31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (2883)

46. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að gera þessa umr. að neinni allsherjarumræðu um stefnuna í banka og peningamálum og mun ekki gera það, enda sannleikurinn sá, að ef ég ætti að hrekja allar þær reginfirrur, sem hv. þm. lét sér um munn fara í síðustu ræðu sinni, þyrfti ég til þess talsverðan tíma, og til þess gefst áreiðanlega tækifæri seinna, og þá skal mér vera sannkölluð ánægja að eiga orðastað við hv. þm. um þau efni, sem hann gerði að umtalsefni í þessari seinni ræðu sinni, sem sagt, gildi sparifjárbindingarinnar og það, hvernig hún hafi verið notuð.

Ég get þó ekki neitað mér um að segja í einni setningu, að það er auðvitað algerlega rangt hjá hv. þm., að endurkaupin hafi verið meiri í tíð vinstri stjórnarinnar en þau eru nú. Þau voru meiri í prósentum. En svo glöggur reikningsmaður er hv. þm. auðvitað, að það segir engan hluta af þeirri sögu, sem hér skiptir máll. Endurkaupin í krónum eru miklu, miklu hærri núna en þau voru 1959, og það eitt skiptir auðvitað máli, þegar um er að ræða fjárþörf Seðlabankans til þess að standa undir endurkaupunum. Þegar hann fullyrðir, að engin þörf hafi verið á sparifjárbindingunni, vegna þess að endurkaupin hafi þá verið hærri en þau eru núna, þá erum við að bera saman prósenttölurnar. En eina ástæðan til þess, að þörf var fyrir sparifjárbindinguna, er auðvitað sú, að endurkaupin eru í hundruðum milljóna talin miklu hærri nú en þau voru þá. Þess vegna m.a. hefur Seðlabankanum verið þörf á auknum hundruðum millj. til þess að geta haldið endurkaupunum áfram, og þessi auknu hundruð milljóna hefur hann fengið í sparifjárbindingunni. Að öðru leyti hefur hún suðvitað verið nauðsynleg til þess að byggja upp gjaldeyrisvarasjóðinn, því að hvernig hefði Seðlabankinn átt að geta eignazt 1100-1200 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð og liggja með hann í erlendum gjaldeyri, ef hann fengi ekkert fé til þess innanlands. Þó að framsóknarmenn séu miklir galdramenn á ýmsum sviðum, hef ég ekki vitað til þess, að þeir kynnu slíka galdra, að þeir gætu gert Seðlabankanum, öðrum bönkum eða nokkrum einstaklingum kleift að eiga eign án þess að kosta einhverju til hennar. Í öllum eignum er bundið eitthvert fé, og yfir því fé verða menn að fá umráð, ef þeir eiga að geta eignazt eignina. Ég held ekki, að framsóknarmenn kunni neitt ráð til þess að kaupa hús án þess að eiga peninga til þess. Og mér þætti gaman að vita, ef þeir gætu kennt Seðlabankanum að eignast gjaldeyrisvarasjóð án þess að hafa peninga til þess. Þá a.m.k. mundi Framsfl, geta lagt eitthvað alveg heimssögulegt til stjórnar á bankamálum og fjármálum, ef hann kynni þessi ráð.

