20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

1. mál, fjárlög 1964

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 185, vildi ég leyfa mér að segja nokkur orð út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér í kvöld. Það er kannske að vísu ekki tími né tækifæri til þess að fara út í almennar umr. um það, sem hann kom inn á, en vissulega væri það einhvern tíma vert hér á Alþingi, að við tækjum nokkrar umr. um það mál, sem alltaf er verið að ræða og aldrei er reynt að kryfja til mergjar, verðbólguna svokölluðu.

Hæstv. fjmrh. talaði um, að það væri eftirspurnin eftir vinnuafli, sem væri orsök þenslunnar. Við skulum kafa ofur lítið dýpra í því. Nú sem stendur er orsök þenslunnar m.a. sérstaklega sú, að menn eru á flótta með sitt fé út úr bönkunum og út úr því ástandi, að það séu peningar, og yfir í fjárfestingu. Það er þessi flótti, sem auk þarfarinnar t.d. á húsnæði veldur því, hve mikið er alltaf verið að byggja, hve mikið fólkið gerir að því að reyna að setja sitt fé fast í íbúðir eða menn eru að braska með íbúðir eða annað slíkt. Enginn maður, sem fæst eitthvað við fésýslu, vill láta sína peninga liggja á banka. Hann reynir undireins að koma þeim í eitthvað fast. Og þetta er ekki neitt nýtt fyrirbrigði, heldur fyrirbrigði, sem er búið meira eða minna að vera hjá okkur í 20 ár. Í venjulegu kapítalistísku þjóðfélagi sveiflast pendúllinn, ef maður má nota þá líkingu, frá atvinnuleysi og kreppu annars vegar yfir til verðbólgunnar hins vegar, og ef maður ætlar að reyna að halda nokkuð stöðugu þjóðfélagi, sem hvorki hefur atvinnuleysi né verðbólgu, þá verður maður að reyna að hafa stjórnina á þessu, reyna að skapa þarna stöðvun í staðinn fyrir þessar sveiflur. Það gerir maður ekki nema með fullkomnu eftirliti og yfirstjórn á sjálfri fjárfestingunni í þjóðfélaginu. Það er frumforsendan fyrir því, að hægt sé að skapa stöðugt ástand hvað verðlag snertir, í svona litlu þjóðfélagi getum við sízt af öllu gert þetta með því að láta þetta vera sem kallað er frjálst. Eðli okkar kapítalistíska þjóðfélags er, svo framarlega sem það er látið vera frjálst, þannig, að það sveiflast frá kreppunni yfir í verðbólguna, venjulega á 10 ára skeiði, og síðan til baka. Og þar sem menn vilja komast hjá því, svo sem menn hafa reynt, líka í þjóðfélögum t.d. eins og því norska, það er með því að hafa nægilega mikið eftirlit með fjárfestingunni og nægilega mikla yfirstjórn á henni.

Hæstv. fjmrh. kom í sambandi við þetta inn á, að það yrði, ef það yrði samið um 15% kauphækkun núna, alls 30% hækkun á kaupgjaldi, og sagði, að það sæi svo sem hver maður, að þjóðfélagið þyldi ekki 30% hækkun á kaupgjaldi. Ég efast nú um, að það sjái þetta hver maður. Hvað þýðir 30% hækkun á kaupgjaldi núna í ár? Við skulum ekki vera að tala um þetta í peningum, því að peningarnir eru ekki lengur orðinn neinn mælikvarði á hlutina. Peningarnir hafa verið gerðir að algerlega teygjanlegum hlut. Peningarnir eru svipað núna, hvað þeirra gildi snertir, eins og við hefðum samþykkt lög um það hérna á þingi, að t.d. í 1 metra skuli vera 70 cm, og síðar, að það væru 60 og eitthvað þess háttar. Þannig erum við búnir að fara með peningagildið. Ef við ætlum að reyna að skapa okkur eitthvað stöðugt til þess að byggja á í þessu efni, þá verðum við fyrst og fremst að byggja á kaupmætti launanna.

