04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (2809)

22. mál, framkvæmdir Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það hefur farið svo um þessar umr., að svo til allt, sem sagt hefur verið hér í kvöld, er áður fram komið í málinu, og ekkert nýtt hefur bætzt við. Þeir, sem talað hafa fyrir þeirri till., sem hér liggur fyrir til umr., hafa talið upp öll sín fyrri rök, sem áður er margsinnis búið að hrekja. Ég vék að þeim nokkuð í minni fyrri ræðu og ætla þess vegna ekki að gera það með mörgum orðum nú.

Það virðist alveg ljóst með hv. 1. flm. þessarar till., að hann gerir sér ekki hina allra minnstu grein fyrir því, hvert er efni og eðli varnarsamningsins frá 1951. Hann endurtók í ræðu sinni hér áðan þá fyrri fullyrðingu, að ef varnarliðið þyrfti á einhverri aðstöðu að halda á Íslandi, einhverju landssvæði, eftir að varnarsamningurinn var gerður, bæri ríkisstj. skilyrðislaust að leggja allt slíkt fyrir Alþingi, áður en nokkur ákvörðun yrði tekin, ella væru samningar um slíka hluti með öllu óheimilir, lögleysa og stjórnarskrárbrot. Hann tók það líka fram enn á ný, að þegar verið væri að ræða um geymana í Hvalfirði nú, væri verið að semja við allt annan aðila en áður hefði verið samið, hér væri nýr aðili á ferðinni. Ég benti þessum hv. þm. á í ræðu minni áðan, að allar eru bessar fullyrðingar rangar, og ef hann aðeins hefði viljað hafa svo lítið fyrir að líta á sjálfan varnarsamninginn og lesa hann, getur hann séð, að allt, sem hann heldur fram um þetta, eru helberar firrur. Varnarsamningurinn tekur það sjálfur fram berum orðum, að það er ríkisstj. Íslands, sem er aðili annars vegar, en hins vegar er það ríkisstj. Bandaríkjanna sem umboðsaðili Norður-Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin taka að sér fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins að annast varnir Íslands. Þau koma með varnarliðið hingað á vegum og í umboði Atlantshafsbandalagsins, og allt, sem Bandaríkjamenn gera hér, gera þeir fyrir hönd bandalagsins. Ríkisstj. Íslands hins vegar skuldbindur sig til að afhenda Bandaríkjunum sem umboðsaðila Atlantshafsbandalagsins þá aðstöðu á Íslandi, sem nauðsynleg er til framkvæmdar varnanna og báðir aðilar eru ásáttir um. Þessi samningur var lagður fyrir Alþingi og lögfestur þar. Þar með var ríkisstj. í eitt skipti fyrir öll gefið nauðsynlegt umboð til þess að láta varnarliðið fá þá aðstöðu á Íslandi, sem báðar ríkisstj. yrðu sammála um. Um þetta er ekki nokkur leið að deila. Í krafti þessa ákvæðis hefur síðan varnarliðið fengið öll þau landssvæði og þá aðstöðu, sem það hefur haft á Íslandi, frá því að það fyrst kom hingað. í krafti þessa ákvæðis var Keflavíkurflugvöllur afhentur varnarliðinu til afnota. Það út af fyrir sig var aldrei lagt fyrir Alþingi og aldrei borið undir Alþingi, og engum kom til hugar, að þess þyrfti. Skömmu síðar fær varnarliðið landssvæði í Hornafirði til að byggja þar radarstöð og fer þangað með varnarlið. Ríkisstj. afhenti varnarliðinu þetta land. Engum kom til hugar að bera það undir Alþingi. Í annað skipti fékk varnarliðið landssvæði á Langanesi og fer þangað með varnarlið. Ríkisstj. afhenti varnarliðinu þetta land. Engum kom til hugar að ætla að bera það undir Alþ., enda var slíkt fjarstæða. Í þriðja sinn kemur síðan radarstöðin á Vesturlandi, sem er afhent nákvæmlega á sama hátt. Þarna höfum við Keflavíkurflugvöll og land undir þrjár radarstöðvar, sem er afhent varnarliðinu með samkomulagi við ríkisstj., án þess að nokkurt þessara atriða sé borið undir Alþ., og þetta er allt byggt á því ákvæði varnarsamningsins, sem ég hef vitnað til. Sama skeður síðar í sambandi við stöðina á Snæfellsnesi. Það er því alveg furðanleg óskammfeilni hjá hv. 1. flm. þáltill. að vera enn, eftir að búið er að benda á allar þessar staðreyndir, að þrástagast á því, að það sé stjórnarskrárbrot af hálfu ríkisstj., ef hún ber það ekki undir Alþ., í hvert skipti sem hún fær varnarliðinu einhverja aðstöðu á Íslandi, hvort sem það er landssvæði eða annað. Og svo segir þessi hv. þm. enn þá, að nú sé verið að semja við annan aðila en varnarsamningurinn var gerður við. Varnarsamningurinn var gerður við Bandaríkin í umboði Atlantshafsbandalagsins. Það samkomulag, sem ríkisstj. er að gera innan marka varnarsamningsins, er ekki sjálfstæður eða sérstakur samningur. Það er framkvæmdarsamningur við varnarsamninginn, hann er gerður við Bandaríkin í umboði og með samþykki Atlantshafsbandalagsins. Atlantshafsbandalagið leggur fram féð að mestu, Bandaríkin að nokkru og Bandaríkin annast framkvæmdina. En vegna þess að Atlantshafsbandalagið leggur þarna fram fé að nokkru, kemur það einnig fram sem beinn samningsaðili. Hér er því ekkert nýtt á ferðinni og hér kemur enginn nýr aðili til sögunnar.

