30.10.1963
Sameinað þing: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (2837)

37. mál, heyverkunarmál

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. um heyverkunarmál á þskj. 37, sem hér er á dagskrá, er flutt af mér og öðrum þm. Framsfl. Við höfum flutt shlj. till. þessari á undanförnum þingum, en hún hefur ekki fundið náð fyrir augum hv. meiri hl. hér á Alþingi og ekki fengið afgreiðslu. Enginn hefur þó á undanförnum þingum viljað mótmæla efni hennar, enda á hvers manns vitorði, hvílík nauðsyn það er að hjálpa með opinberum aðgerðum til í miklu stærra mæli en fram að þessu hefur verið gert við það að tryggja möguleika sem allra flestra bænda í landinu til árvissrar og öruggrar heyverkunar. Tæknin býður, eins og kunnugt er, upp á slíka möguleika, og hafa margir bændur brotizt í því, þó að dýrt sé, að koma fyrir hjá sér þeirri aðstöðu og tækni, sem til slíks þarf. En þetta er svo dýrt í stofnkostnaði, að fjöldi bænda hefur enn ekki getað notfært sér þetta. Til þess að bæta úr því höfum við flm. þessarar þáltill. flutt hana þing eftir þing í trausti þess, að þótt seint gangi róðurinn, þá sækist hann þó um síðir og málið nái fram að ganga á einhvern þann veg, er verða megi bændunum að gagni í starfi þeirra við verkun heyjanna, en í okkar landi er sú uppskera undirstaðan að mestum hluta af okkar landbúnaðarframleiðslu, eins og mönnum er kunnugt. Ef hægt er að ná því hugsaða marki, sem till. gerir ráð fyrir, á einhvern annan hátt eða eftir öðrum leiðum, þá erum við flm. fúsir til að fallast á breytingar, því að fyrir okkur vakir auðvitað það eitt að vinna þessu máli það gagn, er í okkar valdi stendur. Þetta málefni snertir auðvitað fleiri en bændurna. Það er eins og flest, sem snertir atvinnuvegina, að það er málefni þjóðarinnar allrar. Þjóðin sem heild mundi græða á því, að bændurnir gætu notað þær aðferðir við heyverkun, sem gefa þá góðu raun, sem reynslan hefur sýnt að þær gera og er þannig, að tiltölulega lítið efnatap verður við verkun og geymslu heyjanna, sem kvikfjárrækt okkar hér á landi byggist á að aflað sé.

Ég hef áður hér á hv. Alþingi rætt þetta mál nokkuð, og ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að fara um þetta mörgum orðum núna. Ég vil aðeins minna á það enn einu sinni, að landbúnaðurinn veltur nálega eingöngu á heyöflun hér hjá okkur Íslendingum. Nú má heita, að heyjanna sé svo til eingöngu aflað af ræktuðu landi. Það hefur verið miklu til þess kostað að rækta landið, og mikill er áburðarkostnaðurinn árlega, sem til þarf, svo að ræktunin skili góðri uppskeru. Það er því mikið til vinnandi að tryggja það, að fóðrið nýtist sem bezt. Okkur flm. er ljóst, að hið opinbera hefur í mörg horn að líta, því að kröfur berast frá hinum ýmsu þáttum framkvæmda- og atvinnulífs um alls konar stuðning og fyrirgreiðslu, og er flest eða allt slíkt nauðsynlegt. Atvinnulíf þjóðarinnar er að verða margþætt og fjölskrúðugt, og er gott til þess að vita.

Landbúnaðurinn er okkar elzti atvinnuvegur, jafngamall þjóðinni og allt fram á okkar daga svo að segja hennar eina lífsbjörg, sem hún fæddi sig og klæddi af. Það er hagsmuna-, menningar- og metnaðarmál fyrir íslendinga að tryggja og efla velgengni og öryggi þessa atvinnuvegar, sem veitti þjóðinni bæði fæðu og föt, svo að hún hélt þoli og þreki í þrengingum margra alda. Og nú með hinum miklu vísindum og tækni hefur það komið í ljós, að Ísland er mjög vel fallið til grasræktar og að hér eru meira að segja betri skilyrði til framleiðslu hinna dýrmætustu landbúnaðarvara, mjólkur og kjöts, skinna og ullar, heldur en er í ýmsum suðlægari löndum. Mér finnst eins og mönnum vilji stundum gleymast þetta mikilvæga atriði. Heilbrigt atvinnulíf eigum við að efla á öllum sviðum auðvitað, og þar má landbúnaðurinn sízt verða hornreka. Fyrir nokkrum árum má segja, að íslenzkir bændur hafi staðið varnarlausir gagnvart hinu mislynda og oftast raka loftslagi, sem hér er ríkjandi. Nú vantar hins vegar ekki hjá fjölda bænda annað til að standast slíkt heldur en þeir eigi aðgang að nægilegu og hagkvæmu lánsfé til að eignast vélar og tæki, sem hjálpa til við verkun heyjanna, hvernig sem viðrar. Ég trúi nú ekki öðru en slíka aðstoð sé hægt að veita af hálfu hins opinbera, ef góður skilningur og vilji er fyrir hendi, og því fyrr sem slík aðstoð er veitt, því betra, bæði fyrir bændurna og landið í heild.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta nú að þessu sinni. Það hafa verið ákveðnar tvær umr. um þetta mál, og ég vil leyfa mér að leggja til, að þegar þessari umr. er lokið, verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjvn., og vil ég þá æskja þess, að n. tæki málið til ýtarlegrar athugunar og skilaði áliti um það sem fyrst, svo að það mætti verða afgreitt snemma á þessu þingi.