Hvað er kaupmáttur launanna í dag, miðað við þann mælikvarða, sem við erum vanir að leggja þar á, þegar við miðum við 100 árið 1945? Kaupmáttur lægsta Dagsbrúnarkaupsins er núna 1. des. 81 stig, það lægsta, sem hann hefur komizt á 20 árum. Jafnvel þótt það væri 30% launahækkun, mundi það ekki fara yfir það, sem kaupið hefur verið mest á þessu 20 ára tímabili. 15% launahækkun mundi þýða hækkun á kaupmættinum úr 81 upp í 93. Það er sama og var fyrir 3 árum, lægra, en það var allt árið 1959, lægra en það var allan tíma vinstri stjórnarinnar. Ef við erum að tala um þessa hluti, verðum við sem sé að miða við eitthvert gildi, sem ekki er eins og teygjusnúra, þannig að það er ekkert spursmál um það, að íslenzka þjóðfélagið ber alveg auðveldlega hækkun, sem er 15% af kaupmætti launanna eða 30% hækkun á kaupgjaldinu, eins og það er í ár. Það ber það auðveldlega, íslenzka þjóðfélagið. En það ætti kannske að gera ýmsar ráðstafanir í þjóðfélaginu.

Ég var satt að segja út frá þessu að íhuga dálítið, en hef nú ekki haft mikinn tíma til þess að finna það, en það er kannske fróðlegt fyrir okkur, þegar er verið að slengja fram öllu mögulegu um þessa hluti, að athuga, hvar við stöndum miðað við tímann fyrir stríð, miðað við kreppu- og atvinnuleysisástandið á tímabilinu 1930–40. Að vísu höfðum við ekki heldur góðar skýrslur þá frekar en núna, en ég vildi sumpart til fróðleiks fyrir hæstv. fjmrh. segja honum nokkrar af mínum hugleiðingum í því sambandi, og skal ég þó fúslega játa, að þær eru ekki nærri nógu grundvallaðar, svo að ég álít, að satt að segja hefði sérstaklega hans kollega, hæstv. menntmrh., sem hefur reiknað mikið út í landbúnaðinum, mátt einu sinni gefa sér ofur lítinn tíma til að láta allar sínar reikniskrifstofur reikna dálítið út í þessu sambandi. En mér telst svo til, að 1934, þegar við höfum yfirlit yfir okkar þjóðartekjur, þær voru áætlaðar þá fyrir 114 þús. íbúa 97 millj., þá hafi verið meðaltalstekjur á Íslandi 851 kr., held ég að standi í gömlu Rauðku. Núna munu vera upp undir 180 þús. íbúar hjá okkur. Árstekjurnar, það er strax eitt af því, sem nú verður að gizka á, hvergi nokkurs staðar fær maður nokkuð ákveðið raunverulega um þetta, hvað þær séu, en ég býst við, að þær muni vera um 10 þús. millj., um 10 milljarða, árstekjurnar í ár, eða eitthvað í kringum 56 þús. kr. á hvern mann. Það þýðir, að árstekjurnar eru um hundrað sinnum hærri í heild eða miðað við íbúafjöldann eru þær um 55 sinnum hærri á hvern mann heldur en var 1934. Hvernig er nú vísitalan í dag? Það virðist vera það eina, sem við getum miðað við. Það er vísitala neyzluvörunnar. Hún er, ef maður tekur a-liðinn, sem er sá eini, sem nokkurn veginn er ófalsaður, — húsnæðisvísitöluna getum við ekki reiknað með, — ef við tökum a-liðinn í Hagtíðindunum, þá er hann 17-faldur á við það, sem hann var í janúar–mars 1939. Og mig minnir nú, en það þori ég þó ekkert að fullyrða um, að það hafi ekki verið miklar breytingar á þessum árum, þannig að maður megi nokkuð reikna með því sem grundvallandi þarna, þannig að við megum reikna með, að dýrtíðin, eins og við kölluðum það í gamla daga, hafi 17-faldazt frá því í ársbyrjun 1939. Dagsbrúnarkaupið var þá 1.45 kr., ef ég man rétt, en núna 28 kr. rúmar. Það hefur 19- eða 20-faldazt. M.ö.o.: Dagsbrúnarkaupið hefur vaxið ofur lítið meira en dýrtíðin á þessum 24 árum. Á sama tíma hafa hins vegar, ef við miðum við dýrtíðina og tökum þessa 17-földun og athugum, hvað þjóðartekjurnar hafa vaxið á mann, þá hafa þjóðartekjurnar ferfaldazt, þótt við reiknum með 17-faldri dýrtíð. Á sama tíma sem raunverulegar þjóðartekjur á mann ferfaldast, er Dagsbrúnarkaupið ofur lítið hærra en sjálf vísitalan.

