04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (2807)

22. mál, framkvæmdir Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að tala hér langt mál i kvöld. Það er þó ekki vegna þess, að hér sé um neitt smámál að ræða. Hér er vissulega stórmál á ferðinni, vafalaust eitt hinna stærri, ef ekki hinna stærstu, sem fyrir Alþingi liggja. En ástæðan til þess, að ég tel mig ekki þurfa að vera langorðan, er sú, að frsm. þeirrar till., sem hér er til umr., hv. 5, landsk. þm. (RA), reifaði málið svo vel í tæpitungulausri og rökfastri ræðu hér í dag, að ég tel þar ekki þörf miklu við að bæta.

Hæstv. utanrrh. hefur gert nokkra tilraun til að hrekja sumar röksemdir frsm., en ég verð að segja, að þær tilraunir hafa ekki tekizt. Þrátt fyrir alkunna leikni þessa hæstv. ráðh., leikni hans við að verja erfiðan og stundum heldur vondan málstað með ísmeygilegum orðaleppum og stundum með nokkuð frjálslegri meðferð á staðreyndum, þá held ég, að honum hafi varla tekizt í þessu máli að slá ryki í augu nokkurs manns, sem á annað borð vill sjá sannleikann, sjá kjarna málsins.

Það er rétt hjá hæstv. utanrrh., að það eru tvö mikilvæg atriði í þessu máli. Í fyrsta lagi það, hvort hæstv. ríkisstj. sé heimilt að gera slíkan samning um Hvalfjörð við NATO, sem hér er um að ræða, án þess að spyrja Alþingi. Og það er í öðru lagi um það að ræða, og um það deilt, hvers konar mannvirkjagerð sé eða geti orðið um að ræða í Hvalfirði. Þessi tvö atriði vil ég því ræða hér örlítið nánar í tilefni af ræðu hæstv. ráðh.

Um fyrra atriðið, um heimild ríkisstj. til einhliða samningagerðar, vil ég fyrst og fremst segja þetta: Hæstv. ráðh. reynir að verja afstöðu sina, Þá, að hann hafi heimild til samningagerðarinnar einhliða, með því að vitna í varnarsamninginn svonefnda við Bandaríki Norður-Ameríku, á grundvelli hans sé heimilt að semja nú einhliða um Hvalfjörð við NATO. En hér er víssulega nokkuð málum blandað hjá hæstv. ráðh. Herstöðvasamningurinn var skýlaust gerður við Bandaríki Norður-Ameríku og ekki við aðra þjóð. Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið eru engan veginn sami aðili, þótt náin samvinna sé á milli, og þetta veit hæstv. utanrrh, mætavel. Hér er heldur alls ekki um það að ræða að gera samkomulag um Hvalfjörð við Bandaríkin á grundvelli herstöðvasamningsins. Það er því þarflaust að ræða um það hér, hversu viðtækt samkomulag ríkisstj. gæti gert við Bandaríkin um herstöðvar, um bækistöðvar og aðstöðu á grundvelli hins margumtalaða herstöðvasamnings. Þarna er, eins og þegar er viðurkennt, um Það að ræða að gera samning við annan aðila, við NATO, við hernaðarsamtök margra Evrópuríkja. Það er því alveg skýlaust, að samningur við Atlantshafsbandalagið um Hvalfjörð verður ekki gerður á grundveili herstöðvasamningsins við Bandaríkin, enda er ekki ætlunin að gera það. Þess vegna stendur það alveg óhrakið, að hæstv. ríkisstj. skortir algerlega lagaheimild til að gera samning um íslenzk landsréttindi við NATO. Slík samningagerð bryti alveg ótvírætt í bág við skýlaus ákvæði stjórnarskrárinnar. Gagnstæðar staðhæfingar hæstv. utanrrh. breyta þessum staðreyndum í engu. Hann og hæstv. ríkisstj. virðast vera staðráðin í að taka sér þarna vald, sem þessir aðilar hafa ekki. Ég held, að þetta liggi alveg ljóst fyrir, og það er þetta, sem Alþingi ber tvímælalaust skylda til að hindra, og Alþingi gerir það bezt með því að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir. Það er svo algerlega rétt athugað hjá hv. síðasta ræðumanni, 1. þm. Austf. (EystJ), að lagahlið þessa máls er engan veginn aðalatriðið, engan veginn þungamiðjan, heldur hitt, að bessi samningagerð fyrirhugaða um Hvalfjörð er slíkt stórmál, að það væri alger óhæfa að ganga fram hjá Alþingi, meðan það situr, og gera samninga um slíkt mál bak við það.

