06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (2867)

44. mál, héraðsskólar o.fl.

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég varð mjög undrandi, þegar ég sá þá afgreiðslu, sem þetta mál hefur fengið hjá meiri hl. allshn., þar sem lagt er til að vísa málinu til ríkisstj. Ég hafði búizt við, að þessi till. mundi fá jákvæða afgreiðslu hjá n. Mér datt ekki annað í hug en nm. hefðu kynnt sér svo vandtega viðhorfið, eins og það er í þessum málum úti í dreifbýlinu, að þeim fyndist full ástæða til þess að láta fara fram kosningu á sérstakri nefnd til þess að rannsaka þessi mál hvarvetna á landinu. Það fer ekkert á milli mála, — við vitum það, sem búum úti í dreifbýlinu, — að það er að verða helzt ómögulegt að koma unglingi til náms. Við verðum að bíða í 2—3 ár eftir því að koma krökkum í unglinga- eða héraðsskóla. Þannig er ástandið orðið, og þetta er í raun og veru algerlega óviðunandi ástand.

Frsm. meiri hl. telur, að það sé búið Þegar að móta stefnuna í fræðslumálum dreifbýlisins, það sé búið að gera það hjá fræðslumálastjóra, fræðslumálastjóri og hans starfsmenn séu þegar búnir og hafi tilbúnar till. um skipulagningu í þessum málum. Ég veit ekki til, að þetta sé. Ég hygg, að þetta sé algerlega rangt. Eg hygg, að það sé algert skipulagsleysi í þessu og engar till, liggi fyrir um bað, hvernig á að leysa málin, enda er óhugsandi að leysa þessi mál eins fyrir allt landið. Það verður að gera Þetta með tilliti til aðstæðna á hverjum stað, t.d. um barnafræðsluna. Það er óhugsandi að setja upp allsherjarkerfi yfir allt landið. Það eru svo mismunandi aðstæður í landinu. Sums staðar er e.t.v. mögulegt að hafa heimavistarbarnaskóla fyrir marga hreppa saman, þó að ég telji að vísu, — það er mitt persónulega sjónarmið, — að það muni vera mikill vandi að reka slík fyrirtæki, þegar skólaskyldan er komin niður í 7 ár — og sennilega verður hún færð niður enn — og fólk sendir börn sín 6–7 ára gömul í margra mílna fjarlægð frá heimilum sínum til langdvalar i skólum. Ég efast um, að það sé hægt að hafa mörg svo ung börn saman í heimavistarskólum fjarri heimilum sínum.

Annars staðar er það víða komið á, að það eru heimanakstursskólar svokallaðir fyrir börnin. Mér er kunnugt um, að þar sem það fyrirkomulag er, er það þannig, að þeir, sem það hafa, vilja ekki missa það, ekki með nokkru móti missa það. Þeir vilja hafa þetta fyrirkomulag. Ég álít, að það verði að leysa þessi mál eftir því, sem hentar og vilji fólksins styður á hverjum stað. Þess vegna hefði mér þótt eðlilegt, að kosin hefði verið mþn., þótt hún hefði jafnvel þurft að vera að störfum í tvö ár, til þess að rannsaka og kanna þessi mál og reyna að komast að niðurstöðu um það, hvernig heppilegast er að leysa þetta á hverjum stað fyrir sig.

Þá vil ég minnast á eitt enn, sem einhver vék að hér áðan, og það er um þá vöntun, sem er á því hjá dreifbýlisfólki að koma börnum sínum eða unglingum til iðnnáms. Í sveitunum er fjöldi unglinga, sem vill komast í iðnskóla. Við höfum enga slíka skóla í sveitunum. Það væri nauðsynlegt að koma upp sérstökum iðnskólum, sérstökum heimavistarskólum í sveitum, eins konar héraðsiðnskólum. Það þyrfti kannske ekki að vera nema einn til að byrja með fyrir allt landið, en gæti svo fjölgað, eftir því sem tímar liðu og nauðsyn bæri til. Þetta þarf allt að rannsaka og kanna og mér þykir bað ólíklegt, að fræðslumálastjóri hafi því starfsliði á að skipa, að hann geti innt þetta af höndum. Mér þætti miklu eðlilegra, að hér væri til fengin sérstök þn. og henni fengið starfslið til þess að rannsaka þessi mál. Þetta er eitt þýðingarmesta mál þjóðarinnar, það er uppeldi og menntun æskunnar, og ég furða mig á þeirri niðurstöðu, sem meiri hl. n. hefur komizt að, og vil þess vegna leggja áherzlu á, að till. verði samþykkt.