Þetta er nú öll heimtufrekja verkamannanna. Þrátt fyrir alla þá baráttu, sem háð hefur verið nú í 20 ár og nokkur árangur hefur oft og tíðum náðst í henni, — alla þessa baráttu við dýrtíðina er þetta nú allt saman. En þjóðfélagið hefur verið auðgað. Á hvern mann koma fjórfalt meiri tekjur, raunverulegar tekjur, heldur en var 1939, og af þessum fjórfalt meiri tekjum á Dagsbrúnarmaðurinn og hver láglaunamaður á Íslandi, hver verkamaður og annar vinnandi maður kröfu á miklu, miklu meiru, ekki bara 30%, hann á kröfu á 100% og 200%. Þess vegna er það ekkert annað en bull og þvaður út í loftið, að íslenzka þjóðfélagið þoli ekki 30% kauphækkun í ár, það þolir 100%, en það hriktir dálítið í því. Þið verðið að gera svo vel að bæta um leið hið áratuga gamla óréttlæti, og það er praktískara að gera það á hverju ári heldur en láta þurfa að taka mestallt af því í einu.

Auðurinn er til, og verkamennirnir skapa þennan auð, en ranglætið í skiptingu hans er orðið svo hróplegt, að það verður ekki unað við það. Það er hægt að reyna að villa fyrir mönnum með öllum mögulegum tölum. Það er hægt að reyna að hafa hagfræðinga í sinni þjónustu til þess að reyna að forheimska menn með þessu og til þess að það sé hægt að blinda sjálfa ráðh. En það er ekki til neins að ætla að slást við staðreyndirnar í íslenzkri þróun. Verkalýðshreyfingin hefur ekki átt svo lítinn þátt í því að skapa þessa þróun, að hún eigi ekki kröfu á því, að það sé tekið tillit til þessa.

Fjárl. hafa á þessum sama tíma sem þjóðarauðurinn, miðað við peningana eina, hefur hundraðfaldazt, — þjóðartekjurnar hafa hundraðfaldazt miðað við peningana eina og fjárl. 175-faldazt. Ég er ekki að finna að því, og ég skal með ánægju taka það fram, að m.a. er hlutur, sem verkalýðshreyfingin má vera stolt af og þeir, sem hafa hjálpað henni við það, það eru til liðir í fjárl., góðir liðir í fjárl., sem hafa þúsund-faldazt á þessum tíma, eins og almannatryggingarnar, miðað við t.d. 1936, og ég býst við, að allir þm. nú fallist á og þeim þyki vænt um, að það hafi verið framkvæmt. En engu að síður, það hefur verið náttúrlega hrúgað upp afskaplegu ríkisbákni á vissum sviðum, sem hvílir þungt á herðum almennings, og það er ekki von, að almenningur uni því vel, að það verði ekki gerðar ráðstafanir til þess að bæta þar úr óréttinum.