En það var ekki þetta, sem gaf mér tilefni til að segja hér nokkur orð, heldur hitt, sem ræðumaður hóf mál sitt með, að stimpla mig sökudólg í því efni, að það hefði verið mín skylda í vinstri stjórninni að leggja till. Sveins Guðmundssonar, sem Alþingi samþykkti á sinum tíma, fyrir ríkisstj, og berjast fyrir framgangi hennar þar, m.ö.o., það hafi verið hlutverk iðnmrh. í þeirri stjórn að hafa forgöngu um endurkaup víxla í þágu iðnaðarins. Ef þetta væri rétt, ætti líka — og það sagði hann raunar að vera verkefni landbrh. að hafa forgöngu um það, hversu mikið Seðlabankinn keypti af víxlum frá landbúnaðinum, og þá sjútvmrh. hafa forgöngu um það, hversu mikið Seðlabankinn keypti af víxlum sjávarútvegsins. Þetta væri að setja eitt mikilvægasta verksvið Seðlabankans undir stjórn margra ráðh. Þetta hefur engum manni dottið í hug fyrr. Þetta hef ég aldrei heyrt fyrr. Það heyrir ekki undir landbrh., hvorki í þessari stjórn né nokkurri annarri, að semja við Seðlabankann um það, hversu mikið hann kaupi af afurðavíxlum landbúnaðarins. Það heyrir ekki undir sjútvmrh. að fjalla um það, hve Seðlabankinn kaupi mikið af víxlum sjávarútvegsins, og auðvitað ekki heldur undir iðnmrh. að fjalla um það, hvort Seðlabankinn eigi að kaupa afurðavíxla iðnaðarins. Þetta heyrir allt saman undir þann ráðh., sem fer með bankamál. Það heyrir undir viðskmrh. í þessari stjórn, og það heyrði undir ríkisstj. alla, að forminu til forsrh., í vinstri stjórninni. Þannig leit Alþingi á, því að þessi till. 1958 var fyrst og fremst send forsrh. Hún er send úr Alþingi, — það fékk ég upplýst á skrifstofunni rétt áðan, — 10. júní 1958 er þessi till. fyrst og fremst send forsrh., en einnig iðnmrh., svo að ef um sökudólg í þessu efni er að ræða, þá erum a.m.k. við þáv. forsrh. jafnmiklir sökudólgar báðir. Ef hv. fyrri flm. till. Þórarinn Þórarinsson, vill endilega kalla þann mann sökudólg, sem lagði ekki þessa till. fram í vinstri stjórninni, þá verður hann a.m.k. að kalla okkur báða sökudólga, mig og hv. 1. þm. Vestf., Hermann Jónasson, þáv. forsrh.

Eins og ég sagði áðan, tel ég hvorugan okkar eiga nokkurt sökudólgsnafn skilið í þessu efni, því að við höfum þá áreiðanlega verið sammála um, að það væri algerlega gagnslaust og raunar skaðlegt að fara fram á það við Seðlabankann, að hann hæfi slík endurkaup á afurðavíxlum iðnaðarins, nema Seðlabankanum yrði jafnframt séð fyrir nýju fé til þess að geta innt þessi afurðakaup af hendi, og við höfðum ekki þá till. á reiðum höndum um þetta.

En sem sagt, ég skal enga tilraun gera til að vera að metast neitt um það, hvor okkar hafi frekar átt að hafa forustu um þetta mál i vinstri stjórninni, þó að ég vilji að síðustu segja það sem skoðun mína, — leit þannig á þá og lít þannig á enn, — að um þessi efni eigi sá ráðh. að fjalla, sem fer með bankamálin. Þannig hefur a.m.k. síðan verið litið á, því að það var eitt af mínum fyrstu verkum, eftir að ég tók við viðskiptamálunum, að ég skipaði þá nefnd, sem síðan starfaði nokkurn tíma, og ég hef í þessari ríkisstj. sem viðskmrh. talið það i mínum verkahring að vinna að því, að iðnaðurinn fengi aðstöðu í Seðlabankanum til endursölu á sínum víxlum. Ég tel það ekki vera verkefni iðnmrh. og tel það vera algerlega ranga ásökun í hans garð að saka hann um það, að málið er ekki enn komið lengra en raun ber vitni um. Ef við einhvern er að sakast um það efni siðan 1959, þá er það við þann mann, sem hefur farið með viðskiptamálin, þ.e.a.s. við mig. En fyrir 1959 tei ég, að ábyrgð á því, að ekkert gerðist í málinu, sé fyrst og fremst hjá þeim ráðh., sem þá fór með bankamálin, sem var forsrh. í vinstri stjórninni svokölluðu. M.ö.o.: það er sem viðskmrh., sem ég hef beitt mér fyrir þeirri raunhæfu lausn á vandamálum iðnaðarins, sem nú er til meðferðar hjá hinu háa Alþingi, og ég vil innilega vona það, að Alþingi beri gæfu til að samþykkja seðlabankafrv., því að þá og þá fyrst mun iðnaðurinn geta fengið þá sanngjörnu meðferð sinna mála, sem hann sannarlega á rétt á.