31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í D-deild Alþingistíðinda. (2884)

46. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. heldur því nú fram, að hann hafi ekki átt að hafa neina forgöngu um þetta mál í vinstri stjórninni sem iðnmrh. Ég man nú ekki betur en fyrir nokkrum vikum, þegar rætt vax um þetta mál hér í þinginu, — það var um mál, sem Sveinn Guðmundsson flutti hér um lausaskuldir iðnaðarins, — þá hefði hæstv. viðskmrh. allt aðra sögu að segja. Ég man ekki betur en hæstv. viðskmrh. segði þá sögu þá, að hann sem iðnmrh. í vinstri stjórninni hefði lagt það til á stjórnarfundi, að þetta mál yrði tekið til sérstakrar athugunar, hann hafi talið sér skylt að gera það sem iðnmrh., en það hafi ekki náð fram að ganga á þeim fundi stjórnarinnar. En þeir voru viðstaddir við þessa umr., bæði hv. 1. þm. Austf. og 5. þm. Austf., sem einnig áttu sæti í vinstri stjórninni, og þeir upplýstu það, að þeir minntust þess ekki, að hæstv. núv. viðskmrh., þáv. iðnmrh., hefði nokkru sinni hreyft þessu máli í vinstri stjórninni, og eftir að þeir höfðu gefið þessa yfirlýsingu, taldi hæstv. viðskmrh., sem þá var iðnmrh., að hann hefði hreyft þessu máli við þáv. forsrh. og farið fram á það við hann, að hann tæki þetta mál upp i stjórninni. Ég hef spurt þann mann, sem þá var forsrh., Hermann Jónasson, að því, hvort hann minntist þess, að þáv. iðnmrh. hafi nokkru sinni minnzt á þetta mál við sig og óskað eftir því, að hann legði þetta fyrir fund í vinstri stjórninni, og hann minntist þess ekki, að það hefði átt sér stað. En eins og hæstv. viðskmrh. sagði frá á sinum tíma í þinginu fyrir nokkrum vikum, í þeim umr., sem ég áðan rakti, vildi hann telja, að þetta hefði endanlega strandað á þáv. forsrh., að hann hefði ekki viljað taka málið upp í vinstri stjórninni, en kannaðist ekki við það, að nokkru sinni hafi verið farið fram á það við hann að taka þetta mál upp á þeim vettvangi.

Sem sagt, þetta, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér fyrir nokkrum vikum, benti alveg hiklaust til þess, þótt það væri rangminni hjá honum, sem hann sagði þá, að hann hefði talið það skyldu sína að hefja máls á framkvæmd þessarar till. í vinstri stjórninni á sínum tíma, en nú er upplýst að hann hefur ekki gert. Og það stafaði einfaldlega af því, að honum var ljóst, að lánamál eins og þetta, sem snertir iðnaðinn í landinu, heyrði sérstaklega undir hann sem iðnmrh. að sjá um framkvæmd á því, alveg eins og þm. er það áreiðanlega í fersku minni hvað eftir annað í umr., sem hafa orðið hér á þessu þingi, að það heyrir undir hæstv. landbrh. að sjá um framkvæmd á ályktunum, sem Alþingi gerir varðandi lánamál landbúnaðarins, þó að í heild heyri bankamálin svo undir annan ráðh. En þeir ráðh., sem eiga að sjá um viss atvinnumál, eins og iðnaðar-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, eru ábyrgir fyrir því gagnvart Alþingi, að þær till., sem þar eru samþykktar og snerta lánamál þessara atvinnuvega, komist fram, og þeir vinna að því við rétta aðila, hvort heldur þar er um að ræða bankamálaráðh., lánastofnanir eða aðra. Það er þeirra að hafa frumkvæðið um það, að þessar samþykktir nál fram að ganga, og að sjálfsögðu heyrir það fyrst og fremst undir iðnmrh. að koma þessu máli fram. Það hafa t.d. komið hér fram nú á þessu þingi, að mig minnir, og áður fyrr fyrirspurnir um það, hvað liði vissum ályktunum, sem Alþingi hefur gert um lánamál landbúnaðarins, og það hefur ekki verið bankamálaráðherra, sem hefur svarað þessum fsp. Það hefur verið landbrh., sem hefur svarað þeim. (Menntmrh.: Ef þeim er beint til hans, gerir hann það eðlilega.) Beint til, já, það hafa verið lagðar fram hér fsp., sem snerta t.d. afurðalánin alveg sérstaklega, afurðalánin, sem heyra undir Seðlabankann, og það hefur verið landbrh., en ekki bankamálaráðh., sem hefur svarað þessum fsp. (Gripið fram í.) Það fer eftir þingvenjum um það og eftir því, hvaða ráðh. er talinn sjá um viðkomandi mál, hverjir svara fsp., og landbrh. hefur svarað þessum fsp., vegna þess að þessi lánamál eru talin heyra undir hann, alveg á sama hátt og lánamál iðnaðarins eru talin heyra undir iðnmrh., enda held ég, að það sé hægt að finna fjöldamörg dæmi þess, að þegar t.d. hefur verið lagt hér fyrir þingið frv. um iðnlánasjóð og önnur lánamál iðnaðarins, þá er það ekki bankamálaráðh., sem hefur fylgt þessum málum úr hlaði, það er iðnmrh., sem gerir það. (Gripið fram í) Og sama gildir að sjálfsögðu um málefni iðnaðarins. Enda hefur það, eins og ég áðan sagði, komið greinilega fram hér í umr. fyrir nokkrum vikum á Alþingi, að hæstv. núv. viðskmrh. taldi, að þessi mál hefðu heyrt undir sig í vinstri stjórninni sem iðnmrh., vegna þess að hann lýsti þá með mörgum fögrum orðum, hvaða framtak hann hefði sýnt í þessum málum í vinstri stjórninni. En nú vili hann færa þetta yfir á annan ráðh., þegar það er upplýst, að hann hefur algerlega misminnt um það, sem hann sagði í þessum efnum.