Þetta vildi ég sérstaklega segja út af því, að hæstv. fjmrh. var að tala um, að það mundi verða að gera ráðstafanir og það jafnvel ráðstafanir, sem þýddu nýja söluskatta og annað þess háttar. Á slíku er engin þörf, ekki nokkur þörf. Það er hægt að borga úr þeim sjóði, sem þjóðfélagið og ríkið á nú þegar, alla þá hækkun og meira til en það, sem verkamenn fá í sinn hlut. Og ég vil alvarlega skjóta því til hæstv. ríkisstj., að hún hætti öllu þessu tali um sífellda söluskatta og annað slíkt. Við skulum gera okkur það alveg ljóst, að söluskattur er ekkert annað en skipulögð verðbólga, — ekkert annað. Þeir skattar, sem verður að leggja á, ef það er nauðsynlegt að leggja skatta á, þá eiga það að vera skattar, sem eru teknir án þess, að þeir valdi verðbólgu, og það eru nógir stofnar til þess að leggja slíka skatta á í þjóðfélaginu. Ég vil t.d. benda á, ef einhver maður hefði einhvern áhuga á því að stöðva verðbólguna, þá vil ég benda t.d. á verðhækkunarskatt, verðhækkunarskatt t.d. á lóðunum hérna í Reykjavík, verðhækkunarskatt á húsunum hérna í Reykjavík. Ég býst við, að þótt menn vildu ganga út frá 17-földuninni frá 1936, mundi verða drjúgur hlutur, sem kæmi í ríkissjóð, ef það væri lagður skattur á þau hús og þær lóðir, sem nú er verið að selja, þannig að allt, sem væri fram yfir 17-földun frá mati 1936, skulum við segja, færi í ríkissjóð. Hérna bara rétt handan við okkur standa hús, lítil 3–4 hæða hús, sem seljast núna á 10–20 millj. stykkið og hafa kostað, þegar þau voru byggð, kannske 250–350 þús. Og öll verðlagningin er eingöngu aðgerð þjóðfélagsins. Náttúrlega er eðlilegt, að þessir menn ættu að fá það uppbætt, að þeir fengju sama verð út fyrir húsið, það mætti 17-falda verðlagið, sem þeir ættu að fá, en hitt ætti ríkið að fá, og það mundu vera 3/4 af því, sem þorrinn af húsum við Laugaveg, Bankastræti og Austurstræti eru seld fyrir núna. Það eru nógir stofnar til að leggja á, þar sem má taka af hundruð millj. kr., sem mundi verka líka þannig, að menn hættu að hafa þann mikla áhuga á verðbólgunni, sem menn hafa núna.

Það er alltaf eðlilegt, að hver fjmrh. sem er hafi nokkurn áhuga á að hafa mikið í ríkissjóði. En sú tilhneiging hjá einum fjmrh. að hafa alltaf ríkissjóðinn yfirfullan og afla sér teknanna til hans með söluskatti og öðru slíku, það þýðir að skipuleggja verðbólguna í þjóðfélaginu. Slíkir hæstv. fjmrh. mega ekki verða neitt undrandi, þótt þeir sjái það, að þeir uppskera verðbólgu, þegar þeir sá söluskatti.

Ég held, að þegar við erum að ræða verðbólguna, verðum við að komast að niðurstöðu um, hverju hún sé að kenna. Og niðurstaðan verður aldrei önnur en sú, að hún er að kenna því, að stór hluti auðvaldsstéttarinnar í þjóðfélaginu hefur hagsmuni af verðbólgunni og hefur haft alla tíð. Meiri hl. af atvinnurekendastéttinni hefur alltaf kosið að velta öllum kauphækkunum af sér yfir á þjóðfélagsheildina með því að falsa myntina, með því að breyta verðlaginu, með því að fá að hækka í sífellu. Og ég er ekki að segja þetta sérstaklega til hæstv. núv. ríkisstj. eða núv. hæstv. fjmrh., þetta er búið að ganga svona í 20 ár, vegna þess að það vantar allt aðhald gagnvart okkar atvinnurekendum og meiri hl. atvinnurekendastéttarinnar. Henni er aldrei kennt með hörkunni að reka sinn rekstur almennilega, og svo að ég noti nú orð hæstv. fjmrh.: sýna einhverja kaupsýslu í sínum rekstri. Hún kemst alltaf undan með að falsa myntina, að falsa kvarðann, að teygja úr metrakerfinu, breyta verðgildinu, og meðan ekki er skapað slíkt aðhald að atvinnurekendastéttinni, að hún hætti slíku, þá heldur hún því einfaldlega áfram, af þeirri orsök, að hún hefur engan áhuga fyrir að viðhalda gildi peninganna í landinu, af því að hún á þá ekki sjálf, hún fær þá að láni hjá bönkunum, Það má telja næstum þá atvinnurekendur á annarri hendinni, sem eiga sjálfir peningana, sem þeir nota í sín fyrirtæki, og þeir atvinnurekendur hafa tapað, jafnvel þótt þeir hafi rekið sín fyrirtæki vel, — þeir hafa tapað á verðbólgunni, þeirra rekstrarfé verður alltaf hlutfallslega minna og minna, en hinir, sem fá allt úr bönkunum, þeir hafa hagsmunina af að láta það ganga þannig áfram. Það eru ríkustu mennirnir í landinu, eins og stóreignaskattarnir sýna.