Hv. 1. þm. Austf. sagði, að Bandaríkin og NATO ættu að fara að byggja nýja olíustöð í Hvalfirði, væri þar um nýjar hernaðarframkvæmdir að ræða, þetta væri slíkt stórmál, að Framsfl. vildi ekki á það fallast, og m.a. gæti þetta leitt til þess, að einhverjir hermenn yrðu til varnar þessum olíustöðvum í Hvalfirði. Sérstaklega lýsti þessi hv. þm. því yfir, að slíkt stórmál sem þetta yrði að leggjast fyrir hv. Alþ., áður en hægt væri að afgreiða það. Undir þetta tóku svo að sjálfsögðu þeir þm., sem hér hafa talað af hálfu Alþb. og samherja þess, hvað sem þeir nú kalla sig. Ég vil nú minna þessa þm. og ekki hvað sízt hv. 1. þm. Austf. á, að fyrir nokkrum árum hafði varnarliðið enga aðstöðu í Hvalfirði. Það voru þar olíugeymar, en þar var geymt eldsneyti fyrir íslenzk fiskiskip. Svo skeður það einn dag, að olíufélagið, sem á þessa geyma, losar alla olíuna og allt eldsneytið, sem skipunum var ætlað, af geymunum og semur við varnarliðið um, að geymarnir skuli hér eftir notaðir til þess að geyma eldsneyti fyrir varnarliðið. Með þessum samningum byrja afnot varnarliðsins af Hvalfirði. Það var olíufélagið, sem innleiddi þessi afnot varnarliðsins af Hvalfirði með þessum samningum. Ekki sáu þeir, sem að þessum samningum stóðu, og eru þeir nokkuð nákomnir hv. 1. þm. Austf., að því er mér er kunnugt, ástæðu til að spyrja ríkisstj. um þetta, og ekki þótti ástæða til þess, að Alþingi skipti sér neitt af því, þó að olíufélagið í Hvalfirði væri að taka um 40 olíugeyma þar í þjónustu varnarliðsins. Og það gerðist svolítið meira. Nokkurn veginn um það leyti, sem farið var að dæla fyrstu olíudropunum á geymana, kom hópur varnarliðsmanna, sem settist að í Hvalfirði, til þess að gæta olíunnar þar í samráði og með samþykki olíufélagsins, sem hafði tekið að sér geymsluna á eldsneytinu. Þeir, sem lögðu þar með grundvöllinn að því, að Hvalfjörður varð að nokkru leyti herstöð, sáu ekki ástæðu til þess að blanda ríkisstj. inn í þetta, og mér er ekki kunnugt um, og ég held, að það sé áreiðanlega rétt með farið hjá mér, að sú ríkisstj., sem var, þegar allt þetta gerðist, þegar geymarnir i Hvalfirði voru teknir í þjónustu varnarliðsins og þegar herinn var staðsettur í Hvalfirði, — sú ríkisstj., sem þá sat hér, hafði ekkert um þetta mál við Alþingi að tala, hún bar það aldrei undir þingið og hún spurði þingið ekkert um það. En núna, þegar þessir geymar eru orðnir svo úreltir, að eigendur geymanna eru farnir að endurnýja þá að verulegu leyti og kosta til þess stórfé og í raun og veru miklu, miklu meira fé en þeir hafa efni á og þeir eiga sjálfir, og þegar bersýnilegt er, að þeir, sem eiga þessa geyma og reka þá, geta ekki haldið þeim við, þannig að við því má búast, að þeir fari að springa hver á fætur öðrum og olían renni í sjóinn, og gengið er í það, að þeir, sem annast varnir landsins, taki að sér á eigin kostnað að vinna þetta verk fyrir okkur, þá er málið allt í einu orðið svo alvarlegt, að það má til að bera það undir Alþingi, áður en nokkuð gerist í því. Það má ekki endurnýja geymana, sem olíufélagið á sínum tíma gerði að varnarstöð í Hvalfirði, án þess að bera það undir Alþ., þó að stofnun stöðvarinnar og innleiðsla herliðsins í Hvalfirði hafi ekki verið borin undir Alþingi. Ég verð að segja, að í mínum augum er enginn annar munur á því ástandi, sem ríkt hefur í Hvalfirði, og því ástandi, sem er fram undan í Hvalfirði, en sá, að á undanförnum árum hefur íslenzkt olíufélag leigt varnarliðinu geymana og þegið nokkra umbun fyrir, en þeir geymar, sem hér eftir verða byggðir, eru eign þeirra, sem byggja þá, en ekki olíufélagsins, og þá kemur að sjálfsögðu ekki leiga eftir geymana. Það er leigan ein, sem mér finnst gera hér muninn.

