið vísað á bug. Aðalbækistöð slíkra kafbáta á Norður-Atlantshafi hefur að undanförnu verið í Clyde-firði i Skotlandi, en Bandaríkjamenn óttast nú mjög að verða að hverfa úr bækistöðvum sínum þar, enda er brezki Verkamannaflokkurinn i mikilli sókn og mjög líklegt, að hann komist senn til valda. Með hliðsjón af þessum nýju viðhorfum þarf enginn að furða sig á, að Bandaríkjamenn renni íslenzka firði hýru auga og þá sérstaklega Hvalfjörð, þar sem aðstæður eru taldar mjög heppilegar frá landfræðilegu og hernaðarlegu sjónarmiði. Fjörðurinn er þröngur og djúpur, girtur háum fjöllum, en byggð er þar óveruleg og fjarlægðin frá herstöð Bandaríkjamanna á Miðnesheiði er tiltölulega litil.

Enda þótt hernaðarframkvæmdir Bandaríkjamanna á Íslandi legðust niður á miðju ári 1956, er mjög ólíklegt, að hershöfðingjar þeirra hafi nokkurn tíma misst áhugann á Hvalfirði. Þeir biðu færis og tækifærið kom í ársbyrjun 1959. Þetta tækifæri gafst, þegar núv. og þáv. hæstv. utanrrh., Guðmundur I. Guðmundsson, hóf ásamt flokksbræðrum sínum að vinna með Sjálfstfl. Þá eru áformin um stórfelldar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði tekin upp að nýju, enda þótt nú sé ákveðið að fara hægt í sakirnar og fikra sig að markinu skref fyrir skref. Þrjú skref hafa þegar verið stigin. Fyrsta sporið var stigið í marz 1959, þegar hæstv. utanrrh. gerði upp á sitt eindæmi samning við Atlantshafsbandalagið um byggingu lóranstöðvar á Snæfellsnesi. Þessi miðunarstöð er nú orðin hæsta mannvirki í Evrópu, og getur það engum dulizt lengur, að staðurinn var fyrst og fremst valinn með hliðsjón af væntanlegri mannvirkjagerð i Hvalfirði. Næst var Keflavíkurflugvöllur gerður að stjórnarmiðstöð fyrir kafbátaflotann á norðanverðu Atlantshafi, og flotinn tók við yfirstjórn bandaríska herliðsins á Íslandi af landhernum. Ísland átti fyrst og fremst að verða flotastöð, og þess vegna varð landher og flugher að víkja fyrir flotanum. Í þriðja lagi fengu Bandaríkjamenn leyfi íslenzku ríkisstj. til að mæla upp og kortleggja botn Faxaflóa og rannsaka nákvæmlega umhverfi Hvalfjarðar. Þessu verki er nú lokið og munu Bandaríkjamenn óviða eiga jafnnákvæm kort um kafbátaleiðir í landhelgi annarra ríkja.

Hæstv. ráðh. hefur þegar stigið þrjú skref, og nú er komið að Því fjórða. Í þetta sinn eiga Bandaríkjamenn að fá leyfi til að hefjast handa í sjálfum Hvalfirði. Enn einu sinni á að sniðganga Alþ. og laumast til verkanna, svo að lítið beri á. Aðeins 8 olíugeyma, hafskipabryggju og nokkur legufæri, það er allt og sumt, segir hæstv. ráðh., og hann er bæði hneykslaður og sár, þegar minnzt er á flota- og kafbátastöð.

Það er engin ástæða fyrir ráðh. að gera sig að viðundri frammi fyrir Alþ., og hann getur sannarlega sparað sér englasvipinn að þessu sinni. Fyrir nokkrum vikum viðurkenndi hann hér á Alþ., að Bandaríkjamenn hefðu áformað stórfelldar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði. Eftir þær upplýsingar mun enginn efast um, að þessi áform eru enn hin sömu. Hæstv. ráðh. mun ekki fá nokkurn Íslending til að trúa hinu gagnstæða, ekki einu sinni hv. þm. Sjálfst.- og Alþfl., og eru þeir þó ýmsu vanir um dagana.