Stefna hæstv. fjmrh. að leggja söluskatt á almenning til þess að safna þannig fé í Seðlabankann og auka verðbólguna þýðir að auka gróða þessara verðbólgubraskara. Það þýðir raunverulega að ganga í vasa almennings og ræna kaupgjaldinu af honum jafnóðum. Og það er anzi hart, að verkamenn skuli hafa þurft að berjast hér í 20 ár og vera núna með lægsta raunverulega kaupgjald, sem þeir hafa haft í þessi 20 ár, og verður þeim þó varla álasað fyrir, að þeir hafi ekki öðru hverju reynt kaupdeilur og verkföll til þess að knýja fram kauphækkanir. En með allri sinni baráttu gera þeir ekki meira en hafa við, og nú er þeim sagt, ef þeir fá kauphækkanir núna, að það skuli verða tekið af þeim á næstu 3–4 mánuðum raunverulega.

Þessi svikamylla í þjóðfélaginu getur ekki gengið. Þessi svikamylla stóratvinnurekendanna í þjóðfélaginu getur ekki gengið. Verðbólgan er eins konar þjófalykill að vösum verkamanna og að sjóðunum, sem ríkið á í bönkunum og sparifjáreigendurnir. Og þessum þjófalykli er í sífellu beitt í þágu meiri hl. atvinnurekendastéttarinnar á Íslandi, til þess að hún viðhaldi öllu sínu ólagi í rekstrinum og öllum sínum skorti á óhagsýni í íslenzkum atvinnurekstri. Þegar svo er verið að safna fé í ríkissjóðinn eða bankana, sem jafnóðum missir gildi, þá er verið að taka góðan pening frá almenningi og gera hann að slæmum peningi á eftir. Mönnum dettur hug gamla vísan Bólu-Hjálmars, þó að það sé dálítið öðruvísi farið að núna:

Er það gleði andskotans,

umboðslaun og gróði,

fémunir þá fátæks manns

fúna í ríkra sjóði.

Þannig er það með söluskattinn, þegar hann er lagður á núna og síðan hent út til verðbólgubraskaranna á eftir. Verkamennirnir verða síðan að berjast ár eftir ár, alltaf við að hækka kaupið og alltaf hafa sama kaupið út, af því að ríkisvaldinu er beitt í þjónustu nokkurra atvinnurekenda til þess að ræna kaupinu frá verkamönnum, fénu frá ríkissjóði og bönkunum og fénu frá sparifjáreigendum. Það er þessi svikamylla, sem þarf að gera þjóðinni ljósa, og það er þessi svikamylla, sem ég vildi óska að menn væru til í að ræða hérna einhvern tíma á Alþingi líka. Og það er anzi hart, að það skuli hafa verið ótal sérfræðingar í þjónustu ríkisstj. árum saman og hafa aldrei nokkurn tíma fengizt til þess að ræða um grundvöllinn, sem aðskilur Ísland frá öllum kapítalistískum löndum í kringum okkur, sem hafa að vísu verðbólgu. Verðbólga er eðli þess kapítalistíska þjóðfélags, og það er út af fyrir sig allt í lagi. En verðbólga, sem 17- og tvítugfaldast á skömmum tíma, er óheppileg líka fyrir kapítalistískt þjóðfélag.

