30.10.1963
Sameinað þing: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (2821)

24. mál, endurskoðun laga um Bjargráðasjóð

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 24, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða lög um Bjargráðasjóð Íslands í því skyni, að komið verði á fót tryggingarkerfi fyrir landbúnaðinn í heild, sem geti að mestu leyti mætt tjónum, sem koma fyrir af náttúruhamförum og annarri óáran. Ber þá að athuga, hvort bjargráðasjóður í þeirri mynd eða svipaðri, sem hann er nú, er eðlilegasta formið á lausn allsherjartryggingamála landbúnaðarins, eða sjálfstæð tryggingarstofnun, og á hvern hátt er fært og eðlilegt að afla aukinna tekna til þessara trygginga. Þessari endurskoðun og athugun verði hraðað eftir föngum, enda verði kvaddar til undirbúnings málsins þær sérstofnanir, sem telja má málið skyldast.“

Við hv. 6. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, flytjum þessa till. nú, en fluttum hana einnig á síðasta Alþingi alveg shlj. En þá lá mikið af málum fyrir Sþ., og till. komst ekki til umr. fyrr en undir þinglok og vannst þá ekki tími til afgreiðslu. En ástæða er til að ætla, að hún hafi átt og málið í heild fylgi í Alþingi. Og ég vil benda á í því sambandi, að eigi færri en þrjár þáltill. komu þá fram, sem hnigu mjög eða alveg að sama marki, um sama efni, og enn eru þær komnar fram á þessu hv. Alþingi. Enda eru tryggingamál ofarlega á bauki í nútíma þjóðfélagi, og ég vil þar benda á hinar víðtæku almannatryggingar, og ég bendi enn fremur á aflatryggingasjóð útgerðarinnar, en lög um hann voru sett hér á hv. Alþingi á síðasta kjörtímabili. Það er að vísu viðurkennd staðreynd, að landbúnaður sé í eðli sínu tryggur og frekar árviss atvinnuvegur, en þrátt fyrir það er ávallt fyrir hendi margs konar áhætta og margs konar tjón að ske. Að þessu er nokkuð vikið í grg. þeirri, sem fylgir þáltill. Þar segir:

„Saga undanfarinna ára sýnir glögglega þörfina fyrir fullkomnari tryggingar en bjargráðasjóður veitir nú. Má minna á Heklugosið 1947, vorharðindin 1949, hallærissumarið norðan- og austanlands 1950 með fimbulvetur í kjölfarið, óþurrkasumarið 1955 sunnan- og vestanlands, kalið í ræktunarlöndunum eftir 1950 og aftur nú, 10 árum síðar. Enn má nefna einstök, staðbundin tjón, svo sem lambalát í ám eða fjárskaða í veðrum.“

Og enn segir:

„Þau náttúrufyrirbæri, sem valda rýrum fóðurafla og uppskeru, eru alvarlegasta tjónið. sem landbúnaðurinn verður fyrir, eins og rekstri hans og framleiðslumálum er nú háttað. Sú tilrauna- og vísindastarfsemi, sem í gangi er í atvinnumálum, hnígur m.a. að því að finna ráð og starfsaðfestir, sem fyrirbyggja sem mest, að slíkt tjón geti orðið. Má þar nefna rannsókn á heyverkunaraðferðum, áburðartilraunir o.fl. Má mikils vænta af þeirri starfsemi á næstu árum, sem gerir uppskeru og arð búskaparins öruggari en áður. M.a. má vænta þess, að unnt reynist að draga úr því tjóni, sem kalið í ræktunarlöndunum nú veldur. En það er of mikil bjartsýni að ætla, að tjón af misæri og náttúruhamförum verði yfirstigið með öllu í náinni framtíð.“

Það er vikið að því, að ört vaxandi þáttur fjármagnsins skapi aukna áhættu. Á það er og að líta, að leið þess, frá því að það er lagt í reksturinn og þar til það kemur fram sem fullkomin markaðsvara, — sú leið er alllöng og margt getur skeð á leið fjármagnsins þar. Eins og ég áður minnti á: kalið í ræktunarlöndunum, óþurrkar, stormar, stórrigningar spilla heyfeng, sjúkdómar, veðuráföll o.fl. geta rýrt og spillt búfjárafurðum. Þetta þarf ekki að skýra nánar, en ég vænti, að till. fái stuðning hv. alþm.

Ég vil minna á í þessu sambandi, að nýlega er tekin til starfa fóðurframleiðslustöð i Gunnarsholti á Rangárvöllum, sem áreiðanlega getur hjálpað til að leysa vanda fóðurtrygginganna, sem er stór þáttur þessa máls og kannske stærstur. Fjármagnið eitt getur aldrei tryggt að fullu gegn tjóni af vöntun á fóðri. Fóðrið þarf að vera til. Fjármagnið þarf að vera í nýtanlegu formi.

Þetta er aðkallandi nauðsynjamál og þarf að flýta því, að nefnd taki til starfa og undirbúi lagasetningu, og Alþingi þarf sem fyrst að setja þessi lög. Það er engan veginn víst, að bjargráðasjóður sé heppilegasta form þessara trygginga. En allt slíkt er nefndarinnar að athuga, og undir tryggingunum á að standa bæði af landbúnaðinum sjálfum og þjóðfélaginu í heild.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessari umr. verði nú frestað, og ég vil enn fremur leggja til, að till. verði vísað til hv. allshn. Það kann að vera álitamál, hvort ætti heldur að vísa henni til fjvn. eða allshn., en eins og störfum þessara nefnda er nú háttað, þá er fjvn. mjög hlaðin störfum, en ég vildi ætla, að það væri möguleiki á því, að allshn. gæti tekið þessa till, skjótlega til athugunar og afgreiðslu, þannig að hún gæti orðið afgreidd hér á Alþingi fyrir jól, því að það er mikil nauðsyn að mínu viti, að unnt sé að skipa nefnd í þetta mál sem fyrst. Það er engan veginn áhlaupaverk að semja slíka löggjöf, hins vegar þýðingarmikið, að það dragist ekki úr hófi, og þess vegna mikils vert, að n. verði skipuð sem fyrst.