20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

1. mál, fjárlög 1964

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla að mæla hér fyrir nokkrum till., sem við flytjum í félagi, hv. 3. þm. Vesturl. og ég.

Þá er það fyrst till. á þskj. 178 undir III. Það er nýr liður, Arnarstapi á Snæfellsnesi, en Arnarstapi liggur sunnanvert á Snæfellsnesi, sunnan Breiðuvíkur, eins og það er kallað. Og þar hefur um langa tíð verið nokkur útgerð, og þar eru, eins og víðar við Snæfellsnes, mikil og góð fiskimið skammt undan landi. Þarna er höfn líka nauðsynleg fyrir báta til að lenda, þegar veður skella á snögglega, eins og oft hefur fyrir komið. Til þessarar hafnar á Arnarstapa, sem þar er nú, hefur verið varið nokkru fé úr ríkissjóði á undanförnum áratugum, og eru komnar í þá höfn 1 millj. 170 þús. kr. En þetta er ekki fullnægjandi til að gera nógu góða aðstöðu fyrir þá báta, sem þarna eru, og þessi aðstaða er eingöngu fyrir opna báta. Fyrirhugað er að bæta þessa aðstöðu, sem þarna er, með því að setja upp dráttarvindu og e.t.v. að koma upp bátasleða með fleiru. Aðdýpi er mikið við Arnarstapa, og hafnarmannvirki eru talin, þar fremur kostnaðarsöm miðað við það, sem víða er á landinu. Því förum við ekki fram á að svo stöddu, að meira fé verði varið nú að þessu sinni, en ríkið sýni lit á því að endurbæta hafnarmannvirki, sem fyrir eru, og þar með bæta aðstöðuna, en að það sé ekki lagt í nein stórkostleg mannvirki að svo komnu, enda hrökkva 200 þús. kr. skammt til þess, að slíkt sé hægt að gera. Yfirleitt eru þær hafnir, sem gerðar eru á landinu, milljóna og milljónatuga fyrirtæki, ef þær eiga að veita fullkomna og góða þjónustu stórum og góðum fiskiskipum. En þarna er, eins og ég sagði áðan, yfirleitt um opna báta að ræða, og það fólk, sem þarna býr, stundar sjóinn endrum og eins, ásamt því sem það yrkir jörðina. Og til þess að glæða áhuga þess og bæta aðstöðu þess til sjávarins er nauðsynlegt að verja fjármagni þarna til hafnarbóta, og ég vil mælast til þess, að hv. þm. styðji þessa till., því að ég held, að eins og fjárlög eru nú orðin há, skipti það ekki höfuðmáli, þó að bætt sé 200 þús. kr. við þá fúlgu, sem þar er verið að samþykkja þessa dagana.

Þá er það önnur till., sem við flytjum, hv. 3. þm. Vesturl, og ég, á sama þskj., undir XV. Það er um hækkun á framlagi til jarðhitasjóðs eða að framlagið verði hækkað um 2 millj. kr. Ég þarf ekki hér að vera að lýsa því, hvorki hvert er hlutverk jarðhitasjóðs né því, hvað jarðhitinn getur haft mikla og góða þýðingu fyrir framtíð okkar í þessu landi. En ég tel, að jarðhitinn sé þau auðæfi í jörðu, sem munu í framtíðinni færa okkur mikla björg í bú, bæði með því að spara okkur innflutning á margs konar eldsneyti, sem við flytjum nú inn, ásamt því sem jarðhitinn getur orðið til þess að efla í verulegum mæli útflutningsframleiðslu okkar og þar með orðið gjaldeyrisskapandi í framtíðinni. Hér er því verið að verja fjármunum til þess að leysa úr læðingi þau verðmæti, sem munu verða til þess að bjarga afkomu okkar út á við í framtíðinni e.t.v. í miklu ríkara mæli en við gerum okkur ljóst í dag. Það er líka vitað mál, að jarðhiti er e.t.v. miklu víðar en við höfum hugmynd um nú. En með borun er hægt að komast að raun um þessa hluti, og það er eitt af hlutverkum jarðhitasjóðs að sjá um að styrkja slíkar rannsóknir og láta bora eftir heitu vatni víðs vegar á landinu, þar sem þess er mest aðkallandi þörf, nú á næstunni og einnig síðar að sinna verkefnum, sem okkur finnst ekki í augnablikinu vera jafnþýðingarmikið, að ráðizt sé í. Ég vænti því þess, að hv. alþm. samþykki þessa till. okkar einnig.