Eins og kunnugt er, eru friðarhorfur í heiminum betri nú en verið hefur um árabil. Hin nýju múgmorðstæki, eldflaugin og vetnissprengjan, hafa breytt öllum fyrri viðhorfum í varnarmálum. Engin vörn er lengur til í nútímastríði, en kjarnorkudauðinn bíður okkar allra á næsta leiti. Stórveldin hafa skynjað háskann, sem vofir yfir mannkyni, og leitast nú við að semja um deilumál sín. Stjórnmálafréttariturum ber saman um, að undirritun Moskvusáttmálans í sumar um takmarkað tilraunabann sé mikilvægasta sporið í friðarátt, sem stigið hafi verið frá stríðslokum. Stórveldin eru nú í óðaönn að breyta herbúnaði sínum með hliðsjón af breyttum viðhorfum og endurskoða herstöðvastefnuna. Herstöðvum er fækkað og þær fáu, sem eftir verða, eru stækkaðar. Stórveldin vilja annaðhvort volduga herstöð eða enga herstöð, og smáþjóðir, er lánað hafa land sitt undir herstöðvar, sem nú eru að verða úreltar, verða að velja annaðhvort volduga herstöð eða enga herstöð.

Áform hæstv. ríkisstj. um framkvæmdir í Hvalfirði tákna örlagarík tímamót fyrir Íslendinga. Í dag eiga þeir um tvær leiðir að velja. En ríkisstj, virðist þegar hafa valið fyrir þeirra hönd. Hún hefur valið volduga herstöð. Hún hefur valið þann kostinn að breyta fjölbýlasta hluta landsins í hernámsfylki, geysistóra atómstöð. Við aðalsamgönguæðina til Norðurlands á að risa bandarísk flotastöð, og höfuðborgin verður umkringd hernaðarmannvirkjum á báðar hliðar. Á sama tíma og friðarhorfur fara batnandi og þjóðir heims leita eftir leiðum til afvopnunar, eru íslenzkir ráðamenn önnum kafnir við stríðsundirbúning, og þetta gerist með þeirri þjóð, sem engan óvin á og aldrei hefur vopnazt í þúsund ára sögu sinni.

Herra forseti. Ísland þarf nýja utanríkisstefnu. Ef nokkuð er satt, þá er það þetta: Ísland þarf nýja utanríkisstefnu. Það er tími til kominn, að íslenzk utanríkismál verði vakin af dásvefni kalda stríðsins. Við lifum nýja tíma, viðhorfin eru breytt, en enn þá eru umræður íslenzkra ráðamanna um varnarmál 20 árum á eftir tímanum. Eldflaugin og vetnissprengjan virðast engu hafa breytt í þeirra augum.

Það er einkenni hins nýja tíma, að blómaskeið hinna miklu herbandalaga er liðið. Smáþjóðir heimsins láta ekki lengur draga sig í tvo andstæða dilka, og þriðjungur mannkynsins, íbúar yfir 40 þjóða, halda sig utan við herbandalög og undirbúning kjarnorkustríðs, Það er lærdómsríkt, að engin nýfrjáls þjóð hefur á seinustu árum látið draga sig í aðra hvora hernaðarblökkina. Hlutlausar smáþjóðir hafa ekki kosið að híma undir pilsfaldi stórveldanna, þær hafa valið sér það hlutverk að miðla málum í heiminum, lægja öldurnar og bera sáttarorð á milli tveggja stríðandi afla. Friðarstefna smáþjóðanna er köllun þeirra á kjarnorkuöld.

Íslendingar eiga nú um tvær leiðir að velja: stríðsstefnu stórveldanna eða friðarstefnu smáþjóðanna. Úrslit Hvalfjarðarmálsins marka afgerandi spor í aðra hvora þessa átt. Ég hef áður lagt á það áherzlu, að Alþ. hefur skýlausan rétt til að fjalla um þetta mál. Ég vil að lokum brýna fyrir hv. Alþ., að jafnframt er Það skylda þess að gripa nú í taumana og marka nýja utanríkisstefnu, sem stuðlar að friði og sáttum með þjóðum mannkynsins.

Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. utanrmn.