Ég kem þá að hinu síðara atriði þessa máls, hvort hér sé um að ræða upphaf að hernaðarframkvæmdum í Hvalfirði eða ekki, og sé um upphaf slíkra framkvæmda að ræða, þá hversu alvarlegs eðlis þetta mál er eða kann að verða.

Hæstv. ráðh. gerði hér í ræðu sinni og hefur gert áður sem minnst úr þessu öllu, allri þessari samningagerð, og staðhæfir hvað eftir annað, að hér sé ekki um neina samninga varðandi hernaðarmannvirki eða hernaðarframkvæmdir að ræða og sízt af öllu neitt, sem gæti snert atómvopn. En ef við lítum aðeins á það, hver er forsaga þessara mála, getur verið, að maður efist um það, að hér sé í þessum staðhæfingum hæstv. ráðh. öll sagan sögð nákvæmlega rétt og ekkert undan dregið. Það hafa nefnilega áður komið fram kröfur um stórfellda bækistöð fyrir herflota í Hvalfirði. Þetta er alveg ómótmælanlegt, og ég held, að nú upp á síðkastið hafi því jafnvel ekki verið mótmælt. Þessari alkunnu staðreynd þýðir ekkert að reyna að neita.

Og nú vaknar óneitanlega sú spurning í hugum manna: Er ekki núna ætlunin, er það ekki meining þeirra, sem þarna standa öðrum megin að þessari samningagerð, að reyna nú að ná því í áföngum, sem áður var farið fram á að fá í einu lagi? Ég held, að það sé engan veginn ástæðulaust, Þó að menn spyrji, því að hver hefur reynslan verið hjá okkur i sambandi við ýmis viðkvæm og mikilvæg utanríkismál, sum hin stærstu mál, sem komið hafa til okkar kasta á síðustu 25–30 árum? Ég held, að það megi segja, að Það hafi komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að íslenzka þjóðin frétti um það, sem í vændum var, sem verið var að semja um, fyrst frá erlendum aðilum, ýmist úr erlendum blöðum, eftir erlendum fréttastofum eða á annan hátt frá útiöndum. Þannig hefur þetta því miður gengið til, þannig hefur hreinskilnin stundum verið í sambandi við íslenzk utanríkismál, og þess vegna er von, að menn spyrji: Er e.t.v. verið að leika sama leikinn enn?

Það var fyrr á þessu ári, sem um það var töluvert mikið rætt í erlendum blöðum, sérstaklega er mér um það kunnugt, að það var mikið rætt í norskum blöðum, að nú væru að fara fram mjög mikilvægar breytingar á svonefndum varnarmálum Atlantshafsbandalagsins. Þá var það til umr. til að mynda í norsku blöðunum Orientering og Dagbladet, að norskir firðir kynnu e.t.v. að hafa mikla þýðingu í sambandi við þessar breytingar, í sambandi við þessa fyrirhuguðu uppbyggingu nýrrar varnarkeðju við Norður Atlantshaf, eins og það var kallað, uppbyggingu kerfis, sem fyrst og fremst væri byggt á Pólaris-kafbátum, kafbátum, sem flutt geta atómvopn, og að einhverju leyti einnig á ofansjávarskipum. Þessi norsku blöð skýrðu frá því og fjölluðu um það, að norskir ráðamenn, bæði Lange utanrrh. og landvarnamálaráðh., hafi að vísu neitað því hvað eftir annað, að til mála kæmi, að norsk landssvæði verði léð undir atómstöðvar af neinu tagi. Frá því var einnig sagt, að þessir norsku ráðh. hefðu neitað því, að nein tilmæli hefðu enn komið fram til norskra stjórnarvalda um, að slík aðstaða yrði veitt við Noreg. En þessi norsku blöð, sem ég vitna hér til, lögðu hins vegar á það áherzlu, að hvenær sem væri gætu slík tilmæli borizt. Og þau töldu jafnvel ekki útilokað, að eitthvað slíkt hefði þegar komið til umr., hvað sem formlegri beiðni um slíkt kynni að liða. Og þau drógu þetta af því, blöðin, að nýskipan þessara varnarmála Atlantshafsbandalagsins væri alveg tvímælalaust á döfinni, það væri verið að byrja að framkvæma hana og í því sambandi væri algerlega upplýst, að þýðing hafdjúpsins á norðurhveli jarðar og ýmissa stöðva á því svæði yrði mjög mikilvæg, hafi farið mjög vaxandi, einkum með tilkomu þessara Pólaris-kafbáta, og blöðin sögðu, að það mætti telja líklegt, að ráðamenn í þessum efnum hefðu þegar augastað á ströndum Grænlands, Íslands og e.t.v. Noregs í þessu sambandi. Í hinum sömu heimildum sagði einnig, að sérfræðingar Atlantshafsbandalagsins varðandi þessa atómkafbáta telji hvergi betri aðstöðu fyrir kafbátabækistöð en í Hvalfirði á Íslandi, enda mundi hafa verið um það rætt í þeim herbúðum, að höfuðstöðvar þessara kafbáta við norðanvert Atlantshaf ættu að vera þar.