Ég vil nú koma með þessar hugleiðingar, fyrst hæstv. fjmrh. var að koma inn á þessa hluti, til þess að það stæði ekki ómótmælt, að verkamenn með þeim kauphækkunum, sem þeir eru að knýja fram núna, væru að kalla yfir þjóðina nýja verðbólgu, nýjan söluskatt og annað slíkt. Það eru aðrir aðilar, sem gera það, og hæstv. fjmrh. ætti ekki að taka þátt í þeim leik, ljóta leik, sem þeir menn eru að fremja.

Hæstv. forsrh. orðaði það alveg réttilega, —ég man nú ekki, hvort það var í ræðu eða grein, sem hann skrifaði, þegar hann talaði um að hætta þessum ljóta gengislækkunarleik. Það er vissulega tími til kominn. Hins vegar veit ég, að það þarf sterka stjórn og stjórn, sem hefur tiltrú hjá almenningi, til þess að taka þannig á á Íslandi, að verðbólgan verði stöðvuð. Og það dugir þá ekki að hafa pólitík, sem segir, að jafnóðum sem verkamenn hækka kaup, eigi að leggja á nýja söluskatta. Það brygði kannske mörgum við hérna í Reykjavík, ef það yrði lagður á verðhækkunarskattur á eignir í landinu í staðinn fyrir söluskatt á það, sem almenningur á að borða, og það færu kannske vissir auðkýfingar í yfirstéttinni að hugsa sig um.

Svo kom hæstv. fjmrh. nokkuð inn á hagsýslu. Ég vildi nú rétt minna á í því sambandi, fyrst hann kom réttilega inn á þetta, að það var nýlega verið að ræða hérna eina þáltill. um stofnlán sjávarútvegsins, talað um að kjósa 5 manna n. Frsm. benti á, að það væri gott, að fjórar stofnanir, sem fengjust við stofnlán til sjávarútvegsins, ættu hver sinn manninn í henni. Ég held, að það væri gott, að engin stofnun ætti neinn mann í henni. Ég held, að eitt af því, sem hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. mættu athuga, væri að steypa saman þeim fjórum stofnunum, sem hafa með stofnlán sjávarútvegsins að gera. Það var svo, þegar t.d. stofnlánadeildin, sem nú er við Seðlabankann, var sett á stofn 1946, þá var ætlazt til þess, að það væri fiskveiðasjóður, sem yrði eini stofnlánasjóðurinn fyrir sjávarútveginn. En það fékkst ekki í gegn. Af hverju? Af því að Landsbankinn, sem var seðlabanki um leið, gat ekki hugsað sér sem seðlabanki að láta burt seðlana frá seðladeild Landsbankans yfir í Útvegsbankann, þar sem fiskveiðasjóðurinn var, þurfti endilega að vera í Landsbankanum sjálfum. Svona var afbrýðisemin á milli tveggja ríkisstofnana. Og þetta er hlutur, sem við eigum enn þá við að stríða í dag, þessi hlægilegi hlutur, og þarna eru komnar 4 stofnanir til stofnlána í sjávarútveginn. Þarna mætti nota pínulitla hagsýslu, það mætti leggja 3 af þeim niður.

Eða tökum annað dæmi. Það er búið að tala um það ár eftir ár frá því 1952, að Framkvæmdabankinn svokallaði var settur á stofn, að það ætti að taka þennan botnlanga úr íslenzka þjóðarlíkamanum. Og hafa menn þó verið að sjá skemmdina betur ár frá ári, bæði í andabúum og glerhöllum. Samt hefur þetta ekki fengizt í gegn.

Svona er ríkisapparatið. Þegar einu sinni er búið að koma einni vitleysu inn í það, hangir þetta áratugum saman, án þess að það fáist snert við því, og ég er ekki að ásaka núv. stjórn fyrir það. Vinstri stjórnin var jafnvel blind í þessu. En fyrst farið er að tala um hagsýslu, koma upp með einhver ný orð, þá er kannske hægt að fá menn til þess að gera eitthvað.