Ég vildi nú fara þess á leit við hæstv. viðskmrh., áður en hann talar miklu meira um þessi mál en hann hefur gert við þessa umr., að þá ætti hann að lesa það, sem hann sagði fyrr í þinginu, Þegar rætt var um frv. Sveins Guðmundssonar um lausaskuldir iðnaðarins. Ég er hálfhræddur um, að því beri ekki vel saman, sem hann hefur sagt í dag um framkomu sína i þessu efni og skyldu sína í þessum efnum, við það, sem hann sagði þá. Og ef hæstv. ráðh. dregur það eitthvað í efa, sem ég er að segja í þessum efnum, þá getum við flett upp því, sem hann sagði þá um þessi mál, og séð á því, hvort hann taldi það þá ekki skyldu sína sem iðnmrh. að fylgja þessu máli fram, þó að hann nú vilji koma þessu yfir á annan ráðh.

Hæstv. viðskmrh. sagðist ekki á þessu stigi vilja fara inn á að ræða það mjög, hvort aukin frysting sparifjárins yrði til þess að bæta aðstöðu atvinnuveganna til þess að fá veitulán. Ég skil það ákaflega vel, því að eins og ég benti honum á, mundi aukin frysting sparifjárins leiða til þess að þrengja stórkostlega aðstöðu viðskiptabankanna og verða þess valdandi, að viðskiptabankarnir gætu ekki veitt atvinnuvegunum sömu fyrirgreiðslu og þeir gera í dag. Og þetta mundi hafa enn þá verri afleiðingar, því að þegar svo er komið, að viðskiptabankarnir geta ekki veitt atvinnuvegunum eða einstaklingum eðlilega fyrirgreiðslu, verður þetta til þess, að einstaklingarnir fara að leita að leiðum utan við bankana til þess að fá lánsfé, fara yfir á svartan markað i vaxandi mæli. Það er eitthvað það allra óheilbrigðasta, sem getur átt sér stað í peningamálum. Og það er einmitt ein meginskýringin á því, hve spariinnlög í bönkunum hafa minnkað á undanförnum mánuðum, að vegna þess að viðskiptabankarnir hafa ekki getað veitt þeim, sem þangað hafa komið, eðlilega fyrirgreiðslu, hafa menn leitað annað, til kunningja sinna og eftir ýmsum öðrum leiðum til að ná inn lánsfé, orðið talsvert ágengt að þeim leiðum og fengið það. Þetta fé hefur ekki farið inn í bankana, og þetta er eitthvað það allra óheilbrigðasta, sem getur átt sér stað í peningamálum nokkurrar þjóðar, þegar spariféð fer að leita eftir leiðum utan við viðskiptabankana. En þetta er ekkert annað en eðlileg afleiðing af sparifjárfrystingunni, og þetta kemur til með að eiga sér stað í enn þá ríkara mæli, ef sparifjárfrystingin verður aukin. Þess vegna er alveg víst, að ef farið verður inn á þá braut að auka sparifjárfrystinguna, verður það til þess, að atvinnuvegirnir fá miklu minni fyrirgreiðslu í víðskiptabönkunum en þeir fá í dag og hlutur þeirra kemur til með að versna. Þess vegna væri það hið versta óráð, sem hægt er að hugsa sér frá sjónarmiði atvinnuveganna, ef sparifjárfrystingin væri aukin, enda er alveg augljóst, að þegar það var hægt á tímum vinstri stjórnarinnar, að Seðlabankinn veitti atvinnuvegunum þá 67% afurðalán, þá á það ekki að vera síður auðvelt í dag, en nú veitir hann ekki nema 55%a þrátt fyrir sparifjárfrystinguna.

Hæstv. viðskmrh. var að tala um það í þessu sambandi, að það ætti ekki að miða við prósentur, hvað lánin væru há í prósentutali, heldur ætti að miða við krónutölu. Ég er alveg hissa, að hæstv. viðskmrh. skuli segja annað eins og þetta, ef hann telur, að krónan hafi sama verðgildi í dag og hún hafði fyrir 6 árum og það sé rétt að bera saman krónutöluna í dag og krónutöluna þá. Samkv. krónutölunni hafa t.d. sjávarútvegstekjurnar meira en tvöfaldazt á þessum tíma. Álítur hæstv. viðskmrh., að það sé hin raunverulega aukning? Ég held, að það sé miklu réttara, ef miða á við getu einhverra aðila og getu bankanna, að þá eigi miklu frekar til að fá rétta útkomu og rétta mynd að miða við prósentutöluna heldur en við krónutöluna, því að vegna stefnu hæstv. ríkisstj. hefur krónutalan aukizt alveg stórkostlega á öllum sviðum. Og það er ekki hún, sem er hinn rétti mælikvarði i þessum efnum, heldur hið raunverulega verðgildi, og það verður bezt fengið með því að leggja til grundvallar prósentutöluna nú og áður fyrr.