Þá höfum við leyft okkur að flytja þriðju till., sem er á sama þskj., undir XVIII, og það er nýr liður, til félagsheimilasjóðs. En það er 5 millj. kr. framlag, sem við förum fram á samkv. þessari till. til félagsheimilasjóðs. Eins og kunnugt er, skortir allmikið á það, að félagsheimilasjóður hafi nægjanlegar tekjur, þótt hann hafi nú aðeins helming af því framlagi, sem skemmtanaskatturinn er árlega, en sem kunnugt er fer helmingur af skemmtanaskatti til þjóðleikhússins. En sá hlutinn. sem félagsheimilasjóði fellur í skaut nú, mun vera, eftir því sem ég hef komizt næst, 5–6 millj. kr. Þetta breyttist nokkuð á yfirstandandi ári með breyt. á lögum um skemmtanaskatt, sem lögfest var nokkru fyrir þingslit í vor sem leið. Þá bættust við tekjur félagsheimilasjóðs ca. 1–2 millj. kr., svo að hlutur félagsheimilasjóðs er að sjálfsögðu betri en fyrir þessa löggjöf, enda þótt hann hafi allt of lágar tekjur eigi að síður, því að honum er ætlað að greiða 2/5 hluta af kostnaðarverði félagsheimila, sem viðurkennd eru af stjórn félagsheimilasjóðs. En sá skuldahali, sem myndazt hefur hjá félagsheimilasjóði, hefur vaxið ár frá ári, og kunnugir telja, að þar muni vera nálægt því nú um 50 millj. kr. skuld að ræða, sem félagsheimilasjóði ber að greiða samkv. lögum til 77 félagsheimila, sem nú eru í byggingu. En alls mun hafa verið veitt framlag til því sem næst 100 félagsheimila, síðan félagsheimilasjóður fékk það hlutverk að rísa undir hluta af þessum kostnaði.

Ég býst við, að það sé því mjög þröngt fyrir dyrum víða, þar sem staðið er í félagsheimilabyggingum, því að í fyrsta lagi eiga þessir aðilar að sjá um að afla 3/5 hluta af kostnaðarverði félagsheimilanna, þess á að afla heima fyrir, en auk þess verða þeir, sem standa í félagsheimilabyggingum nú, að taka á sig allt að 50 millj. kr. skuld, sem félagsheimilasjóður skuldar beint. Þessu verða þeir einhvern veginn að sjá fyrir, þar til greiðslur verða inntar af hendi samkv. l. Og ég held, að það verði nokkuð langt að bíða þess, að þær tekjur, sem félagsheimilasjóði eru ætlaðar nú, nái því að borga þessa skuld, sem áfallin er, ásamt því að standa í skilum með að borga lögboðinn hluta af þeim félagsheimilum, sem byrjað verður á nú á næstunni, því að enginn vafi er á því, að þessi þróun heldur áfram, að félagsheimili verða byggð, enda þótt félagsheimilasjóður geti ekki árlega innt af hendi þær greiðslur, sem honum ber. Ég býst við, að við séum allir sammála um það, að þörfin hér sé mjög brýn, og enda þótt ég sé þess fullviss, að hér sé ekki um neina endanlega fullnaðarafgreiðslu að ræða á þessum málum með þessari till., þá er ég þess fullviss samt, að þessar 5 millj. kr. munu hrökkva langt til þess að bæta úr brýnustu þörf hjá þeim félagsheimilum í landinu, sem eru að ná lokatakmarkinu eða eru í þann veginn að geta komið sínum húsum í það horf, að menn geti byrjað að afla tekna til að greiða niður þá fjárfestingu, sem þeir hafa staðið í. Ég vænti því þess, að hv. alþm. sýni þessu máli góðan skilning og greiði einnig atkv. með þessari till. okkar, sem við höfum hér lagt fram.