Svo þótti mér alveg sérstaklega vænt um, þegar hæstv. fjmrh. kom inn á vélakost — ég held, að það hafi verið vegagerðarinnar, við skulum segja ríkisins, og talaði um þann ótrúlega fjölda tegunda, þessa mergð varahluta, þessa dæmalausu vitleysu, sem þarna væri. Nú vildi ég skjóta því að hæstv. fjmrh., um leið og hann færi að laga þetta og kynni kannske að koma því svo vel fyrir, að það væru bara 1–2 tegundir, og hirti þá ekkert um, hvað bílaumboðin inn með Suðurlandsbraut segðu í því sambandi, hvort það væri ekki eins praktískt fyrir okkur að láta þjóðarbúið standa fyrir þessu. Eru ekki allmargar bílategundir orðnar á Íslandi? Er ekki anzi mikið af varahlutum, sem þarf? Er ekki nokkuð oft, sem stanza bæði bílar, vélar í bátinn og allt saman annað slíkt? Er ekki allt í hringavitleysu hjá okkur frá hagsýslusjónarmiði hvað þetta snertir? Eigum við ekki að taka. þetta fyrir og laga það dálítið? Ríkissjóður borgar þetta hvort sem er alltaf allt saman, vélabilanirnar, sem vátryggðar eru, og allt saman slíkt. Því í ósköpunum að láta sitja við að rasjónalísera vélakost vegagerðarinnar? Við skulum taka vélakost þjóðfélagsins, eins og hann leggur sig, og við getum áreiðanlega stórsparað. Ég veit ekki, hvort það verða hins vegar byggðar eins margar bílaumboðshallir á Laugaveginum eftir það, en það gerir þá ekkert til, þótt það sé byggt eitthvað þarfara.

Ég vildi taka undir þær spurningar, sem hér hafa komið fram til hæstv. fjmrh., hvernig það sé, hvort við megum ekki treysta á það, að þær 92 millj., sem fyrst voru teknar út og síðan var heitið eiginlega að setja inn aftur, sú fjárupphæð, sem færi til þess að greiða niður fiskinn og annað nauðsynlegasta, sem almenningur keypti, — hvort við mættum ekki treysta því, að þeirri niðurgreiðsluaðferð, sem verið hefur, sem um tíma var talað um að hætta í haust, verði haldið áfram. Það er satt að segja ekki á það bætandi að fara að draga úr niðurgreiðslunum. Ég vil taka fram við hæstv. fjmrh., þegar verið er að tala um að auka fjölskyldubæturnar í staðinn, að þá er nákvæmlega sama óréttlætið þar eins og það, sem hann var að tala um viðvíkjandi fiskinum og mjólkinni. Mönnum fannst það of mikið, að ríkir menn væru að borða fisk og drekka mjólk og að ríkissjóður væri að borga ofan í þá fiskinn og mjólkina. En þeir eiga börn líka, ríkir menn, kannske mikið af þeim á Íslandi, eins og yfirleitt tíðkast í okkar þjóðfélagi, en við borgum fjölskyldubætur jafnt með þeim öllum, svo það gengur jafnt yfir ríka og fátæka hvort tveggja, rétt eins og sólin skín yfir þá báða, þannig að ég veit ekki, hvort við eigum nokkuð að vera að keppa þar við skaparann, lofa þeim bara að fá fisk og mjólk ódýrt líka, þeim ríku. Þeir drekka ekki svo mikið af mjólkinni, þeir hafa þó eitthvað skárra, og þeir borða þá fiskinn og kjötið oftar. Við náum okkur þá niðri á þeim kannske í gegnum áfengisverzlunina, ef þeir hefðu þann sið að drekka vín með mat, þannig að ég held, að við eigum að láta það haldast gagnvart þeim fátæku að borga niður fisk og mjólk, jafnvel þó að þeir ríku fái að njóta einhvers af því líka. Ég sé ekkert eftir því handa þeim.