Hæstv. utanrrh. neitar þessu öllu saman. Hann neitar því, að neitt, sem talizt geti hernaðarmannvirki, sé í bígerð í sambandi við þessa samninga um Hvalfjörð. Þetta sé allt saman ákaflega sakleysislegt, hér sé um að ræða endurnýjun benzínbirgðastöðva, það eigi að setja niður eða það eigi að koma hingað með einhverjar múrningar, eins og hann orðaði það einu sinni, sem alls ekki virðist eiga að nota, kannske eigi bara að liggja uppi á landi. Og hann vili telja mönnum trú um það, að Atlantshafsbandalagið af sérstakri umhyggju fyrir Íslendingum, að því er virðist, sé að endurnýja þar og koma upp nýjum geymum til þess að hafa þar varabirgðir af benzíni fyrir Íslendinga og varnarliðið.

En eins og ég áðan sagði, er það nú svo þrátt fyrir þessar staðhæfingar hæstv. ráðh., að reynslan, reynsla okkar Íslendinga i sambandi við viðkvæm utanríkismál, hvetur óneitanlega til varfærni, hún hvetur til þess, að menn séu á verði. Reynslan sýnir, að hátíðlegar yfirlýsingar núv. hæstv. utanrrh. i stórmálum, jafnvei gefnar hv. Alþingi og íslenzku þjóðinni héðan úr þessum ræðustól, hafa áður reynzt heldur lítils virði, því miður. Þess vegna er það ekki undarlegt, þó að menn séu dálítið tortryggnir og þó að þeir leitist þess vegna við að draga ályktanir af líkum, reyni að átta sig á því sjálfir, hvað um er að vera og hv að í vændum kynni að vera. Og í því sambandi liggur tvennt sérstaklega ljóst fyrir, sem ástæða er til að vekja athygli á. Í fyrsta lagi, að tiltölulega nýlega hefur verið lagt á það mikið kapp að byggja svonefnda lóranstöð á Snæfellsnesi. Það er vitað, að einmitt slík stöð er talin afar mikilvæg í sambandi við Pólaris-kafbáta. Hún er talin sérstaklega vel til þess fallin að auðvelda staðarákvarðanir slíkra neðansjávarskipa. Og í öðru lagi hefur Atlantshafsbandalagið farið þess á leit að gera við íslenzk stjórnarvöld samning um mannvirkjagerð í Hvalfirði, þeim stað, þar sem áður hefur verið krafizt stórfelldra hernaðarmannvirkja. Það er reynt að gera sem minnst úr því, hvað í þessum tilmælum felst. Þó er játað, að hér er ekki aðeins til umr. endurnýjun og aukning benzíngeyma, heldur er hér einnig þegar í þessari samningagerð um bryggjugerð og lagningu legufæra skipa af einhverju tagi að ræða.

Frsm. þessarar till. sýndi fram á það með ljósum rökum í frumræðu sinni hér í dag, að hæstv. ríkisstj. hefur enga lagaheimild til að gera slíkan samning sem hér er um að ræða, og ég vil leggja á það áherzlu, að enn þá síður hefur hún siðferðilega heimild til að gera slíkt að Alþingi forspurðu, meðan það situr að störfum. Og ég vil að lokum segja aðeins þetta, að sómi Alþingis er undir því kominn, að það haldi stjórnarskrá ríkisins í heiðri, að það skjóti sér ekki undan þeirri ábyrgð, sem stjórnarskráin leggur því á herðar. Þess vegna ber hv. Alþingi að afgreiða þá till., sem hér liggur fyrir, afgreiða hana fljótt, afgreiða hana á jákvæðan hátt.