Fullyrðingar hv. síðasta ræðumanns og 1. flm. till. og flokksbræðra hans, sem hér hafa talað, um það, að verið sé að breyta Hvalfirði í flota- og kafbátastöð, eru svo margendurteknar og marghraktar, að ég sé ekki ástæðu til að víkja að þeim sérstaklega. Hann minntist á nokkur atriði, sem hann sagði að væru máli sínu til stuðnings. Ég sé nú sannast að segja heldur lítinn stuðning í þeim atriðum, sem hann taldi fram, sérstaklega þegar gætt er þeirra upplýsinga, sem liggja fyrir i málinu, og vitað er, hvað er að gerast.

Þessi hv. þm. fullyrti, að Bandaríkin hefðu haft áhuga á að fá miklu frekari aðstöðu í Hvalfirði en bar væri eingöngu geymt eldsneyti. Þetta er alveg rétt. Það hefur enginn neitað þessu. En því hefur bara verið hafnað. Það eina, sem er að gerast, er, að það er verið að leyfa að endurbyggja, það er verið að leyfa að endurnýja geymana, sem fyrir eru.

Þessi hv. þm. segir líka, að sennilega séu að verða stjórnarskipti í Bretlandi og Bandaríkjamenn séu að missa aðstöðu í Skotlandi fyrir flota sinn. Ég ætla ekki að fara að spá neinu um, hvað er að gerast í brezkum stjórnmálum, þaðan af síður ætla ég að spá neinu um það, hvernig framtíðaraðstaða Bandaríkjanna verður þar. Um þá hluti veit ég ekki nokkurn skapaðan hlut. En það liggur ljóst fyrir, að eins og ástandið hefur verið að undanförnu, er ekki um það að ræða, að nein aðstaða skapist hér til þess að flytja þann flota, sem er í Skotlandi, eða neinn hluta hans hingað til Íslands.

Þá sagði hv. þm., að vegna þess að flotinn hefði tekið við rekstri herstöðvanna á Íslandi af flughernum, væru líkur fyrir því, að herskipafloti mundi í nánustu framtíð fá aðsetur hér á Íslandi. Þetta er eins og hver önnur fjarstæða. og ef þessi hv. þm. hefur eitthvað fylgzt með, á að hann að vita bað. Því var lýst yfir, þegar flotinn tók við stjórn varnarmálanna á Íslandi af flughernum, að þar væri eingöngu um að ræða mannabreytingar í landi, en ekki kæmi til mála að breyta aðstöðu á neinn hátt og flotanum væri með þessu ekki sköpuð hér nein aðstaða. Þessu var lýst yfir bæði af ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bandaríkianna, og á þessu hefur engin breyting orðið, hvorki í orði né í verki.

Þá sagði hv. þm., að það, að Hvalfjörður hefði verið mældur af Bandaríkjamönnum, væri einhver sönnun fyrir því, að hér væri að koma floti, sem ætti að hafa hér aðsetur. Einnig þetta er fjarstæða. Bandaríkjamenn hafa verið að mæla hér á landi í mörg ár. Þeir hafa verið að mæla í kringum Ísland líka, og um leið og varnarsamningurinn var gerður 1951, var gert ráð fyrir því og þeim heimilað að gera hér nauðsynlegar mælingar. Þessi heimild hefur verið til og Bandaríkjamenn hafa haft aðstöðu og leyfi til þess að gera þetta allar götur síðan 1951. Það hefur ekki leitt til þess, að neinn floti hafi fengið hér neina aðstöðu.

Þá sagði þessi hv, þm. einnig, að ég hefði farið að einhverju leyti með ósatt í sambandi við stofnun stóðvarinnar á Snæfellsnesi. Hann fer hér algerlega með rangt mál, — gersamlega. Ég vil bara benda þessum hv. þm. á að koma með þær yfirlýsingar, sem ég hef um þetta mál gefið, og ég skal sýna honum. að það er nákvæmlega satt og rétt, sem í þeim stendur samkv. því samkomulagi, sem gert var, og þeim rekstri, sem þarna hefur átt sér stað.

Ég verð að segja, að þau rök, sem verið hafa hér á ferðinni í þessum umr. í kvöld, eru tvíþætt, eins og fram hefur komið, annars vegar hvort ríkisstj. hefði heimild til þess að gera það samkomulag, sem í ráði er að gera, án þess að bera það undir Alþingi, og hins vegar, hvort með þessu væri verið að stofna flotastöð. Eftir þær umr. og þau rök, sem fram hafa komið, þar sem sýnt hefur verið fram á, að ríkisstj. hefur fullkomna heimild til þessa samkomulags í varnarsamningnum og ekki er hinn minnsti fótur fyrir því, að hér sé verið að gera nokkra breytingu á því ástandi, sem ríkt hefur að undanförnu, þá furðar mig á því, að formælendur till., sem hér liggur fyrir, skuli vera að endurtaka það, sem þeir kalla rök fyrir sínu máli.