Ég vildi nú bara út af þeim hugleiðingum, sem hæstv. fjmrh. var með, segja honum ofur lítið af mínum hugleiðingum, en að öðru leyti var aðaltilgangurinn hjá mér að mæla með nokkrum brtt., sem ég flyt á þskj. 185.

Það er VII. brtt. á því þskj. Ég hef tekið þar upp nokkuð af þeim till., sem ég flutti við 2. umr. og ekki fengu þá náð fyrir augum deildarinnar, og hef lækkað upphæðirnar allverulega í von um, að það mætti verða til þess, að hv. sameinað Alþingi féllist á það þannig.

Það er í fyrsta lagi, að til Íslendings, sem tæki að sér samkv. samningi við menntmrn. að læra tungu Grænlendinga, væru veittar 60 þús. kr. Ég held, að ég þurfi ekki að rökstyðja það nánar, ég gerði það við 2. umr., og ég held, að flestir, sem hér eru inni nú, hafi heyrt það.

Þá hef ég lagt til, að aðstoðin við bókakaup og bókband landsbókasafnsins væri aukin úr 600 þús. upp í 800 þús., að aðstoð við þjóðminjasafnið færi úr 300 þús. upp í 400 þús., og það, sem veitt væri til hljómplötusafns, úr 5 þús. upp í 20 þús., og sá nýi liður: til kvikmyndagerðar í sambandi við dokumentmyndir og söguleg efni, væri 100 þús., í stað þess að ég hef lagt til við 2. umr., að það væru 200 þús. Ég ætla ekki að endurtaka mín rök fyrir þessu, heldur vísa til þess, sem ég sagði við 2. umr.

Svo hef ég á sama þskj. flutt till. nr. IX, svo hljóðandi: „Til þess að kosta mann samkv. vali félmrn. til þess að ferðast um byggðir Grænlendinga, kynna sér lífskjör þeirra og rita bók um þau og félagslegan aðbúnað þjóðarinnar, og sé bókin síðan gefin út, 150 þús. kr.“ Ég vil leggja alveg sérstaka áherzlu á, að hv. þm. gætu samþykkt þessa till. Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að endurgjalda öðru hverju nokkuð það, sem gert var fyrir okkur, þegar við vorum, ef svo má orða það, frumstæð þjóð, þegar við vorum bláfátæk þjóð, vorum að berjast fyrir ekki aðeins okkar frelsi, heldur raunverulega okkar lífi, því, að þjóðin lifði af í landinu. Okkur hefur vart þótt vænna um aðra menn en þá, sem þá komu hingað til Íslands, ferðuðust hér um Ísland og skrifuðu rétt og vel og af skilningi og jafnvel af ást á þjóðinni. Og við höfum alltaf síðan metið þá menn, sem slíkt gerðu, sem alveg sérstaka hollvini íslenzku þjóðarinnar. Nú höfum við í næsta nágrenni við okkur þjóð, sem er tengd okkur með mjög undarlegum hætti, eins og grænlenzku þjóðina. Og sú þjóð á um sárt að binda. Hún ber í brjósti sjálfstæðistilfinningar alveg eins og við, og hún er að berjast við að láta ekki tungu sína deyja út og þá sérstöku menningu, sem hún hefur skapað. Og hún á við bág lífskjör að búa, þó að hún sé lagalega frá sjónarmiði dönsku stjórnarinnar skoðað sem eitt amt í Danmörku sem stendur. Við eigum að gera það, sem ágætir enskir og þýzkir og skandinavískir menn gerðu á 18. og 19. öld stundum gagnvart okkur, láta einhvern góðan mann og glöggan ferðast til þessa lands og skrifa um það vinsamlega og segja satt og rétt frá ástandi þeirrar þjóðar. Ég legg til, að félmrn. fengi 150 þús. kr. til þess að kosta slíkan mann, og efast ekki um, að því mundi verða fært að finna til þess góðan mann, sem ynni slíkt verk vel. Og ég vil alveg sérstaklega heita á hv. þm. að verða við því að samþykkja þessa till.