20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

1. mál, fjárlög 1964

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég flyt við 3. umr. fjárl. fyrir árið 1964 5 brtt., sem ég ætla í örfáum orðum að fylgja úr hlaði.

Á þskj. 182, V. lið, flyt ég till. um það, að framlag til hafnargerðar í Höfnum hækki úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr. Hafnir eru fámennt þorp með höfn, sem er ófullkomin á margan hátt og er í smíðum. Skammt fyrir utan eru mjög auðug fiskimið. Hafnarmálið er fyrir þá, sem þetta sveitarfélag byggja, nr. eitt, og gera íbúarnir þar sér vonir um, að með verulegum stuðningi ríkisvaldsins geti þeir á næstu árum unnið það mikið í höfn þessari, að hún verði nokkuð örugg stærri bátum, hvað hún nú ekki er.

Á sama þskj., tölul. VIII, flyt ég till. um, að framlag til hafnargerðar í Kópavogskaupstað verði hækkað úr 250 þús. kr. í 600 þús. kr. Það er sama fjárveiting og áætluð er í fjárl. fyrir næsta ár til þriggja sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi, þ.e.a.s. til Hafnarfjarðar, Sandgerðis og Járngerðarstaða í Grindavík. En ég tel, að um margt sé Kópavogur hliðstæður þessum stöðum og engin ástæða til þess, að fjárveiting til hafnarframkvæmda þar sé minni en til þeirra. Bæjarstjórn Kópavogs hefur um árabil barizt fyrir því, með því miður litlum árangri til þessa, að fá unna á vita- og hafnarmálaskrifstofunni framkvæmdaáætlun um hafnargerð í kaupstaðnum. Þessi barátta hefur, eins og ég sagði, borið sorglega lítinn árangur til þessa, og ég hef þær upplýsingar frá fjvn., að núna, þegar skipt var fé til hafnarframkvæmda fyrir næsta ár, hafi engin áætlun legið fyrir n. frá vitamálastjóra um hafnarframkvæmdir í Kópavogi, og þegar af þeirri ástæðu eðlilegt, að hv. fjvn. væri ekki sérstaklega áfram um það að veita verulega fjárveitingu til hafnarframkvæmda þar. Sú óskiljanlega tregða, sem komið hefur fram hjá vitamálaskrifstofunni við gerð framkvæmdaáætlunar um hafnargerð í Kópavogi, hefur leitt til þess, að ráðamenn þar hafa orðið að fara þess á leit við eitt verkfræðifirma hérna í bænum, Almenna byggingarfélagið, að það tæki að sér að gera slíka áætlun, í þeirri von, að ef sú áætlun fæst unnin, fáist meiri fjárveiting til hafnarframkvæmda í Kópavogi en gerzt hefur til þessa.

Á sama þskj., undir tölul. XII, flyt ég till. um nýjan lið, þ.e.a.s. 150 þús. kr. fjárveitingu til hafnargerðar í Vogum á Vatnsleysuströnd. Ég vil um rökstuðning fyrir þeirri till. vísa til þess, sem ég sagði um Hafnirnar hér áðan. Þar gildir hið sama. Höfnin er í byggingu og fjármagn vantar mjög til þess að gera höfnina betur úr garði en hún er í dag.

Undir lið XVI á sama þskj. flyt ég svo till. um hækkun fjárveitingar til sjóvarnargarðs á Seltjarnarnesi úr 1.25 þús. kr. í 500 þús. kr. Hækkunartill. miðar að því að gera það mögulegt að láta fara fram ýtarlega athugun og hefja byggingarframkvæmdir strax á næsta ári við byggingu sjóvarnargarðs frá Seltjarnarnesi og út í Gróttu til varnar landbroti vestan á nesinu. Hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps hefur fyrir nokkru samþykkt shlj. að leita eftir fjárveitingum til þessarar framkvæmdar. Hefur hreppsnefndin í því sambandi ritað bæði vitamálastjóra og rn. hafnarmála um þetta, en ekki borizt neitt svar til þessa, eftir því sem mér er bezt kunnugt um. Hér er sennilega um 200 m langan garð að ræða, sem þarf að byggja frá Seltjarnarnesi og út í Gróttu til þess að varna því, að nesið brotni niður í bókstaflegum skilningi á nokkrum árum eða áratugum. Það er ekki langt síðan Grótta var landföst við Seltjarnarnes. En sjógangurinn hefur á örfáum árum brotið það mikið land í burtu, að nú er um 200–300 m langt eiði á milli Gróttu og landsins um fjöru. Á Seltjarnarnesi er mjög mikill áhugi á þessu máli, og væntir hreppsnefndin og enda hreppsbúar allir, að þeir verði studdir til þess af ríkisvaldinu og fjárveitingavaldinu, að mögulegt sé að ráðast í þessa framkvæmd þegar á næsta ári.

Að endingu flyt ég brtt. á þskj. 188, svo hljóðandi, að við 22. gr. XX komi nýr liður, svo hljóðandi, að fjmrn. sé heimilt „að taka allt að 15 millj. kr. lán til að hefja endurbyggingu Reykjanesbrautar, þar sem hún liggur í gegnum Kópavog, er endurgreiðist af tekjum samkv. 34. gr. vegalaganna.“ Í umr., sem áttu sér stað í hv. Nd. fyrir örfáum dögum, þegar frv. til vegalaga var til meðferðar, kom fram samdóma álit allra ræðumanna um, að Kópavogskaupstaður byggi við algera sérstöðu að því er varðaði þjóðbraut þá, er liggur um hann miðjan. Bæði hæstv. ráðh. vegamála, hv. formaður samvn. samgm. og raunar fleiri létu þessa skoðun í ljós, og hæstv. ráðh. og hv. formaður fjvn. létu enda í ljós þá skoðun sína, að sjálfsagt væri, að 10% tekna, sem 34. gr. gerir ráð fyrir að byrji þegar á næsta ári, verði notaðar til þess að bæta úr því vandamáli, sem Reykjanesbrautin skapar Kópavogsbúum. Upplýsingar voru gefnar um það í umr., að framlag þetta mundi nema sennilega um 3 millj. kr. á hverju ári. Vegna þess að framkvæmd þessi er mjög knýjandi og má ekki dragast, legg ég til, að ríkisstj. afli sér heimildar til 15 millj. kr. lántöku, til þess að hægt verði að hefjast handa um gatnagerð þessa þegar á næsta ári, og lán þetta verði greitt af tekjum samkv. 34. gr. vegalaga, sem yfirlýsing liggur fyrir frá hæstv. vegamálaráðh. um, að verði notaður í fyrstu til þess að bæta úr því vandamáli, sem er til. staðar í Kópavogi. Ég tel, að lántaka þessi sé mjög eðlileg og nauðsynleg. Það er vitað, að til þess að búa Reykjanesbrautina í Kópavogi þannig út, að hún fullnægi þeim kröfum, sem vegalögin ákveða, þarf að útvega fjármagn upp á um 25–30 millj, kr. Ef ríkisstj. aflaði sér lánsheimildar og notaði hana fyrir 7.5 millj. kr., væri hægt þegar á næsta ári að ráðast þarna í það mikla framkvæmd, að hún ekki einasta bætti úr því umferðaröngþveiti, sem þarna er oft, og gerði umferðina greiðari, heldur einnig fyrirbyggði þá miklu slysahættu, sem þarna er til staðar og verður alltaf til staðar í vaxandi mæli, ef ekkert verður að gert til úrbóta þar af hálfu ríkisvaldsins.